Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hér hafa átt sér stað býsna fróðlegar umræður um það efni sem ég hóf máls á síðdegis í dag þótt enn sé þeirri spurningu ósvarað hvað ríkisstjórnin ætli að gera til að leysa fjárhagsvanda byggingarsjóðanna. Þeirri spurningu er ósvarað. Kannski er það vegna þess að hæstv. forsrh. hefur ekki haft aðstöðu til að vera hér fyrr en nú í kvöld, en alla viðstadda rekur minni til þess að hæstv. félmrh. vísaði spurningu um það efni til hæstv. forsrh. Ég vænti þess að hann svari þeirri spurningu hér á eftir hvernig eigi að taka á þessum vanda. Félmrh. hefur ítrekað það í annarri ræðu hér í kvöld að hún geti ekkert svarað fyrir ,,þessa menn``, eins og hún orðaði það um samráðherra sína í stjórninni, í ríkisstjórn Íslands. Hún hafi sínar tillögur og hún geti ekkert svarað fyrir það hvort ,,þessir menn`` svokölluðu fallist á þær tillögur eða vilji fara einhverjar aðrar leiðir. Einn þessara manna, fremstur meðal jafningja, situr nú hér á sínum stað og ég treysti því að hann svari þessu.
    Það var annars býsna fróðlegt, virðulegur forseti, að hlusta hér á orðaskipti hv. 1. þm. Vesturl. og núverandi félmrh., því það er með hreinustu ólíkindum að þessir tveir hv. þm. skuli telja sig í stuðningsliði sömu ríkisstjórnar. Það er eiginlega með fádæmum að bjóða öðrum þingmönnum upp á það að þetta sé eitthvert samstarfsfólk sem standi saman að baki stefnu ríkisstjórnar um þessi mál. Það er sko eitthvað annað hér uppi á teningnum, virðulegi forseti.
    Ég ætla ekki að rekja hér svör félmrh. við því sem fram kom í mínu máli fyrr í dag. Ég bendi þó aðeins á að þegar ráðherrann talar um að það vanti 15 milljarða til þess að húsnæðislánakerfið geti staðið undir sér, eins og fram kom í hennar máli og mun vera tilvitnun í skýrslu nefndar hennar sem skilaði áliti í júnímánuði sl., þá er sú tala miðuð við það að útlánsvextirnir verði óbreyttir. Það gengur reyndar þvert á tillögu nefndarinnar sjálfrar sem lagði til að vextirnir yrðu hækkaðir og það strax í júnímánuði sl. Þetta var nefnd sérstakra trúnaðarmanna hæstv. félmrh., en á þá hefur auðvitað ekkert verið hlustað af hálfu hæstv. ráðherra.
    Ráðherrann gerði mikið úr því að húsnæðislánakerfið frá 1986 hefði aldrei getað gengið upp. Það er út af fyrir sig forvitnilegt að fá það hér fram enn á nýjan leik. Og það væri auðvitað gaman að heyra hvaða skoðun hæstv. forsrh. hefur í því efni, því eins og fram kom í máli mínu fyrr í dag var hann sem slíkur, sem forsrh. á árinu 1986, ábyrgur fyrir þeim samningum sem gerðir voru við aðila vinnumarkaðarins um að lögbinda það samkomulag sem þeir höfðu gert um þetta efni. Ég hef í mínum fórum bréf frá hæstv. forsrh. þar sem hann skipar tiltekna einstaklinga í nefnd til þess að vinna frekar úr þeim hugmyndum sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu orðið ásáttir um.
    En það voru reyndar fleiri sem höfðu trú á kerfinu 1986, þó að vissulega hafi verið uppi efasemdarraddir á þeim tíma, bæði innan Stjórnarráðsins og

utan. Mætti ég nefna, virðulegi forseti, ummæli eins af verkalýðsforingjum Alþfl. sem situr á Alþingi nú og gerði reyndar þá líka, hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar. Hann sagði í umræðum í Ed. 23. apríl 1986 við 2. umr. um málið, með leyfi forseta:
    ,,Það væri ástæða til að tala lengi vegna þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað og þess skilningsskorts í málflutningi sem hér hefur átt sér stað. Það virðist vera sem hér tali nátttröll í mörgum tilvikum, einkum þegar rætt er um kjarasamninga og þá byltingu sem er verið að gera í húsnæðismálum nú. Það virðist vera sem sumir þingmenn hér séu fullir andstyggðar á því að gerðar séu úrbætur í húsnæðismálum vegna þess að verkalýðssamtökin áttu frumkvæðið að því. Það virðist vera sem mönnum sé ekki sama hvaðan gott kemur.``
    Ég sá hæstv. utanrrh. á ganginum fyrir augnabliki síðan, formann Alþfl. Hann lét þetta mál auðvitað ekki fram hjá sér fara á sínum tíma og var þó í stjórnarandstöðu vorið 1986. Og hvað sagði hæstv. núv. utanrrh. um þetta mál á þeim tíma? Ég skal lesa það, virðulegi forseti, með þínu leyfi, örstutt:
    ,,Þetta frv. sem hér liggur fyrir og sætir vissulega nokkrum tíðindum er einn mikilvægasti árangur síðustu kjarasamninga. Þeir kjarasamningar eru nokkuð umdeildir en kannski ætti þetta frv. að nýrri lausn á húsnæðisvandanum að verða til þess m.a. að sýna þeim sem hvað harðast hafa gagnrýnt kjarasamningana að sú gagnrýni var ekki rökrétt.`` --- Formaður Alþfl., þáv. og núv., að tala.
    En kannski er nú eðlilegast, virðulegi forseti, að vitna bara beint í hæstv. núv. félmrh. um þetta mál sem lét sig það að sjálfsögðu miklu varða, enda sat ráðherrann þá í félmn. Nd. sem fjallaði um þetta mál á sínum tíma. Reyndar fjölluðu nefndirnar sameiginlega um málið. Haldnir voru fundir í Borgartúni 6 þar sem nefndirnar unnu af kappi í þessu frv. Það er mér minnisstætt því ég kom á einn slíkan fund sem starfsmaður í fjmrn. á sínum tíma. Ég ætla ekkert að rekja allt það langa mál sem hæstv. núv. félmrh. flutti um þetta frv. á sínum tíma. En það sem skiptir máli í öllum þeim málflutningi er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Þó að nokkrir ágallar séu á frv. að því er takmörkun á lánsrétti varðar sem og að fjármögnunarþáttur ríkissjóðs til að tryggja að við ákvæði frv. verði hægt að standa er í mikilli óvissu styður Alþfl. frv. og þar með það samkomulag sem gert var í nýgerðum kjarasamningum um húsnæðismál.``
    Alþfl. studdi þetta frv. á sínum tíma, þrátt fyrir allt sem hefur verið sagt síðan um þetta mál.
    Og Svavar Gestsson, hæstv. núv. menntmrh., sagði við þetta sama tækifæri, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel að það samkomulag í húsnæðismálum sem varð á þessum vetri sé í rauninni með stærstu tíðindum sem orðið hafa í samningum verkalýðshreyfingarinnar í þessu landi á undanförnum áratugum undir stjórn af því tagi sem nú situr í landinu, hægri stjórn. Ég vil jafna þessu samkomulagi til samninganna um framkvæmdanefnd byggingaráætlunar á sínum tíma og

samkomulagsins um Atvinnuleysistryggingasjóð árið 1955. Ég tel að hér sé um að ræða stórtíðindi í húsnæðismálum en vissulega felst í þessu samkomulagi áfangi en ekki endapunktur vegna þess að um leið og þetta samkomulag er sett í framkvæmd kallar það á að ýmsar aðrar ráðstafanir verði gerðar varðandi húsnæðiskerfið í heild til þess að aðlaga það þessum breytingum sem hér er verið að gera á Húsnæðisstofnun ríkisins.``
    Hafi það nú verið svo að allir hafi séð það fyrir að þetta kerfi fengi ekki staðist, þá voru það a.m.k. ekki þm. Alþfl. né Alþb. sem sátu á Alþingi vorið 1986. Svo mikið er víst.
    Hér hef ég leiðara úr DV þetta sama vor, 17. apríl 1986, þar sem segir m.a., með leyfi forseta: ,,... til þess að spara tíma og tryggja framgang þessa stórmerka frv. áður en Alþingi fer í sumarfrí er skynsamlegt að 3,5% raunvextir verði samþykktir úr því þeir eru í uppkastinu. Síðar má breyta lögunum ef menn telja aðra raunvexti heppilegri.`` --- Í lok þessarar greinar segir, með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir gallana er frv. hið merkasta. Það verður að vísu dýrt í framkvæmd en endurlífgar tækifæri þjóðarinnar til að eignast þak yfir höfuðið.``
    Það voru ýmsir sem höfðu skoðun á þessu máli á þeim tíma og töldu að þetta væri hið merkasta mál og þarfasta mál. En það lá alla tíð ljóst fyrir, eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir las hér áðan upp úr grg. frv. á sínum tíma, að þetta kerfi þyldi ekki nema takmarkaðan vaxtamun, ella mundi það sligast. Þar stendur blessaður hnífurinn í kúnni. Og það var sagt í framsögu hæstv. félmrh. þáverandi, núverandi hv. 1. þm. Vesturl., að til þess mætti ekki koma. En þegar á átti að herða, þegar þetta var komið í ljós eftir stjórnarskiptin 1987, þegar það lá fyrir að ríkisstjórnin sem þá tók við var ekki lengur bundin af neinu samkomulagi um það atriði, vegna þess að það var eingöngu samkomulag út kjörtímabilið, og þegar á átti að herða þá reyndist ekki kjarkur eða vilji hjá hæstv. þáv. félmrh. til þess að standa við þá hlið málsins varðandi vaxtamuninn og hefur ekki verið síðan. Þetta er nú því miður hinn beiski sannleikur þessa máls.
    Hitt kann svo vel að vera að þrátt fyrir það að allir hafi á þeim tíma talið að þetta kerfi frá 1986 væri hið besta mál þá hafi mönnum yfirsést. Og eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í dag þá var með þessu kerfi reynt að gera of mikið fyrir of marga á of stuttum tíma. Það var kannski ekkert óeðlilegt að stórir hópar manna sæktust eftir því að komast í niðurgreitt fé. Eftirspurnin var mikil í þessu kerfi, vissulega. En ríkisstjórnin hafði það í hendi sinni, og þær ríkisstjórnir sem yfir þessu hafa trónað hafa haft það í hendi sér að hafa hemil á eftirspurninni með því að stilla vaxtamuninum þannig, eins og um var rætt, vegna þess að hann var auðvitað aðalástæða þessarar eftirspurnar.
    Sömuleiðis hefur það komið fram og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að við loforðin og fyrirheitin um ríkisframlag var alls ekki staðið. Það var 1000 millj. kr. ríkisframlag á árinu 1987 og ríkisstjórnin þáverandi, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, með formann Sjálfstfl. sem fjmrh., gekk þannig frá því máli. En síðan hefur þetta verið samfelldur vandræðagangur að því er varðar ríkisframlagið og meira að segja þannig að á næsta ári er ekki gert ráð fyrir krónu í þetta verkefni, Byggingarsjóð ríkisins, og búið að þurrka liðinn út úr fjárlögunum. Fjmrh. gerði sér bara lítið fyrir og afnam liðinn Byggingarsjóður ríkisins úr fjárlagafrv. Það kom fram í kjölfar minna spurninga um það efni hér við 1. umr. fjárlaga, að félmrh. lýsti því yfir úr þessum stóli, eins og hún hefur ítrekað hér í dag og í kvöld, að hún styður alls ekki fjárlagafrv. á þessum grundvelli. Hvers konar fjárlagafrv. er það, hvers konar stjórnarfrv. er það þar sem einn ráðherrann veður uppi og segir: Ég ber enga ábyrgð á þessu frv. af því að ég er ekki ánægð með mína liði hér í frv.? Og hvers konar stjórnarfar er það sem verið er að innleiða hér ef einstökum ráðherrum líðst að gera slíka fyrirvara um sín málefni? Það segi ég óháð þessu tiltæka málefni. Hver er staða þess fjmrh. og þess forsrh. sem láta slíkt yfir sig ganga?
    Ég spurði fjmrh. við þá umræðu hvort hann hygðist fara að samþykkt flokksþings Alþfl. um að leggja Byggingarsjóði ríkisins til fé úr Lánasjóði námsmanna. En hann svaraði því að bragði úr sæti sínu að það kæmi ekki til greina. Hann svaraði hins vegar ekki þeirri fyrirspurn minni hvernig hann hygðist bregðast við tillögu frá félmrh. sem hún hefur boðað um að hún muni sem óbreyttur þingmaður leggja fram tillögu um að breyta framlaginu í Byggingarsjóð ríkisins og hækka það úr því að vera 0 kr. upp í eitthvað ótiltekið. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við því þegar einstakir ráðherrar fara að flytja tillögur um að breyta fjárlagaliðum í málaflokkum sem undir þá heyra?
    Oft hefur stjórnarfarið verið slæmt og ekki var nú ástandið burðugt veturinn 1988 -- 1989 þegar ríkisstjórnin þáv. hékk á horriminni og þurfti að treysta á álfkonur og álfameyjar og huldukarla í atkvæðakössunum til þess að hanga á sínum meiri hluta. En þegar komið er út í slíka vitleysu sem hér stefnir í þá er náttúrlega ljóst að stjórnarfarið í landinu og allir almennir stjórnarhættir eru í stórkostlegri hættu.
Það væri kannski verðugt verkefni fyrir lögspaka menn og sérfræðinga í stjórnarfarsrétti að gera tillögur sem gætu komið í veg fyrir ástand sem þetta hér í sölum Alþingis.
    Virðulegi forseti. Margt hefur komið fram sem ástæða væri til þess að nefna en ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið úr þessu. Það hefur komið fram að húsbréfakerfið gangi að ýmsu leyti þokkalega vel og engin ástæða til annars en að fagna því. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf bent á það að húsbréfakerfið gæti þjónað ákveðnum tilgangi fyrir tiltekinn hóp manna. En ég tel ekki að sýnt hafi verið fram á að húsbréfakerfið geti þjónað hagsmunum allra sem vilja hasla sér völl á hinum almenna húsnæðismarkaði fyrir utan félagslega kerfið. Og þá á eftir að kanna betur með hvaða hætti ætti að koma til móts við þarfir þess fólks sem ekki stendur undir 7% raunvöxtum, eins og húsbréfakerfið gerir kröfu um, þrátt fyrir að

eitthvað af þeim vöxtum sé bætt í gegnum skattkerfið með vaxtabótum.
    Við lögðum á það áherslu vorið 1989, þegar frv. um húsbréf var hér á ferðinni, að því yrði frestað um nokkra mánuði þannig að betri tími gæfist til þess að fara ofan í saumana á því máli. Á það var ekki fallist. Komið hefur á daginn að það hafa verið ýmsir framkvæmdaörðugleikar eins og sýndu sig í sumar í því kerfi sem kannski hefði verið hægt að koma í veg fyrir með því að undirbúa málið betur eins og við lögðum til. En ég fagna því engu að síður ef almenn reynsla af húsbréfakerfinu er eins góð og félmrh. vill vera láta því vissulega er það gott ef hægt er að koma til móts við þarfir þeirra sem standa undir 7% raunvöxtum á stuttum tíma með því að þeir geti gengið í gegnum þau framkvæmdaatriði og það greiðslumat o.s.frv. sem þessu fylgir á nokkrum vikum í staðinn fyrir miklu lengri tíma.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu eins og margir reyndar vissu, það kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 14. þm. Reykv. og sömuleiðis 1. þm. Reykv., að Landsbanki Íslands situr uppi með tæpan milljarð í óseldum húsbréfum sem hann hefur ekki losnað við. En bankinn er, eins og kunnugt er, viðskiptavaki og honum er skylt að taka við öllum þeim bréfum sem á markaðinn koma, en hann losnar ekki við þessi bréf. Hvað á að gera við þessa peninga, hvað á að gera við þessi bréf? Það liggur alveg fyrir hvað bankinn vill gera. Hann vill hækka vextina þannig að þessi bréf verði meira aðlaðandi og geti keppt við ríkisvíxla, spariskírteini ríkissjóðs og önnur markaðsverðbréf sem bjóða betri kjör. Þá er ekki lengur verið að tala um 7 eða 7,5% heldur eitthvað meira í ávöxtunarkröfu sem auðvitað á endanum lendir á þeim sem með einum eða öðrum hætti fær lán, fær fjármögnun gegnum þetta kerfi. Það þýðir ekkert að hanga hér á einhverjum 5,75% nafnvöxtum sem skipta ekki máli í þessu sambandi. Það sem út úr þessu kemur á endanum er náttúrlega það sem ávöxtunarkrafan er, hún lendir að sjálfsögðu á þeim sem lánið fær, sem fær þessa fjármuni. Þannig að það er nú ekki allt einn rósagarður í sambandi við húsbréfakerfið, hvað sem líður fullyrðingum ráðherrans um það. En ég ætla ekki að fjalla frekar um það efni í kvöld.
    Ég ítreka óskir til hæstv. forsrh. um að hann svari þeim spurningum sem fram komu hér fyrr í dag og sem félmrh. hefur vísað til hans. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við þeim vanda sem uppi er í fjárhagsmálefnum byggingarsjóðanna beggja?