GATT-viðræður
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að verkaskipting hvað þetta snertir er nákvæmlega sú sama hér innan Stjórnarráðs Íslands og viðgengst í öðrum löndum, þ.e. að utanríkisráðherrar eða utanríkisviðskiptaráðherrar eru formenn sendinefnda á vettvangi GATT en fagráðherrar leggja til hina faglegu vinnu og móta stefnu og móta tillögur um tilboð Íslands innan ríkisstjórnar. Þannig mun þetta vera hjá nágrannalöndunum eins og menn hafa væntanlega fylgst með í umræðum um þetta mál á vettvangi EB.
    Ég tel rétt að það komi hér fram að hið formlega tilboð Íslands hefur enn ekki verið lagt fram, enda mun Evrópubandalagið ekki að sínu leyti leggja fram tilboð fyrr en í dag eða á morgun, í fyrsta lagi, vegna þeirra deilna sem þar hafa verið.
    Það er jafnframt rétt að upplýsa, vegna þess að mér þótti gæta nokkurs misskilnings í máli hv. fyrirspyrjanda, að hann talaði um að 65% niðurskurður ætti að vera á stuðningi við landbúnaðinn. Það er ekki svo. Í tilboði Íslands hefur verið gert ráð fyrir að varðandi útflutningsuppbætur einar og sér yrði boðinn samdráttur á bilinu 45 -- 65% en varðandi innri stuðning, framleiðsluhvetjandi eða markaðstruflandi stuðning, yrði boðið bilið 15 -- 25%. Ég tel rétt að þetta komi hér fram til þess að misskilnings gæti ekki í umfjöllun um þetta mál.