Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Flm. (Hreggviður Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Hér er tekið til umræðu frv. til laga um afnám laga nr. 83 1989 um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga.
    Flm. auk mín eru hv. þm. Ingi Björn Albertsson, Kristinn Pétursson og Ellert Eiríksson.
    1. gr. frv. hljóðar svo: ,,Lög nr. 83 1. júní 1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, falla úr gildi.``
    2. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í greinargerð segir svo:
    ,,Þjóðarbókhlöðuskattinn á að leggja niður. Með álagningu hans er fólki freklega mismunað. Skatturinn leggst hvað þyngst á einhleypinga og þá sem hafa sýnt ráðdeild og sparsemi. Það er óverjandi að mönnum skuli refsað fyrir að fara vel með fjármuni sína og eignir. Þeim, sem lagt hafa áherslu á að eiga skuldlaust íbúðarhúsnæði, er nú hegnt fyrir það, en það er í flestum tilfellum grundvöllur eignarskatta almennings. Þá er skatturinn miklu hærri á íbúum Reykjaness og Reykjavíkur eða 79,1% af álagningu ársins 1989 (tölur fyrir 1990 liggja ekki fyrir) sem byggist fyrst og fremst á miklu hærra fasteignamati íbúða á því svæði. Framlög til Þjóðarbókhlöðunnar og endurbóta á menningarbyggingum á að greiða eins og önnur útgjöld úr ríkissjóði án sérstakrar skattlagningar.
    Athyglisvert er að eignir þeirra hjóna, sem greiða þjóðarbókhlöðuskattinn, bera 132 millj. kr. lægri skatt en ef eignirnar væru í eigu einhleypinga. Hver einhleypingur greiðir 10.625 kr. áður en þessi skattur leggst á sambærilega eign hjóna. Jafnframt hefur komið í ljós að þjóðarbókhlöðuskatturinn hefur ekki runnið til bókhlöðunnar eins og lög mæla fyrir um. Ekki hafa verið hafðir uppi neinir fyrirvarar við afgreiðslu lánsfjárlaga, eins og gert er í ,,þrátt fyrir`` - kaflanum. Það verður einnig að telja álitamál hvort skattgreiðendur eigi ekki endurkröfurétt á ríkissjóð fyrir þann hluta sem ekki hefur runnið beint til Þjóðarbókhlöðunnar.``
    Í greinargerð kemur enn fremur fram að af innheimtum fjármunum miðað við 1. jan. til 31. okt. 1989 hafa verið innheimtar 445 millj. í þennan skatt en til Þjóðarbókhlöðunnar hafa runnið 206 millj. kr. Þetta tel ég ekki forsvaranlegt.
    Einnig er á það að líta að það kemur í ljós að frjálslega hefur verið farið með þessi lög, svo ég hef í dag ritað umboðsmanni Alþingis bréf um þetta atriði.
    Með leyfi forseta ætla ég að lesa þetta bréf:
    ,,Hér með fer ég þess á leit við yður, herra umboðsmaður Alþingis, að þér úrskurðið um lögmæti eftirfarandi atriðis, sem snýr að skattheimtu ríkisins á mig. Þetta varðar álagningu hins svokallaða þjóðarbókhlöðuskatts, sbr. lög nr. 75/1981 og nú lög nr. 83/1989. Í lögum þessum er heimilað að leggja á sérstakan skatt sem á að renna til ákveðins verks og verkefna.
    Í svari fjmrh. til mín við fyrirspurn á Alþingi um ráðstöfun þessa skatts kemur fram að aðeins hluti hans

hefur runnið til þeirra verkefna sem lög kveða á um en svo segir í svarinu,`` --- og er það rakið í bréfinu hvernig hefur verið farið með innheimt fé af þessum skatti og hvað hefur runnið til Þjóðarbókhlöðunnar. Svo segir þar enn fremur: ,,Nú óska ég álits yðar, herra umboðsmaður, um hvort ég geti krafið fjmrh. endurgreiðslu á því hlutfalli skattsins sem hefur ekki runnið til þeirra sérstöku verkefna sem umrædd lög kveða á um. En mismunurinn hefur verið notaður til almennra útgjalda ríkisins. Þegar talað er um hlutfall eða ef ríkissjóður fær 100 millj. kr. í tekjur af þjóðarbókhlöðuskattinum og notar aðeins helminginn í lögbundin verkefni þá get ég sem greiðandi þess skatts krafið ríkið um endurgreiðslu á helmingi skattsins. Einnig óska ég eftir áliti yðar á framkvæmd þessara laga.`` Undir þetta bréf rita ég sem einstaklingur.
    Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að tekið verði á þessum málum. Það verði séð séð svo um að þessi skattur verði lagður niður og þeim greiðslum sem hefur verið stolið af skattgreiðendum verði skilað til baka.
    Það er ekki hægt að setja lög um að innheimta sérstakan skatt sem fer til sérstakra verkefna og taka svo féð og nota í annað. Þetta eru alveg sérstök lög og munu það einu lögin með þessum hætti sem eru hér um skattamál. Þess vegna ber að skila þessum fjármunum aftur. Hins vegar legg ég til að þessu máli verði síðan vísað til fjh. - og viðskn. Nd. þegar það verður tekið fyrir.
    Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta en ég bið menn um að skoða hér töflu sem fylgir um hvernig eignarskattar skiptast og sérstakur eignarskattur og íhuga hvernig í raun er farið með einstaklinga hér á Íslandi vegna þess að eignarskattarnir eru fyrst og fremst skattar á íbúðarhúsnæði. Þess vegna hlýtur að verða að taka þessi mál gagngert til endurskoðunar. Ég óska eftir því að þingmenn, og þeir sem telja sig líka þingmenn þjóðarinnar allrar, eins og hv. þm. hafa verið að boða að þeir væru, taki á þessu máli. Því þó þetta snerti fyrst og fremst Reykjanes og Reykjavík er brýn nauðsyn á því að rekstur íbúðarhúsnæðis verði lækkaður og komið verði í veg fyrir lögbrot sem hér hefur verið framið að mínu mati.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til fjh. - og viðskn.