Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. og einnig ráðherra fyrir hans svör. Það er vissulega smánarblettur á íslensku þjóðfélagi hvernig staðið er að málefnum geðsjúkra afbrotamanna og vissulega tími til kominn að grípa til aðgerða og standa við þau stóru orð og gera eitthvað raunhæft í málinu.
    Það kom fram í svari ráðherra að aðstæður eru fyrir hendi í dag á sjúkrahúsunum þannig að ég sé því ekkert til fyrirstöðu að ráðherra stígi það skref til fulls hvort sem einhverjir smákóngar eða aðrir standa í vegi hans. Ég veit að hann er alveg maður til þess að ryðja einhverjum smáhindrunum úr vegi.
    Ég hef einnig lagt fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um þessi málefni og m.a. um það hvort á Litla - Hrauni séu vistaðir geðsjúkir afbrotamenn. Reyndar veit ég að það er staðreynd að þar eru vistaðir geðsjúkir afbrotamenn og ég veit ekki betur en það sé lagabrot. Þess heldur er brýnt að á þessu máli verði tekið hið allra fyrsta.