Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga um leiðréttingu á afturvirkum ákvæðum um útreikning húsnæðisbóta, vaxtabóta og vaxtaafsláttar í lögum nr. 79/1989 og í lögum nr. 117/1989, um breytingu á lögum nr. 75/1981 um tekju - og eignarskatt, sem hér liggur fyrir og hv. flm. Geir Haarde hefur mælt fyrir, er í framhaldi af því frv. sem ég var flm. að ásamt honum á síðasta þingi. Það var flutt til að reyna að koma í veg fyrir að þessir atburðir mundu gerast. Ég fagna því að hv. þm. hefur flutt þetta frv., hefði óskað eftir því að vera meðflm. en það hefur nú ekki orðið svo. Ég er sammála því sem segir í þessu frv., annars vegar um að þeir sem húsnæðisbæturnar voru teknar af frá og með árinu 1988 með skattframtali 1989, eigi að njóta þeirra réttinda til 1994, og svo einnig um leiðréttingu til þeirra sem féllu fyrir borð, eins og ég vil kalla, lentu milli skips og bryggju eða hefðu átt að eiga rétt á húsnæðisbótum vegna húsnæðisöflunar á tímabilinu 1. jan. 1989 til 14. júlí 1989.
    Þessi hópur hafði gert sínar ráðstafanir, hafði gert ráð fyrir að hann gæti treyst því að falla undir þau lög sem voru um húsnæðisbætur. Svo kemur það í ljós að þeir falla raunverulega fyrir borð, eiga engan rétt nema á vaxtabótum sem ná ekki nema til mjög lítils hluta þeirra sem hefðu átt rétt á húsnæðisbótum.
     Ég vil segja það og sagði raunar hér í ræðustóli í gær að vaxtabætur og vaxtaafsláttur, eins og þau lög liggja fyrir, og ég benti þegar á þegar þau lög lágu fyrir, ná til mjög þröngs hóps. Það er verið að mismuna fólki mjög verulega. Það er verið að lækka tekjur fólks sem hefur meðaltekjur og hærri og það er verið að taka eignir af fólki. Fólk sem hefur með ráðdeild og sparsemi lagt til hliðar og hefur ætlað að kaupa sér húsnæði eða byggja, það er raunverulega sektað fyrir að ástunda ráðdeild og sparsemi. Þetta er efni þessara laga. Síðan eru þau látin gilda aftur í tímann þannig að þeir sem
hafa gert sína útreikninga um húsnæðismál, út frá þeim lögum sem voru í gildi þegar þeir kaupa eða byggja, standa núna uppi með verulegar skuldir, vandamál sem verða ekki leyst nema þeir selji sínar eignir. Það getur verið erfitt einmitt að selja þær eignir sem eru fyrir ofan þau mörk sem vaxtabæturnar gera ráð fyrir að menn megi eiga. Þessi lög eru því bráðnauðsynleg og er raunverulega sorglegt að vita til þess að ríkisstjórn Íslands, eins og kom hér fram í umræðunni í gær, skuli standa að því að setja þannig afturvirk lög á sómakært fólk sem hefur kannski með áralangri elju komið sér upp einhverri smáeign til að stækka við sig eða er eitthvað aðeins launahærra en þetta kvótakerfi hæstv. félmrh. og fjmrh. gefur tilefni til, því þetta er kvótakerfi. Þetta er kvótakerfi húsnæðismála. Þetta er kvótakerfi sem byggist á því að jafnstaða manna er engin. Það er launalækkun sem felst í þessu kerfi og það er eignaupptaka sem felst í þessu kerfi.
    Þessi flóknu mál hafa verið samþykkt hér af núverandi stjórnarflokkum, stjórnarþingmönnum, með

þeim hætti að ekki verður við unað. Það hlýtur að verða að taka þessi lög upp og breyta þeim á næsta kjörtímabili. Ég tel það óverjandi á allan hátt að þetta kvótakerfi félagshyggjuaflanna skuli ríkja hér á landi sem gerir það að verkum að þeim sem reyna að bjarga sér sjálfir, standa á eigin fótum, er nauðugur einn kosturinn, það er að fara inn í félagslegt kerfi. Þeir geta ekki staðið á eigin fótum. Það er forkastanlegt að ríkisstjórn Íslands skuli standa fyrir þessu.
    Ég vil eindregið hvetja þingmenn til þess, meira að segja þá sem telja sig þingmenn allrar þjóðarinnar, að standa einhuga um það að breyta þessum lögum. Það verður ekki við unað að slíkt kvótakerfi verði ríkjandi hér á Íslandi sem kemur í veg fyrir vilja fólks til að framkvæma og byggja sjálft, eiga sitt íbúðarhúsnæði sjálft og standa á eigin fótum. Öllu er beint til ríkis og bæja. Það er röng stefna.