Flm. (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil enn lýsa furðu minni á þröngsýnum viðhorfum formanns þingflokks framsóknarmanna í þessu efni en ætla ekki að eyða frekari orðum að því máli.
    Ég vil í lokin aðeins víkja að tveimur efnisatriðum sem auðvitað hafa þýðingu fyrir þetta mál og fram komu í síðari ræðu hæstv. utanrrh. Þá er það fyrst spurningin um það hvort viðurkenning hafi efnislega þýðingu og sé í raun og veru styrkur fyrir Eystrasaltsríkin og hvort ekki sé rétt að gera það að höfðu samráði við ríkin sjálf. Ég tek undir það. Þau skref sem við stígum í þessu efni eigum við aðeins að taka í fullri vissu um að þau þjóni hagsmunum þessara ríkja í sjálfstæðisbaráttu þeirra.
    Ég hef átt viðræður, og það hafa fleiri átt, við forustumenn þessara ríkja. Þar hefur ítrekað komið fram að þeir telja mjög mikilvægt að fá slíka formlega viðurkenningu því það muni styrkja stöðu þeirra í viðræðunum við Sovétstjórnina, auka aflið á bak við þeirra kröfur. Og svo oft hefur þetta verið tekið fram af forustumönnum allra ríkja að ég dreg ekki í efa að það er vel yfirvegað mat þeirra sjálfra. En ég dreg ekki úr því að hv. utanrmn. kynni sér það mál frekar í umfjöllun nefndarinnar þannig að menn geti verið þar um vissir, bæði þeir sem hafa átt viðræður við forustumenn þessara ríkja og hinir sem ekki hafa haft tækifæri til þess enn sem komið er.
    Hitt atriðið lýtur að þessari viðurkenningu frá fyrri tíma. Tillagan er þannig orðuð að menn geta leitt hjá sér ágreining þar um. Aðalatriðið er að við viðurkenndum sjálfstæði þeirra á sínum tíma. Ríkin voru síðan innlimuð. Við viðurkenndum ekki þá innlimun né þá hernaðaríhlutun að lögum. En við viðurkenndum þá íhlutun í verki. Við viðurkenndum og höfum viðurkennt Sovétríkin að þessum ríkjum meðtöldum. Við höfum komið á þann veg fram við Sovétríkin að við höfum í verki viðurkennt innlimun Eystrasaltsríkjanna. Það er þetta sem Eystrasaltsríkin horfa á. Þó að þau geri sér grein fyrir því að við höfum ekki de jure viðurkennt innlimunina, þá höfum við gert það, eins og aðrar þjóðir, de facto. Og þess vegna líta þær svo á að það sé nauðsynlegt fyrir þær í þessari stöðu að fá áréttaða viðurkenningu þeirra ríkja sem höfðu áður gefið út viðurkenningar vegna þess að þau hafa velflest í verki viðurkennt innlimunina. Þess vegna er nú nauðsynlegt að endurnýja viðurkenninguna frá sínum tíma til þess að hún hafi fullt gildi og sé raunveruleg stoð fyrir Eystrasaltsríkin í þeirra baráttu. Það eru þessar aðstæður sem knýja á um það að hún sé gefin út á nýjan leik.
    Frú forseti. Ég vildi aðeins koma þessari athugasemd á framfæri vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um viðurkenningu frá fyrri tíma.