Búminjasafn
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Flm. (Alexander Stefánsson) :
    Herra forseti. Það er ekki meining mín að fara að skattyrðast við hv. 5. þm. Vesturl. og væntanlegan þingmann Reykv. um þetta mál, síður en svo. En ég vil bara minna á það að þingmenn Vesturl. hafa haft vissar skyldur við sitt hérað. Á fundum á Hvanneyri á undanförnum árum höfum við verið beðnir um að taka þetta mál upp, sem kom síðast upp 1987, til þess að reyna að fylgja því eftir. Bændaskólinn á Hvanneyri tók raunar að sér að semja sérstaka greinargerð og sendi það með bréfi sem þingmönnum barst. Ég held að þeir hafi allir fengið afrit af því á sínum tíma eða 1. nóv. 1988. Það dróst hjá þeim sem samdi þessa greinargerð, dr. Bjarna Guðmundssyni, að skila henni af sér þar sem hann var erlendis en það var beðið eftir því. Í bréfinu frá skólanum kemur fram að þegar þeir eru búnir að lýsa nauðsyn þess að þetta safn fái stoð í lögum þá taka þeir það skýrt fram að það er tvennt sem þeir leggja áherslu á. Í fyrsta lagi lög um búminjasafn á Hvanneyri og í öðru leyti fjárveiting til að byggja skála yfir safnið. Þetta voru forgangsefnin. Það er náttúrlega hlægileg fjarstæða að halda því fram að það lagafrv. sem hér var lagt fram á sínum tíma hafi verið til þess að reyna að koma í veg fyrir að Hvanneyri fengi afmælisgjöf á 100 ára afmælinu. Það var frekar hægt að segja það að þingmenn Vesturl. sýndu það í verki, bæði með þáltill. og þessu lagafrv., að menn höfðu áhuga fyrir því að það væri rækilega minnt á það, bæði hér á hv. Alþingi og eins fyrir þjóðina í heild að þetta stæði til og vekja athygli á staðnum, sem svo sannarlega tókst.
    Það er alveg ljóst einnig að okkur hv. 2. þm. Vesturl. Friðjóni Þórðarsyni fannst eðlilegt að fara að ósk skólans um að flytja lagafrv. um þetta, enda lá ekkert annað fyrir en að til þess þyrfti lög og liggur raunar ekki fyrir enn í dag annað en þetta sé sjálfsagður hlutur alveg eins og lög um sjóminjasafn o.s.frv. Þess vegna fluttum við frv. að ósk skólans.
    Rétt áður en það varð kemur hv. 5. þm. Vesturl. allt í einu með þáltill. sem hann vildi leggja fram. Við skrifuðum ekki upp á þá þáltill. af þeirri einföldu ástæðu að við vorum með lagafrv. sem við gerðum samkvæmt ósk skólans.
    Hins vegar, af því að hann var að minnast á niðurstöðu í félmn. Auðvitað hefði mér aldrei dottið það í hug að koma í veg fyrir það að þessu væri vísað til ríkisstjórnarinnar. Mér fannst það eðlilegur hlutur og það er gangur mála hér á Alþingi ef menn eru með þáltill. ef þær daga ekki uppi eða eru þess eðlis að Alþingi er ekki einróma um þær, þá er tekið það ráð til þess að þær sofni frekar hjá ríkisstjórninni heldur en láta þær sofna í viðkomandi nefnd. Og þess vegna var þetta eðlileg þingleg meðferð sem beitt er gjarnan við mál sem eru góð mál en ekki eru möguleikar á að koma í samstöðu í gegnum Alþingi. Engin nefnd leggur til að máli sé vísað til ríkisstjórnar nema því aðeins um sé að ræða að nefndin sé ekki sammála um málið að öðru leyti. Annars hefði hún lagt til að Alþingi samþykkti tillöguna.

    En hvað sem því líður, það er aukaatriði. En ég vil bara undirstrika það hér að þó að samþykkt hafi verið þjóðminjalög, sem eru mikil og merkileg lagagerð, og allir náðu endanlega samkomulagi um það á hv. Alþingi, þá er langt í land, því miður, með að framkvæmd þeirra laga verði að veruleika. Við stöndum frammi fyrir því að í þessum málaflokki eru óhemju verkefni sem á eftir að vinna að og kosta gífurlegt fjármagn sem stjórnvöld og Alþingi eru ekki tilbúin að láta af hendi. Þar er sjálfsagt tuga ára uppbygging sem á eftir að fara fram. Þetta mál eitt og sér þolir ekki þá bið vegna þeirrar einföldu ástæðu að ef það verður ekki af því að byggja yfir það safn sem fyrir hendi er þá glatast það. Þess vegna er mjög brýnt, að mati okkar flm., og í samræmi við ósk skólans að þessu máli verði hraðað með lagasetningu og í framhaldi af því framkvæmdum sem eru í lægri kantinum miðað við það sem þarf að byggja annars staðar vegna þess að þetta er ekki eins stórt í sniðum og mörg þessi söfn eru.
    Ég vænti þess þess vegna að um þetta mál verði friður og ég trúi ekki öðru á hv. 5. þm. Vesturl.,
þó hann sé nú að verða þingmaður hér í Reykjavík, en að hann verði jafnáhugasamur og við hinir um að tryggja stöðu þessara mála í héraði og gera Bændaskólanum á Hvanneyri kleift að fá þá lagalegu stöðu sem þarf fyrir þetta safn, jafnhliða því að fá möguleika til að nýta þá starfskrafta og þá aðstöðu sem í slíku safni verður. Ekki aðeins fyrir skólann, sem er merkileg stofnun og þýðingarmikil fyrir íslenskan landbúnað og fyrir þjóðarbúið í heild, heldur og ekki síður fyrir þá aðstöðu sem við erum að knýja fram, að flytja rannsóknastofnanir landbúnaðarins upp að Hvanneyri. Það hefur eins mikla þýðingu að þetta safn komist í lagalegt form og verði að veruleika.