Vernd kvenna vegna barneigna
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar þessa fsp. hv. þm. vil ég leyfa mér að hluta til að vísa til svars við fyrri fsp. eða 7. máls á dagskrá þessa fundar. Ég vil þó bæta við eftirfarandi:
    Þessi fsp. hv. þm. snertir 8. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Þessi grein sem fjallar um rétt vinnandi kvenna til verndar er í fjórum tölusettum málsgreinum. Ekki er ljóst hvort fyrirspyrjandi á við greinina í heild eða einkum fyrstu þrjár málsgreinarnar sem fjalla um vernd kvenna fyrir og eftir barnsburð. 4. mgr. fjallar um næturvinnu kvenna í iðnaði og bann við ráðningu þeirra við námugröft neðan jarðar og eftir því sem við á við öll önnur störf sem ekki hæfa þeim vegna þess að þau eru í eðli sínu hættuleg, óholl eða erfið. Ég tel að Íslendingar geti undirgengist skuldbindingar samkvæmt 1. mgr. 8. gr., þar sem kveðið er á um að konur fái frí frá störfum í samtals a.m.k. 12 vikur fyrir og eftir barnsburð, og 2. mgr. 8. gr., um að álíta það ólöglegt að atvinnurekandi segi konu upp starfi meðan hún er fjarverandi í barnsburðarleyfi eða segi henni upp með fyrirvara þannig að fyrirvarinn renni út á slíkum fjarvistartíma hennar.
    Lög nr. 57/1987, um fæðingarorlof, eiga að tryggja nægilega vernd að því er varðar þessi tilvik. Mun ég því beita mér fyrir því að Ísland gangist undir skuldbindingar samkvæmt þessum tveimur málsgreinum.
    Ég tel hins vegar að við séum ekki reiðubúin að svo stöddu, frekar en Danir og Norðmenn, að tryggja að vinnandi mæður sem hafa ungbörn á brjósti skuli eiga rétt á nægum tíma í því skyni. Um þetta atriði eru hvorki ákvæði í lögum eða kjarasamningum. Í þessu sambandi má minna á að á þeim tíma þegar félagsmálasáttmálinn var saminn var barnsburðarleyfið mun styttra en nú er og þar af leiðandi hafði þetta ákvæði mun meira gildi en við núverandi aðstæður þegar leyfið er orðið sex mánuðir.