Varaflugvöllur vegna alþjóðaflugs
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst vekja athygli á þeirri mjög svo athyglisverðu yfirlýsingu hæstv. samgrh. um ástæðurnar fyrir því að horfið var frá samráði við Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins um varaflugvöll. Við gagnrýndum hæstv. utanrrh. fyrir seinagang í því efni. Af hans hálfu og talsmanna Alþfl. var því jafnan haldið fram að því máli yrði haldið til streitu og samningar yrðu gerðir þar um.
    Við töldum hins vegar að Alþb. hefði komið í veg fyrir að hæstv. utanrrh. gæti tekið slíka ákvörðun. Því var jafnan mótmælt en nú hefur hæstv. samgrh. yfirlýst að um það hafi verið tekin pólitísk ákvörðun, þá þegar við stjórnarmyndunina 1988, að horfið yrði frá öllum slíkum ákvörðunum. Þar með hefur verið skorið úr þessari þrætu og staðfest að okkar gagnrýni á málflutning þeirra alþýðuflokksmanna í þessu efni er rétt og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa hér staðfest þessa niðurstöðu.