Afreksmannasjóður íslenskra íþróttamanna
Miðvikudaginn 07. nóvember 1990


     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Hreggviði Jónssyni að leggja fram frv. til laga um afreksmannasjóð íslenskra íþróttamanna, sem er 53. mál þingsins á þskj. 53. Í grg. með frv. segir m.a.:
    ,,Íþróttir eru sívaxandi hluti daglegs lífs hjá almenningi hér á landi. Daglega leggja þúsundir manna á öllum aldri stund á íþróttir um allt land, bæði innan dyra og utan. Með auknum frítíma og áhuga á einstökum greinum íþrótta hefur mikilvægi íþrótta margfaldast fyrir fólkið í landinu. Aflvakinn í þessu öllu eru keppnisíþróttirnar þar sem dugmiklir og fórnfúsir einstaklingar leggja á sig ómælt erfiði og taka oft og tíðum á sig mikil útgjöld. Það má raunar fullyrða að án keppnisíþrótta ætti almenningur þess ekki kost að iðka ýmsar íþróttagreinar í hinum fjölmörgu íþróttamannvirkjum sem reist hafa verið fyrir forgöngu forustumanna íþróttahreyfingarinnar.
    Jafnframt hefur geta íslenskra keppnismanna aukist ár frá ári og árangur þeirra vakið athygli víða um heim. Það hefur þó háð markvissri uppbyggingu og langtímaþjálfun afreksmanna okkar að þeir hafa ekki getað gefið sig óskipta að æfingum, t.d. fyrir ólympíuleika og heimsmeistarakeppni, vegna baráttu fyrir daglegu brauði. Fjárframlög ríkisins til íþróttahreyfingarinnar eru sáralítil og hafa verið skorin rösklega niður sl. ár. Ef við berum okkur saman við aðrar Norðurlandaþjóðir geta alþingismenn ekki litið kinnroðalaust framan í æskufólk sem leggur sig í líma við að hefja nafn Íslands til vegs á erlendum vettvangi. Nú er og komið fordæmi fyrir því að afreksmenn njóti náðar Alþingis, en með samþykkt stjfrv. um Launasjóð stórmeistara í skák á sl. þingi er brautin rudd og ber að fagna því. Frv. þetta er af sömu rótum runnið en sniðið að þörfum íþróttahreyfingarinnar.``
    Ef farið er lauslega yfir greinar frv., sem ekki eru sérstaklega skýrðar, enda tel ég að þær skýri sig sjálfar, þá fjallar 1. gr. um stofnun sjóðsins og hvaða viðmiðun er þar sett, sem eru árslaun 40 háskólakennara, svipað og er hjá skákmönnum, og að tilgangur sjóðsins sé að skapa efnilegum íþróttamönnum fjárhagslegan grundvöll til að helga sig íþrótt sinni.
    Í 2. gr. er farið fram á það að þessi fjárveiting verði fyrst á fjárlögum nú fyrir árið 1991 og síðan hvernig framhald á því verður. En það ætti þá að miðast við hreyfingar og breytingar á launum háskólakennara.
    Í 3. gr. er farið yfir þá sem rétt hafa til greiðslu úr sjóðnum að mati stjórnar sjóðsins. Þar er sem sagt komið inn á það að þeir sem sýni ótvíræða hæfileika í sinni íþróttagrein eigi rétt á styrk frá sjóðnum. Er þá rétt að benda á það að þeir sem væntanlega mundu tilnefna styrkþega yrðu væntanlega þjálfarar hinna ýmsu íþróttagreina og einnig kennarar eða leikfimikennarar í skólum sem verða varir við mikinn efnivið hjá ungmennunum.
    Í 4. gr. er farið yfir það hvernig stjórnin verði skipuð og gert ráð fyrir því að menntmrh. skipi stjórn

sjóðsins til þriggja ára í senn. Í henni skulu sitja þrír menn, tveir tilnefndir af Íþróttasambandi Íslands, en einn skipaður án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Í 5. gr. er farið fram á að menntmrh. setji reglugerð um framkvæmd laganna og vörslu sjóðsins og úthlutun úr honum.
    Hæstv. forseti. Menn tala gjarnan fallega um íþróttirnar og gildi þeirra á tyllidögum en þegar komið er að því að taka á málunum og veita jafnvel fé til þeirra og aðstoða íþróttirnar í landinu þá fer minna fyrir stóru orðunum sem viðhöfð hafa verið úti í þjóðfélaginu.
    Ég ætla ekki að fjalla í löngu máli um gildi íþrótta, það væri vissulega hægt að gera það. Ég tel að íþróttirnar í dag séu að nokkru leyti farnar að taka að sér það hlutverk sem skólarnir eiga að gegna, t.d. uppeldishlutverk sem mér finnst orðið mjög ábótavant í skólunum, þ.e. kennsla og leiðbeiningar hvað varðar aga, sem mér finnst einnig mjög ábótavant í skólakerfinu, stundvísi er kennd, snyrtimennska og vinna í hóp eða sér. Þessir liðir allir eiga að vega þungt inni í skólakerfinu sem uppeldisatriði, en því miður er verulegur brestur þar á.
    Það þarf ekki að nefna lið eins og forvarnir. Það er fátt sem virkar betur í forvarnarstarfi gagnvart vímuefnaneyslu, áfengisneyslu eða öðru óhófi en einmitt íþróttastarfið. Þar lærir ungt fólk strax að varast þau efni, hvort sem um er að ræða áfengi, tóbak eða vímuefni, enda hefur það komið í ljós víðast hvar að íþróttafólk notar slíka hluti með varúð ef það yfir höfuð notar þá.
    Eins og kemur fram í frv. er ætlast til þess að efnilegir íþróttamenn verði studdir til að ná árangri í sinni íþrótt. Það hefur því miður verið þannig fram til þessa að íþróttamenn hafa verið látnir eiga sig. Þeir hafa getað stundað sína íþrótt einhvers staðar úti í horni, en um leið og þeir fara að ná árangri og verða frægir, þá eigum við í þeim hvert bein og höfum gert allt fyrir þá. Og þá fyrst viljum við fara að styðja þá. En þá er of seint í rassinn gripið. Þá erum við búnir að missa fjöldann allan af efnilegu íþróttafólki burt úr íþróttunum.
    Það þarf ekki að nefna liði eins og t.d. landkynningu. Ég held að allir geri sér grein fyrir því hvílík landkynning góður íþróttamaður er. Hægt er að nefna mörg nöfn því til rökstuðnings hér. Það má nefna menn eins og Bjarna Friðriksson í júdóíþróttinni, Ásgeir Sigurvinsson í knattspyrnu, Hauk Gunnarsson í Íþróttafélagi fatlaðra o.s.frv. Og síðast en ekki síst mætti sem dæmi nefna árangur nágrannaþjóðar okkar Færeyinga sem skaut sér heldur betur upp á stjörnuhimininn í knattspyrnu nýverið með því að sigra Austurríkismenn í heimsmeistarakeppninni. Gildi íþróttanna sem landkynningar er því ótvírætt.
    Kveikjan að þessu frv. öðru fremur, þó að hugmyndin um afreksmannasjóð hafi blundað í flm. lengi, var auðvitað sú að íþróttunum er mismunað verulega þegar skákíþróttin ein og sér fær þann mikla fjárstuðning sem samþykktur var á síðasta þingi. Það ber

auðvitað að viðurkenna að skák er göfug íþrótt en menn verða líka að viðurkenna að hún er íþrótt, hún er íþrótt hugans, og hún er ein og sér tekin út úr. Þannig höldum við flm. okkur við jörðina og förum aðeins fram á sama fjármagn sem þessi eina íþrótt fær. Við förum fram á sama fjármagn til allra hinna íþróttanna. Innan ÍSÍ eru núna hátt í 30 sérsambönd og innan þeirra sérsambanda eru margar mismunandi íþróttagreinar, þannig að ekki er nú verið að biðja um mikið.
    Hæstv. forseti. Ég tel að það þurfi ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál. Ég vil hins vegar brýna þá þingmenn sem hafa á tyllidögum þóst bera hag íþróttanna fyrir brjósti að sýna það nú í verki og vil benda mönnum á að það verður vel fylgst með því úti í íþróttahreyfingunni hverjir taka undir þetta mál og hverjir ekki.
    Ég vil síðan að lokinni umræðu vísa málinu til hv. menntmn. og 2. umr.