Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi málefni Eystrasaltsríkja var seinast sett fram í ræðu utanrrh. á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 24. sept. á þessu hausti. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Á meðan ný Evrópa er í mótun skulum við ekki loka augunum fyrir þeirri arfleifð eftirstríðsáranna sem enn þá hefur staðið af sér umbreytingaröflin. Afstaða Eystrasaltslýðveldanna er dæmi þessa. Þau voru sjálfstæð ríki, viðurkennd sem slík af samfélagi þjóðanna. Þeirri staðreynd fá hernám og innlimun ekki breytt.
    Þegar til langs tíma er litið er engin lausn á þessu vandamáli önnur en sú að réttur Eystrasaltslýðveldanna til sjálfstæðis sé viðurkenndur að fullu. Það er fagnaðarefni að nú hefur verið komið á pólitískum viðræðum milli Eystrasaltslýðveldanna, sovéskra stjórnvalda og lýðvelda Sovétríkjanna sem vonandi greiðir fyrir skipulegu afturhvarfi til fyrra ástands. Íslendingar vilja, eins og aðrir Norðurlandabúar, að samvinna verði höfð við Eystrasaltsríkin á hinum ýmsu stigum. Einnig væri það Íslendingum ánægjuefni ef Eystrasaltslýðveldunum yrði veitt full aðild að ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu.``
    Í þessari yfirlýsingu koma fram þrjú meginatriði.
    1. Hvað varðar viðurkenningu Íslands á fullveldi Eystrasaltsríkjanna lítum við svo á að hernám og innlimun þeirra í Sovétríkin hafi engu breytt um réttarstöðu þeirra og er viðurkenning Íslands í fullu gildi að þjóðarétti.
    2. Við teljum að leysa beri mál Eystrasaltsríkjanna friðsamlega með beinum viðræðum milli þeirra og Sovétríkjanna.
    3. Við höfum lýst því yfir að við styðjum fulla aðild Eystrasaltsríkjanna á ráðstefnunni um samvinnu og öryggi í Evrópu.
    Um þann þátt málsins er þess að geta að nú þann 19. -- 21. nóv. verður haldinn ríkisleiðtogafundur Evrópuríkja sem þátttökurétt hafa í ráðstefnunni um samvinnu og öryggi Evrópu. Þar liggja fyrir tillögur um að stofnanabinda þetta samstarf, m.a. með því að setja upp þrjár stofnanir í hinum ýmsu höfuðborgum Mið- og Austur - Evrópu. Ein þessara stofnana á að vera stofnun til lausnar á svæðisbundnum árekstrum, ,,Center for conflict solution``, eins og það heitir. Allar horfur eru á að þessari stofnun verði komið á laggirnar og hún taki til starfa að loknum fundinum. Þar verður hins vegar tekist á um það hvernig verksvið hennar verði tilgreint. Þar er okkur ofarlega í huga að með því að tryggja aðild Eystrasaltsríkjanna að ferlinu eigi í framhaldinu að fela þessari stofnun, innan ramma ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu á grundvelli hinna tíu meginreglna Helsinki-sáttmálans, að stuðla að friðsamlegri lausn sem feli í sér að Sovétríkin semji við lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir Eystrasaltsríkjanna um að innan ákveðins tímaramma verði þeim gert kleift að framfylgja í reynd sjálfstæðisyfirlýsingum sínum með fullu sjálfsforræði yfir landsvæði sínu. Þetta er að sjálfsögðu meginmál.
    Þess ber að geta að sú regla gildir í samstarfi þessara 34 Evrópuríkja, sem eru þátttakendur í ráðstefnunni um samvinnu og öryggií Evrópu, að þar verður engu máli komið fram nema með allsherjarsamstöðu, ,,consensus``. Það er álitamál hvort hætta eigi á að Sovétríkin grípi til neitunarvalds og komi þannig í veg fyrir aðild þessara ríkja að ráðstefnunni eða hvort freista eigi þess að ná samkomulagi, þannig að ekki reyni á neitunarvaldið, um áheyrnarfulltrúastöðu að sinni en jafnframt freista þess að fá þessi mál tekin upp innan þeirrar stofnunar, sem ég gat um áðan, sem á að hafa það verkefni að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála.
    Þetta er ekki fyrir okkur, sem velviljuð erum og hlynnt sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna, að taka ákvörðun um heldur fyrir þá sjálfa. Þess ber að geta að það er ekki fullkomlega sama skoðun, eða mat, milli ríkisstjórna Eystrasaltsríkjanna allra þriggja í þessu efni. En ég segi einfaldlega: Ég mun fyrst og fremst ganga fram í þessu máli í samráði við ríkisstjórnir þessara landa og ekki ganga þar framar en þau telja sjálf, eða ríkisstjórnir þessara landa, að samræmist best hagsmunum sínum.
    Tillaga sú, sem hér liggur fyrir, er um það að Ísland taki upp formleg diplómatísk samskipti, svo sem að fela sendiherra, sem starfaði utan Eystrasaltsríkjanna, að fara með stjórnmálasamband við þau og gæti þá einnig falið í sér að við freistuðum þess að fá viðurkennda ræðismenn sem störfuðu í þessum ríkjum.
    Nú er það svo, og það er auðvitað vandinn í málinu, að í hálfa öld hafa þessi ríki búið við hernám og hernámsstjórn þótt sú hernámsstjórn hafi linað tökin á undanförnum árum. Þrátt fyrir umbætur og breytingar, sem trúlega eru á byrjunarstigi innan Sovétríkjanna og innan svokallaðra sjálfstjórnarlýðvelda innan Sovétríkjasambandsins á undanförnum árum, er það enn svo að Eystrasaltsríkin eiga við ramman reip að draga í viðleitni sinni til að koma fram sem jafningjar annarra ríkja á alþjóðavettvangi. Af þeim sökum er óvíst hvort ríkisstjórnir þessara landa nú geti á þessari stundu staðið við skuldbindingar gagnvart öðrum ríkjum að þjóðarétti, t.d. að því er varðar stjórnmálasamband. En ýmsar þjóðréttar
skyldur eru í því fólgnar að efna til stjórnmálasambands, svo sem að tryggja að fulltrúar erlendra ríkja geti stundað störf sín frjálst og óhindrað.
    Í þessu efni vek ég athygli hv. þm. á sambærilegu máli. Til eru þeir hv. þm. sem hafa krafist þess að íslenska ríkið viðurkenndi ríki Palestínuaraba samkvæmt sjálfstjórnaryfirlýsingu þeirra og með vísan til þess að þeir hafa komið á fót útlagastjórn og með vísan til þess að fjölmörg ríki hafa viðurkennt það ríki. Í því efni höfum við Íslendingar stuðst við hefðir, þá hefð þjóðaréttar að viðurkenna ekki ríkisstjórnir heldur ríki og því aðeins að viðkomandi ríki hafi ótvírætt óumdeilt forræði á því landsvæði sem það gerir tilkall til að stjórna og ljóst sé að viðtökuríkisstjórnin geti í reynd tryggt að erlendir sendimenn fái þar starfað. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki. En ég nefni þetta dæmi vegna þess að í þessum efnum verða ríkisstjórnir að vera sjálfum sér samkvæmar í afstöðu

sinni og aðgerðum.
    Í tillögu hv. tíu þm. er lögð áhersla á tvö meginatriði, að formleg viðurkenning Íslands á fullveldi Eystrasaltsríkjanna verði áréttuð og að Ísland taki tafarlaust upp stjórnmálasamband við þessi ríki.
    Eins og margoft hefur komið fram á opinberum vettvangi þá er viðurkenning Íslands á fullveldi Eystrasaltsríkjanna í fullu gildi og af minni hálfu og hálfu ríkisstjórnarinnar er ekki talin ástæða til þess að gefa ítrekaðar yfirlýsingar að því er það varðar. Mér er kunnugt um af viðræðum við fulltrúa þessara ríkisstjórna að þeir eru sammála því mati út af fyrir sig. Beint stjórnmálasamband Íslands við Eystrasaltsríkin mundi ekki renna frekari stoðum undir viðurkenningu okkar á fullveldi þeirra nema því aðeins að hægt væri að tryggja framkvæmd slíkra diplómatískra samskipta í reynd. Þess vegna er það álitamál hvernig á málinu skuli haldið. Ég segi um þetta efni aðeins það að af hálfu utanrrn. eru ýmsir kostir til skoðunar í þessu efni. Þá mun ég ekki ræða hér frekar fyrir opnum tjöldum. Ég er fús að ræða þá í utanrmn., enda hér um viðkvæmt mál að ræða. Í því efni verður að hafa náið samráð við ríkisstjórnir þessara landa og gæta þess vandlega að ganga ekki framar en þeir sjálfir telja að samrýmist sínum hagsmunum. Um markmiðið sjálft og stefnuna sjálfa hygg ég að sé ekki ágreiningur, um það hef ég ekki heyrt.
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að minna á að Alþingi Íslendinga var fyrsta löggjafarsamkoman í heiminum sem sendi þjóðþingi Lithaugalands heillaóskir um leið og sjálfstæði þeirra hafði verið lýst yfir hinn 11. mars á sl. ári. Ég rifja einnig upp að samtímis skrifaði ég utanríkisráðherra Sovétríkjanna fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og skoraði á hann að taka þegar upp samninga við lýðræðisleg stjórnvöld í Litáen þess efnis að freista þess að gefa raunverulegt innihald í sjálfstæðisyfirlýsingu Lithaugalands.
    Að því er varðar spurninguna um viðurkenningu þá hefur það þegar verið rætt svo ítarlega að ekki er þörf á að árétta það. Hún var formlega staðfest á árunum 1921 og 1922 samkvæmt samþykkt íslensku ríkisstjórnarinnar en komið á framfæri á þeim tíma af danska utanríkisráðuneytinu. Í framhaldi af því voru gerðir og eru í gildi formlega viðskiptasamningar við öll ríkin þrjú.
    Ekki er ágreiningur um það, eftir því sem ég best veit, í hópi lýðræðisríkja á Vesturlöndum að forsendan fyrir hernámi og innlimun þessara þriggja landa í Sovétríkin var hin alræmdi leynisamningur Molotov - Ribbentrop samningurinn. Ég nefni hann hér vegna þess að það er athyglisverð staðreynd að þjóðþing Sovétríkjanna hefur lýst þann samning með öllu löglausan og ógildan, en á grundvelli þess samnings voru þessi lönd innlimuð. Þetta þýðir það að út frá bæjardyrum Sovétríkjanna sjálfra, æðsta valds Sovétríkjanna, þjóðþingsins, hefur verið viðurkennt að hér var um löglausar athafnir að ræða. Þessi staðreynd er grundvallarstaðreynd þegar meta skal þjóðréttarlega stöðu ríkjanna.
    Við höfum lýst því yfir að þessi viðurkenning sé

enn í fullu gildi. Við höfum aldrei viðurkennt hernám og innlimun þessara ríkja og við höfum áréttað það á opinberum vettvangi við nánast hvert tækifæri að þetta sé okkar afstaða. Ég minni á að sennilega hefur enginn gengið framar í því efni að styðja málstað Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi en utanrrh. Íslands. Ég gerði það fyrst á sameiginlegri ráðstefnu utanríkisráðherra Vestur- og Austur-Evrópu sem haldin var á vegum Evrópuráðsins í Lissabon og vakti þar athygli að t.d. utanríkisráðherrar hinna nýfrjálsu Austur-Evrópuríkja þögðu þar þunnu hljóði. Ég hef í hvert einasta skipti sem haldinn hefur verið ráðsfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins tekið þetta mál upp og sett þar fram kröfur um samræmda afstöðu Atlantshafsbandalagsríkjanna, sem væri byggð á grundvallarreglum þjóðaréttar, byggð á rétti þessara þjóða, en jafnframt hvatt mjög eindregið til þess að þessi ríki beiti áhrifum sínum á Sovétstjórnina til þess að fá hana, ekki aðeins að samningaborðinu, heldur til þess að leita í alvöru eftir samningum á grundvelli þess að þessi ríki njóta sérstöðu. Staða þeirra er önnur en ýmissa annarra sjálfstjórnarlýðvelda Sovétríkjanna og mun þar af leiðandi ekki leiða til þess að önnur sjálfstjórnarlýðveldi innan Sovétríkjanna geti byggt kröfur sínar á sömu þjóðréttarlegu rökum.
    Sérstaklega tók ég þetta mál upp á undirráðstefnu ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu, sem fjallaði um mannréttindamál í Kaupmannahöfn í byrjun júní sl. Þá lá fyrir í fyrsta sinn umsókn Eystrasaltsríkjanna um áheyrnaraðild en gestgjafaþjóðin, Danir, afgreiddi það með þeim hætti að ræða það óformlega við sendinefndir aðildarríkjanna. Við lýstum að sjálfsögðu stuðningi við þá ósk en Sovétmenn sögðu þá að þeir mundu beita neitunarvaldi sínu ef það kæmi fram. Danska ríkisstjórnin gat því ekki komið því máli fram og efa ég þó ekki að hugur hafi fylgt máli í yfirlýsingum þeirra um að það vildu þeir gjarnan.
    Þá er þess að geta að á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna tók ég þetta mál upp sem og á undirbúningsfundi að leiðtogafundi ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu, sem var haldinn í New York í lok októbermánaðar, þar sem ég lýsti afstöðu Íslands á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Við getum ekki látið eins og vandamál Eystrasaltsríkja geti legið gleymd og grafin. Hin einfalda staðreynd er sú að mannréttindi og réttindi þjóða eru óaðskiljanleg. Við getum ekki lýst stuðningi við þessi almennu gildi á þann veg að þau eigi að láta í té sem forréttindi sem sumir megi njóta en öðrum verði meinað. Það er óumdeild söguleg staðreynd að Eystrasaltsþjóðirnar voru sjálfstæð ríki sem nutu viðurkenningar sem slík í hinu alþjóðlega samfélagi, þar á meðal Þjóðabandalaginu. Á styrjaldarárunum urðu þau að þola þau örlög að vera hernumin og innlimuð með hernaðarofbeldi. Sovéska þingið hefur nú þegar, því til mikils hróss, viðurkennt ólögmæti þessara aðgerða. Þess vegna er engin lausn ásættanleg á þessu vandamáli, sem er samrýmanleg bókstaf og anda Helsinki-sáttmálans, önnur en full viðurkenning á rétti

Eystrasaltsþjóðanna til sjálfstæðis. Á sama tíma ber að taka réttmætt tillit til öryggishagsmuna Sovétríkjanna á Eystrasaltssvæðinu og semja um það. En valdbeiting af hvaða tagi sem er, hvort heldur hún er hernaðarleg eða efnahagsleg, sem hefur þann tilgang að þröngva þessum þjóðum ólöglega og gegn vilja þeirra til þess að una óbreyttu ástandi, er brot á anda og samstarfsreglum ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu og mun stofna í hættu frekari framförum í átt til hins nýja öryggiskerfis Evrópu sem við öll óskum eftir. Það væri ekki einasta ógæfa Eystrasaltsþjóðanna heldur einnig Sovétríkjanna og Evrópu allrar. Samningaviðræður án fyrirframskilyrða milli sovésku ríkisstjórnarinnar og hinna lýðræðislega kjörnu ríkisstjórna Eystrasaltsþjóðanna eru þess vegna prófsteinn á vilja og heilindi Sovétstjórnarinnar gagnvart grundvallarreglum um friðsamlegar umbætur og gildi lýðræðis.``
    Meginmál ríkisstjórna Eystrasaltsþjóðanna þriggja þessa stundina er að fá fram viðurkenningu annarra ríkja Vestur-Evrópu á rétti þeirra til þátttöku í ráðstefnunni um samvinnu og öryggi í Evrópu, eins og ég hef þegar vikið að. Íslenska ríkisstjórnin hefur heitið þeim fullum stuðningi við það mál og mun bera það fram í fullu samráði við ríkisstjórnir þessara landa en ekki reka það sem einkaerindi á eigin vegum.
    Þá er þess að geta að utanrrh. Íslands hefur lýst því yfir, að höfðu samráði innan ríkisstjórnarinnar, að við séum reiðubúnir til að beita okkur fyrir samstarfi Norðurlandanna um þetta mál, þ.e. að freista þess að fá samstöðu ríkisstjórna Norðurlandanna fimm til þess að styðja þessa kröfu á leiðtogafundinum um aðild að ráðstefnunni um öryggi og samstarf í Evrópu, auk þess sem við höfum einnig lýst okkur jákvæða gagnvart óskinni um áheyrnarfulltrúastatus í Norðurlandaráði.
    Virðulegi forseti. Það er stundum erfitt að vera sjálfum sér samkvæmur þegar kemur að siðferðilegum málefnum í pólitík og alþjóðamálum. Það er ástæða til þess að nefna það hér að þegar ríkisstjórn Íraks fyrirvaralaust og án áreitni greip til þess að hernema með ofbeldi og innlima nágrannaríki sitt Kúvæt þá brást heimsbyggðin við, hið alþjóðlega samfélag, Sameinuðu þjóðirnar, því sem næst einróma. Fyrir forgöngu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafa verið samþykktar fleiri en tíu ályktanir í því máli og aðildarríkin hafa komið á með sér samstöðu um viðbrögð sem eru afdráttarlaus. Hernám og innlimun Kúvæts hefur nú staðið á þriðja mánuð. Hernám og innlimun Eystrasaltsþjóðanna hefur nú staðið í bráðum hálfa öld. Og maður spyr: Hvar er samkvæmnin gagnvart grundvallarreglum mannréttinda og þjóðaréttar ef Sameinuðu þjóðirnar bregðast svo mynduglega við gagnvart Kúvæt en kjósa að þegja um örlög Eystrasaltsþjóðanna af einhverjum annarlegum ástæðum?
    Þetta dæmi úr samtíðinni stillir öllum forustumönnum lýðræðisríkja í heiminum frammi fyrir því að ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir og vera trúir þeim grundvallarreglum sem á að leggja sem hornsteina að nýju öryggiskerfi Evrópu þá er ekki hægt að

segja: Við fylgjum fram grundvallarreglunum gagnvart Kúvæt og Írak en af einhverjum öðrum ástæðum kjósum við að þegja að því er varðar Eystrasaltsríkin og Sovétríkin.
    Virðulegi forseti. Þessari tillögu verður væntanlega að loknum þessum umræðum vísað til hv. utanrmn. Þar getum við, innan ramma trúnaðarreglna utanrmn., rætt betur þá kosti sem eru til skoðunar á vegum ráðuneytisins en ekki er unnt að ræða hér frekar og byggja fyrst og fremst á því að meta í samráði við ríkisstjórnir Eystrasaltslandanna hvernig skynsamlegast er að fylgja þessum málum fram.
    Að lokum þykir mér við hæfi að geta þess að eftir að rödd Íslands hafði heyrst í þessu máli á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á sl. hausti og á ráðstefnu 34 ríkjanna um undirbúning leiðtogafundarins um samvinnu og öryggi í Evrópu, þá barst utanrrn. svohljóðandi orðsending frá samtökum útlægra Eystrasaltsbúa í Bandaríkjunum:
    ,,Ræða utanrrh. Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær ætti að vera öðrum ríkisstjórnum fyrirmynd að fylgja við stefnumótun gagnvart Eystrasaltsþjóðunum. Þjóðir Lettlands, Lithaugalands og Eistlands munu ævinlega vera þakklátar íslensku ríkisstjórninni fyrir að vera fyrsta vestræna ríkisstjórnin sem styður skilyrðislaust sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna á þessum sögulegu örlagatímum. Megi samskipti Íslands og Lettlands vaxa og dafna frá þessari gleðilegu byrjun. Megum við enn á ný tjá dýpstu þakkir lettnesku þjóðarinnar til ríkisstjórnar Íslands fyrir hugrakka framgöngu byggða á virðingu fyrir grundvallarreglum.``