Öryggi í óbyggðaferðum
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Í febrúar sl. var flutt þáltill. af þingmönnum úr öllum þingflokkum um öryggi í óbyggðaferðum. Tillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum með því að samræma og setja reglur og lög eftir því sem við á og með því að skipuleggja fræðslu, ráðgjöf og upplýsingar til ferðafólks. Við undirbúning málsins verði haft samráð við samtök áhugafólks um ferðalög og slysavarnir.``
    Stuttu síðar eða þann 22. febr. samþykkti Alþingi þessa till. sem ályktun Alþingis. Alþingismönnum þótti mjög brýnt að taka á þessum málum og töldu að eðlilegast væri að samþykkja þessa till. óbreytta einungis viku eftir að hún var flutt hér inn í Alþingi. Hef ég þess vegna spurst fyrir um þetta mál á þskj. 58 með því að spyrja dómsmrh. hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum, sbr. þessa ályktun sem ég hef vitnað til. Flutningsmenn þessarar till. höfðu ýmislegt í huga þegar þessi till. var flutt. Þann vetur sem þessi till. var flutt höfðu orðið alvarleg slys. Allt of mörg hafa slysin orðið sem hafa leitt til manntjóns og eins til kostnaðarsamrar leitar.
    Við höfðum ýmislegt í huga þegar þessi till. var borin fram, t.d. fræðslu fyrir ferðamenn, bæði innlenda og erlenda, um helstu hættur sem orðið geta á vegi þeirra við breytilegar aðstæður og á ólíkum árstímum og hvernig bregðast skyldi við þeim. Slíkar leiðbeiningar er m.a. hægt að færa inn á kort og bæklinga sem ætlaðir eru ferðamönnum. Einnig starfrækslu tilkynningaþjónustu í núverandi eða breyttu formi en það má vekja athygli á því að Landssamband hjálparsveita skáta, Landssamband flugbjörgunarsveita og fyrirtækið Securitas hafa starfrækt tilkynningaþjónustu. Einnig vorum við með í huga hvort tryggingafélög gætu komið inn í myndina og ýmislegt fleira. Margt af því sem þarf að gera til að bæta öryggi í óbyggðaferðum krefst ekki breytingar á lögum heldur skipulagningar og samræmingar. Þess vegna langar mig til að spyrja hvernig þetta mál sé statt nú.