Innflutningur matvæla með ferðafólki
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu gert orð síðasta ræðumanns að mínum hvað það snertir að langmestu áhyggjur okkar yfir þessum hlutum varða auðvitað þá hættu sem svona matvælainnflutningi getur verið samfara. En það er væntanlega óþarft að taka fram að að sjálfsögðu er þessi skammtur algerlega bundinn við að um matvæli í leyfilegu formi sé að ræða, þ.e. ekki hrámeti eða annað því um líkt sem bannað er samkvæmt íslenskum lögum að flytja inn í landið. Hér er að sjálfsögðu um að ræða unnar vörur eða þannig matvöru að innflutningur hennar sé á annað borð heimill til landsins.
    Það er einnig rétt að það er fjölmargt annað sem ástæða væri til að ræða og taka á sem lýtur að samkeppnisstöðu innlendra aðila á sviði ferðaþjónustu gagnvart hinum erlendu aðilum. Það er verið að skoða marga fleiri þætti en þennan eina, innflutning á ódýrum matvælum sem geti ívilnað hinum erlendu aðilum í gegnum sterkari samkeppnisstöðu. Ég vænti þess að tóm gefist til að greina hv. Alþingi frá því þegar ferðamál koma hér á dagskrá, sem vonandi verður með myndarlegum hætti og rækilegum á næstu vikum þegar fram verður lögð á nýjan leik till. til þál. um stefnumörkun í ferðamálum og væntanlega í kjölfarið endurskoðun á lögum um skipan ferðamála sem sérstök nefnd er að leggja síðustu hönd á þessa dagana. Þá mun gefast tækifæri til að ræða ýmis önnur atriði sem lúta m.a. að samkeppnisstöðu innlendra aðila á sviði ferðaþjónustu og einnig það sem hv. 4. þm. Vesturl. vék að að vissulega skipti það líka máli í sambandi við stefnumörkun á sviði ferðamála að treysta stoðir rekstrar út um landsbyggðina. Þar gætum við svo sannarlega þurft að líta í eigin barm hvað snertir skipan þeirra mála, tilhögun á uppbyggingu ferða á vegum íslenskra ferðaskrifstofa jafnt sem erlendra. En ég vona sem sagt að tækifæri gefist til þess innan skamms að ræða þessi mál mjög ítarlega hér á hinu háa Alþingi í tengslum við meðferð þeirra mála sem ég lýsti áðan.