Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að koma hér inn í þessar umræður. Þó skal ég lofa því að hafa ekki hér langt mál. Það er ekki ástæða til þess í þessari stöðu. Sjálfsagt verða húsnæðismálin rædd nánar síðar á þinginu, bæði að því er varðar fjárlög og eins lánsfjárlög. Þá gefst tækifæri til þess að ræða þau af meira samhengi.
    Ég vil þó rifja það upp, sem virðist vera fjarlægt hjá sumum aðilum, að það húsnæðiskerfi sem við erum að tala um frá 1986 var sett á eftir samkomulag aðila vinnumarkaðarins hér á landi. Þá voru lífeyrissjóðirnir tengdir húsnæðiskerfinu með sérstökum hætti, sem öllum hv. alþm. á að vera kunnugt, sem gerði það að verkum að stóraukið fjármagn var sett inn í húsnæðismálin. Lán sem tekin voru áður, t.d. fyrir 1983, voru aðeins 13 -- 17% af kostnaðarverði íbúðar. Þau hækkuðu skyndilega upp í 70% og menn fengu greiðan aðgang að húsnæðiskerfi gegnum lífeyrisrétt sinn. Þarf ég ekki að ræða nánar um það.
    Ég vil undirstrika það vegna ýmissa ummæla sem uppi eru höfð að frv. sem var lagt til grundvallar lögunum 1986 var lagt þannig fram að hvert einasta atriði sem var grundvöllur þeirra laga var skýrt í athugasemdum með frv. Og í greinargerð sem fylgdi var hvert einasta atriði tíundað, hvað lá að baki og hver greiðslubyrðin yrði og að hverju væri stefnt. Það var því alveg ljóst þegar Alþingi samþykkti þessi lög svo til samhljóða 1986 hvað þetta kostaði í öllum atriðum. Þar voru engar leynitölur á bak við. Allar forsendur þessarar lagabreytingar voru tilfærðar með frv. þannig að hver einasti aðili hér á hv. Alþingi vissi hvernig þetta var byggt upp og við hvað var miðað. Það var því einnig alveg ljóst að ef stjórnvöld, sem gerðu þennan samning við aðila vinnumarkaðarins á breiðum grunni, vildu standa við þessi lög, sem voru byggð, eins og ég sagði áður, á fjármagni lífeyrissjóðanna, þurfti að standa vörð um þetta kerfi og þá víðtæku samstöðu aðila vinnumarkaðarins sem náðist.
    Þá var einnig ljóst að ef ríkisstjórn á þessum tíma teldi ekki mögulegt að standa við bein framlög ríkissjóðs, sem var megingrunnur þeirra breytinga sem þarna voru gerðar, til Byggingarsjóðs ríkisins yrði að taka upp annan þátt þessara laga sem skýrt var í frv., þ.e. að hafa breytilega vexti til að tryggja framtíð byggingarsjóðanna. Á þetta var ljóslega bent í nefndaráliti með frv. í umræðum hér á hv. Alþingi. Ég þarf ekki að lýsa þessu nánar, en til þessa hafði ríkisstjórnin fulla heimild í lögunum frá 1986 og þurfti ekki að leita neinna lagabreytinga þar um.
    Það sem er hins vegar rétt að rifja einnig upp, af því að það er ekki komið fram fyrr í dag, að á þessum tíma lýsti Alþfl. í heilu lagi og núv. hæstv. félmrh. því yfir að fyrsta verkið sem flokkurinn mundi standa að og viðkomandi ráðherra í viðtakandi ríkisstjórn yrði að leggja þetta kerfi niður. Þetta er hægt að lesa í þingtíðindum frá þessum tíma í ræðu eftir ræðu og þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Hins vegar verður að viðurkenna, og hefði e.t.v. verið

nægjanlegt fyrir hæstv. utanrrh. hér í eldhúsdagsumræðum ekki alls fyrir löngu, að tíunda þetta sem afrek Alþfl. nr. 1, að eyðileggja húsnæðiskerfi sem aðilar vinnumarkaðarins byggðu upp á sínum valdaferli. Það er sannleikurinn. Ríkisstjórnir sem þessir aðilar stóðu að hafa báðar heykst á því að standa við samninginn við aðila vinnumarkaðarins um að verja kerfið frá 1986 á raunhæfan hátt með þeim aðgerðum sem ég áður lýsti, annaðhvort með beinu framlagi úr ríkissjóði, sem tíundað er með frv., eða hitt að taka upp breytilega vexti til að tryggja framtíð byggingarsjóðanna, þ.e. ekki aðeins Byggingarsjóðs ríkisins heldur einnig Byggingarsjóðs verkamanna.
    Þetta eru staðreyndir sem ég tel nauðsynlegt að rifja upp um leið og ég minni á þær breytingar sem hafa gengið yfir á húsnæðiskerfinu síðan þetta varð. Það er hægt að tala um kaupleiguíbúðirnar sem voru ekki aðeins settar við hliðina á verkamannabústöðum heldur einnig í almenna kerfið. Og þannig mætti lengi telja upp allt til þess að draga fjármagnið út úr almenna kerfinu sem þurfti til að styrkja það kerfi og byggja það upp.
    Síðan er hægt að minna á húsbréfakerfið sem kom hér eins og vindgustur inn í Alþingi. Það má vel vera að hv. 11. þm. Reykn. Hreggviður Jónsson hafi fundið einhvern skyldleika með því og því sem hæstv. umhvrh. flutti hér inn á Alþingi, þ.e. húsbréfakerfið, en það gleymdist að geta eins sem er náttúrlega mál málanna. Og það er í rauninni merkileg staðreynd þegar við tölum almennt um breytingar á svo viðamikilli löggjöf eins og húsnæðislöggjöfin er í raun og veru, að húsbréfakerfið fékk mikla umfjöllun og raunverulega fékk alla umræðu sem hægt er að hugsa sér um slíkt kerfi með öllu því sem þá gekk á án þess að nokkur grein væri gerð fyrir því hvað það kostaði ríkissjóð,
eða þá áhættu sem leiddi af lögunum fyrir ríkissjóð í sambandi við ríkisábyrgðina. Þessi úttekt hefur aldrei farið fram og aldrei kom neitt slíkt inn í umræðuna. Menn hlustuðu ekki á það að þetta húsbréfakerfi er allt öðruvísi upp byggt hér en í nágrannalöndunum. Það væri hægt að færa nægjanleg rök fyrir því. Það var búið að skoða þau kerfi áður, það var búið að skoða hvernig nágrannaþjóðirnar hafa byggt þau upp. Við þurfum ekki annað en fara til Noregs til þess að skoða norska húsbankann. Við getum farið hér um alla Skandinavíu og hérna í nágrannalöndunum og skoðað hvernig þeir byggja þetta upp. Það byggist ekki á ríkisábyrgð. Það byggist á hreinum veðum og útboðum sem er á allt annan hátt en í þessu kerfi.
    Því var jafnvel haldið fram hér í umræðum á Alþingi við þá sem voru að malda í móinn og vildu fara sér hægar og skoða málin betur að þetta kostaði ríkissjóð ekki neitt. Það væru aðilar úti í bæ, húseigendur eða aðrir slíkir, sem legðu til fjármagnið. Ríkissjóður gerði ekki annað en gefa út bréf og stimpla þau og bera ábyrgðina á þeim. Úttektin sem ég er að tala um hefur aldrei farið fram. Hvernig er ástandið núna í Landsbankanum? Vita menn að þar er upp undir milljarður sem selst ekki af húsbréfum? Þau eru farin að

hafa áhrif á almenn útlán bankanna. Vita menn þetta ekki? Það er ekki minnst á þetta frekar en það sé ekki til. Þetta vandamál er ekki til í okkar þjóðfélagi. Nei, nei. Það skal bara breyta þannig að húsbréfakerfið skal koma í staðinn fyrir almenna kerfið og þá verður allt í lagi. Allir geta fengið svar eftir viku eða tíu daga. Einn hringdi nú utan af landi í mig í dag og sagðist vera búinn að bíða í þrjá mánuði og svarið sem hann fékk í dag var það að hann gæti reiknað með því að þurfa að bíða a.m.k. fjórar vikur í viðbót og þá vafasamt hvort hann fengi lánið í gegnum húsbréfin.
    Nei, þetta er alvarlegt mál í raun og veru. Mér finnst það dálítið kaldhæðnislegt, ég verð að segja það alveg eins og er, að þegar fyrir liggur hvað þurfti að gera til þess að verja húsnæðiskerfið, sem aðilar vinnumarkaðarins lögðu gífurlega vinnu í og lögðu metnað sinn í það að tryggja að lífeyrissjóðir landsins fjármögnuðu þetta kerfi, þá skuli það liggja fyrir í dag að ekkert hefur verið gert til þess að tryggja framtíð þessa kerfis, ekkert, heldur bara einfalt: Við leggjum þetta kerfi niður og komum með annað í staðinn sem ekki er einu sinni ígrundað, því miður. Og margir hv. alþm. virðast láta þetta afskiptalaust. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er furðulegt að vera í þingflokki framsóknarmanna, stundum jafnvel einn á báti, þó að það séu stundum 3 -- 4 með mér, í því að rökræða þessi mál því við verðum að samþykkja þetta því að annars dettur ríkisstjórnin í sundur. Hæstv. félmrh. hefur tak á henni þannig að ef ríkisstjórnin vill ekki samþykkja þetta, þá er ég farin út. Alþingi hefur fylgst með þessu og þjóðin öll. En jafnvitlaust er það að gefa sér ekki tíma til að skoða þessi mál í rólegheitum og átta sig á stöðunni hvernig hún raunverulega er.
    Ég vil koma því að hér, meðan ég man eftir því, að meðal frv. frá ríkisstjórninni í sambandi við húsnæðismál er eitt frv. um að auka við húsbréfakerfið. Það á allt í einu að fara að hjálpa fólki út úr erfiðleikum sem áður var gert með því að taka til þess lán í lífeyrissjóðakerfinu eða fá til þess sérstakar fjárveitingar. Nú á allt í einu að fara að láta það versla um vandræðaástandið hjá sér með húsbréfum með þeim afföllum sem þar verða. Ég ætla ekki að verða til þess að stoppa þessa hugmynd en mér finnst hún svo vitlaus sem eitt getur verið. Ég hefði talið að það væri bara einfaldur þáttur í þessu máli ef stjórnvöld vilja hafa góð samskipti við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðina að fara þess á leit að lífeyrissjóðirnir láni, hvort það er 300 eða 500 millj., til þess að lagfæra stöðu fólks sem riðar til falls í sambandi við þessi mál. Á örstuttu árabili, frá 1985 þegar þáv. ríkisstjórn setti upp ráðgjafarþjónustu í húsnæðismálum, þá var það hvorki meira né minna en yfir 5 milljarða sem staða hjá þessu fólki var lagfærð. Þó ekki nema að litlu leyti með beinum framlögum úr húsnæðisstjórn heldur með því að semja við banka, sparisjóði og aðrar opinberar stofnanir til að lagfæra þessi mál. Það tókst. Þetta væri auðveldari aðferð en vera að flækja á þennan hátt.

    Af því að ég minntist á þetta þá langar mig til þess að segja frá því að í umræðunni um þessi mál í þingflokki framsóknarmanna samþykkti þingflokkurinn að senda bréf til forseta Sþ. og fara fram á það að Ríkisendurskoðun yrði falið ákveðið verkefni. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa þetta upp:
    ,,... í sambandi við húsbréfakerfið samkvæmt gildandi lögum og áform stjórnvalda um að það kerfi yfirtaki hið almenna húsnæðiskerfi, þ.e. Byggingarsjóð ríkisins.
    1. Gerð sé athugun ef hægt er á því hvort húsbréfakerfi geti tekið við allri lánastarfsemi Byggingarsjóðs ríkisins og hversu miklir fjármunir mundu verða veittir í vaxtaafslátt gegnum skattakerfið við slíka breytingu.
    2. Óskað er eftir að lagt sé mat á áhættu ríkissjóðs sem felst í ríkisábyrgð á húsbréfum, útgefnum af Húsnæðisstofnun ríkisins, í framtíðinni, gjarnan miðað við að taka 25 ára tímabilið til athugunar.
    3. Gerð sé sérstök grein fyrir mati Ríkisendurskoðunar á þeirri áhættu sem ríkissjóður tekur á sig umfram almennar reglur um ríkisábyrgðir vegna greiðsluerfiðleikalána. --- Þetta er atriði sem ég minntist á hér áðan, en þarna viljum við fá hlutlaust mat á þetta atriði.
    4. Er það rétt að veikleiki húsbréfakerfisins geti orðið mikill skaðvaldur í íslensku efnahagslífi ef það lánakerfi fær að starfa eitt og sér í fullu umfangi?
    5. Samanburður verði gerður á húsbréfakerfi í nágrannalöndunum, t.d. Norðurlöndum og e.t.v. víðar, við húsbréfakerfið sem lögfest hefur verið hér á Íslandi.``
    Þetta er sent fyrir hönd þingflokksins og ég á ekki von á öðru en að forsetar Alþingis greiði götu þessa erindis. Svo mikið er víst að Ríkisendurskoðun er tilbúin að vinna þetta verk, sumt hratt þannig að svar geti komið fljótt, og sumt með meiri ígrundun.
    Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að segja frá þessu því að það tengist þeirri umræðu sem hér fer fram um þessi mál. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það alveg furðulegt að húsbréfakerfið skuli hafa verið tekið upp í þeirri mynd sem það er í gildandi lögum án þess að ítarleg umfjöllun færi fram um það og úttekt og rannsókn á því hvernig þetta er í nágrannalöndum okkar. Eins og hv. þm. Hreggviður Jónsson sagði þá voru þeir borgaraflokksmenn búnir að sækja hugmyndir til Norðurlanda. En það var bara einn anginn af þessu máli þannig að þær hugmyndir sem þeir voru með voru ekki fullmótaðar þó margt væri þar ágætt miðað við það sem niðurstaðan hefur svo orðið.
    Virðulegi forseti. Ég vil einnig benda hv. þm. á það að hæfur hagfræðingur hér á landi, Jóhann Rúnar Björgvinsson, hefur skrifað mikið um þessi mál. Hann gaf að ég hygg flestum þingmönnum gula bók í apríl 1989 sem fjallaði eingöngu um húsbréfin og allt sem þeim viðkemur, hlutverk þeirra og hvaða ályktanir hann dregur af þessu kerfi. Hann hefur ýmislegt fyrir sér í þeim málum. Hann hefur einnig skrifað mjög ítarlega grein og vel upp setta í Morgunblaðið í október sl. þar sem hann dregur fram kosti beggja þeirra kerfa sem við búum við. Niðurstaða hans er sú að þetta séu að mörgu leyti lík kerfi en þó hefur hann það sín lokaorð að veikleiki húsbréfakerfisins, eins og það er byggt upp hjá okkur, geti orðið skaðvaldur í íslensku efnahagslífi. Hann rökstyður það nánar í þessari grein. Ég tel ástæðu til að benda hv. alþm. á að kynna sér þetta mál um leið og við fáum væntanlega skýr svör frá Ríkisendurskoðun um hvernig þessi mál líta út í raunveruleikanum.
    Virðulegi forseti. Ég skal stytta mál mitt. Ég er alveg viss um að sú umræða sem hér hefur farið fram í dag á rétt á sér. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á því hvar þetta mál stendur. Það er einnig ljóst að ríkisstjórnin getur ekki leyst þetta mál. Það kemur fram í fjárlagafrv. Ég ætla ekki að tefja tímann með að lesa það upp, en þar kemur fram raunveruleg skoðun ríkisstjórnarinnar, að a.m.k. hluti ríkisstjórnarinnar gerir sér grein fyrir því að þetta mál er orðið svo stórt að það verður að gefa sér góðan tíma, og langan tíma eins og stendur í greinargerð frv., til að finna nýja stefnu í húsnæðismálum til að leysa þessi mál. En mér dettur ekki í hug að halda því fram að það sé ekki hægt að gera það. Það hefði verið hægt að gera það strax 1987 ef þáv. ríkisstjórn og sú sem tók við 1988 hefði áttað sig á staðreyndunum í málinu. Þá væri þetta mál ekki vandamál hér nú. Það getur hver maður sagt sér það sjálfur að þegar heill flokkur og viðkomandi ráðherra sem stendur að þeim flokki er búinn að gefa yfirlýsingar um það að leggja það kerfi að velli sem var gert samkomulag um við aðila vinnumarkaðarins, þá var ekki ástæða til að halda að hægt væri að ná samkomulagi um neitt sem væri gert með viti til þess að lagfæra þetta kerfi. Og því fór sem fór.
    Ég vil segja það alveg eins og er að mér finnst kominn tími til að setjast niður og skoða stefnuna í húsnæðismálum. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram, og ég hef raunar staðið að því sjálfur að segja það hér í þessum ræðustól, að það er löngu kominn tími til að átta sig á því hvort ekki er eðlilegt að fela bankakerfinu í landinu almenna húsnæðiskerfið. Ég held að það sé orðinn svo sjálfsagður hlutur, um leið og við tryggjum það að húsnæðissjóðirnir geti staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig. Þeir sem trúa á það að loka því og taka upp opið kerfi, sem ekki hefur fengið neina stefnumótun til framtíðar, bera þá mikla ábyrgð. Það er engin vafi á því, eins og hér hefur komið fram frá fleirum en mér, að vel er hægt að hugsa sér að sá tími sé kominn að bankakerfið eða almenna lánakerfið í landinu geti tekið við þessu hlutverki. Og það er enginn vafi á því að það er hægt að setja ýmsar skorður þannig að fólk geti gengið þarna inn og gert samning um eðlileg lán með hæfilegum vöxtum til langs tíma sem gerir því kleift að eignast húsnæði. Við getum haft ákveðið félagslegt húsnæði, félagslega löggjöf, í gangi. Ég hef sagt það áður að betri lög en verkamannabústaðalögin höfum við ekki átt. Þau hafa gert meira en að tryggja láglaunafólki húsnæði með

hæfilegum kjörum. Þau hafa einnig á undangengnum árum gert láglaunafólki í landinu kleift að eignast þetta húsnæði. Og það er vissulega mál sem má ekki gleymast.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Ég hef haldið uppi harðri gagnrýni á þessi vinnubrögð í mínum þingflokki, það hefur ekki farið fram hjá neinum hér á hv. Alþingi, og tekið þátt í því með öðrum að gera tilraun til þess að lagfæra þetta og koma í veg fyrir þau upphlaup sem orðið hafa í þjóðfélaginu. En ég tel að nú sé kominn tími til fyrir almenning í landinu að það séu settar skorður við ævintýramennsku í þessum málum. Og húsbréfakerfið, eins og það hefur verið byggt upp og á að leysa öll þessi mál hér, er ekki fært um það, það þori ég að fullyrða. Við skulum bíða eftir skýrslunni.