Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Örfá orð að gefnu tilefni til að leiðrétta misskilning.
    Spurningin snýst annars vegar um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi ríkis og hins vegar um það að taka upp virk diplómatísk tengsl við erlent ríki. Það er fullt af ríkjum í hinu alþjóðlegu samfélagi sem Íslendingar vissulega viðurkenna að lögum en hafa ekki við diplómatísk tengsl.
    Af því að hv. 1. þm. Suðurl. komst svo að orði að því er varðaði viðurkenningu íslensku ríkisstjórnarinnar á sjálfstæði og fullveldi Eystrasaltsríkjanna að í því efni væri vitnað til aðgerða dönsku ríkisstjórnarinnar, þá vil ég leiðrétta það. Hér er um að ræða ákvörðun íslenskra stjórnvalda frá árunum 1921 -- 1922 sem var komið á framfæri fyrir milligöngu dönsku utanríkisþjónustunnar. Þetta var sérstök ákvörðun íslenskra stjórnvalda, aðskilin frá ákvörðun dönsku stjórnarinnar sem lét í té slíka viðurkenningu nokkrum mánuðum fyrr. Þetta var því íslensk stjórnvaldsákvörðun í samræmi við það fyrirkomulag sem þá var, sem var það að danska utanríkisþjónustan gegndi þjónustuhlutverkinu en þessi ákvörðun var ákvörðun íslenskrar ríkisstjórnar.
    Í annan stað kom það fram í máli hv. 1. þm. Suðurl. að því sjónarmiði væri lýst að ekki mætti viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna af því að það kæmi stjórnvöldum í Sovétríkjunum illa eða gæti stuðlað að breytingu á valdhöfum þar o.s.frv. Ég vil bara taka það skýrt fram að þessi sjónarmið eru alla vega ekki mín vegna þess að ég hef aldrei látið mér það um munn fara að ekki megi viðurkenna þessi ríki. Þvert á móti held ég því fram að í fullu gildi sé viðurkenning Íslands á sjálfstæði þeirra og fullveldi.
    Sú spurning sem við höfum hér verið að ræða er þessi: Hvernig getum við stigið skrefinu lengra, að taka upp diplómatísk samskipti við þessi ríki? Erum við reiðubúin til þess? er fyrsta spurningin. Eru þau reiðubúin til þess að veita slíkum stjórnarerindrekum viðtöku og gera þeim kleift að starfa? Og eigum við ekki að gera þetta í fullu samráði við þessar ríkisstjórnir og leggja þá á það mat að slík aðgerð mundi koma þeim að gagni í sjálfstæðisbaráttu þeirra? Eða mundi það hugsanlega geta haft áhrif í þá átt að torvelda samninga? Öllum er ljóst að til þess að þessi ríki geti náð raunverulegum árangri, geti gefið sjálfstæðisyfirlýsingum sínum raunverulegt innihald, þá verður ekki hjá því komist að um það verður að semja við Sovétríkin.
    Ég hef lagt á það áherslu í málflutningi alls staðar þar sem við getum látið rödd okkar heyrast, ekki síst innan Atlantshafsbandalagsins, að vestræn lýðræðisríki geti ekki leitt þetta mál hjá sér, hljóti að taka það upp, ekki síst í kjölfar þess ávinnings sem orðinn er við endursameiningu Þýskalands og áframhaldandi dvöl Þýskalands í Atlantshafsbandalaginu. Við eigum með virkum hætti að samræma sjónarmið okkar í þessu máli, við eigum að taka það upp við Sovétmenn í þeim margþættu viðræðum sem við eigum

við þá, bæði að því er varðar efnahagsleg samskipti, efnahagslega aðstoð, viðskipti, pólitísk sambönd, pólitíska samstöðu, samstarf um að koma á fyrstu stofnunum ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu, nefnilega að þrýsta á um það að sovésk stjórnvöld viðurkenni hin réttu, þjóðréttarlegu rök þessara þjóða og setjist að samningaborði án fyrir fram skilyrða um það að á umsömdum tíma geti þessi ríki endurheimt sjálfstæði sitt, ekki bara de jure heldur de facto. Um það vænti ég að sé ekki ágreiningur meðal stjórnmálaflokka á Íslandi.