Jarðgangagerð á Austurlandi
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Flm. (Kristinn Pétursson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka samþingmönnum mínum fyrir austan fyrir undirtektirnar. Ég vil nú nota tækifærið til þess að ítreka hér örfá sjónarmið í sambandi við þessar umræður almennt.
    Það er í fyrsta lagi varðandi það að skila vegafé í Vegasjóð. Ég tel það vera algera skyldu stjórnvalda þegar búið er að marka tekjustofna að halda sig við það, vera ekki að hræra það eins og graut og reka eins og þetta sé allt saman einhver vellingur. Þá skilja menn þetta heldur aldrei neitt, eins og sumt af núverandi hæstv. stjórnarliði greinilega gerir ekki. Þetta er allt saman í einum graut, hrært í einn graut. Svona á ekki að umgangast fjármuni. Það á að skila vegafé í Vegasjóð og það á að skila kirkjunni því sem kirkjan á, o.s.frv.
     Auðvitað er mér vel kunnugt um það að lántöku verður að greiða. En ég fullyrði það að fólk er tilbúið, fólk á Austurlandi og Vesturlandi sérstaklega, til að borga fyrir bættar samgöngur alveg eins og fólkið sem býr á Akranesi er tilbúið til að borga fyrir það að fara þægilegri ferð til Akraness. Hvað kostar að fara með ferjunni yfir á Akranes? Það sparar í sjálfu sér ekki mikinn tíma en er miklu þægilegra. Ég ráðlegg fólki bara að kynna sér það. Hvað kostar að fara með bíl, með ferju?
    Það er fyrst og fremst það sem skilar þessari þjóð arði og það er skylda okkar alþingismanna, eins og ég var að segja áðan, ég vil ítreka það, að horfa til framtíðarinnar. Við erum búnir að tala hér úr þessari ágætu pontu og eyða mörgum vinnustundum í að tala um samskipti okkar við Evrópubandalagið sl. tvö ár. Hvað skyldi það kosta, af því að það er verið að tala um kostnað? Hvað kostar að standa hér á hv. Alþingi? Það kostar töluverða peninga að reka Alþingi, talandi hér um samskiptin við Evrópubandalagið. Jafnhliða þessu verðum við að vita, hægri höndin verður að vita hvað sú vinstri ætlar að gera, eða þannig. Við verðum að vera tilbúin til að takast á við það að vinna okkar afurðir hérlendis þegar við höfum náð þessum tollum niður. Ég ítreka það að verð á ferskflakamarkaðinum í Evrópu er það hagstæðasta sem við getum komið íslenskum sjávarafurðum á. Það er framtíðin. Það er sú framtíðarsýn sem við eigum að stefna á. Það er okkar hagur af því að semja við EB. Það er ekki bara verið að semja við EB eða EFTA af því bara. Þessi umræða og þessi kostnaður --- kostar ekki orðið 70 millj. á þessu ári viðræðurnar við EFTA? Til hvers? Til þess að við getum komið íslenskum ferskum flökum á erlenda markaði. Er það ekki? Og væntanlega verðum við þá að aðhafast lagfæringar á samgöngukerfinu til samræmis við það, þannig að við getum komið þessum hlutum í framkvæmd.