Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Meginástæðan fyrir því að ég stend upp og kveð mér hljóðs er lokaorð hæstv. félmrh. þegar hún segir m.a. að það eigi að loka lánakerfinu frá 1986. Þessi yfirlýsing er þess eðlis að það er vert að staldra nokkuð við hana vegna þess að hún snertir ekki aðeins ákvarðanir hv. alþm. eða þær tillögur sem hæstv. ríkisstjórn kann að vera með í sambandi við húsnæðismál heldur kemur þessi yfirlýsing inn á ákveðna samninga sem gerðir voru milli aðila vinnumarkaðarins í ársbyrjun 1986 sem fólu það m.a. í sér að verkalýðshreyfingin undirgekkst þann samning að skuldbinda lífeyrissjóði á samningssviði aðila vinnumarkaðarins til að afhenda 55% af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna inn í húsnæðismálakerfið. Mér finnst þess vegna full ástæða til að undirstrika það að ég tala hér sem aðili að þessum málum úti á vinnumarkaðinum sérstaklega en ekki endilega sem alþingismaður. Því finnst mér full ástæða til þess að bæta við það sem hæstv. ráðherra sagði, að það ætti að loka lánakerfinu, þeirri setningu að þá væri líka eðlilegt að hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að Húsnæðisstofnun ríkisins yrði lögð niður. Það er rökrétt í framhaldi af því sem gert var árið 1986 að leggja niður Húsnæðisstofnun og færa allt það sem hér um ræðir inn í banka og sparisjóði. Mun ég koma nánar inn á það hér á eftir. Það er nefnilega alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, að það á að loka þessu lánakerfi frá 1986. Ekki vegna þess að það út af fyrir sig hafi ekki þjónað ákveðnum og þörfum tilgangi í upphafi þess kerfis heldur að fenginni reynslu.
    Mikið er rætt um það að Ísland eigi að ganga í Evrópubandalagið eða tengjast Evrópubandalaginu, þ.e. tileinka sér frjálsari viðskiptahætti en við höfum vanist, sérstaklega á sviði peninga - og fjármála. Þess vegna er það rökrétt í þeirri umræðu sem fram fer hér á hinu háa Alþingi að vekja athygli á því að það kerfi sem við höfum búið við í húsnæðismálum stríðir algerlega gegn þeim grundvallarsjónarmiðum sem tíðkast í Evrópu um viðskipti á þessu sviði. Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, að þegar hæstv. félmrh. talaði um hinar miklu biðraðir sem væru í núverandi kerfi vegna þeirra miklu ágalla sem eru á því kerfi, þá stafar það náttúrlega fyrst og fremst af því að kerfið er úrelt. Öll kerfi hafa reynst úrelt þar sem ríki og hið opinbera hefur afskipti af og á það ekki hvað síst við í þessum málum. Sem sagt, kerfið er vitlaust og á að leggjast af.
    Í umræðunni hefur mikið verið talað um húsbréfakerfið og það hvernig það kunni að hafa reynst. Ég held að hæstv. félmrh. hafi ekki áttað sig á því að á sama tíma og hún hefur beitt sér fyrir því að sífellt meiri hluti af því fjármagni sem hefur farið í húsnæðismál fer beint inn í félagslegar íbúðir þá þrengist mjög um í hinu almenna lánakerfi og þar með einnig í húsbréfakerfinu. Nema það gerist, sem ég veit að hæstv. ráðherra er kunnugt um og ég mun víkja að hér á eftir, að á sama tíma sem er aukið fé fyrir félagslegar íbúðir á lágum vöxtum, þar sem allt er bundið, þá minnkar það sem er í almenna kerfinu og framkallar hærri vexti.
     Háir vextir birtast í ýmsum myndum. Þeir birtast í því m.a. að vextir eru ákveðnir með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, jafnframt því sem affallavextir koma til viðbótar. Um það hafa hv. þm. farið eins og köttur í kringum heitan graut og líka hæstv. ráðherra. Ég vildi nú gjarnan að hæstv. ráðherra væri hér viðstaddur þegar ég fjalla um þann þátt sem lýtur að húsbréfakerfinu og þeim viðskiptavaka sem sér um þetta fyrir hönd Húsnæðisstofnunar, sem er Landsbanki Íslands. Vaxtaáhrifin hljóta þess vegna að verða þau sem hér hefur verið til umræðu, að vextir í hinu almenna kerfi hækki. Það er alrangt að sjálfstæðismenn séu að kalla eftir vaxtahækkunum út af fyrir sig. Þeir hafa hins vegar vakið athygli á því að ef hin rökrænu, efnahagslegu lögmál eiga að gilda í núverandi stöðu, þá þýðir það að hækka þarf vexti á almennu lánunum, því miður. En það þýðir ekki að sjálfstæðismenn hafi verið að kalla eftir vaxtahækkunum. Þeir voru að skýra það ástand sem er og bentu á það m.a. í leiðinni að vextir þyrftu að hækka til þess að koma á jafnvægi. En það eru til fleiri leiðir í því en notast við núverandi gallað kerfi.
    Í mínum huga ætti þessi umræða að vera óþörf. Raunverulega ættum við sjálfstæðismenn að leggja áherslu á í þessari umræðu að þessi lánsviðskipti öll fari fram á hinum frjálsa markaði, þ.e. að framboð og eftirspurn ráði vöxtum. Það á að vera tillaga sjálfstæðismanna hér á hinu háa Alþingi um lausn þessa máls, þ.e. að leggja niður núverandi húsnæðismálakerfi. Þar með erum við ekki að segja að ekki eigi að hafa ákveðið félagslegt kerfi til þess að tryggja þá sem miður eru staddir í því að reyna að eignast íbúð eða fá þak yfir höfuðið. Þess vegna ætti að vera óþarfi að þrasa við hæstv. ráðherra um þessi mál. Við sjálfstæðismenn munum leggja áherslu á þessa grundvallarstefnu okkar með því að leggja fram frv. til laga um grundvallarbreytingu í húsnæðismálum þjóðarinnar.
    Hv. þm. Alexander Stefánsson kom hér inn á það í sinni ræðu m.a. að hann væri þeirrar skoðunar, ef ég skildi hann rétt, að líklega væri eðlilegast að fela bankakerfinu að taka við þessum viðskiptum. Ég undirstrika þessa skoðun hv. þm. sem á sínum tíma var félmrh. þegar húsnæðismálakerfið var sett á laggirnar árið 1986. Með þessari yfirlýsingu er hv. þm. Alexander Stefánsson, sem tók þátt í samningum við verkalýðshreyfinguna og vinnuveitendur í ársbyrjun 1986, að lýsa því yfir að hann telji að sú stefna okkar sjálfstæðismanna að fara með þetta inn á hinn frjálsa markað, þ.e. út í banka og sparisjóði, sé hin eina, sanna og rétta stefna í þessum málum. Ég fagna þessari yfirlýsingu og tel hana mjög þýðingarmikla í allri umræðunni.
    Ef litið er á það í rökréttu framhaldi af því að maður legði niður húsnæðismálakerfið í núverandi mynd, þá mundi strax koma í ljós að það mundu sparast hundruð milljóna við að leggja niður núverandi kerfi. Ég hef ekki tiltækar tölur um hvað það

kostar að reka núverandi kerfi en það kæmi mér ekki á óvart að það hafi verið 400 -- 500 millj., sem er gífurlegt fé. Þess vegna hlýtur maður að spyrja hvað mundi sparast ef þessi starfsemi yrði öll flutt yfir í banka og sparisjóði. Hér hefur verið lögð áhersla á það að fækka bönkum til þess að auðvelda þeim meiri rekstrarhagkvæmni og sýna betri árangur gagnvart viðskiptavinum, hvort sem það væri í sambandi við lægri útlánavexti eða hærri vexti á innlánum.
    Hversu mikið mætti t.d. lækka vexti við það að einfalda núverandi kerfi? Hversu mikið væri hægt að lækka allan tilkostnað við það að bankar og sparisjóðir semdu beint við þá sem ráða yfir fjármagninu, sem eru fyrst og fremst lífeyrissjóðir landsins? Þetta hefur ekkert verið rætt hér í þessari umræðu en þetta er auðvitað grundvallaratriði vegna þess að allur sparnaður, öll einföldun og útfærsla þessa kerfis, hlýtur að hafa í för með sér lægri vexti sem er auðvitað meginmál í allri þessari umræðu.
    Varðandi húsbréfakerfið væri hægt að flytja hér langt mál. Ég fyrir mitt leyti var því fylgjandi á sínum tíma að reynt væri að koma hér upp þessu svokallaða húsbréfakerfi vegna þess að ég átti von á því að það mundi valda meira framboði af fjármagni sem aftur mundi hafa í för með sér lægri vexti. En þetta dæmi gekk bara ekki upp. Það gekk ekki upp vegna þess að þegar tekinn var verulegur hluti af því fé, sem lífeyrissjóðirnir vildu verja til þessara mála, til félagslegra íbúða, þá minnkaði svo mikið það framboð af peningum sem var til þess að kaupa húsbréf auk þess sem ég vil segja ákveðin andstaða var við þetta kerfi innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég hef ástæðu til að halda að sumir lífeyrissjóðir hafi ekki viljað eiga viðskipti við Landsbankann í sambandi við húsbréfakerfið. Ástæðan er hugsanlega þessi. Og þá vaknar spurningin: Hvers vegna ganga bréfin ekki út? Hvers vegna vill verkalýðshreyfingin ekki taka þátt í því, í gegnum lífeyrissjóðina, að kaupa húsbréfin?
    Eftir því sem ég best veit munu vera óseld bréf fyrir að upphæð um það bil 1000 millj. kr., 900 -- 1000 millj. kr., þ.e. 1 milljarð. Ég tel að þessi upphæð sé nú e.t.v. of há. Ég get ímyndað mér að óseld bréf væru kannski 600 -- 700 millj. Hvað torveldar þessi viðskipti? Er það vegna þess að vextirnir eru ekki nægilega háir? Eru afföllin kannski ekki nægilega mikil? Eða er það hugsanlegt að þeir sem eru viðskiptavakar treysti sér ekki til þess að eiga þessi viðskipti eða láta þau fara fram vegna þess að þá kæmi í ljós að raunvextir væru ekki 7 -- 8% heldur 10 -- 12%? Gæti það hugsanlega verið að ríkisbankarnir, sem eiga að annast þessi viðskipti, treystu sér ekki til þess að láta þetta koma í ljós? Ég varpa fram þessum spurningum hér vegna þess að það er full ástæða til að spyrja sig að því: Hvers vegna seljast þessi bréf ekki? Hvers vegna fara viðskiptin ekki fram? Á hverjum stendur? Þetta eru auðvitað spurningar sem hæstv. ráðherra verður að svara. Er það hugsanlega rétt að húsbréfaviðskipti geti ekki átt sér stað nema á grundvelli 11 -- 12% raunvaxta?
    Þá kemur auðvitað sú spurning í allri þessari umræðu: Hverjir eru þeir sem eru raunverulega að hækka vexti í landinu? Eru það einkabankar? Eru það ríkisbankar? Eru það viðskiptavakar fyrir húsbréf o.s.frv.?
    Hér talaði áðan hv. þm. Friðrik Sophusson sem situr í bankaráði Landsbankans. Hann talaði um að ávöxtunarkrafa í sambandi við húsbréf væri að lágmarki 7% plús afföll. Það er kannski erfitt fyrir hv. þm. að ræða það hér hver hugsanleg afföll þyrftu að vera til þess að viðskipti gætu átt sér stað. Ég ætla ekki að leggja þá spurningu fyrir hann því að hann er náttúrlega ekki mættur hér til þess að svara fyrir Landsbankann. En ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvort hann hefur hugleitt nokkuð hver er ástæðan fyrir þessari tregðu og erfiðleikum í sambandi við húsbréfaviðskiptin.
    Nei, virðulegi forseti. Það er mín skoðun að hægt sé að bjarga því sem Byggingarsjóður ríkisins á raunverulega að standa fyrir án þess að hækka vexti. Það gerist, virðulegi forseti, með kerfisbreytingu. Það á í fyrsta lagi að afnema kaupskyldu lífeyrissjóðanna. Það á í öðru lagi að koma á frjálsum samningum við þá sem ráða yfir fjármagni þannig að þeir geti komið þessu fjármagni til þeirra sem þörf hafa fyrir það í húsnæðismálum. Og í þriðja lagi er þetta spursmál um rétta og eðlilega og æskilega framkvæmd. Það er til nægilegt fé til að fullnægja þeirri eftirspurn sem er fyrir fjármagn í íbúðakerfið. Það þarf að breyta framkvæmdinni. Það þarf að fela bönkum, sparisjóðum og öðrum löggiltum aðilum á fjármálasviði að annast þessi mál. Með því mundi tilkostnaður verða minni, meira fjármagn yrði til ráðstöfunar og vextir mundu lækka.