Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 07. nóvember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist nr. 48 19. maí 1988 sem flutt er á þskj. 85.
    Aðdragandi frv. er sá að í áliti frá umboðsmanni Alþingis, dags. 21. sept. sl., fjallar hann m.a. um ákvörðun agaviðurlaga í fangelsum. Kemst hann m.a. að þeirri niðurstöðu að ákvæði í 26. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 geti hæglega farið í bága við ákvæði 5. og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og þarna sé um að ræða meinbugi á íslenskum lögum.
    Í athugasemdum við lagafrv. þetta er birtur sá hluti framangreindrar álitsgerðar umboðsmanns er fjallar um þetta atriði.
    Í 26. gr. laga um fangelsi og fangavist eru ákvæði um agaviðurlög vegna brota fanga á reglum fangelsis. M.a. er heimilt að beita einangrun í allt að 30 daga vegna agabrota og skv. 1. málsl. 3. mgr. greinarinnar telst sá tími ekki til refsitímans.
    Samkvæmt 6. mgr. greinarinnar má einangrun ekki lengja fangavist um meira en þriðjung dæmds refsitíma nema samþykki fangelsismálastofnunar sé fengið og aldrei um meira en helming.
    Umboðsmaður telur að þessi ákvæði samrýmist ekki 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, a.m.k. ekki ef slíkur frádráttur lengir í reynd þann tíma sem viðkomandi var dæmdur til fangavistar með dómi. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu umboðsmanns er lagt til að framangreind ákvæði verði felld brott.
    Í framangreindri álitsgerð fjallar umboðsmaður einnig um það að í lögum um fangelsi og fangavist séu ekki sjálfstæð ákvæði um málskot á ákvörðunum forstöðumanns fangelsis til fangelsismálastofnunar, eða ákvörðunum stofnunar til dómsmrh. sem fer með yfirstjórn fangelsismála skv. 1. gr. laganna. Hann tekur þó fram að slíkar ákvarðanir sæti stjórnsýslulegri kæru til dómsmrn. í samræmi við þá meginreglu að ákvarðanir lægra setts stjórnvalds megi kæra til æðra stjórnvalds. Skilja má þessa umfjöllun umboðsmanns á þann veg að hann telji æskilegt að um þessi atriði séu bein lagaákvæði.
    Í 25. gr. laganna er fjallað um einangrun á fanga vegna öryggis í fangelsi og, eins og áður er fram komið, fjallar 26. gr. um agaviðurlög. Í 1. gr. frv. og b-lið 2. gr. er lagt til að í lög verði sett ákvæði um að ákvarðanir um einangrun á föngum og um beitingu annarra viðurlaga sæti kæru til dómsmrn. og að fanga skuli skýrt frá því um leið og ákvörðun er birt.
    Hæstv. forseti. Eins og ég hef áður nefnt er í frv. þessu verið að leggja til breytingar á lögum um fangelsi og fangavist í þeim tilgangi að þau lög stangist ekki á við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem stjórnvöldum er skylt að fara að settum lögum vænti ég þess að frv. þetta fái skjóta meðferð og verði sem fyrst að lögum.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.