Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að leyfa þessa umræðu sem var upphaflega farið fram á fyrir tíu dögum síðan þegar umræða varð hér um fjárlagafrv., 1. umr. Frá því að við skildum hér á síðasta vori hafa komið fram tvær skýrslur á opinberum vettvangi um fjárhagsvanda og fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Það er auðvitað fullt tilefni til að ræða slíkar skýrslur hér á hinu háa Alþingi. Það hlýtur að teljast tilefni til að slík umræða fari fram utan dagskrár, sérstaklega í ljósi þess að engin sérstök þingmál þessu viðvíkjandi hafa enn þá verið lögð fram. Ég skal leitast við að vera stuttorður, virðulegi forseti. En ég sé og heyri að ýmsum þingmönnum hér liggur eitthvað á hjarta varðandi þessi málefni.
    Það er ljóst, virðulegi forseti, að fjárhagsvandi byggingarsjóðanna tveggja er hrikalegur. En það er enn þá hrikalegra að ríkisstjórnin sem nú situr heykist við að taka á vandanum og virðist ekki ætla að grípa til neinna þeirra ráðstafana sem duga til þess að snúa við þeirri þróun sem við blasir í málefnum sjóðanna. Ég þarf ekki að minna þingmenn á það neyðaróp sem þingflokkunum barst frá
húsnæðismálastjórn, stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, í júní sl. þegar húsnæðismálastjórn var að ganga frá sínum fjárlagatillögum og greip til þess óvenjulega ráðs að senda þær ekki til fjmrn. eins, heldur til allra þingflokka sömuleiðis.
    Það hefur lengi legið fyrir, virðulegi forseti, að byggingarsjóðirnir ættu við fjárhagsvanda að etja. Og skýrslurnar tvær, sem ég gat um, staðfesta það. Þær staðfesta jafnframt að það er fyrir aðgerðarleysi núv. hæstv. félmrh. undanfarin þrjú ár að málin eru komin í það horf sem nú er. Álit sérstakrar nefndar félmrh., sérstakra trúnaðarmanna félmrh., sem gert var opinbert 22. júní sl., er þess vegna áfellisdómur yfir aðgerðarleysi ráðherrans, sem skýrsla Ríkisendurskoðunar frá því í september staðfestir. Í áliti nefndarinnar, sem skilaði áliti í júní, segir, með leyfi forseta, að ekki sé ,,ráðlegt að víkjast lengur undan því að koma jafnvægi á rekstur sjóðsins og eigið fé sjóðsins, 15 milljarðar kr., muni að óbreyttu verða horfið um aldamót.`` Í greinargerðinni segir jafnframt:
    ,,Eins og kunnugt er hefur verið búið þannig um hnútana í fjárhagsmálefnum Byggingarsjóðs ríkisins á undanförnum árum að fjárhagsstöðu sjóðsins er stefnt í voða ef ekkert verður að gert.``
    Þá segir réttilega í þessu nefndaráliti að leiðir til að laga rekstrarstöðu sjóðsins séu tvær. Annars vegar að tryggja sjóðnum árlegt framlag úr ríkissjóði til að mæta rekstrarhalla og hins vegar að hækka vexti á útlánum sjóðsins. Allt frá árinu 1987 hefur blasað við að hvort tveggja þyrfti að gera. En viðbrögð félmrh. og þeirra ríkisstjórna sem setið hafa frá 1988 hafa aftur á mótið verið kákið eitt í þeim efnum. Ríkisframlagið er komið niður í 50 millj. á þessu ári, sem er að líða, og niður í ekki neitt á næsta ári. Það er búið að þurrka Byggingarsjóð ríkisins út úr fjárlagafrv. fyrir

næsta ár og félmrh. hefur með kjafti og klóm, vil ég leyfa mér að segja, streist gegn óhjákvæmilegum, en auðvitað jafnframt óvinsælum hækkunum á útlánsvöxtum hjá sjóðnum. Þess vegna er nú komið sem komið er.
    Það sætir auðvitað furðu að yfir þessu öllu skuli tróna sem forsrh. sá maður sem á árinu 1986 samdi sérstaklega við aðila vinnumarkaðarins um að koma á nýju húsnæðislánakerfi, hann skuli tróna yfir þessu aðgerðarleysi berandi þó ábyrgð á því að við aðila vinnumarkaðarins var á sínum tíma samið um þetta mál. En hæstv. núv. forsrh. virðist ekki hafa metnað til þess að standa við það sem um var samið á þeim tíma.
    Þess vegna liggur fyrir, virðulegi forseti, að með raunhæfum aðgerðum þegar á árinu 1987, með því að vísu að taka óvinsæla ákvörðun þá um að hækka útlánsvextina, hefði verið hægt að koma í veg fyrir stóran hluta af þeim vanda sem nú blasir við. Það er vissulega athyglisverð spurning hvernig staða Byggingarsjóðs ríkisins væri í dag ef þetta hefði ekki verið trassað með þeim hætti sem gert var. Mér er kunnugt um að það urðu umræður í ríkisstjórn Íslands haustið 1987 þar sem fram kom vilji á því að hækka þessa vexti en félmrh. fór undan í flæmingi og treysti sér ekki til þess að standa að slíkri tillögu.
    Það liggur þess vegna fyrir að vandi byggingarsjóðanna, bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, hefur verið ljós um langan tíma. En það er trassaskapur, sem skrifast á ábyrgð núverandi valdhafa, að ekki hefur verið gripið í taumana. Það hefur verið flotið sofandi að feigðarósi í þessu máli, vissulega þó hraðbyri. Ríkisstjórnin og félmrh. hafa svo sannarlega setið þar á 1. farrými en almenningur, þessi átta þúsund manns sem bíða í biðröðinni, hafa mátt dúsa í lestinni á 3. farrými á þessari siglingu. Og það sem verra er, allt bendir til þess að það eigi að halda siglingunni áfram fram yfir kosningar. Það hefur ekkert komið fram af hálfu félmrh. annað en það að réttast væri að loka húsnæðislánakerfinu frá 1986 en það sé fráleitt að grípa til þeirra ráða sem duga og samræma innláns - og útlánsvextina þar sem vaxtamunur er orðinn allt of mikill eins og öllum er kunnugt. Spurningin er: Ætlar félmrh., ætlar forsrh. og ríkisstjórnin öll, að halda áfram að láta sjóðunum blæða út? Á að láta þjóðina horfa upp á það að þessum miklu sjóðum, byggingarsjóðum ríkisins með 15 milljarða eigið fé, blæði út, að eigið fé fjari út og verði að engu? Á að láta þessa peninga gufa upp á nokkrum árum?
    Ég fullyrði það að ekki hafi verið tekið á þessu máli þó að mönnum sé vandinn ljós. Hvað segir til að mynda í fjárlagafrv. fyrir næsta ár um þennan vanda? Hver er niðurstaðan í stefnumarkandi plaggi ríkisstjórnarinnar, fjárlagafrv., um þetta mál? Þar segir eftirfarandi: ,,Aðgerða er því þörf í málefnum byggingarsjóðanna.`` Það eru nú meiri tíðindin. Það eru nú meiri fréttirnar sem fluttar eru í fjárlagafrv. um þetta mál. En það er ekki þannig að ríkisstjórnin ætli sér að gera neitt í málinu. Það er viðurkennt að grípa þurfi

til aðgerða en það er ekki samkomulag um neinar aðgerðir. Hvað segja nú framsóknarmennirnir sem stóðu að samkomulaginu 1986 um þetta mál, til að mynda hæstv. fyrrv. félmrh. Alexander Stefánsson og aðrir þingmenn Framsfl.? Ætla þeir að taka á sig ábyrgðina á því að sjóðunum blæði út? Ef það er svo þá eru lítil geð þeirra guma sem gumuðu mest af nýja húsnæðislánakerfinu frá 1986.
    Ég hef sagt, virðulegi forseti, að það hafi verið óhjákvæmilegt allt frá árinu 1987 að hækka útlánsvexti hjá Byggingarsjóði ríkisins. Ég er reyndar ekki eini maðurinn sem hefur sagt það. Til að mynda segir framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins í viðtali í Þjóðviljanum 28. sept. sl. eftirfarandi:
    ,,Ég lít þannig á að ríkisstjórn Íslands hefði fyrir mörgum árum átt að taka ákvörðun um breytingu á vöxtum á útlánum okkar og reyndar hlýt ég að rifja það upp að einmitt vorið 1987 þegar viðræður um myndun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar stóðu yfir, þá lýsti ég þeirri skoðun minni í fjölmiðlum að það bæri brýna nauðsyn til að taka ákvörðun um breytingar á útlánavöxtum okkar til að tryggja fjárhag byggingarsjóðanna. Á þessu tímabili hafa setið tvær ríkisstjórnir. Ég taldi nauðsynlegt að samræma útláns - og innlánsvexti stofnunarinnar. Ég átti við það að við tökum lán hjá lífeyrissjóðunum með mjög háum vöxtum og endurlánum það með lágum vöxtum. Fjölmiðlar skildu það sem svo að ég væri að tala fyrir hækkun á útlánavöxtum stofnunarinnar og það var alveg rétt túlkað. Ég fer ekkert í launkofa með það að ég vildi þá þegar að vextirnir yrðu hækkaðir.``
    En félmrh. og samflokksmaður framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar hefur heykst á því að taka þessa óvinsælu ákvörðun þó svo að þetta hafi legið fyrir allan þennan tíma. Og það er auðvitað alveg ljóst að frekari dráttur í þessu efni, frekari dráttur á því að grípa til samræmingar á innláns - og útlánsvöxtum sjóðanna eykur á vandann og þá minnkar eigið fé hraðar en ella.
    En það má með sanni segja í þessu efni, virðulegi forseti, að bragð er að þá blessað barnið finnur, því að meira að segja Kvennalistinn er loksins búinn að átta sig á kjarna þessa máls, eins og ályktun Kvennalistans frá fundi þeirra um helgina ber með sér. Það er vissulega fagnaðarefni að Kvennalistinn skuli horfinn frá villu síns vegar í þessu efni því að það er Kvennalistinn, því miður, sem ber ábyrgð á þeirri fráleitu ákvörðun, sem tekin var í desembermánuði sl., þegar vextir af útlánum sjóðsins voru hækkaðir eingöngu á nýjum lánum en ekki eldri lánum, frá 1984 og síðar, þó svo ákvæði í skuldabréfum á bak við þau lán gerðu ráð fyrir slíkum breytingum. Kvennalistinn tók á sig ákveðna ábyrgð vorið 1989 þegar húsbréfafrv. svokallaða var samþykkt og gerði samkomulag við ríkisstjórnina um að svona skyldi staðið að vaxtaákvörðun. Ég tel að það samkomulag og sú ákvörðun sem félmrh. tók á þeim grundvelli hinn 5. des. sl. hafi verið mikil mistök. Og ég fagna því að kvennalistakonur skuli hafa séð að sér í þessu efni og skuli nú loks taka ábyrga afstöðu í þessu máli, því að ég

tel að hér sé ábyrg afstaða á ferðinni, og ég býð þær velkomnar í hóp þeirra sem taka vilja raunhæft og ábyrgt á þessum vandamálum.
    Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að þetta vandamál hefði lengi legið fyrir. Vissulega er það rétt að það var tekin ákveðin áhætta hér á hinu háa Alþingi vorið 1986 þegar húsnæðislánakerfinu var komið á laggirnar. Það var tekin ákveðin áhætta og það kom á daginn, strax sumarið eftir, 1987, að það var verið að reyna að gera of mikið í þessu kerfi fyrir of marga. En það er auðvitað fáránleg ósvífni af hálfu bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., eins og báðir ráðherrarnir gerðu sig seka um í umræðunum um fjárlög, að ætla að halda því fram að fjmrh. vorið 1986, Þorsteinn Pálsson, núv. 1. þm. Suðurl., hafi leynt Alþingi einhverjum upplýsingum um þetta mál. Allar upplýsingar um málið og allir útreikningar lágu fyrir í þeirri undirbúningsnefnd sem undirbjó þetta frv. á sínum tíma og öll gögn þessarar nefndar stóðu þingnefndum opin. Ég minnist þess að við hv. 8. þm. Reykn., sem nú gekk í salinn, sátum báðir í þessari undirbúningsnefnd og gerðum sérstakan fyrirvara á sínum tíma að því er varðaði útlánsvexti sjóðsins og töldum það eðlilegt og skynsamlegt að þeir yrðu breytilegir á hverjum tíma en ekki yrði bundið í lög að vextirnir mættu ekki vera hærri en 3,5% eins og var krafa aðila vinnumarkaðarins á þeim tíma.
    Við ákvörðun ríkisstjórnarinnar í desember sl. um að breyta vöxtum á óteknum lánum hjá byggingarsjóðnum gerðu ráðherrar Borgfl. sérstaka bókun og andmæltu þessari breytingu, töldu hana ástæðulausa og vildu í staðinn fara aðra leið, sem sé þá að hækka vexti á öllum teknum lánum frá árinu 1984 jafnt. Aldrei þessu vant höfðu ráðherrar Borgfl. rétt fyrir sér í þessu máli. Enda hefur komið á daginn að það er erfiðleikum bundið á fasteignamarkaði að versla með íbúðir sem eru alveg nákvæmlega eins að öðru leyti en því að hafa áhvílandi annars vegar lán frá því fyrir 5. des. sl. og hins vegar eftir, vegna þess að á þeim hvíla mismunandi þung lán, því vextirnir eru mismunandi frá hendi Húsnæðisstofnunar. Þetta var auðvitað tómt rugl. Ég sé ekki betur en ef Borgfl. stendur við sína ályktun og Kvennalistinn fylgir fram hinni nýju stefnu sinni frá því í gær, þá sé þingmeirihluti fyrir að breyta þessu og það mun vissulega verða látið á það reyna.
    Nú bíða, virðulegi forseti, um átta þúsund umsóknir afgreiðslu hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, í Byggingarsjóði ríkisins. Ég hygg að ekki sé fráleitt að ætla að bak við þessar umsóknir séu um 20 þúsund manns, jafnvel fleira fólk. Þetta fólk bíður í fullkominni óvissu eftir því að ríkisstjórnarnefnan geti mannað sig upp í að taka einhverja afstöðu og móta einhverja stefnu gagnvart húsnæðislánakerfinu. Það hafa 2300 af þessum umsækjendum fengið lánsloforð en hvað á að gera við hina 5700? Hvað ætlar ráðherrann að segja við þetta fólk?
    Það kom fram í tilvitnuðu bréfi frá Húsnæðisstofnun ríkisins, sem þingflokkum barst og dagsett er 15. júní sl., að það væri brigð við þetta fólk að loka nú

kerfinu, loka dyrunum á nefið á þessu fólki þvert ofan í gefnar yfirlýsingar. Ætlar ríkisstjórnin að standa að þeim brigðum? Það stendur hér orðrétt:
    ,,Þá skal einnig á það bent að þegar húsbréfakerfið hóf göngu sína var hinu almenna lánakerfi ekki lokað. Stjórnvöld eru því að koma aftan að þeim umsækjendum sem ekki vilja fara í húsbréfakerfið og telja sig eiga rétt á lánum úr almenna kerfinu ef ekki verður hægt að gefa út frekari lánsloforð.``
    Spurningin er, virðulegi forseti, til félmrh., til forsrh. ef hann væri nú hér: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Hvað ætla þessir virðulegu ráðherrar að gera til þess að leysa þennan vanda? Ekki væri nú síður gagnlegt að heyra svör fjmrh. við því.
    Ég er þeirrar skoðunar almennt, virðulegi forseti, að það sé ekki heppileg lausn á vandamálum að grýta í þau peningum til þess að reyna að leysa þau. Ég held að það sé heldur ekki heppileg leið almennt séð, virðulegi forseti, að reyna að slökkva eld með því að kasta á hann peningum. Það er því ekki leið út úr þessum vanda að ausa milljörðum ofan á milljarða í þetta kerfi. En það stendur auðvitað fyrst og fremst upp á ríkisstjórn Íslands, þá ráðherra sem hafa tekið á sig ábyrgð á þessum málum, að koma með tillögur um að leysa vandann. Og hvað ætlar þetta fólk að gera? Hvað á að halda þúsundum Íslendinga í mikilli óvissu lengi varðandi þetta mál? Hvenær fáum við hér á hinu háa Alþingi einhver svör við því hvenær vænta megi raunhæfra aðgerða?
    Það hefur ekkert skort á það, virðulegi forseti, af hálfu núv. félmrh. að það sé boðið upp á nýja kosti varðandi félagslegt húsnæði. Það hefur verið markviss stefna af hálfu núv. ráðherra að reyna að koma sem flestum inn í slíkt húsnæði, jafnvel einstaklingum sem kæra sig ekki um að búa í slíku húsnæði. Það hefur verið leynt og ljóst unnið að því hér á Alþingi, ekki síst á síðasta þingi og undanfarin ár reyndar, að koma sem flestum Íslendingum inn í félagslegt íbúðarhúsnæði, helst leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga eða samvinnubúsetafélaga. Það vantar ekki að það hafi verið unnið í þeim efnum. Meira að segja er búið að taka úr lögum, með sérstakri lagabreytingu að það megi veita þeim sem búa við sérstaklega erfiðar fjárhags - eða fjölskylduaðstæður viðbótarlán úr Byggingarsjóði verkamanna, úr verkamannabústaðakerfinu. Það má ekki einu sinni hjálpa þeim í því kerfi sem þó vilja það ef þessir aðilar standa höllum fæti eða eiga við að glíma sérstaklega erfiðar fjölskyldu - eða fjárhagsaðstæður. Um þetta var sérstök atkvæðagreiðsla hér í vor og þó að fyrrv. félmrh. hafi stutt tillögu mína um að þetta ákvæði fengi að halda sér í lögunum, þá voru þeir ekki margir framsóknarmennirnir sem það gerðu.
    En þetta er ekki sú stefna, virðulegi forseti, sem þorri Íslendinga vill. Þorri Íslendinga vill að vísu og telur eðlilegt og sjálfsagt að það sé valkostur á félagslega sviðinu fyrir þá sem standa höllum fæti eða mega sín minna í samfélaginu og það sé samfélagsleg hjálp við þá aðila. Það þykir okkur öllum vonandi sjálfsagt og eðlilegt. En það er óeðlilegt að reyna að þvinga með beinum og óbeinum hætti alla, eða sem flesta, líka þá sem vilja standa á eigin fótum, inn í slíkt kerfi. En það er það sem hefur verið gert beint og óbeint af hálfu núv. ríkisstjórnar þegar fólki er annaðhvort vísað í húsbréfakerfi, þar sem er krafist
ákveðinna lágmarkseigna í raun og veru til þess að geta fengið þar viðunandi lán, ellegar í hið félagslega kerfi.
    Ég hyggst standa við fyrirheit mitt, virðulegi forseti, og efna ekki hér til allsherjarumræðu um húsnæðismálin þó svo vissulega væri fullt tilefni til þess að ræða þau mál öll á breiðum grundvelli. En spurningin í þessari umræðu er: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að leysa þennan vanda? Hvernig ætla hæstv. forsrh., félmrh. og fjmrh. að taka á þessum vanda sem við hefur blasað svo lengi og sem þessi ríkisstjórn og sem félmrh. allt frá árinu 1987 hefur trassað og því miður heykst við að taka á?