Vernd barna og unglinga
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að beina fsp. til hæstv. félmrh. er hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hyggst félmrh. beita sér fyrir því að Íslendingar gangist undir skuldbindingar 7. gr. félagsmálasáttmála Evrópu um sérstaka vernd barna og unglinga gegn líkamlegri og siðferðilegri hættu sem að þeim steðjar?``
    Er hæstv. félmrh. lagði fram skýrslu sína frá 76. alþjóðavinnumálaþinginu í Genf sl. vetur fylgdi nokkuð ítarlegt yfirlit yfir þau ákvæði félagsmálasáttmála Evrópu sem Ísland hefur uppfyllt eða ekki uppfyllt, enn fremur þær skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist og þær skuldbindingar sem Íslendingar hafa ekki undirgengist. Það vakti athygli mína, og gat ég þess raunar í ræðu við þessa umræðu, að Íslendingar hafa ekki undirgengist 7. gr. sáttmálans um rétt barna og ungmenna til verndar, en greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í því skyni að tryggja að réttur barna og ungmenna til verndar sé raunverulega nýttur skuldbinda samningsaðilar sig til að:
     1. Sjá um að lágmarksaldur til ráðningar í starf sé 15 ár að tilskildum undanþágum fyrir börn sem vinna tilgreinda, létta vinnu sem ekki er skaðleg heilsu þeirra, siðgæði eða menntun.
     2. Að sjá um að hærri aldursmörk verði sett til ráðninga í ákveðin störf sem álitin eru hættuleg eða óholl.
     3. Að sjá um að fólk sem enn er við skyldunám verði ekki ráðið í vinnu sem hindrað geti það í að njóta námsins til fulls.
     4. Að sjá um að vinnutími fólks yngra en 16 ára sé takmarkaður samkvæmt þörf þess til þroska og sérstaklega í samræmi við þörf þess á starfsþjálfun.
     5. Að viðurkenna rétt ungs verkafólks og lærlinga á sanngjörnum launum og öðrum viðeigandi greiðslum.
     6. Að sjá um að tími sá sem ungt fólk ver til starfsþjálfunar í venjulegum vinnutíma með samþykki vinnuveitanda teljist hluti vinnudags.
     7. Að sjá um að vinnandi fólk yngra en 18 ára fái minnst þriggja vikna orlof með kaupi árlega.
     8. Að sjá um að fólk yngra en 18 ára sé ekki látið vinna næturvinnu ef frá eru skilin viss störf sem ákveðin eru með lögum og reglugerðum.
     9. Að sjá um að fólk yngra en 18 ára sem vinnur störf sem tiltekin eru í lögum eða reglugerðum sé háð reglulegu lækniseftirliti.
    10. Að tryggja sérstaka vernd gegn líkamlegum og siðferðilegum hættum sem steðja að börnum og ungmennum og þá sérstaklega gegn þeim hættum sem stafa beint eða óbeint af starfi.``