Kvóti Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild til hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Frv. þetta er á þskj. 122. Í frv. er óskað eftir heimild til að hækka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 59,6 millj. sérstakra dráttarréttinda, sem er jafnvirði 4.688 millj. kr. miðað við gengi 1. okt. sl., í 85,3 millj. SDR, sem er að jafnvirði 6.709 millj. kr. Jafnframt er Seðlabanka Íslands falið að leggja fram það fé sem nauðsynlegt er til þess að hækka kvótann.
    Starfsfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggist fyrst og fremst á framlögum, kvótum, aðildarríkja hans sem ákveðin eru með hliðsjón af þjóðartekjum viðkomandi ríkis, umfangi utanríkisviðskipta og örfáum öðrum efnahagsþáttum. Heildarkvótar sjóðsins hafa verið auknir átta sinnum með almennum kvótahækkunum, úr innan við 10 milljörðum SDR á fyrstu árum sjóðsins í núverandi stærð hans sem er 90,1 milljarður SDR.
    Með þeirri kvótahækkun sem hér er til umræðu og nú hefur verið ákveðin, níundu kvótahækkuninni, er ætlunin að auka kvótana í 135,2 milljarða SDR. Þessi hækkun tekur mið af aukinni efnahagsstarfsemi og alþjóðaviðskiptum í heiminum frá því áttunda almenna kvótahækkunin var gerð árið 1983 og af fjárhagsstöðu sjóðsins, áætlunum um starfsemi hans og nauðsyn þess að auka ráðstöfunarfé hans á komandi árum.
    Þessi hækkun á ráðstöfunarfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur á einkar heppilegum tíma því nú er ljóst að olíuverðhækkun í kjölfar atburðanna við Persaflóa kemur harkalega niður á olíuinnflutningsríkjum, einkum fátækustu ríkjunum í Afríku og ríkjum Austur - Evrópu, og eykur þörf þessara ríkja fyrir lán frá sjóðnum til að mæta greiðsluerfiðleikum gagnvart útlöndum.
    Þá er þess að geta að atkvæðavægi aðildarríkja í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer fyrst og fremst eftir kvóta þeirra. Þar hafa Bandaríkin stærstan kvóta, 20,08% af heildinni, þar á eftir koma Bretar með 6,94%, Vestur - Þýskaland með 6,06%, Frakkland með 5,02%, Japan með 4,73% og svo Saudi - Arabía með 3,59%. Eftir níundu kvótahækkunina og sérstakt samkomulag sem gert var í tengslum við hana um breytingar á stærðarhlutföllum og atkvæðavægi fimm stærstu ríkjanna mun hlutur Bandaríkjanna af heildinni verða 19,6%, Japans 6,1%, Vestur - Þýskalands 6,1%, Bretlands 5,5%, Frakklands 5,5% og Saudi - Arabíu 3,8%. Öll þau ríki sem ég hef nefnt með nafni eiga einn fulltrúa hvert af samtals 22 í framkvæmdastjórn sjóðsins. Norðurlöndin ráða nú til samans um 3,48% af heildarkvótanum í sjóðnum. Sú tala yrði lítillega hærri eftir þessa níundu kvótahækkun eða 3,5%. Þar af er hlutur Íslands 0,07% eða 0,06% eftir níundu kvótahækkunina. Norðurlöndin hafa í krafti þessa atkvæðastyrks sameiginlega einn fulltrúa í stjórn sjóðsins og skiptast á um að skipa hann.
    Eins og ég hef þegar nefnt mun kvóti Íslands hækka úr 59,6 millj. SDR eða jafnvirði 4.688 millj. kr. í 85,3 millj. SDR eða jafnvirði 6.709 millj. kr.

miðað við gengið í októberbyrjun ef þetta frv. verður að lögum. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 36 1986, um Seðlabanka Íslands, er hann fyrir hönd íslenska ríkisins fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og mun því leggja fram það fé sem þarf vegna þátttöku Íslands í þessari kvótahækkun.
    Í samræmi við ákvæði í stofnskrá sjóðsins verður fjórðungur hækkunarinnar greiddur í sérstökum dráttarréttindum, SDR, þ.e. fjárhæð sem er nálægt 500 millj. kr., en 3 / 4 hlutar hækkunarinnar í íslenskum kr. Í raun verður hér ekki um eiginlegar peningagreiðslur að ræða frá Íslandi til annarra landa því sá hluti kvótahækkunarinnar sem greiddur er í sérstökum dráttarréttindum er tekinn af gjaldeyrisforða Seðlabankans og fluttur til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í bókhaldi hans þar sem þessi greiðsla myndar sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá sjóðnum og telst því áfram hluti af gjaldeyrisforða Seðlabankans en er hins vegar til ráðstöfunar ef þörf krefur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hér er því í raun einungis um að ræða breytingu á samsetningu gjaldeyrisforðans. Eins og ég áður nefndi verða 3 / 4 hlutar kvótahækkunarinnar, tæplega 1.500 millj. kr., ekki af hendi reiddar heldur eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn innstæðu sem nemur þessari fjárhæð í íslenskum krónum hjá Seðlabankanum.
    Ávinningur Íslands af að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun er einkum tvíþættur.
    Í fyrsta lagi geta aðildarríki sjóðsins tekið lán með hagstæðum kjörum hjá honum úr ýmsum lánaflokkum og miðast lánsfjárhæðir við tiltekið margfeldi af kvóta viðkomandi ríkis sem er breytilegt frá einum lánaflokki til annars. Lánveitingar úr sjóðnum eru eingöngu til þess hugsaðar að mæta greiðslujafnaðarerfiðleikum. Íslendingar hafa nokkrum sinnum tekið lán hjá sjóðnum vegna sveiflna í gjaldeyristekjum. Í fyrsta sinn árið 1960 í tengslum við efnahagsaðgerðir sem þá var gripið til. Næst var svo tekið lán hjá sjóðnum þegar síldin hvarf skyndilega af miðunum 1967 -- 1968 og þegar olíuverðhækkanir dundu yfir á áttunda áratugnum miðjum og loks þegar loðnubrestur varð árið 1982. Öll hafa þessi lán nú verið að fullu endurgreidd og er Ísland skuldlaust við sjóðinn.
    Í öðru lagi er þátttaka í kvótahækkun nauðsynleg til þess að Ísland haldi sínum hlut í atkvæðavægi í stjórn sjóðsins og þar með í því samstarfi sem við höfum átt við Norðurlönd á þessu sviði og hefur orðið okkur mikils virði og styrkur á marga lund.
    Í þriðja lagi má svo segja að með þessu séum við að leggja nokkurn skerf til þess að mæta greiðsluerfiðleikum ríkja þriðja heimsins.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að hafa fleiri orð um þetta frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.