Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það er þörf umræða sem er tekin hér upp um húsnæðismál. Það er þörf umræða vegna þess að húsnæðismálin og lánamál húsbyggjenda og kaupenda brenna á fjölmörgum fjölskyldum. Það er þörf umræða vegna þess að húsnæðismálin eru með þeim hætti í dag að þau hafa aldrei verið jafntorskilin og óaðgengileg fyrir almenning.
    Hæstv. félmrh. auglýsti eftir stefnu Sjálfstfl. í húsnæðismálum. Hæstv. félmrh. skilur auðvitað ekki að Sjálfstfl. hefur stefnu. Hún er miklu einfaldari en það sem hæstv. félmrh. hefur framkvæmt með því lagaverki sem hún hefur lagt hér fram á Alþingi og breytt lögum um Húnæðisstofnun ríkisins í þá veru að verða frumskógur og frumskógur með þeim hætti að hann er nær ófær venjulegu fólki.
    Hæstv. félmrh. hefur hins vegar ekki svarað því hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessu máli. Hæstv. félmrh. vísaði því til hæstv. forsrh.,
sem er fjarstaddur eins og er, hver stefna ríkisstjórnarinnar væri. Stefna ríkisstjórnarinnar er ekki nein. Hún hefur ekki fundist. Þó að félmrh. hafi frómar óskir og hafi látið þær koma fram hér, þá er það ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Það hefur hvergi komið fram að ríkisstjórnin hafi stefnu í húsnæðismálum.
    Það er sorglegt til þess að vita að með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á húsnæðiskerfinu hafa verið hafðir fjármunir af fjölda fólks sem berst nú í bökkum. Það er með þeim hætti, hæstv. félmrh., að með breytingu á húsnæðisbótum, vaxtabótum, eignarsköttum --- allt er þetta tengt sama málinu --- þá er svo komið að greiðslubyrði húseigenda og húsbyggjenda er einhver sú hæsta sem um getur í heiminum.
    Hæstv. félmrh. gaf tóninn í húsnæðismálunum þegar hún dró 100 millj. út úr Byggingarsjóði ríkisins með aukafjárlögum 1989. Það var eini liðurinn sem hún sá ástæðu til þess að minnka í félmrn. þegar svokallað blekkingarfrv. ríkisstjórnarinnar um sparnað í ríkisrekstri var lagt hér fram haustið 1989. Því hefur ekki verið svarað, hæstv. félmrh., af hverju þurfti að taka það úr Byggingarsjóði ríkisins. Því hefur heldur ekki verið svarað, en það þyrftu að koma svör við því, af hverju framlög til venjulegra íbúðarbygginga hafi verið stórlækkuð miðað við aukninguna sem hefur farið til félagslegra íbúða. Hlutfallið þar á milli hefur breyst töluvert mikið og virðist nú 1991 vera komið í það horf að nálgist það sem fer til byggingarlána úr Byggingarsjóði ríkisins. Svo er komið samkvæmt því sem ég hef hér undir höndum og var birt í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Það er 4589 millj. sem fara til hins almenna kerfis og 3509 millj. til félagsmálakerfisins. Svo lítið hefur ekki farið í þennan málaflokk, þ.e. til Byggingarsjóðs ríkisins, lengi. Það er háskaleg stefna ef á að gera hlutina með þeim hætti sem hæstv. félmrh. hefur stefnt þessum málum í, að reyna að beina öllum í félagslegt íbúðarhúsnæði, frá sjálfseignarstefnunni, með breytingum á skattalögum, með auknum eignarsköttum, með breytingum á lánskjörum og bið eftir lánum. Allt hefur þetta áhrif. Það

er ekki hægt að tala um húsnæðismál og lán til húsnæðismála án þess að taka með alla þá liði sem tilheyra þessum málaflokki.
    Samþykkt hefur verið að koma á laggirnar svokölluðu búsetakerfi. Þar kemur fram að það sé eins hagstætt að búa í búsetaíbúð eins og að kaupa eigin íbúð og þá ekki teknir með þeir skattar sem falla á venjulegt fólk sem á sínar eigin íbúðir. Og nú vil ég spyrja hæstv. félmrh: Þarf búseti að borga eignarskatta? Ég held að það væri fróðlegt að fá þeirri spurningu svarað hér og það væri fróðlegt að vita hvort þeir sem búa í slíkum íbúðum hafa sambærileg kjör og fólkið sem á sínar eigin íbúðir. Það hlýtur að vera krafa að ekki sé verið að mismuna fólki í þessum efnum.
    Það er líka sagt frá því í 1. tbl. Búseta 1990 að á döfinni séu lög um húsaleigubætur. Og væri fróðlegt að fá upplýst í þessari umræðu um hvað er að ræða því það er alveg greinilegt að með þessari húsaleigulöggjöf er verið að minnka tekjur. Dregið er úr tekjum þeirra sem eru með meðaltekjur og þar fyrir ofan með þessari löggjöf og ýmiss konar tilfærslum á fjármunum þannig að í raun endar það þannig að þeir sem hafa hærri tekjur enda sem lágtekjumenn þegar þeir eru búnir að borga allar þær aukaálögur og skatta sem lagt eru á þá. Þetta er grundvallaratriði sem verkalýðshreyfingin hlýtur að standa frammi fyrir, það er ekki nóg að taxtar séu misháir og eigi að gefa mynd af menntun og ábyrgð, eins og það heitir á máli verkalýðssinna, ef ríkisvaldið tekur þennan mismun í burtu frá fólkinu með mismunun í skattalöggjöf, eins og nú er verið að gera hér á Alþingi.
    Það er verið að hæla sér af því að fólk geti verið í kaupleiguhúsnæði fyrir 15 -- 20 þús. á mánuði á sama tíma sem fólk í eigin húsnæði verður að vinna fyrir 20 þús. kr. tekjum á mánuði til þess að geta staðið skil á þeim sköttum sem opinberir aðilar leggja á það. Það er ekki rétt stefna í húsnæðismálum ef svo er. Og það er ekki óeðlilegt að húsaleiga á almennum markaði sé há þegar haft er í huga að á sama tíma og þeir sem eiga skuldlaust íbúðarhúsnæði og þurfa að leigja það út, þurfa að greiða í skatta það háar upphæðir að til að ná jafnstöðu við ríkisskuldabréf í fjárfestingum þá þurfa þeir að hafa leiguna svo háa. Þess vegna er húsaleigan miklu hærri en annars yrði.
    Þó að við séum að tala um að vextir af húsnæðislánum séu raunvextir, sem er auðvitað rétt stefna, þá verður að koma til móts við það fólk sem er með há húsnæðislán með vaxtafrádrætti. Og það má ekki mismuna því með þessum hætti eins og núv. ríkisstjórn hefur gert.
    Í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og fleiri löndum eru vextir frádráttarbærir til skatts. Og þar er ekki jafnflókið kerfi og hér og ekki jafnóréttlátt. Þessi mál eru með þeim hætti að með núverandi eignarsköttum eru þeir látnir borga sem hafa viljað halda vel á sínum fjármunum, spara, fara vel með, þeim er í hvert einasta skipti hegnt fyrir það. Í vaxtabótunum kemur það fram að þú mátt ekki hafa nema ákveðnar tekjur. Þá er þér hegnt fyrir það, þá færðu engar vaxtabætur. Ef þú átt eitthvað og hefur ætlað að spara og fara vel

með fé og eiga eitthvert fjármagn til að leggja í íbúðina, þá er þér líka hegnt fyrir það því að þú mátt ekki eiga nema lágmark til að njóta þessara vaxtabóta. Þetta eru grundvallaratriði í íslenskum stjórnmálum og það hlýtur að vera krafa um það að allt fólk í landinu standi jafnfætis hvað þetta varðar.
    Það er sorglegt hvernig er búið að fara með þá löggjöf sem hv. 1. þm. Vesturl. kom hér á laggirnar ásamt fleirum. Það er sorglegt til þess að vita. Hún var þó þannig gerð að hún mismunaði ekki fólki. Þar voru menn ekki dregnir í dilka eftir því hvort þeir voru einhleypir eða með tvö eða þrjú börn o.s.frv. Þar fór rétt röð fram og þar fengu menn lán á réttu róli. Og í öllum löndum er það þannig að þegar um húsnæðislán er að ræða er einungis litið á greiðslugetu. Það hefur ekki verið gert hér því að það er meginstefna núv. hæstv. félmrh. að þess minni möguleikar sem eru til þess að menn standi skil á lánunum, þess framar fara þeir í flokkinn til þess að fá lánin. Þetta er röng stefna. Það er röng stefna í þessum húsnæðismálum á allan hátt. Þó er einn jákvæður hlutur. Það eru húsbréfin sem hæstv. félmrh. fékk nú hugmynd að úr frv. Borgfl. sem hæstv. umhvrh. Júlíus Sólnes flutti á sinni tíð um húsnæðismál. Hún fékk lánaðan hluta úr því frv., sem eru húsbréfin, sem er til bóta.
    En það verður að taka þessi mál gagngert til endurskoðunar með þeim hætti að hver einast maður viti hvar hann stendur og hann þurfi ekki að eyða dögum og vikum í það að bíða eftir svörum og lánsloforðum frá misvel reknum opinberum stofnunum. Það er kominn tími til þess að ríkisstjórn Íslands segi okkur hver er stefnan í þessum málum. Það er kominn tími til þess að mönnum verði ekki mismunað með alla vega mismunandi lögum um alla vega mismunandi kerfi eftir því hvernig veðrið stendur hverju sinni á þeim bæ sem heitir stjórnarheimili.
    Nú vil ég beina því til hæstv. félmrh. að húsbréfin eru ekki með vexti upp á 5,75%. Þeir eru miklu hærri vegna þess að hæstv. félmrh. hefur ekki sagt okkur hvað þau verða með afföllum. Hún hefur haldið því fram að það væri langtum hagstæðara að taka lán samkvæmt húsbréfum. Ég hef hins vegar séð aðra útreikninga um að það er nú ekki alveg svo.
    Það hef ég séð hér, og ég vísa til, með leyfi forseta, útreikninga sem hafa komið frá Búseta þar sem er sýnt fram á það að árleg greiðslubyrði er hærri í húsbréfakerfinu en í almenna lánakerfinu. Það er hærri greiðslubyrði. Þegar við erum að tala um lán upp á 4 millj. 494 þús. úr almenna lánakerfinu, þá er mánaðarleg greiðslubyrði 20.617 kr. en af lægra láni, upp á 4 millj. 225 þús., í húsbréfakerfinu er mánaðarleg greiðslubyrði 26.758 kr. Þar munar 6000 kr. Það er því alveg ljóst að það er ekki rétt sem hæstv. félmrh. er að halda fram. Greiðslubyrði í húsbréfakerfinu er hærri. Hins vegar er lægri greiðslubyrði af ýmsum öðrum þáttum en ég ætla ekki að koma inn á það.
Ég hef séð það reiknað á fleiri stöðum, að það er hærri greiðslubyrði, þegar allt er reiknað með, af húsbréfunum en af almenna lánakerfinu eins og það er í dag. Fram hjá þessu verður ekki gengið. Og ef hæstv.

félmrh. heldur öðru fram, þá er það rangt.
    Ef við komum síðan að því hvernig þessum málum hefur verið skipað af hæstv. félmrh. er það alveg ljóst að það verður að gera algera byltingu í þessum málaflokki. Ég held að við verðum að gera það með þeim hætti að allir sitji við sama borð. Þeim sé ekki mismunað stórlega eftir ýmsum ákvæðum sem félmrh. hefur nú búið til, hvenær þeir fá lán, hvað þeir þurfa að bíða lengi. Það er ekkert réttlæti í því að mönnum sé mismunað hvað þeir þurfa að bíða lengi. Það hlýtur að vera krafa um að menn sem fá lán úr Byggingarsjóði ríkisins sitji við sama borð. Og það hlýtur að vera krafa um það að þessu kerfi verði gerbylt og að tekið verði mið af því hvernig þetta er í öðrum löndum. Það er ekki rétt að búa til einhverja vitleysu og langloku hér uppi á Íslandi og halda að það sé lausnin á öllu. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið. Það hefur þegar verið fundið upp. Í nágrannalöndunum eru til mjög góð kerfi að mínu mati sem við getum vel farið eftir. Að vísu hefur hæstv. félmrh. fengið að láni hluta af slíku kerfi en það er ekki nóg. Hæstv. félmrh. verður að hugsa um alla þegna þjóðfélagsins, alla þegna. Það má ekki mismuna fólki með þessum endalausu skattalagabreytingum sem hafa gert aðstöðu fólks þannig að það er ógerningur fyrir marga að búa í eigin húsnæði. Eignarskattar, mismunur á vaxtabótum, niðurfelling á húsnæðisbótum o.s.frv. Þetta er ekki gott.
    Það er krafa til ríkisstjórnar Íslands að hún leggi fram stefnu í þessum málum. Hæstv. félmrh. getur ekki sagt að það sem hún er að segja sé stefna ríkisstjórnarinnar, þó hún hafi óskir um eitthvað. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Það er bara óskalisti félmrh. Hæstv. forsrh. hefur valið þann kost að vera ekki við þessa umræðu svo að hann þurfi ekki að svara því hver er stefna ríkisstjórnarinnar, sem er engin. ( Gripið fram í: Bara sækja hann.) Ég mundi nú ekki vilja láta sækja hann, ég held að hann mundi ekki svara neinu því það er engin stefna hjá ríkisstjórninni. Annars sæti hæstv. forsrh. hér og hann mundi svara því hver væri stefna ríkisstjórnarinnar. Hún er engin.
( Gripið fram í: Hann er búinn að ráðstafa kvöldinu.) Það má vel vera að hæstv. forsrh. hafi ráðstafað kvöldinu, en það eru fleiri sem hafa gert það en gegna sínum þingskyldum engu að síður þegar þingið býður svo að það séu þingfundir. Ég hefði gjarnan viljað vera annars staðar en ég gegni minni þingskyldu eins og aðrir þingmenn þannig að hæstv. forsrh. hefði auðvitað getað gert að líka. En sannleikurinn er sá að það er engin stefna hjá þessari ríkisstjórn í þessu máli.