Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. hefur vitnað hér í tvær skýrslur sem báðar staðfesta hrun lánakerfisins frá 1986. Í fyrsta lagi er það úttekt sem ég lét gera á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins í júní 1990 og síðan er það skýrsla Ríkisendurskoðunar frá því í september.
    Hv. þm. sagði hér í ræðustól að aðgerðarleysi núv. félmrh. mætti kenna um hrun lánakerfisins frá 1986. Ég held, hv. þm., að málið sé nú ekki svo einfalt. Þær upplýsingar sem fram koma í þessum skýrslum sýna að það þarf mjög mikið ríkisframlag á næstu árum til að halda þessu kerfi gangandi. Það þarf um 15 milljarða í ríkisframlög á næstu tíu árum ef þetta kerfi á að starfa áfram og reyndar þarf 7 milljarða þótt því væri lokað strax. Þessar skýrslur sýna einnig að lántökur þurfa að vera gífurlega miklar á næstu tíu árum ef þetta kerfi á að starfa áfram, eða um 174 milljarðar, en ef því yrði lokað þyrfti um 30 milljarða í lántökur.
    Skýrslurnar sýna líka, sem er meginatriðið í þessu, að forsendur sem lánakerfið frá 1986 byggði á brugðust algjörlega og kerfið sprakk hreinlega á fyrstu mánuðum eftir gildistöku laganna. Í forsendum frv. frá 1986 var gert ráð fyrir lánveitingu til 3.800 íbúða fyrstu tvö árin, en eftir fyrstu tvö árin yrðu lánveitingar 3.600 íbúðir á ári. Frv. gerði ráð fyrir að fresta um helmingi af lánveitingum til þeirra sem áttu íbúð fyrir þannig að heildarlánveitingar áttu að vera um 2.700 á ári. Allar forsendur um þann fjölda lánveitinga brugðust. Þegar fyrstu fjóra mánuðina frá því að kerfið fór af stað, 1. sept. til 31. des. 1986, urðu umsóknir tæplega 4.000 og til ársloka 1989 urðu þær um 20.000. Þetta kerfi er nefnilega þannig uppbyggt að hátekju- og eignafólk raðaði sér í biðröðina eftir gjafalánum á kostnað þeirra sem þurftu nauðsynlega á fyrirgreiðslu að halda.
    Í grg. með frv. kemur fram að því átti að breyta að stjórnvöld gætu stýrt útlánum byggingarsjóðsins með breytingu á hlutfalli lána, byggingarkostnaði og með ákvörðunum um fjölda útlána. Kemur fram í grg. að gert var ráð fyrir að lánsfjárhæðir væru lögfestar með vísan til verðlags á fyrsta fjórðungi hvers árs og þær breyttust síðan í hátt við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Orðrétt segir að þetta hafi í för með sér að möguleikar stjórnvalda til að stýra útlánum og að hafa áhrif á íbúðabyggingar og fasteignaviðskipti, sem heppileg eru talin með hliðsjón af framvindu efnahagsmála og efnahagsstefnu stjórnvalda, væru takmarkaðri en nú er og því eðlilegt að ekki sé kveðið á um lágmarksframlag ríkissjóðs í lögum. Af þessu má ljóst vera að gengið var út frá því að ekki væri hægt að takmarka fjölda útlána frá því sem gert var ráð fyrir eða lækka lánsfjárhæðir. Í útreikningum sem lágu fyrir á þessum tíma var gert ráð fyrir að þær forsendur um fjölda lána sem frv. byggði á, þ.e. 3.800 fyrstu tvö árin, kostuðu ríkissjóð um 2,6 milljarða á verðlagi 1986 en það jafngildir 5,2 milljörðum í ríkisframlag í ár. Þessir útreikningar komu ekki

fram í grg. með frv. Í þessum útreikningum kemur fram verulega hærri kostnaður við lánveitingar en fram kemur í grg. með frv. Í útreikningunum kemur fram að áætlaðar lánveitingar kosti á ári 5,5 milljarða en í grg. með frv. er miðað við 4,5 milljarða miðað við sama fjölda útlána.
    Í minnisblaði því sem hv. þm. vitnaði til frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun frá því í febrúar 1986 til þáv. fjmrh. kemur fram enn hærri fjárþörf vegna sömu lánveitinga, eða um 6,3 milljarðar króna, til Byggingarsjóðs ríkisins. Eru þessar áætlanir Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um tveimur milljörðum hærri en grg. með frv. gerði ráð fyrir ef miðað er við neðri mörk þess. Ef miðað er við hærri mörk um útlánaþörf en frv. gerði ráð fyrir munar þarna um einum milljarði króna. Þetta minnisblað sýnir því mun meiri þörf fyrir ríkisframlag en sýnt er í frv. og raunar einnig í þeim útreikningum sem lágu fyrir á þessum tíma. Staðreyndin virðist því vera sú að menn hafa verið að reyna að finna leiðir til þess að reikna sig niður til þess að ríkisframlagið þyrfti ekki að vera nema einn milljarður króna. Til þess var áætluð fjárþörf vegna útlána skrúfuð verulega niður í frv. og gert ráð fyrir að fresta helmingi af lánveitingum til þeirra sem eiga íbúð fyrir sem gengur gegn þeirri röksemd í frv. að takmarka möguleika stjórnvalda til að stýra útlánum. Þess í stað hefur útlánum verið stýrt til að reikna sig niður í eins milljarðs kr. ríkisframlag í stað nærri þriggja milljarða sem útreikningar sýndu að nauðsyn væri á frá upphafi. Fjöldi útlána dróst líka verulega saman á árunum 1986 til 1989 frá því sem var 1985 og 1986. Árið 1985 voru veittar heimildir til 6.500 íbúða, 1986 voru veittar heimildir til 6.763 íbúða en 1987 -- 1989 var fjöldi lánveitinga rúmar 4.000 til 4.800. Ljóst er því að áhrif 1986-kerfisins koma fram í hærri fjárhæðum á hvert lán á kostnað færri lánveitinga og þar með lengri biðraða.
    Í þessu minnisblaði Fjárlaga- og hagsýslustofnunar kemur líka fram miklu meiri fjárþörf en grg. með frv. gerði ráð fyrir þótt gengið sé í báðum tilfellum út frá sama íbúðafjölda á ári. Forsendur frv. um að fjöldi þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn væri helmingur umsækjenda brugðust einnig. Af 20.000 umsækjendum 1986 -- 1989 voru rúmlega 11.000 í forgangshóp en um 8.600 í víkjandi hóp. Einnig eru í þessu minnisblaði sýndir útreikningar miðað við að byggingarsjóður láni út fjóra milljarða árlega í tíu ár á jafngreiðslukjörum miðað við að vextir af þeim lánum séu 3,5%, en byggingarsjóðurinn endurgreiði sín lán með 5% vöxtum. Í þessu dæmi er gengið út frá fjórum milljörðum í útlán sem er svipuð fjárhæð og frv. gerði ráð fyrir með því að fresta hluta af fjárveitingum til þeirra sem áttu íbúð fyrir. Engu að síður kemur í þessu minnisblaði Fjárlaga- og hagsýslustofnunar fram verulega meiri fjárvöntun og þörf á ríkisframlagi en frv. gerði ráð fyrir. Frv. byggði á vaxtamismun sem væri 2,25% og ríkisframlagið þyrfti að vera 1 milljarður kr. En þó minnisblaðið byggi einungis á 1,5% vaxtamun inn- og útlána kemur þar fram að ríkisframlag þarf að fara hraðvaxandi. Árið 1990

er gert ráð fyrir rúmlega 1,5 milljörðum í ríkisframlag á verðlagi 1986 sem má gera ráð fyrir að séu um 3 milljarðar króna á verðlagi yfirstandandi árs.
    Frv. fór í gegnum Alþingi á fimm dögum og ekki gafst mikið svigrúm til að skoða ýmsa útreikninga. Því hefði verið nauðsynlegt að mínu mati að slíkt gagn, sem fyrir lá í Fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem og aðrir útreikningar sem lágu fyrir hjá nefndinni sem hafði frv. til skoðunar, hefðu fylgt með í grg. frv. eða a.m.k. komið hér fyrir hv. Alþingi.
    Ljóst er að þeir útreikningar sem lágu fyrir nefndinni sem og það gagn sem ég hef vitnað til frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun er mun nær því að sýna raunveruleikann í þessu máli og er miklu nær þeim niðurstöðum sem fram komu í sumar í úttekt sem ég lét gera og í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar frá því í haust sem sýndi fram á gjaldþrot byggingarsjóðanna.
    Staðreyndin er sú að það var lofað meiru en hægt var að standa við án þess að horfst væri raunsætt í augu við staðreyndir málsins. Því er haldið fram, m.a. af hv. þm. Geir Haarde, að ég hafi ekki fallist á neina vaxtahækkun til dagsins í dag. Ég vil segja um það efni að vaxtamismunur var, þegar kerfið fór af stað 1986, 2,5 -- 3% en er í dag 1,5 -- 2%. Ástæða þess að vextir voru ekki hækkaðir fyrr en á síðasta ári var sú að ég taldi rétt að koma á kerfi, m.a. vaxtabótakerfi, áður en vextir yrðu hækkaðir til að hlífa fólki með lágar tekjur við aukinni greiðslubyrði.
    Staðreyndin er einnig sú að sá milljarður sem gengið var út frá að dygði í ríkisframlag til þess að þetta kerfi gengi upp hefur ekki reynst nægilegur. Þegar hafa verið veittir í ríkisframlag frá árinu 1986, fyrir utan niðurgreiðslur í skattakerfinu, um 3,5 milljarðar kr. og útreikningar sýna að það þarf ríkisframlög upp á 7 milljarða til viðbótar næstu tíu árin þó kerfinu yrði lokað. Útreikningar sýna einnig mjög miklar lántökur frá lífeyrissjóðunum, eins og ég sagði, ef þessu kerfi verður haldið áfram.
    Ég er sammála hv. þm. Geir H. Haarde að það á ekki að ausa milljörðum og aftur milljörðum í þetta kerfi frá 1986 sem ekki gengur upp. Og af því að hv. þm. vitnaði í biðröðina þá bíða núna 5.500 umsækjendur og vaxtahækkun núna, sem þingmaðurinn vitnaði til, mundi ekki leysa það að þetta fólk fengi afgreiðslu á sínum umsóknum í lánakerfinu frá 1986. Ég hef líka bent á það að þó við settum tvo milljarða í ríkisframlög, sem gengju þá beint í útlán en ekki til þess að mæta rekstrarhalla, mundu þeir einungis duga til þess að afgreiða 800 af þessum 5.500 umsækjendum.
    Ég minni líka á það að minni ríkisframlög en gert var ráð fyrir hafa ekki bitnað á íbúðarkaupendum vegna þess að aukning á heildarlánum í Húsnæðisstofnun ríkisins hefur orðið um 54% að raungildi frá 1986, eða úr 7.800 millj. í 12 milljarða á sambærilegu verðlagi.
    Hv. þm. fór hér nokkrum orðum um Byggingarsjóð verkamanna. Ég tel að á þessu kjörtímabili hafi mikið áunnist að því er varðar uppbyggingu á félagslegum íbúðum og var þar full nauðsyn á. Það lætur nærri að félagslegar íbúðir hér á landi séu einungis um 7 -- 8% af heildarfjölda íbúða, eða um 6.500 íbúðir. Núna á þessu ári, vegna næsta árs, hafa Húsnæðisstofnun borist liðlega 1.500 umsóknir. En það er áætlað að umsóknir um félagslegt húsnæði á landinu öllu á yfirstandandi ári séu alla vega um 2.000 fleiri en umsóknir sveitarfélaga og félagasamtaka um lán og því er áætlað að 2.500 til 3.000 fjölskyldur séu nú á biðlista eftir félagslegu húsnæði.
    Varðandi vaxtamismun í því kerfi, af því að hv. þm. heldur því fram aftur og aftur að það hvernig komið sé fyrir þessum byggingarsjóðum sé aðgerðarleysi núverandi félmrh. að kenna, þá vil ég minna hv. þm. á að það var samþykkt ný löggjöf um félagslega húsnæðiskerfið sl. vor sem einmitt kveður á um að það megi endurskoða vexti hjá þeim sem hafa verið í félagslegri íbúð í sex ár. Á næsta ári munu koma til endurskoðunar vextir hjá fólki sem fékk félagslega íbúð á árinu 1984, þannig að hjá um 300 -- 400 af þeim sem fengu félagslega íbúð 1984 munu vextir af þessum íbúðum koma til endurskoðunar þegar á næsta ári, og sá fjöldi mun síðan fara vaxandi. Það er heimild í þessum lögum að hækka vexti hjá þessu fólki upp í allt að 4,5% ef það fer yfir tekjumörkin.
    Það sem mér fannst liggja í orðum hv. þm., og reyndar fleiri sjálfstæðismanna þegar þeir tala um félagslega kerfið, að það sé verið að koma á einhverri leiguliðastefnu með því að efla félagslega íbúðakerfið, er auðvitað alrangt. Ég minni t.d. á kaupleigukerfið sem er eignarform í félagslega íbúðakerfinu. Þar er láglaunafólki gert kleift að eignast íbúð á viðráðanlegum kjörum með 15 -- 20 þús. kr. greiðslu á mánuði en vera ekki ofurselt okurleigu á almenna markaðinum þar sem það þarf að greiða 35 -- 50 þús. kr. í mánaðarleigu. Hér er bara um að ræða annað eignarform og raunverulega leið til þess að viðhalda sjálfseignarstefnunni sem íhaldið talar ávallt fyrir. Ég hef sýnt fram á hve mikil þörf er á þessum félagslegu íbúðum og mun auðvitað áfram leggja áherslu á uppbyggingu á þeim.
    Hvað á að gera við þessa 5.500 umsækjendur sem nú bíða? 8.000 nefndi hv. þm. Það eru 5.500 sem ekki hafa fengið lánsloforð, hinir hafa fengið lánsloforð og við skuldbindingar gagnvart þeim verður staðið. Er þessum 5.500 umsækjendum vísað út á kaldan klakann? Svar mitt við því er nei. Það hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana til þess að tryggja hag þeirra. Þessum umsækjendum stendur öllum til boða að fara yfir í húsbréfakerfið þrátt fyrir að þeir hafa fest kaup á eða hafið byggingu íbúðar. Ég tel að allir útreikningar sýni fram á að húsbréfakerfið geti leyst lánakerfið frá 1986 fyllilega af hólmi. Hagur íbúðakaupenda er í flestum tilvikum jafngóður eða betri í húsbréfakerfinu ef tekið er tillit til íbúðakaupa í heild svo og vaxtabóta.
    Ef þær hugmyndir verða að veruleika sem nú eru á döfinni og liggja fyrir þingflokkunum, um breytingu á húsbréfakerfinu þannig að íbúðakaupendur sem kaupa minni íbúðir, á bilinu 5 -- 6 millj., fái hærra lánshlutfall í húsbréfakerfinu, minnkar greiðslubyrði íbúðakaupenda verulega. Jafnframt felst í því frv., sem væntanlega verður lagt fljótlega fyrir þingið, að íbúðaeigendum í greiðsluerfiðleikum verði veittur tímabundinn aðgangur að húsbréfakerfinu. Þeim verður með þeim hætti gefinn kostur á að fá húsbréf til að greiða upp skuldir sínar og endurfjármagna þannig íbúðakaup sín en með því er talið að unnt verði að koma í veg fyrir gjaldþrot fjölmargra fjölskyldna. Staðreyndin er sú að stór hópur fólks er með meðalskuldir upp á 3,5 millj. kr., þar af skammtímaskuldir upp á nærri 1,5 millj., sem það ræður ekki við. Mánaðarleg greiðslubyrði hjá þessu fólki er 100 þús. kr. á mánuði og ef allar skammtímaskuldir þess væru greiddar upp með húsbréfum, eins og ráð er fyrir gert í þessu frv., þá verður greiðslubyrðin um eða undir 30 þús. kr. á mánuði í staðinn fyrir 100 þús. kr. Þannig að ég vísa því á bug að þessir 5.500 umsækjendur séu settir þarna út á kaldan klakann.
    Ég vil líka minna á það að nokkur hundruð umsækjendur sem bíða í lánakerfinu frá 1986 hafa farið inn í húsbréfakerfið. Útreikningar sýna að greiðslubyrði þeirra hefur verið um 40 -- 60% af tekjum þó þeir hafi fengið lán úr 1986 - kerfinu. En ef þeir fara inn í húsbréfakerfið þá lækkar greiðslubyrðin niður í 15%.
Því er auðséð að lánakerfið frá 1986 hefði ekki leyst vanda þessa fólks þar sem fljótlega hefði stór hluti þeirra lent í greiðsluerfiðleikum aftur.
    Ég vil koma inn á það sem hv. þm. vék að hér, til hvaða aðgerða á að grípa vegna vanda byggingarsjóðanna og ásakana hans á mig að ég hafi ekki viljað grípa til vaxtahækkana.
    Í fyrsta lagi hef ég margsinnis lýst því yfir, m.a. hér á Alþingi, að ég telji ekki neina skynsemi í öðru en að loka lánakerfinu frá 1986. Og ég tel nauðsynlegt að Alþingi fái tækifæri til þess að taka afstöðu til þess hvort það vill halda þessu lánakerfi áfram eða loka því. Þeir sem vilja halda þessu lánakerfi áfram verða þá að sýna fram á hvernig það er hægt. Það er ekki eingöngu hægt með því að hækka vexti, hv. þm. Það verða einnig að koma til stóraukin ríkisframlög. Er Sjálfstfl. tilbúinn til að standa að því? Það er nefnilega svo undarlegt að Sjálfstfl. upplýsir aldrei hver er hans stefna í húsnæðismálum. Hann talar stöðugt um sjálfseignarstefnu, en hvernig sjálfseignarstefnu vill hann viðhalda? Vill hann viðhalda þessu kerfi frá 1986? Berst hann fyrir því? Eða styður hann að hér taki við húsbréfakerfi? Ég held að kjósendur Sjálfstfl. eigi heimtingu á að vita hvaða stefnu þessi flokkur hefur í húsnæðismálum. Mér er það alls ekki ljóst og ég vildi gjarnan fá það upplýst hér við umræðuna. Það mundi skýra margt ef það kemur í ljós að Sjálfstfl. vill viðhalda kerfinu frá 1986.
    Til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda verður að gera annað tveggja, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, það verður að koma til vaxtahækkun eða ríkisframlag eða sambland af þessum tveimur liðum.
Mat sérfræðinga sem unnu að úttekt á 86 - kerfinu var að vextir þyrftu að hækka í 5,5% frá 1. júlí 1984 ef

lánakerfið frá 1986 á að starfa óbreytt og 5% ef lánakerfinu væri lokað. Ályktun flokksþings Alþfl. var að nú þegar þurfi að taka ákvörðun um lokun lánakerfisins frá 1986. Þrátt fyrir lokun yrði að koma til ríkisframlög og/eða vaxtahækkun. Jafnframt ályktaði flokksþingið að við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu vegna þjóðarsáttar um kjaramál væri ekki unnt að leggja til að vextir í almenna húsnæðislánakerfinu hækki að svo stöddu en vextir verði endurskoðaðir að loknu tímabili núgildandi þjóðarsáttar.
    Ég tel að hækkun vaxta gangi þvert á kjarasamninga. Hækkun vaxta t.d. um 1% mundi þýða verulega aukna greiðslubyrði fólks. Ef vextir lántakenda eru hækkaðir úr 3,5 í 5% eykst greiðslubyrði þeirra sem fengið hafa hámarksnýbyggingarlán úr Byggingarsjóði ríkisins um 51 þús. kr. á ári. Sú hækkun er tvöföld launahækkun launþega sem hefur um 80 þús. kr. mánaðarlaun á fyrsta ári þjóðarsáttarinnar. Og ef vextir yrðu hækkaðir í 5,5% hækkar greiðslubyrðin um 68 þús. kr. á ári. Augljóst er því að með vaxtahækkun á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins mundi vera tekinn aftur verulegur hluti launahækkunarinnar samkvæmt kjarasamningum hjá mörgum lántakenda. Því tel ég að jafnframt því að loka lánakerfinu frá 1986 strax þurfi ríkisframlag að koma til til að snúa við þeirri þróun sem við blasir um gjaldþrot Byggingarsjóðsins ef ekki næst samstaða um vaxtahækkun að loknu tímabili kjarasamninga á næsta ári.
    Við heyrum viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar nú við þeirri vaxtahækkun sem boðuð hefur verið hjá Íslandsbanka og ég er alveg sannfærð um það að verkalýðshreyfingin mundi á þessum tíma mótmæla mjög harkalega ef farið væri út í vaxtahækkun, 1% vaxtahækkun eða 1,5%, nú á þessum tíma þar sem þrengt hefur verið verulega að fólki í kjarasamningum og launahækkunum. Og eins og ég hef sýnt fram á mundi slík hækkun gera mikið meira en að taka til baka þá litlu launahækkun sem þetta fólk fær á einu ári.
    Hv. þm. Geir Haarde segir að ég hafi ekkert viljað gera að því er varðar vaxtahækkanir. Ég hef sýnt fram á að vaxtamismunur nú er 1,5 -- 2% en var þegar 86 - kerfið fór af stað 2,5 -- 3%. Ég minni á þá erfiðleika sem þurfti að ganga í gegnum hér á sl. ári þegar ég lagði til þessa 1% hækkun á lánum. Sumir vildu láta þessa hækkun ná til 1. júlí 1984 og hafa þá vaxtaprósentuna lægri. Ég man að Borgfl. nefndi 3,8 -- 3,9%. Staðreyndin er sú að slík hækkun upp á 3,8 eða 3,9% hefði ekki bætt neitt betur stöðu byggingarsjóðanna en sú hækkun upp í 4,5% sem var ákveðin frá desember sl.
    Einnig lá það fyrir, sem ég tel ástæðu til þess að rifja upp, að ríkisstjórnin hafði ákveðið að vextir af teknum lánum mundu ekki hækka þegar vaxtahækkunin kom til framkvæmda í byrjun desember sl. Fyrir lá, að mig minnir frá því í maí 1989, álit meiri hl. fjh.- og viðskn. um það að vextir yrðu að hámarki 4,5% í 86 - kerfinu og mundu ekki ná til þegar tekinna lána. Ég man að það var af sumum hér í þessum þingsal kölluð svívirðileg ákvörðun að hækka vexti á

þeim tíma. Ég vísa því auðvitað á bug að ekkert hafi verið gert í því máli. Þar fyrir utan hefur verið komið á húsbréfakerfi sem er með 5,75% vöxtum þannig að þetta tvennt hefur þó komið til þegar verið er að ræða um það að ég hafi heykst á því gegnum þau þrjú ár sem ég hef verið í stól félmrh. að gera nokkuð í því að taka á vanda byggingarsjóðanna. ( FrS: Hafa vextir á húsbréfum ekkert með þjóðarsáttina að gera?) Vextir á húsbréfunum, 5,75%, komu til áður.
    Ég vil einnig nefna vaxtabótakerfið sem ég tel að sé mikið jöfnunartæki og sem ég taldi nauðsynlegt að yrði komið á áður en vextir yrðu hækkaðir í almenna lánakerfinu. ( FrS: Veit hæstv. ráðherra ekki hvaða vextir eru á húsbréfunum?) Fastir vextir á fasteignaveðbréfum eru 5,75%. Ég er að tala um fasta vexti af því sem fólk þarf að borga sem skrifar upp á fasteignaveðbréf og skiptir því fyrir húsbréf. ( FrS: 7% vextir.) Og ég vil vísa hér í vaxtabótakerfið sem ég taldi nauðsynlegt að kæmi til áður en vextir yrðu hækkaðir. Allir útreikningar sýna að raunvextir hjá fólki með lágar og meðaltekjur eru að jafnaði 2 -- 3% í húsbréfakerfinu vegna þess að fólk þarf að taka þar mun minna af skammtímalánum en áður. Útreikningar t.d. fjmrn. sýna að um 10.400 hjón fengu vaxtabætur á yfirstandandi ári. Meðalmánaðartekjur þeirra voru um 180 þús. kr. og meðaleign um 3,5 millj. kr.
    Gagnrýnendur húsbréfakerfisins hafa oft sagt að það kerfi þjóni best þörfum hinna tekjuhærri og eignameiri. Þetta er rangt. Þær tölur sem ég vitna hér til sanna, svo að ekki verður um villst, að svo er ekki. Aðstoð hins opinbera fer beint til þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda. Um 2 / 3 þessara 10.400 hjóna sem fengu vaxtabætur eiga skuldlausa eign undir 4 millj. kr., eða um 7000 manns, en rúmlega 3000 áttu eignir yfir 4 millj.
     Varðandi einstæða foreldra þá eru um 1500 einstæðir foreldrar sem hafa fengið vaxtabætur á árinu og um 700 hafa fengið húsnæðisbætur. Meðaleign þeirra sem fengu vaxtabætur er undir 2 millj. kr. og meðalmánaðartekjur um 85 þús. kr. Um 2 / 3 þessara einstæðu foreldra voru með að meðaltali skuldlausa eign upp á tæplega 1 millj. kr. Svipuð hlutföll eru uppi á teningnum varðandi einhleypa. Þegar þetta er skoðað í heild, að um 15 þús. einstaklingar og hjón hafa fengið vaxtabætur, kemur í ljós að af þessum 15.700 einstaklingum, einstæðum foreldrum og hjónum, eru um 2 / 3 eða 10.459 í hópi þeirra sem teljast til lágtekjufólks eða fólks með meðaltekjur.
    Ég held líka, hv. þm., af því að það er alltaf vísað hér í þessum ræðustól af hv. þm. til aðgerðarleysis núv. félmrh., að reynslan af húsbréfakerfinu sýni að það geti vel leyst af hólmi 86 - kerfið. Það var áætlað af sérfræðingum þegar húsbréfakerfinu var komið á að líkleg útgáfa á húsbréfum yrði um 8 milljarðar á ári. Eftir fyrstu tíu mánuðina er reynslan sú að greiðslumat hefur verið gert hjá um 4000 umsækjendum en húsbréfaskipti hafa orðið hjá um 1100, eða rúmlega 25%, og húsbréfaskipti hafa farið fram fyrir um 4 milljarða kr. á tíu mánuðum en áætlað var á heilu ári um 8 milljarðar. Og reynslan sýnir einnig að um 40%

af útgefnum húsbréfum hefur gengið í önnur íbúðakaup eða sparnað og ekki komið fram á fjármagnsmarkaði. Stór hluti af því sem þá stendur eftir er notaður til greiðslu skammtímaskulda og lána frá lífeyrissjóðunum.
    Ég vildi draga þetta fram hér, virðulegi forseti, í lokin. Ég tel að þegar verið er að ræða um að húsbréfakerfið muni verða viðbót við það sem fer til húsnæðislána, þá sé það alrangt. Reynslan sýnir að ef lánakerfinu frá 1986 verður lokað, og úttekt hefur farið fram sem sýnir það, þá verða lántökur Húsnæðisstofnunar ríkisins hjá lífeyrissjóðunum um 14 milljörðum kr. minni á ári en ella til aldamóta. Áætlað er að með tilkomu húsbréfakerfisins verði lántökur íbúðakaupenda hjá bönkum, lífeyrissjóðum og með handhafaskuldabréfum um 4,5 milljörðum kr. lægri en ella. Og einnig er áætlað að ráðstöfunarfé banka og lífeyrissjóða muni aukast samtals um allt að 18 milljarða kr. á ári með lokun lánakerfis-ins frá 1986 og með tilkomu húsbréfakerfisins.
    Það sýnir sig sem sagt, og vil ég segja það hér í lokin, að 14 milljörðum minna þarf á ári næstu tíu árin í lántökur hjá lífeyrissjóðunum, sem fer þá allt út á markað, sem er hærri tala en áætluð heildarútgáfa húsbréfa á ári. Og þar til viðbótar þurfa íbúðarkaupendur um 4 -- 5 milljörðum minna að láni hjá bönkum og lífeyrissjóðum.
    Ég held, virðulegi forseti, að þetta sýni einnig að ég hef ekki heykst á að taka á vandanum, eins og hv. þm. sagði aftur og aftur hér í ræðustól. Það hefur þvert á móti verið tekið mjög raunhæft á þeim vanda sem við blasti að lá fyrir, að þetta kerfi frá 1986 mundi ekki ganga upp þó að það yrði mokað í það milljörðum og aftur milljörðum. Það sýnir þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar. ( FrS: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?) Ég hef lýst því, hv. þm., hvað ég tel nauðsynlegt að gert verði í þessu máli. ( FrS: Hvað er það? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?) Ég hef lýst því hér í mínu máli hvað ég tel nauðsynlegt að gert verði í þessu máli. Ég hef líka lýst því hér úr þessum ræðustól að ég er ósammála því sem fram kemur í fjárlögum um stöðu byggingarsjóðanna. ( FrS: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?) Það skal hv. þm. spyrja hæstv. forsrh. um. Ég lýsti því hvað ég tel að þurfi að gera í þessu máli. Þau mál eru til athugunar enn í ríkisstjórninni. Forsrh. verður þá að svara fyrir sig en það liggur ljóst fyrir hvað ég vil gera í þessu máli og það hefur alla tíð legið fyrir.