Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hef aðeins leyfi til að gera hér örstutta athugasemd. Þó væri vissulega full ástæða til að fara nokkrum orðum um þá fyrirspurn sem hv. 4. þm. Reykn. hefur hér borið fram og ástæða er til að þakka honum fyrir.
    Þetta er gamalt og nýtt vandamál sem hann vekur hér athygli á með fyrirspurn sinni. Ég má til með að rifja það upp að það eru allar götur síðan 1980 og 1981 sem verið var að fjalla nákvæmlega um þessi mál hér á hv. Alþingi. Það hefur greinilega ekkert gerst á þessu tímabili, á heilum áratug. Þá flutti þáv. þm. Helgi Seljan þáltill., mjög vel unna, sem þingmenn allra flokka voru meðflutningsmenn að. Þessi till. var samþykkt og í þeirri samþykkt átti að skipa nefnd til þess að gera áætlanir og skipulagningu og úrbætur í þessum málum, m.a. um geðsjúka fanga. Nefndin átti að skila áliti fyrir árslok 1981, sem ég geri ráð fyrir að hún hafi gert. Þá mætti spyrja sig: Hefur ekkert verið hægt að nýta af niðurstöðum þessarar nefndar? Það er alltaf verið að skipa nefndir, alltaf verið að gera kannanir, en það er ekkert gert til þess að bæta úr.
    Ég ætla aðeins, hæstv. forseti, að leyfa mér að bæta hér inn í örfáum setningum úr skriflegu svari sem ég fékk við fsp. sem ég gerði til þáv. hæstv. dómsmrh. um vistun geðsjúkra fanga. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hér er um að ræða óleyst vandamál. Segja má í stuttu máli að ráðuneytið telji þá lausn æskilegasta að komið verði upp sérstakri stofnun fyrir geðsjúka fanga í nálægð við sjúkrastofnun og í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, þannig að slíkri stofnun yrði þjónað bæði af fangelsisyfirvöldum og heilbrigðisyfirvöldum.`` Og hvað hefur gerst? Ekki nokkur skapaður hlutur.
    Ég vil ekki taka undir það að hér sé um að kenna einhverjum smákóngum í læknastéttinni. Mér finnst ekki við hæfi að nota svona orðatiltæki í þessu máli. Hér er um mjög alvarlegt vandamál að ræða sem er krafa um að bæði heilbrrn. og dómsmrn. finni lausn á.