Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu hið þýðingarmesta mál sem snertir samskipti Íslands við Eystrasaltsríkin sem nú eru að leitast við að brjótast undan hernámi sem þar hefur ríkt um áratugi við hinar erfiðustu aðstæður. Og skylda okkar er sannarlega mikil í þessum efnum.
    Það hefur verið ánægjulegt að starfa að þessum málum í utanrmn. Alþingis, þar sem þessi mál hafa verið til umræðu undanfarna mánuði, og tekist hefur góð samstaða um málsmeðferð af Íslands hálfu. Ég get lýst stuðningi við þann málflutning sem hæstv. utanrrh. hafði hér uppi varðandi hans málafylgju í þessum efnum, því hann hefur gengið feti framar en ýmsir forustumenn, bæði á Norðurlöndum og eins meðal svokallaðra vestrænna þjóða, í stuðningi við málstað Eystrasaltsríkjanna. Ég vil jafnframt lýsa yfir stuðningi við allt það sem af hálfu okkar Íslendinga getur orðið viðleitni þessara þjóða til sjálfstæðis til framdráttar. Ég tel að við eigum að vanda hvert skref í þessum efnum, sem við tökum, og setja okkur sem allra best inn í aðstæður og fylgjast vel með framvindu mála í þessum ríkjum.
    Ég tel að sú till., sem hér er rædd, sé einn af þeim kostum sem við eigum að vega og meta þegar við erum að líta yfir sviðið og átta okkur á því hvað við getum gert sem megi verða þessum ríkjum til stuðnings í sjálfstæðisbaráttu sinni. Ég tel fullkomlega eðlilegt að ræða það sem fram kemur í þessari till. í utanrmn., eins og önnur þau skref sem þar eru til umræðu varðandi þessi efni, og vil ekki vísa neinu fyrir fram á bug í þeim efnum.
    Við áttum okkur auðvitað á því að hér er við ramman reip að draga. Saga þessara ríkja, bæði undanfarna hálfa öld, og reyndar litið lengra til baka, ber þess vitni að þau hafa átt mjög erfitt uppdráttar í sjálfstæðisbaráttu sinni. Eiga aðeins yfir tvo áratugi að líta sem þau máttu lifa við sæmilegt sjálfstæði en þess utan undir hælnum á stórveldinu í austri í meira og minna mæli og hafa búið við gífurlegt harðræði. Auðvitað hafa málin ekki orðið auðveldari við þá þróun sem gengið hefur yfir þessi ríki á undanförnum áratugum sovésks hernáms í þessum löndum, þar sem fjöldi fólks hefur flutt frá Sovétríkjunum, sjálfsagt með skipulögðum hætti að talsverðu leyti, inn í þessi lönd og lifir þar sínu lífi sem þátttakendur í atvinnulífi og öðru. Og sú staðreynd t.d. að í höfuðborg Eistlands er meiri hlutinn af rússnesku bergi brotinn, eða slavnesku bergi brotinn, segir sína sögu þó að það sé aðeins um þriðjungur þjóðarinnar sem er þannig aðfluttur. Þessi breyting hefur orðið á þeirri hálfu öld sem þessi ríki, og Eistland í þessu tilviki, hafa verið undir oki Sovétríkjanna.
    Saga þessara mála hefur verið mikið rædd að undanförnu og það er fullkomlega réttmætt. Hún er í senn dapurleg en hún lýsir líka aðstæðum smáþjóðar sem ekki fær áheyrn heimsins varðandi sitt mál og sem þarf að lúta oki og ofbeldi stórveldis.
    Við Íslendingar eigum auðvitað alveg sérstakar

skyldur við lönd sem þannig er ástatt með, við þjóðir sem búa við slíkt harðræði. Og við eigum að líta til eigin sögu þegar við erum að meta aðstæður þeirra og ganga hiklaust feti framar öðrum ef við teljum að það megi koma að gagni. Í þessu tilviki líta Eystrasaltsríkin sérstaklega til Norðurlanda, bæði varðandi aðstoð í sinni sjálfstæðisbaráttu en einnig sem fordæmis fyrir smáþjóðir sem hafa megnað að halda sjálfstæði sínu og ná fram þokkalegum efnahag í sínum löndum.
    Ég er þeirrar skoðunar að Norðurlöndin ættu og eigi að styðja viðleitni þessara ríkja með ráðum og dáð. Ég tel að það sé ekki um neina einhlíta hagsmuni Eystrasaltsríkjanna að ræða, heldur um gagnkvæma hagsmuni, vegna þess að eftir því sem smáþjóðunum fjölgar sem standa vörð um sitt sjálfstæði og tekst að halda því, þeim mun styrkari stoðum standa þau. Og það er ánægjulegt til þess að vita að hugmyndir og ábendingar hafa komið einmitt frá þessum ríkjum um þörfina á því að smáþjóðir heimsins taki höndum saman til þess að halda sínu í samskiptum við hinar stærri þjóðir.
    Ég hef orðað það, oftar en einu sinni, á vettvangi Norðurlandaráðs, á Norðurlandaráðsþingum, að okkur beri að veita Eystrasaltsþjóðunum formlega áheyrnaraðild að Norðurlandaráði ef þær svo kjósa. Ég tel það vera eitt drýgsta framlagið sem við getum framreitt, Norðurlönd og Ísland í þessu samhengi, að opna þennan vettvang fyrir Eystrasaltsþjóðunum og það fyrr en seinna. Við eigum ekki að bíða eftir því að niðurstaða fáist úr viðræðum, sem yfir standa og sem vonandi leiða til þess að þessi ríki nái rétti sínum, heldur eigum við að gera það nú þegar og minna valdhafa í Sovétríkjunum á orð sem þeir létu falla, m.a. Gorbatsjov forseti, haustið 1989, að hann kysi einmitt góð samskipti Norðurlandaráðs við þjóðirnar við Eystrasalt innan Sovétríkjanna og vísaði, fannst mér, með þeim hætti veginn.
    Vegna þess að nafn forseta Sovétríkjanna hefur borist inn í þessa umræðu, þá tel ég að við höfum tæpast efni á því að vera að vega og meta hver valdhafi situr í Moskvu, hvernig hann sé sinnaður, hvað sé líklegt af honum. Við eigum að vera samkvæmir í stuðningi okkar við málstað þessara þjóða burt séð frá því hver er við völd í stórveldinu austan við þau.
    Ég átti þess kost að heimsækja Eistland í júnímánuði sl. Fór þangað sem gestur, sem ferðamaður, og náði þar fundi fremstu manna í baráttu Eistlendinga, ráðamanna þar í landi. Auðvitað varð sú heimsókn til þess að auka skilning bæði á stöðu þessarar þjóðar og þeim vanda sem hún er að glíma við, en einnig á þeirri menningu, þeirri dýrmætu þjóðlegu menningu, sem þetta ríki, eitt af þremur Eystrasaltsríkjunum, leggur alla áherslu á að vernda og hefur tekist að vernda þrátt fyrir ofríkið úr austri og þrátt fyrir áróðursmáttinn í gegnum fjölmiðla, hervald og hvað eina sem á þeim hefur mætt um aldir í raun og veru.
    Ég hef leyft mér að koma frásögn af þessari ferð á framfæri við hv. alþm. til þess að það liggi hér fyrir. Til þess að menn geti áttað sig á því hvað kom

fram í þessu ferðalagi. Ég gerði utanrmn. grein fyrir því strax og ég kom heim þaðan og tel að það sem þar liggur fyrir í rauninni staðfesti það sem fram hefur komið opinberlega og ítrekað frá ráðamönnum í Eistlandi og raunar í öllum ríkjunum þremur.
    Ég tel að það sé gagn að flutningi þessarar till. sem hér liggur fyrir. Hún veitir tækifæri til að ræða þessi mál hér á Alþingi Íslendinga og ég tel enga ástæðu til að vísa henni frá að óathuguðu máli sem þarflausri. Ég er hins vegar ekkert sannfærður um það að hún sé tímabær, eins og aðstæður eru núna, en ég er reiðubúinn að skoða það opnum huga, eins og aðra kosti sem orðið gætu til þess að greiða götu Eystrasaltsþjóðanna til fulls og óskoraðs sjálfstæðis.