Búminjasafn
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til laga um búminjasafn á Hvanneyri. Af orðum hv. 5. þm. Vesturl. og þeim orðaskiptum sem hér urðu á síðasta þingi, ef hv. þm. hafa lagt þau á minnið, má ætla að ágreiningur sé í þingmannahópi Vesturlands um þetta mál. Ég hygg að hann sé minni en ætla má. Í niðurlagi greinargerðarinnar segir: ,,Málið er flutt í Nd. en þingmenn Vesturl. í Ed. munu fylgja málinu áfram í þeirri deild.``
    Eins og nú er verður ekki fram hjá deildaskiptingu Alþingis komist, en ég lít svo á að hún ætti fyrir nokkru að vera úr sögunni og Alþingi ætti að skipa eina málstofu og ég veit að margir hv. alþm. eru þeirrar skoðunar.
    Það má segja að allt orki tvímælis þá gert er. Og þar sem mál þetta er á undirbúningsstigi tel ég að það hafi alls ekki verið út í hött að flytja um það þáltill. En hvað sem um það má segja varð þróunin sú að flutt var hvort tveggja í senn, þáltill. og frv. til laga um þetta mál.
    Ég vil vekja athygli á því að ég hygg að þingmenn Vesturl. starfi óvenjuvel saman. Við erum sex að tölu, hittumst iðulega, höldum gerðabók yfir helstu mál. Ég er alveg viss um að í þessu máli erum við allir á einni línu í meginatriðum. Ég óttast það ekki að jafndugmikill þingmaður og drengur góður og hv. 5. þm. Vesturl. er muni vera langt frá okkur hinum í þessu máli, því raunverulega erum við allir á sama máli. Það er aðeins formsatriði sem greinir á um.
    Þetta vildi ég láta koma fram í upphafi máls míns. Ég ætla ekki að fara um þetta frv. mörgum orðum. Hvort tveggja er að fyrir því var gerð grein á síðasta þingi og auk þess hefur hv. 1. þm. Vesturl. gert glögga grein fyrir því nú. Þetta er áhugamál heimamanna og margra annarra. Það þótti vel til fallið að hreyfa þessu máli í framhaldi af 100 ára afmæli Bændaskólans á Hvanneyri.
    Ég ætla heldur ekki að rekja greinargerð eða annað sem segir hér um þetta mál svo sem hina fróðlegu grein dr. Bjarna Guðmundssonar um verkfærasafnið á Hvanneyri. Þótt það eigi nokkra forsögu þá er hún ekki ýkja löng því það var nú fyrst í byrjun þessarar aldar sem verkfæri til landbúnaðar fóru að berast til landsins. Í búnaðarsögu landsins fór náttúrlega Torfi í Ólafsdal fremstur og í merku riti Árna G. Eylands um búvélar og ræktun var saga bútækni á Íslandi fram undir 1950 skráð í mikilvægum atriðum.
Um þetta mætti fara mörgum orðum sem ekki er ástæða til að rekja hér neitt að ráði.
    Um þetta frv. hafa borist margar umsagnir og má segja að þær séu allar á einn veg. Þær sýna að þetta mál er ofarlega í hugum manna. Það mæla yfirleitt allir með því að það nái fram að ganga. Þó eru nokkrar athugasemdir gerðar eins og hér kom fram í ræðu framsögumanns um umsögn frá þjóðminjaverði. Eins er sú athugasemd að hann leggur til að Byggðasafn Borgarfjarðar tilnefni einn stjórnarmann. Veit ég að við flm. getum mjög vel tekið undir þessa tillögu.

Minnist ég í því sambandi vinar míns Bjarna Backmanns í Borgarnesi sem hefur unnið mjög gott og gifturíkt starf að söfnun muna og minja í Borgarfjarðarhéraði á liðnum árum. Hygg ég að ekki hafi verið staðið að þeim málum betur í öðrum sýslum landsins.
    Ég held að ég reki umsagnir ekki frekar og láti þessi orð nægja að sinni en vona að sjálfsögðu að málið fái góða umfjöllun og greiðan framgang á þessu þingi.