GATT-viðræður
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Varðandi 1. tölul. kemur fram að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson fer með málefni íslensks landbúnaðar í þessum viðræðum fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar. Og ég tel að út af fyrir sig sé það býsna athyglisvert.
    Varðandi 2. tölul. sagði hæstv. forsrh. að það væri álitamál hvort þarna væri farið fram hjá íslenskum lögum en sagði þó jafnframt í næstu setningu að samningar sem gerðir yrðu á grundvelli þessara viðræðna mundu krefjast breytinga á lögum og verða lagðir fyrir Alþingi og yrðu gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þetta er út af fyrir sig allt saman rétt en með þeim tilboðum sem sett eru fram er farið fram úr því sem gert er ráð fyrir í íslenskum lögum. Og það er a.m.k. álitamál hvort það sé í jafnstóru máli eins og þessu og viðkvæmu réttmætt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að leggja ekki slík mál fyrir Alþingi á einhverju stigi áður en samningar eru undirritaðir, þó með fyrirvara séu, því að sjaldan er það svo að þeim samningum sé hnekkt á Alþingi eftir að þeir hafa verið gerðir.
    Varðandi 3. tölul. kemur fram í svari hæstv. ráðherra að mismunur sé á ýmiss konar stuðningi sem landbúnaður fær, bæði hér á landi og annars staðar. Sumt er talið framleiðsluhvetjandi, eins og hann orðaði það, annað ekki. Í máli hans kom fram til að mynda að hjá Bandaríkjamönnum eru 65% af tekjum bænda beint frá ríkinu, ( Forsrh.: Víða í Bandaríkjunum.) víða í Bandaríkjunum. Og svo er, þó að það sé kannski ekki nákvæmlega þetta hlutfall, í hinum ýmsu Evrópulöndum, að þar er mikill hluti af tekjum bænda beint frá ríkinu.
    Ég tel það afar varasamt að leggja fram tilboð um gífurlegan niðurskurð á framlögum hins opinbera til landbúnaðarins og ætla síðan eftir á að breyta formi þessa stuðnings yfir í eitthvað annað. Ég tel afar vafasamt að það sé hægt, eftir að samið hefur verið um að fella niður svo og svo mikinn hluta af opinberum stuðningi við landbúnaðinn, að taka hann upp á eftir í öðru formi. Það er að minni hyggju stóralvarlegt mál að láta sér detta í hug að halda þannig á málum.