Afreksmannasjóður íslenskra íþróttamanna
Miðvikudaginn 07. nóvember 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Frv. það til laga um afreksmannasjóð íslenskra íþróttamanna sem hér liggur frammi er flutt hér í annað skipti. Það þarf e.t.v. ekki að hafa mörg orð um það hvert ágæti íþrótta er, svo oft hefur maður heyrt marga af hinum bestu stjórnmálamönnum landsins tala um það við ýmisleg tækifæri. En ég veit ekki hvort áhuginn er sá sem þeir vilja láta í veðri vaka, enda sýnist mér framlög til íþróttahreyfingarinnar hafa orðið með þeim hætti undanfarin ár að varla sé orð á því gerandi.
    Það sem við flm. erum að tala um hér, hv. 5. þm. Vesturl. og ég, er að stofna sérstakan afreksmannasjóð fyrir íslenska íþróttamenn. Sá sjóður er hugsaður með svipuðum hætti og launasjóður stórmeistara í skák. Íþróttirnar eru afreksíþróttir um margt. Það eru afreksmennirnir sem hvetja aðra til dáða. Það eru þeir sem hafa úrslitaáhrif á það hve almenningur er áhugasamur um iðkun íþrótta. Afreksíþróttirnar hafa dregið til sín þúsundir ungmenna til að iðka íþróttir um allt land. Þetta er hluti af okkar menningu og þetta er ekki minni menning en leikstarfsemi, Íslenski dansflokkurinn eða Sinfóníuhljómsveit Íslands. Allt eru þetta atriði sem eru inni á fjárlögum og þykir sjálfsagt að hafa þau. Og ég tel að íþróttirnar eigi þar einnig heima.
    Ég vil minna á það að þetta er þó öðruvísi en öll sú starfsemi sem er komin inn á fjárlög, að meðtöldum hinum svokallaða Launasjóði stórmeistara í skák, að því leyti til að þorri þeirra manna sem fengju styrk úr þessum sjóði yrði á aldrinum 17 -- 30 ára. Sem sagt það yrði stöðug endurnýjun. Þetta er ekki æviráðning heldur er hér mjög skammur tími oft og tíðum. Það eru 4 -- 10 ár venjulega sem hámark sem menn eru í afreksíþróttum sem hér er um að ræða. Fjárstuðningur gæti valdið úrslitaáhrifum um það hver árangur afreksíþróttamanna yrði á alþjóðlegum vettvangi í framtíðinni. Við sem höfum átt þess kost að starfa í íþróttahreyfingunni, fara með flokkum ungs fólks til keppni erlendis, höfum séð að þetta er glæsileg landkynning og þetta er landkynning sem vekur meiri athygli en margt annað.
    Ég tel að þeim fjármunum sem yrði varið til slíks sjóðs yrði vel varið. Það sem við leggjum hér til samsvarar árslaunum 40 háskólakennara. Miðað við Launasjóð stórmeistara í skák væri hér um að ræða 47,2 millj. Þetta er eina viðbótin við eyðslu ríkisins sem ég hef lagt til hér á þingi og hef reyndar verið stoltur af því að vera ekki alltaf með tillögur um að auka útgjöldin, en ég held að þessi menningarþáttur sé þess virði að við leggjum aukið fjármagn til hans.
    Ég sagði einhvern tíma hér í ræðu á Alþingi að stjórnmálamenn vissu ekki hvað það væri dýrt og erfitt að vera íþróttamaður. Margir íþróttamenn hafa kostað sig sjálfir, bæði til ferðalaga erlendis og uppihald og það er algengara en ekki að svo sé. Á sama tíma ferðast ráðamenn þjóðarinnar á dýrum dagpeningum sem nemur hundruðum milljóna á hverju ári. Íþróttamenn hafa oft og tíðum átt erfitt með að stunda

íþrótt sína þegar þeir hafa verið komnir í afreksíþróttir. Þeir hafa þá áhyggjur af fjármálum og þeir geta ekki lagt sig jafnmikið fram og þarf. Því er nauðsyn að styrkja þá þann tíma sem þeir eru afreksmenn. Og það er kosturinn við þennan sjóð og þá styrki sem eru hugsaðir þarna að þeir standa aðeins stuttan tíma, þeir eru ekki um aldur og ævi til þeirra sem fá þá. Og síðan koma þessir menn fílefldir inn í atvinnulífið, inn í menningarlífið, inn í þjóðlífið og og gefa til baka þá reynslu sem þeir hafa öðlast innan sinnar íþróttar og í sinni baráttu sem þeir jafnan heyja við erlenda íþróttamenn.
    Ég vil minna á það að þegar um íþróttamenn er að ræða sem eru á afreksstigi er hér hópur sem vinnur saman. Það eru einstaklingar sem leggja sig fram. Í þessum ranni er agi og reglusemi og það er reglusemi í mataræði sem menn læra, reglusemi varðandi vímuefni, reglusemi varðandi svefn. Þetta hefur uppeldislegt gildi og það er engin uppeldisstofnun til á landinu sem er jafngóð. Og það er engin hreyfing í landinu sem hefur unnið jafnmikið starf á síðustu árum fyrir jafnlitla fjármuni. Við getum sagt að það sé nánast stærsti hluti þjóðarinnar sem hefur átt þess kost að taka þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og það er dýrmætara en öll þau dagheimili sem hafa verið byggð því að þetta veitir fleira ungu fólki möguleika á athöfnum og ánægju en nokkur önnur tómstundariðja á Íslandi.
    Þegar við lítum t.d. að vetri til til fjalla þar sem þúsundir manna flykkjast til að iðka skíðaíþróttir, þá verðum við að hafa það í huga að áður en þeir möguleikar opnuðust voru það afreksmennirnir sem drógu vagninn. Það voru þeir sem fundu skíðasvæðin. Það voru þeir sem byggðu upp skíðasvæðin og íþróttastaðina. Síðan komu opinberir aðilar þegar ljóst var að almenningur flykktist þangað líka. Þetta hefur þannig margfeldi í för með sér í íslensku þjóðlífi. Þess vegna tel ég að afreksmannasjóður með þessum hætti yrði mikil lyftistöng fyrir þá sem leggja mest á sig og jafnframt yrði það þjóðinni ódýr landkynning því þessir menn hafa borið orðstír landsins víða um heim.