Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Staða Byggingarsjóðs ríkisins er alvarlegt vandamál sem ekki verður vikist undan að taka afstöðu til. Á byggingarsjóðunum byggist húsnæðiskerfið og þetta mál varðar því ekki einungis fjárhag ríkisins og á þann hátt allra landsmanna heldur fyrst og fremst allar þær fjölmörgu fjölskyldur sem vilja eignast og hafa á síðustu árum eignast þak yfir höfuðið. Ég hygg að fæstum blandist hugur um hver spurningin er sem við stöndum frammi fyrir nú: Hvernig á að bjarga fjárhag byggingarsjóðanna? Og ég bæti við: Hvernig má gera það án þess að það bitni mest á fjölskyldunum í landinu sem allt of margar búa við kröpp kjör? Með framlögum úr ríkissjóði kannski? Þau þurfa að vera rífleg en ekki niðurskorin eins og fjárlagafrv. segir til um. En varla er hægt að leysa allan vanda byggingarsjóðanna með þeim hætti. Með lokun almenna húsnæðislánakerfisins frá 1986? Það er væntanlega óhjákvæmilegt að það verði að gerast. Vera má einnig að óhjákvæmilegt sé að hækka vexti af lánum sem tekin eru hjá Byggingarsjóði ríkisins eftir mitt ár 1984 þegar teknir voru upp breytilegir vextir, t.d. frá næstu áramótum, til samræmis við þá vexti sem þeir þurfa að greiða sem nú taka lán úr sjóðnum. Lítum á ástandið.
    Fyrir liggur að eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins muni að óbreyttu ganga til þurrðar á næstu 15 árum. Til að standa einungis undir núverandi skuldbindingum þyrfti árlega að greiða til hans 460 millj. á núvirði í þessi 15 ár. Ef gengið yrði á eigið fé sjóðsins yrði það uppurið á skömmum tíma og varla annað að leita en í ríkissjóð.
    Ekki má gleyma sér yfir reikningsdæminu heldur verður jafnframt að svara því hvaða aðgerðir eru raunhæfar, bæði fjárhagslega og með tilliti til þeirra sem húsnæðiskerfið nota, fjölskyldnanna í landinu. Ef við skoðum fyrst samræmingu vaxta lána nú og annarra almennra húsnæðislána frá því eftir 1984, þá spyr ég fyrst og fremst: Hvernig kæmu slíkar ráðstafanir niður á því fólki sem greitt hefur tiltölulega lága vexti ef það færi að greiða hærri vexti? Er hægt að ætlast til að það axli þær byrðar?
    Tekjur fólks eru mismunandi. Það vitum við. Sumir mundu áreiðanlega geta axlað þær byrðar án þess að ganga of nærri sér. En þá verður að líta á hvort vaxtabæturnar duga til þess að gjaldþoli lágtekjufólks sé ekki ofboðið. Fyrirspurn hv. 6. þm. Reykv. Kristínar Einarsdóttur til fjmrh. á þskj. 97 um vaxtabætur og húsnæðisbætur munu væntanlega leiða í ljós svör við ýmsum af þessum spurningum.
    Það má alls ekki gleyma öðru máli sem þessu er mjög skylt. Það er launastefnan í landinu. Hvers vegna er svo mikil þörf á að greiða niður lán eða vaxtabyrði vegna jafnsjálfsagðra mannréttinda og þeirra að fólk geti útvegað sér húsnæði án þess að stefna fjárhag sínum í voða? Er það rétt stefna hjá stéttarfélögum og ríkisvaldinu í nafni kjarasamninga að vísa vandanum yfir á ríkissjóð og líta á það sem sjálfsagðan hlut að kjör fólks séu svo léleg að mörgum sé

það ofviða að komast í öruggt húsnæði? Væri ekki nær að krefjast í alvöru hærri launa í stað neyðaraðgerða í formi niðurgreiddra vaxta fyrir stóran hóp fólks sem hefur meðaltekjur? Mér er ljóst að standa verður vörð um þær vaxtabætur sem fólki standa nú til boða ef endar eiga að ná saman hjá fjölskyldum og gæta þess að afkomu þeirra verði ekki stefnt í voða enn einu sinni, t.d. með því að skerða bætur eða taka þær af á meðan ekki eru greidd hærri laun í landinu en reyndin er.
    Við kvennalistakonur höfum margoft vakið máls á því hve áherslur í kjaramálum eru rangar. Það sýnir sig best þegar verið er að ræða að það þurfi á aðgerðum að halda eins og vaxtabótum í stað launastefnu sem tryggi öllum sómasamleg laun fyrir dagvinnu. Ég held því að það væri tímabært að snúa sér að þeim vanda sem brýnast er að leysa, að smánarlaun eru greidd í landinu. Væri ekki nær að ríkið gengi á undan með góðu fordæmi og greiddi starfsfólki sínu mannsæmandi laun fyrir vinnu sína svo að það gæti borgað fulla vexti í stað þess að vera með tilfærslur og leiðréttingar í gegnum húsnæðiskerfið, og reyndar fleiri kerfi, tilfærslur sem alltaf er hætta á að reynist ekki haldbærar og geti jafnvel verið teknar af fólki? Það hefur því miður sýnt sig oft í félagsmálapökkum og samkomulagi við ríkisstjórnir að á þessu er hætta. En þangað til skynsamleg og sanngjörn launastefna kemst á í landinu verður að líta á staðreyndir dagsins í dag. Við stöndum frammi fyrir því að fjárhagur fólks, unga fólksins, sem er að koma yfir sig húsnæði og ýmissa annarra, er lélegur, launin eru býsna lág hjá mörgum.
    Það er hlutverk stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, að verja þeim fjármunum sem fara til húsnæðismála eins skynsamlega og unnt er og styðja þá sem mest þurfa á að halda með byggingu félagslegs húsnæðis til leigu eða sölu, enn fremur með því að greiða niður vexti þeirra sem hafa lágar tekjur eða meðaltekjur --- því meðaltekjur eru lágar. En það þarf að spyrja spurningarinnar hvort þurfi að greiða niður vexti fyrir þá sem hafa háar tekjur. Þó þeir séu alls ekki of margir þá eru þeir svo sannarlega til í þjóðfélaginu og launabilið í þjóðfélaginu fer sífellt vaxandi.
    Lokun húsnæðiskerfisins frá 1986 er út af fyrir sig varla nein sérstök þrautalending. Flest bendir til að aðrir kostir, svo sem húsbréfakerfið, sem á að fjármagna sig sjálft, búseturéttaríbúðir og bygging félagslegs húsnæðis á vegum ríkis og sveitarfélaga til leigu eða sölu, komi til móts við þarfir þeirra sem á annað borð er brýnast að liðsinna. Vaxtabætur eru því aðeins góður kostur fyrir fólk með meðaltekjur og lægri að hægt sé að treysta því að þær verði greiddar á sanngjarnan hátt, ekki aðeins núna heldur einnig í framtíðinni.
    Það er ekkert launungarmál að hagfræðingum ber ekki saman um hvort ástæða er til að óttast að vaxtabótakerfið standist ekki til lengri tíma eða hvort það muni standast. Því þarf að vera vel á verði ef vextir verða hækkaðir að tryggja að vaxtabætur nái tilgangi sínum og fólki verði ekki enn einu sinni vísað á kaldan klaka vegna þess að enginn hafi viðurkennt að fjármagn skorti til fleiri en örfárra ára.
    Ég hef haldið mig fyrst og fremst við þær stærstu lausnir sem rætt er um vegna vanda byggingarsjóðanna en það má að sjálfsögðu ekki líta fram hjá smærri aðgerðum. Rekstrarkostnaður húsnæðisstjórnar er að margra mati alveg óskaplega hár. Á þessu ári er búist við að hann verði a.m.k. 262 millj. kr. en heyrst hafa einnig töluvert hærri tölur í því sambandi. Kostnaðurinn hækkaði um 92% á árunum 1985 -- 1989. Ekki er með nokkru móti hægt að skrifa nema hluta þeirrar hækkunar á aukin verkefni. Ríkisendurskoðun telur líka ástæðu til þess að fram fari stjórnsýsluendurskoðun hjá stofnuninni.
    Fleira mætti tína til en ég ítreka að mér finnst meginmálið í þessari umræðu vera að gripið verði til skynsamlegra ráðstafana vegna fyrirsjáanlegs gjaldþrots byggingarsjóðanna án þess að launafólk verði enn einu sinni látið borga brúsann. Við eigum varla skárri úrræði nú en lokun kerfisins frá 1986, hækkuð framlög ríkisins og við verðum að skoða hvort vænlegt sé að samræma vexti almennra lána húsnæðiskerfisins eftir 1984. Og þá með þeim formerkjum að vaxtabótum sé deilt til þeirra sem þurfa að nýta þær og miða ekki við nauðþurftamark. En við verðum jafnframt að muna að mergurinn málsins er sú smán að hér á landi ríkir láglaunastefna. Við þurfum að spyrja gagnrýninna spurninga um hvernig málum verði best fyrir komið í framtíðinni, en ekki að líta framhjá því að launamálin tengjast húsnæðismálunum beint og það þótt við séum nú að fjalla um bráðavanda sem leysar þarf.