Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Á þessu ári er þess minnst að 50 ár eru liðin frá því að utanríkisþjónusta Íslendinga var sett á stofn eins og fram kemur í þeirri skýrslu um utanríkismál sem hér er til umræðu. Það er að sönnu ástæða til þess að minnast þessara tímamóta og geta þeirra í þeirri umræðu sem hér fer fram. Utanríkisþjónustan hefur gegnt svo veigamiklu hlutverki á þessum tíma. Hún hefur fyllilega staðið við þær vonir sem til hennar voru gerðar. Ugglaust hefur það verið svo þegar það bar mjög brátt að að við þurftum að taka meðferð utanríkismálanna í eigin hendur að ýmsir hafa haft uppi efasemdir um getu okkar í þeim efnum. En staðreyndirnar tala sínu máli. Utanríkisþjónustan hefur verið sterk og öflug og gætt okkar hagsmuna í hvívetna. Hún hefur á margan hátt unnið afrek. Það var mikið verk og mikið átak fyrir þessa fámennu þjóð í kjölfar styrjaldarinnar að móta utanríkisstefnu, taka ákvarðanir um aðild að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Það var mikið átak að hefja baráttuna fyrir útvíkkun landhelginnar og vinna á alþjóðlegum vettvangi að lokum fullan sigur og fá viðurkenningu þjóðanna á rétti okkar í þessu efni.
    Á þessum sviðum hefur utanríkisþjónustan og starfsmenn hennar unnið mikið starf og á þessu afmælisári er sannarlega ástæða til þess að fram komi frá Alþingi þakkir til starfsmanna utanríkisþjónustunnar bæði fyrr og síðar fyrir mikilvæg störf í vörn og sókn fyrir landsréttindum.
    Sá maður sem öðru fremur telst vera faðir utanríkisstefnu íslenska lýðveldisins er Bjarni Benediktsson. Hann komst á sínum tíma þannig að orði að áhrif smáþjóða á alþjóðavettvangi væru í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra. Ég hygg að það megi segja um okkur Íslendinga að okkur hefur tekist að ávinna okkur traust og virðingu þrátt fyrir fámenni, m.a. vegna þess að við höfum haft þetta í huga. Við höfum lagt meira upp úr að sýna stefnufestu, byggja breiða samstöðu meðal þjóðarinnar á bak við þær mikilvægu ákvarðanir sem teknar hafa verið, hvika ekki frá einum tíma til annars en styðja jafnan á alþjóðavettvangi lýðræði og mannréttindi og hika ekki við að taka ákvarðanir til þess með virkum hætti að standa vörð um þessar grundvallarhugsjónir. Þessi stefnufesta og sú breiða samstaða sem hefur tekist, þrátt fyrir harða andstöðu minnihlutahópa fyrr á árum, hefur fyrst og fremst áunnið okkur traust og virðingu á alþjóðavettvangi.
    Hér liggur fyrir skýrsla um utanríkismál sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram og mælt fyrir. Það vekur athygli nú þegar þessi skýrsla er lögð fyrir Alþingi að á henni hefur verið gerð ein breyting. Ég hef í tvígang gert við það athugasemdir þegar hæstv. núv. utanrrh. hefur lagt fram skýrslur sínar um utanríkismál að þær hafa byrjað á tilvitnun í stjórnarsáttmála hæstv. núv. ríkisstjórnar um utanríkismál, en svo sem kunnugt er er hann byggður á veikari forsendum en aðrir sáttmálar ríkisstjórna því að í fyrsta sinn síðan

við gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu var í stjórnarsáttmála komist hjá því að geta þess að Íslendingar eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Að mínu mati veikti þetta álit okkar út á við og veikti um leið stöðu hæstv. utanrrh. til að fylgja eftir þeirri grundvallarstefnu sem mikill meirihlutastuðningur er fyrir á Alþingi og meðal þjóðarinnar og fylgt hefur verið í hans tíð í ráðuneytinu, en óneitanlega var stjórnarsáttmálinn til þess fallinn að veikja þá innri samstöðu.
    Það er þess vegna fagnaðarefni að tilvitnun í stjórnarsáttmálann að þessu leyti skuli nú vera felld úr skýrslunni og ber það ótvírætt vitni um að sá hugur sem er að baki þeirrar viðurkenndu utanríkisstefnu sem við höfum fylgt er nú sterkari. Vera má að þau tíðindi sem átt hafa sér stað í Alþb., sem nýverið afnam stefnuskrá sína, séu að nokkru leyti ástæða fyrir þessu og vera má að einmitt í þeim flokki sem hefur haldið uppi andstöðu bæði við aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin sé nú orðin sú stefnubreyting að á þeim bæ sé ekki lengur talin ástæða til að fylgja þessum gömlu stefnumálum eftir. Það væri fagnaðarefni ef það væri rétt. Í verki hafa þessir minnihlutahópar ekki látið í sér heyra á undanförnum árum. Þeir hafa í reynd viðurkennt þá miklu samstöðu sem er að baki utanríkisstefnunni en fagnaðarefni væri ef þeir hefðu einnig viðurkennt það á pappírnum. Vonandi ber þessi breyting sem er á framsetningu skýrslunnar vott um þetta.
    Skýrslan gerir á skilmerkilegan hátt grein fyrir þeirri utanríkisstefnu sem við höfum fylgt og meginatriðunum sem eðlilegt er að Íslendingar hafi í huga á þeim miklu breytingatímum sem við lifum nú og ég tek fram af minni hálfu að ég er í meginatriðum mjög svo sammála þeirri skýru stefnumótun sem er skýrð í þessari skýrslu.
    Ástæða er til þess að vekja á því athygli að í skýrslunni er með mjög ótvíræðum hætti lögð á það áhersla að aðildin að Atlantshafsbandalaginu hefur verið hornsteinn utanríkisstefnunnar, svo og tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin. Engum vafa er undirorpið að varnarsamstarf lýðræðisþjóðanna og staðfesta þeirra er fyrst og fremst ástæðan fyrir þeim miklu umskiptum sem átt hafa sér stað í alþjóðamálum. Samstarf lýðræðisþjóðanna í varnarmálum tryggði frið í Evrópu og hefur tryggt frið í Evrópu í fjóra áratugi. Árangurinn af starfi Atlantshafsbandalagsins hefur afsannað hrakspár og getsakir andstæðinga þess og gert að engu málflutning þeirra sem áratugum saman börðust gegn samstarfi lýðræðisþjóðanna á þessu sviði og varnarsamstarfinu við Bandaríkin enda eru raddir þeirra nú að mestu þagnaðar. Hins vegar er að sönnu ástæða til að taka þetta skýrt fram og gera bæði þingi og þjóð enn á ný grein fyrir hversu mikil áhrif þessi sameiginlega varnarstefna hefur haft og hversu mikla þýðingu það hefur haft fyrir Íslendinga að vera þátttakendur í þessu varnarsamstarfi.
    Þeir atburðir sem átt hafa sér stað undanfarin missiri í alþjóðamálum og við fögnum öll eru afleiðing og árangur af þessu starfi. Þó er það svo að fyrir aðeins

örfáum árum myndaðist í Evrópu fylking fólks sem freistaði þess að brjóta samstarf Atlantshafsbandalagsþjóðanna niður og knýja fram í lýðræðisríkjunum ákvarðanir um einhliða afvopnun sem augljóslega hefði raskað jafnvæginu. Öllum má vera ljóst nú að við stæðum ekki í þeim sporum og hefðum ekki náð þeim árangri í afvopnun og takmörkun vígbúnaðar sem við stöndum frammi fyrir í dag ef lýðræðisþjóðirnar hefðu látið undan og hopað í þessu efni. Því miður átti þessi hreyfing þó nokkra málsvara hér á Alþingi sem freistuðu þess að knýja fram stefnubreytingu að þessu leyti einnig hér á Alþingi Íslendinga. Sem betur fer var þeirri atlögu hrundið og þess vegna höfum við getað staðið einarðir í samstarfi lýðræðisþjóðanna og fyrir vikið blasir við sá mikli árangur sem við höfum nú fyrir augum í þessu efni. En auðvitað hlýtur sá árangur sem náðst hefur, bæði að því er varðar takmörkun vígbúnaðar og eins að því er varðar lýðræðisþróunina í Austur - Evrópu, að kalla á endurmat á hlutverki Atlantshafsbandalagsins og mótun varnarstefnu á næstu árum.
Í skýrslunni er réttilega bent á að Atlantshafsbandalagið bregst eðlilega við þessum nýju viðhorfum með því að draga úr viðbúnaði en leggja um leið meiri áherslu á að hafa aðstöðu til að kalla saman herlið með skömmum fyrirvara. Jafnframt er bent á að kjarnavopn hafa nú ekki jafnmikla þýðingu og áður og er nú aðeins stefnt að því að grípa til þeirra í nauðvörn og jafnframt bent á að Atlantshafsbandalagið hefur haft frumkvæði að því að rétta fram sáttahönd til Sovétríkjanna og treysta sættir og vináttu með pólitískum samskiptum.
    Ég er þeirrar skoðunar að hér sé lögð réttileg áhersla á þau nýju viðhorf sem hljóta að móta stefnu og hlutverk Atlantshafsbandalagsins á næstu árum. Það er einnig ljóst að bæði á vettvangi ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og innan Evrópubandalagsins munu fara fram vaxandi umræður um öryggismál. Eðlilegt er að nýfrjálsu þjóðirnar í Austur - Evrópu og Sovétríkin verði þátttakendur í umræðum um öryggi Evrópu á næstu árum og ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu er eðlilegur vettvangur til slíkra umræðna.
    Þó að umræður innan Evrópubandalagsins verði ugglaust talsverðar um öryggismál er einsýnt að Evrópuþjóðirnar munu áfram leggja á það áherslu að öryggissamstarfið og varnarsamstarfið verði áfram á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og samstarf Evrópuþjóðanna og þjóða Norður - Ameríku verði áfram unnið innan Atlantshafsbandalagsins. Ég fagna því að í þessari skýrslu er með ótvíræðum hætti tekið undir þessi sjónarmið. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Til þess að komið verði í veg fyrir óstöðugleika sem kynni að skapast er nauðsynlegt að ríki Norður - Ameríku axli áfram ákveðnar skuldbindingar í varnarsamstarfi við Evrópuríkin en Atlantshafsbandalagið er eini vettvangur sem treyst getur með árangursríkum hætti hin órofa bönd er tengja aðildarríkin yfir Atlantshafið. .... Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu mun þó ekki leysa Atlantshafsbandalagið af

hólmi. Án Atlantshafsbandalagsins mundi ráðstefnuna skorta þá vestrænu dýpt sem nauðsynlegt er til að tryggja í framkvæmd áframhaldandi jafnvægi og stöðugleika á sviði varnarmála.``
    Ég tek undir þá skýru stefnumörkun sem hér er sett fram og tel að hún sé mjög mikilvæg á þeim tímamótum sem við lifum nú.
    Ég veit auðvitað ekki hvort skýrsla utanrrh. að þessu sinni lýsir stefnu hæstv. ríkisstjórnar eða hvort á bak við þessa stefnumótun er meiri hluti ríkisstjórnarflokkanna. Ég minnist þess að aðeins fyrir örfáum mánuðum talaði hæstv. fjmrh., formaður Alþb., mjög fjálglega um það að nú, þegar þær breytingar hafa orðið í Evrópu sem raun ber vitni, væri ljóst að hlutverki Atlantshafsbandalagsins væri lokið. Menn spurðu eðlilega sjálfa sig þeirrar spurningar hvort þar væri talað fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands.
    Með þeirri skýrslu sem hér hefur verið lögð fram hafa verið tekin af öll tvímæli í því efni. Ég vona sannarlega að þau umskipti hafi orðið innan Alþb. að það geti nú tekið undir svo skýra stefnumörkun og að hæstv. fjmrh. og formaður Alþb. geti étið ofan í sig þær hrakspár sem hann hafði fyrir aðeins nokkrum mánuðum um áframhaldandi hlutverk Atlantshafsbandalagsins, eins og þeir alþýðubandalagsmenn hafa þurft að éta ofan í sig allar fyrri fullyrðingar og árásir á utanríkisstefnu Íslands.
    Það er einnig ljóst að þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa verður hlutverk tvíhliða varnarsamstarfs við Bandaríkin áfram mikið og að ýmsu leyti kann það að aukast í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa. Í skýrslunni er gerð mjög rækileg grein fyrir þessum áherslum og mikilvægi áframhaldandi varnarsamstarfs við Bandaríkin. Þar er bent á að hernaðarlegt mikilvægi Íslands byggist á hnattstöðu landsins. Í fyrsta lagi segir að fylgjast megi með umferð skipa og kafbáta og flugvéla um hið svokallaða GIN-hlið, hafsvæðið á milli Grænlands, Íslands og Noregs. Og í öðru lagi sé Ísland óhjákvæmilega tengt varnaráætlunum Atlantshafsbandalagsins er lúta að liðs- og birgðaflutningum. Hlutverk varnarstöðvar Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli er því fyrst og fremst að tryggja varnir landsins og svæðanna umhverfis það, auk þess sem stöðin er mikilvægur hlekkur í eftirlits - og aðvörunarkerfi Atlantshafsbandalagsins.
    Á öðrum stað segir um hlutverk varnarliðsins að í varnarmálum hafi mikilvægi tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna aukist, en jafnframt er það Evrópubandalagið sem hefur orðið stærsti markaðurinn fyrir íslenskar útflutningsvörur. Vafalaust er rétt að þær breytingar eru nú að verða að markaðshagsmunir okkar verða í miklu ríkari mæli í Evrópu en verið hefur lengi og það hefur dregið úr þýðingu Ameríkumarkaðarins en að sama skapi verður mikilvægi varnarsamstarfsins við Ameríku ekki síður mikilvægt á næstu árum en það hefur verið á undanförnum árum. Þessi skýra stefnumörkun er fagnaðarefni og ég fullyrði að á bak við hana er mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar og mikill meiri hluti hér á hinu

háa Alþingi.
    Ég ætla ekki að ræða einstök verkefni á sviði varnarsamstarfsins að öðru leyti en því að ég kemst ekki hjá að minnast hér á þá samninga sem gerðir voru á liðnu sumri um breytingar á Aðalverktökum og breytingar á einokun á verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Mínar athugasemdir eru tvenns konar. Í fyrsta lagi hef ég litið svo á að það væri eðlilegt að breyta fyrirkomulagi verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli þannig að hún yrði frjáls og opin á grundvelli útboða. Þetta er hin almenna regla sem gildir um verktakastarfsemi. Við eigum mörg öflug og góð verktakafyrirtæki sem geta sinnt þessum verkefnum og gamla einokunarfyrirkomulagið, sem átti rétt á sér á sínum tíma, stenst því ekki lengur. Ég hefði talið eðlilegt að gera breytingar í þá veru að auka þetta frelsi en þær breytingar sem nú hafa verið gerðar ganga í þveröfuga átt því að einokunin, sem aðeins gilti frá einu ári til annars, hefur nú verið fest í sessi til fimm ára. Að mínu mati hefur þarna verið gengið í þveröfuga átt við eðlilega þróun. Í annan stað geri ég þær athugasemdir að ríkisstjórnin skuli taka einhliða ákvarðanir um að nýta úthlutaðan arð í þeim tilgangi að auka eignarhluta ríkisins í Aðalverktökum. Eðlilegt er að Alþingi taki ákvarðanir um það hvernig tekjum ríkissjóðs er ráðstafað. Arður af rekstri fyrirtækja sem ríkið á aðild að á að falla í ríkissjóð og fjárveitingavaldið, Alþingi, á að taka ákvarðanir um hvernig honum er ráðstafað. Það er óeðlilegt að ríkisstjórnin taki einhliða ákvörðun um að nýta ákvarðanir um úthlutun arðs í þeim tilgangi að auka hlutdeild ríkisins í þessu tiltekna fyrirtæki. Þar er rétt og eðlilegt að Alþingi komi til skjalanna og taki ákvarðanir um þetta eins og ráðstafanir á öðrum tekjum sem eiga að renna í ríkissjóð.
    Þessar athugasemdir vil ég gera nú þegar við þessar ákvarðanir þó ég geri ráð fyrir því að þær komi sérstaklega til umræðu þegar Alþingi ræðir skýrslu um þessi viðskipti síðar.
    Í skýrslunni er gerð rækileg grein fyrir þeim viðræðum sem nú fara fram um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar. Við þá grg. er fátt athugasemda. Við hljótum fyrst og fremst að fagna þeim markvissu störfum og því víðtæka samkomulagi sem hefur tekist um raunhæfar aðgerðir á þessum sviðum.
    Það er minnst á Sameinuðu þjóðirnar og því haldið fram í skýrslunni, og kom reyndar fram í ræðu hæstv. utanrrh., að hlutur Sameinuðu þjóðanna hefði vænkast nokkuð að undanförnu og þær hefðu sýnt að þær séu nokkurs megnugar í samræmi við upphaflegt hlutverk og upphaflegar vonir manna.
    Satt er og rétt að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur tekist mjög traust samstaða til þess að mæta árásum Íraka á Kúvæt og hernaðarbrölti Íraka í Kúvæt. Ég er þó ekki þeirrar skoðunar að sú samstaða, sem þarna hefur tekist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, beri órækan vott um að Sameinuðu þjóðirnar hafi náð þeim styrk sem menn bundu vonir við í upphafi. Ég held að meiri reynsla verði að koma á störf Sameinuðu þjóðanna áður en menn geta fellt

dóma af þessu tagi. Þótt þessi samstaða sé ánægjuleg byggir hún auðvitað fyrst og fremst á því að Bandaríkin og Sovétríkin hafa náð saman um viðbrögð við hernaðarbrölti Íraka og stefnt með mjög ákveðnum hætti að því að tryggja sjálfstæði Kúvæts. Það er fyrst og fremst samstaða Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sem hefur skapað þessi skilyrði og það á eftir að reyna á það að mínu mati hvort Sameinuðu þjóðirnar sem stofnun rísa undir upphaflegu hlutverki sínu.
    Hér er einnig rætt um Norðurlandaráð. Mín skoðun er sú að samvinna Norðurlandaþjóðanna, sem hefur verið mjög mikilvæg fyrir þær allar, sé á nokkrum krossgötum. Fyrst og fremst fyrir þá sök að samstarfið er nú í föstu fari. Þar er lítil nýsköpun, hún á sér stað á öðrum vettvangi. Breytingarnar og hreyfingarnar í alþjóðlegu samstarfi eru fyrst og fremst á efnahagssviðinu og Norðurlandaþjóðirnar hafa starfað saman fyrst og fremst innan EFTA á því sviði, en miklu síður innan Norðurlandaráðs.
    Ég held að þetta sé umhugsunarefni og Norðurlandaþjóðirnar þurfi að átta sig á þessari stöðu. Fullkomin ástæða er til að menn leiði hugann að því hvernig styrkja megi samstarfið innan Norðurlandaráðs á efnahagssviðinu, þannig að Norðurlöndin verði í væntanlegu samstarfi Evrópuþjóðanna sterkur samstarfsaðili, heild sem starfi innan nýrrar efnahagsskipunar í Evrópu, hver svo sem endanleg niðurstaða verður af samningum í þeim efnum.
    Í þessu sambandi þykir mér einnig rétt að víkja nokkrum orðum að afstöðu til Eystrasaltsríkjanna. Fyrir Alþingi liggur tillaga um að árétta viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja og að taka upp stjórnmálasamband við ríkin. Ísland hefur átt markvert frumkvæði að því að mæta sjálfstæðiskröfum Eystrasaltsríkjanna. Fyrst með því að senda þingi Litáens heillaóskir eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna sl. vor og með því að styðja heils hugar óskir Eystrasaltsríkjanna um aðild að ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að full ástæða sé fyrir okkur, sem fámenna þjóð, að styðja baráttu Eystrasaltsríkjanna með meiri þunga en við höfum gert. Ég er þeirrar skoðunar að við getum haft nokkuð að segja á alþjóðavettvangi með því að árétta á ný viðurkenningu okkar á fullveldi þessara ríkja og með því að taka upp stjórnmálasamband við þau.
    Það hefur komið fram í viðræðum við forustumenn ríkjanna að þeir telja það mjög mikilvægt í viðræðum við Sovétstjórnina að hafa slíka viðurkenningu í farteskinu. Viðræður Eystrasaltsríkjanna við Sovétstjórnina snúast ekki um það að fá Sovétstjórnina til að viðurkenna sjálfstæði þessara ríkja. Sjálfstæði þeirra er forsenda fyrir viðræðum við miðstjórnarvaldið í Sovétríkjunum. Viðræðurnar snúast á hinn bóginn um efnahagslegt samstarf, um það að Sovétríkin dragi til baka heri sína og aflétti ólögmætri hernaðaríhlutun sem var grundvöllur innlimunar ríkjanna. Það er þess vegna á misskilningi byggt að Eystrasaltsríkin ætli að semja við Sovétríkin um sjálfstæði sitt. Þau hafa tekið ákvörðun um að endurheimta það. Það er ekki

samningsatriði við Sovétríkin. Samningarnir við Sovétríkin lúta að öðrum mikilvægum viðfangsefnum sem auðvitað eru forsenda fyrir því að sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna geti orðið virkt. Því hefur verið haldið fram að viðurkenning Íslands á sínum tíma, 1921 eða 1922, sé enn í fullu gildi og nægjanlegt af Íslands hálfu að vísa til hennar. En á það er að líta í því efni að innlimun Eystrasaltsríkjanna í sovéska ríkjasambandið hefur staðið í hálfa öld og þrátt fyrir viðurkenningu okkar á sínum tíma þá höfum við í verki viðurkennt innlimun ríkjanna í sovéska ríkjasambandið með stjórnmálasamskiptum okkar við Sovétríkin. Þó að yfirlýsingin á sínum tíma standi enn de jura þá höfum við de facto viðurkennt innlimunina. Og ef við viljum nú sýna í verki að við ætlum okkur að breyta þeirri afstöðu sem við höfum haft í framkvæmd þá verðum við að árétta það með nýrri yfirlýsingu. Annars stendur enn viðurkenning í verki sem fram kemur í stjórnmálasambandi okkar við Sovétríkin. Þetta er ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að árétta þessa yfirlýsingu.
    Flestir flokkar hér á þinginu hafa tekið jákvætt í þá tillögu sem flutt hefur verið um viðurkenningu og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þó að af hálfu einstakra aðila hafi verið bornar fram efasemdir um að unnt sé að framkvæma slíka ákvörðun. Aðeins talsmaður eins flokks hefur haldið því fram hér á Alþingi að þessi tillaga sé íhlutun í málefni þeirra ríkja sem hér eiga hlut að máli. Fulltrúi Framsfl., formaður þingflokks framsóknarmanna, lýsti hér á Alþingi svörtustu afturhaldsafstöðu sem hugsast gat í afstöðu til þessarar tillögu og hélt því fram að hún væri íhlutun í málefni þeirra sem hér eiga hlut að máli. Ekki er hún íhlutun í málefni Eystrasaltsríkjanna því þau eru að óska eftir því að fá slíka viðurkenningu. En að mati Framsfl. er slík tillaga þá íhlutun í málefni Sovétríkjanna. Ég harma þá neikvæðu afstöðu sem fram hefur komið af hálfu formanns þingflokks framsóknarmanna í þessu efni, en vona eigi að síður að samstaða geti tekist í utanrmn. um að stíga þetta skref, því ég er sannfærður um að við getum, Íslendingar, haft, þó fámennir séum, raunveruleg áhrif til þess að hjálpa þessum þjóðum í sjálfstæðisbaráttu sinni ef við stígum skref af þessu tagi þó að það sé að ganga feti framar en ýmsar aðrar þjóðir, bæði á Norðurlöndum og innan Atlantshafsbandalagsins, hafa treyst sér til að gera.
    Ég tel líka að það sé okkar skylda einmitt vegna þess að við erum fámenn þjóð og eigum að hafa meiri samstöðu með öðrum fámennum þjóðum sem eru að brjótast til sjálfstæðis.
    Frú forseti. Það er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum
um þær mikilvægu viðræður sem nú eiga sér stað um tengsl okkar við Evrópubandalagið. Nýverið hafa farið fram hér á hinu háa Alþingi umræður um það efni, en nauðsynlegt er að árétta hér í þessari umræðu að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki að mínu mati gert nægilega skýra grein fyrir því hvernig hún ætlar að bregðast við breyttum aðstæðum í þessu efni.

    Hæstv. ríkisstjórn lagði á það höfuðáherslu þegar þessar viðræður hófust að hagsmunir Íslands yrðu tryggðir með sameiginlegri kröfu EFTA - þjóðanna um fríverslun með fisk. Það var talinn meiri háttar stjórnmálasigur að hafa fengið EFTA - þjóðirnar til þess að bera þá kröfu fram og því var haldið fram að aldrei yrði gengið til samninga nema Evrópubandalagið féllist á þessa kröfu. Strax í upphafi var á það bent að flest benti til þess að sá árangur, sem í því fólst að ná samkomulagi um þetta atriði innan EFTA, hafi verið meira að formi en efni og ólíklegt væri að Evrópubandalagið mundi fallast á fríverslun með fisk og þar af leiðandi afnám allra styrkja á allra næstu árum.
    Nú er komið í ljós að bæði EFTA - þjóðirnar og Evrópubandalagið gera heldur lítið úr þessari samþykkt. Norðmenn hafa ekki notað aðlögunartímann fram til þessa til þess að lækka styrki til sjávarútvegs, heldur þvert á móti hækkað þá. Og Evrópubandalagið hefur nýlega hafnað því að viðræðurnar fari fram á grundvelli kröfunnar um fríverslun með fisk. Þá brá svo við að þegar Evrópubandalagið lýsti því yfir að það hefði hafnað þessari kröfu þá var það aftur orðinn meiri háttar stjórnmálasigur fyrir Íslendinga. Það skortir á að hæstv. ríkisstjórn hafi gert nægilega skýra grein fyrir því hvernig hún ætlar að tryggja íslenska hagsmuni í þessum viðræðum því að eitt meginatriðið af okkar hálfu hlýtur að vera það, í tengslum okkar við Evrópumarkaðinn, að tryggja hindrunarlausan útflutning á sjávarafurðum. Án þess að fá viðurkenningu á sjávarafurðum á þann veg að þær séu jafngildar og jafnsettar iðnaðarvarningi annarra þjóða er þess ekki að vænta að fallist verði á nokkra samningsniðurstöðu.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur heldur ekki gert nægjanlega grein fyrir því hvernig hún muni bregðast við þeim breyttu aðstæðum, sem augljóslega eru að verða með vaxandi umræðum innan annarra EFTA - ríkja um fulla aðild að Evrópubandalaginu, sem benda til þess að staða okkar sé að vissu leyti þrengri nú en fyrir ári ef til að mynda Svíar og Norðmenn sækja á næstu 3 -- 4 árum um aðild að Evrópubandalaginu. Þá erum við í þeirri sérkennilegu stöðu að hafa ekki enn mótað afstöðu til þess hvar við eigum að standa í kjölfar slíkra breytinga. Jafnvel þó að samkomulag náist um Evrópska efnahagssvæðið er einsýnt að það verður aðeins bráðabirgðalausn. Og hvernig ætlum við að móta okkar afstöðu þegar í ljós kemur að sá bráðabirgðatími er á enda runninn? Allt eru þetta atriði sem skipta máli því að því lengur sem við drögum að móta farveg fyrir kröfugerð Íslands og samninga Íslands, því meiri hætta er á að við drögumst aftur úr öðrum þjóðum. Flestir eru sammála um að einmitt þessir samningar og sú þróun sem hér á sér stað sé þess eðlis að við, eins og aðrir, verðum að fylgjast með og gæta þess að dragast ekki aftur úr. Þessi sjónarmið vildi ég árétta þó að ástæðulaust sé á þessu stigi, vegna þeirrar umræðu sem þegar hefur farið fram um þessi efni, að fara mjög mörgum orðum um Evrópubandalagssamningana. Væntanlega gefst enn frekara tækifæri til þess síðar á þinginu.

    Í skýrslunni er síðan vikið að viðskiptasamningum, m.a. við Sovétríkin. Að sumu leyti er sú frásögn spaugileg því að þar segir að af Íslands hálfu hafi verið lögð áhersla á að ná samningum um viðskiptabókun til fimm ára þar sem tilgreind yrði magn - eða verðmætaviðmiðun. Þetta var krafa Íslands en sjónarmið Sovétríkjanna voru þau að það væri eiginlega ekki nokkur leið að ræða kröfur af þessu tagi því Sovétríkin væru að hverfa frá miðstýrðum innkaupum og að markaðskerfi. Þetta er að vísu svolítið ýkt mynd af þeim aðstæðum sem hér eru uppi en óneitanlega nokkuð skondin aðstaða.
    Auðvitað er það svo að Sovétviðskiptin hafa verið okkur um margt hagstæð og um margt nauðsynleg. Það urðu nokkrar deilur á síðasta þingi um það hvernig hæstv. ríkisstjórn stóð þá að samningum við Sovétríkin. Við sjálfstæðismenn lögðum til að mynda áherslu á að reynt yrði að tengja saman samninga um olíukaup og sölu á síld til Sovétríkjanna. Því var hafnað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hún taldi að einmitt með því að slíta þessa samninga í sundur væri verið að styrkja samningsstöðu Íslands. Við héldum hinu gagnstæða fram og gagnrýndum ríkisstjórnina fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í þessum samningum. Á daginn kom auðvitað að samningapólitík hæstv. ríkisstjórnar dugði ekki í þessu sambandi.
    Enn hljóta þær spurningar að vakna, ef halda á þessum viðskiptum áfram, hvort þá sé ekki óhjákvæmilegt að tengja saman olíukaupin og viðskiptasamninginn að öðru leyti, sölu á sjávarafurðum og öðrum afurðum til Sovétríkjanna, eða knýja það fram að heimild verði til skuldajöfnunar í þessum viðskiptum. Hæstv. utanrrh. sagði þó í ræðu sinni að því miður væri ekki ástæða til bjartsýni í þessum viðskiptum. Þá vaknar upp sú spurning hvort ástæða sé til, að því er varðar olíuviðskiptin, að halda áfram óbreyttu fyrirkomulagi. Ef það er rétt mat, sem hér kemur fram um viðskiptastöðu okkar að þessu leyti, þá tel ég að sá tími geti verið kominn að rétt sé að hætta þessum opinberu innkaupum á olíuvörum, sem bundin eru við Sovétríkin og deilt niður á olíufélögin eftir kvótareglum á grundvelli viðskiptastærðar hvers fyrirtækis, og gefa olíuviðskiptin einfaldlega frjáls, leyfa olíufélögunum að kaupa olíu þar sem þeim sýnist, í Sovétríkjunum eða hvar sem er annars staðar, og helst að keppa um verð sín á milli. Ég er þeirrar skoðunar, eins og málum er komið, að full ástæða sé til þess að íhuga breytingar af þessu tagi. Hér er um mjög veigamikið og stórt mál að tefla og ég spyr hæstv. utanrrh. hvort hann geti fallist á að tími sé kominn til að huga að slíkum grundvallarbreytingum með tilliti til þess í hvaða stöðu þessir samningar eru komnir og með tilliti til þess að Sovétríkin eru að hverfa frá miðstýrðum þjóðarbúskap yfir í markaðskerfi. Og hvort ástæða sé til þess fyrir Íslendinga að ríghalda í miðstýrð opinber innkaup lengur en Sovétríkin.
    Að lokum aðeins um GATT - viðræðurnar. Ég hef áður lýst því yfir að ég tel mikilvægt að við séum þátttakendur í þeim viðræðum og tel eðlilegt að við leitum eftir því að hafa samstöðu með öðrum Norðurlandaþjóðum um farsæla niðurstöðu á því sviði, m.a. að því er varðar samninga um landbúnaðarafurðir. En ég teldi rétt að hæstv. utanrrh. gerði þinginu nánari grein fyrir afstöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessu efni, þeim tillögum sem hún mun flytja inn á þennan vettvang og hvaða áhrif þær muni hafa á íslenskt efnahagslíf. Það er full ástæða til þess að óska eftir því að hæstv. ríkisstjórn geri nánari grein fyrir þessu. Ég tel að það samkomulag sem vonandi tekst á þessu sviði sé mikilvægt fyrir okkur eins og aðrar þjóðir og við eigum að taka þátt í því. En auðvitað skiptir máli hver afstaða Íslands verður og hvaða tillögur það hefur fram að færa. Mín ósk er sú að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar í því efni.