Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er hér vakin athygli á máli sem með nokkrum sanni má segja að heyri undir tvö ráðuneyti, þ.e. dómsmrn. annars vegar og heilbrrn. hins vegar. Og vissulega má einnig benda á það að hegningarlög og það að framfylgja ákvæðum þeirra heyrir náttúrlega fyrst og fremst undir dómsmrn.
    En ég ætla ekki að gera það að aðalefni svars míns, síður en svo, vegna þess að ég er sammála meginefni því sem kom fram í framsöguræðu hv. fyrirspyrjanda að hér er um óviðunandi ástand að ræða og búið að vera allt of lengi. Málefni geðsjúkra afbrotamanna voru um árabil deiluefni milli dómsmrn. og heilbrrn., einkum vegna þess að fyrri lög um fangelsismál gerðu ráð fyrir að byggt yrði sérstakt ríkisfangelsi sem væri deildaskipt þar sem aðstaða yrði fyrir geðsjúka fanga og þá sem dæmdir yrðu til öryggisgæslu. Eftir að núgildandi fangelsislög tóku gildi, 1. jan. 1988, áttu heilbrrh. og þáv. dóms - og kirkjumálaráðherra fund um málið og var þar ákveðið að ráðuneytin tvö mundu leita lausnar á málunum í sameiningu og reyna að finna viðeigandi lausn á meðferð og vistun geðsjúkra afbrotamanna.
    Allmiklar kannanir fóru fram á árunum 1988 og 1989. Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins tók að sér greiðslur vegna vistunar geðsjúkra afbrotamanna sem vistast erlendis og kannaðir voru möguleikar á að koma upp sérstakri stofnun fyrir slíka einstaklinga hér. Varðandi þessa vistun erlendis þá vil ég taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er í raun alls ekki viðunandi lausn. Í fyrsta lagi er hún allt of dýr og í öðru lagi óttast ég að þar sé ekki sú meðferð sem nauðsynleg er og ber að viðhafa við þessa einstaklinga.
    Í maí sl. varð það samkomulag milli heilbrrh. og núv. dómsmrh. að skipa nefnd til þess að gera tillögur um fyrirkomulag réttargeðlækninga hér á landi og með hvaða hætti geðsjúkir afbrotamenn skyldu vistaðir. Í nefndinni sitja Finnur Ingólfsson, aðstoðarmaður heilbrrh., sem er formaður, Ólafur Ólafsson landlæknir, Hannes Pétursson, yfirlæknir geðdeildar Borgarspítalans, allir skipaðir af heilbrrh. og Sigurður Jónsson, aðstoðarmaður dómsmrh., Haraldur Johannessen, forstjóri Fangelsismálastofnunar, og Þorsteinn A. Jónsson, deildarstjóri dómsmrn., skipaðir af dómsmrh. Nefndin hefur enn ekki lokið störfum en hún hefur sent okkur ráðherrum þessara mála skýrslu um störf sín. Samkvæmt þessari skýrslu flokkar nefndin fangana í þrjá flokka. Í fyrsta lagi þá sem dæmdir eru til vistunar á viðeigandi hæli, þ.e. öryggisgæslumenn. Í öðru lagi geðsjúka afplánunarfanga eða fanga með geðræn vandamál. Í þriðja lagi menn sem úrskurðaðir eru til að undirgangast geðrannsóknir.
    Ekki er hér tími til að rekja nánar eða ítarlega hugmyndir nefndarinnar en sú tillaga sem nefndin mun leggja til samkvæmt þessari áfangaskýrslu sem okkur ráðherrum hefur nú þegar borist er að réttargeðdeild

verði komið upp í tengslum við annaðhvort geðdeild ríkisspítalanna eða geðdeild Borgarspítalans til að sinna verkefnum samkvæmt þeirri flokkun sem rakin hefur verið hér að framan. Og má þá kannski segja að það undirstriki það sem kom fram í lokaorðum hv. fyrirspyrjanda að nefndin telur að aðstæður séu í raun fyrir hendi á þessum sjúkrahúsum til að koma slíkri stofnun eða hæli eða hvað við viljum kalla það, slíkri þjónustu, á innan þess húsnæðis sem nú er þegar til. En það er mat nefndarinnar að tiltölulega litlar breytingar þyrfti að gera á húsakosti, sem til er á ríkisspítölunum, til að koma upp slíkri deild. Hins vegar mundi rúmum á geðdeildum ríkisspítalanna fækka um 15 en í staðinn kæmu 10 -- 12 rúm á réttargeðdeild sem gæti þá tekið við vistun fanga fyrir dómsmálakerfið.
    Og það ber auðvitað að leggja áherslu á það sem hér kemur skýrt fram að með því að taka hér inn slíka þjónustu og slíka deild á annan hvorn ríkisspítalann, Landspítalann eða Borgarspítalann, þá er auðvitað jafnframt sagt og viðurkennt að það þyrfti að ýta annarri þjónustu til hliðar því þar standa ekki auð eða ónotuð pláss. En þetta er þá spurning um það einu sinni enn, og spurning sem ég álít nú að bæði löggjafinn, stjórnendur heilbrigðisþjónustu og starfsfólk þurfi að leggja niður fyrir sér: Hvað eru brýnustu verkefnin? Í hvað viljum við eyða okkar fjármunum og hvar viljum við leggja okkar áherslur? En það er nú stærra mál og varðar miklu fleira en það sem hér er sérstaklega til umræðu.
    Ég vil líka nefna það, af því að það kom fram í orðum hv. fyrirspyrjanda, að mér hefur fundist erfitt að eiga við suma starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar, suma lækna, til þess að koma þessum málum fram án þess að ég vilji gera þar hans orð að mínum þegar hann talar sérstaklega um smákóngaveldi, það voru hans orð. En mér hefur fundist þarna gæta ákveðinnar tregðu sem hefur gert málið allt saman erfiðara og tafsamara í framkvæmd og úrlausnum. Og ég vil láta það koma fram hér að ég, og heilbrrn. og landlæknisembættið, höfum átt gott samstarf við yfirlækni geðdeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri en þar hefur einn þessara ógæfusömu manna verið til meðferðar á undanförnum mánuðum.
    Það er við því að búast að nefndin skili fullnaðartillögum sínum til okkar ráðherra alveg á næstu dögum og væntanlega nógu snemma til þess að hægt sé að taka málið upp vegna fjárlagagerðar fyrir árið 1991 og það tel ég mjög brýnt.