Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að þakka ber starfsliði utanríkisþjónustunnar fyrir mjög mikil og vel unnin störf oft við erfiðar aðstæður. Staðreyndin er vitanlega sú að öll umsvif í utanríkismálum okkar Íslendinga hafa stórlega aukist á síðustu árum. Framan af var þetta einkum innan Norðurlandaráðs, Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðs, en bæði hafa umsvif mjög aukist á þessum sviðum og fjölmörg önnur hafa bæst við. Við erum orðnir langtum virkari þátttakendur á sviði Atlantshafsbandalagsins svo eitthvað sé nefnt og erum núna einnig virkir þátttakendur í því sem kallað er ráðstefna um öryggismál Evrópu.
    Sömuleiðis hefur sú staðreynd að utanríkisviðskiptin voru færð yfir í utanrrn. og sameinuð utanríkisþjónustunni stórlega aukið umsvif utanríkisþjónustunnar. Ég er sannfærður um að þetta var rétt ráðstöfun og tel þó að það eigi enn þá eftir að efla og styrkja ráðuneytið þannig að það megi sinna þessum mikilvæga þætti enn betur en gert hefur verið.
    Ég ætla ekki í þessum orðum að fara yfir þessi svið hvert fyrir sig, sem ég tel öll mikilvæg að vísu, heldur minnast á nokkur atriði sem ég álít umhugsunarverð á þessu stigi mála. Ég sagði áðan að við hefðum beitt okkur eins og við hefðum getað innan Atlantshafsbandalagsins fyrir því að samkomulag verði á milli stórveldanna og milli Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins um afvopnun, um fækkun kjarnorkuvopna ekki síst. Við höfum stutt og fagnað hverju sem náðst hefur að þessu leyti. Við höfum hins vegar, eins og kemur fram í skýrslu utanrrh., lýst áhyggjum yfir því að afvopnun á höfunum hefur ekki verið tekin með í þessar mikilvægu umræður. Við höfum að vísu náð nokkru fram, m.a. á leiðtogafundi í London nú í sumar, þar sem eftir veruleg átök og deilur fékkst tekið inn í samþykktina að grundvöll áframhaldandi afvopnunarviðræðna skyldi endurskoða. Að sjálfsögðu erum við þá með í huga að afvopnun á höfunum verði þar tekin með. Ég tel afar mikla nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að leggja áherslu á þessi mál og jafnvel meiri en við höfum gert til þessa. Ég er sannfærður um að það eru réttar skýrslur, sem nú hafa borist, um það að kjarnorkukafbátar sem sökkva eða er sökkt tærast miklu fyrr en kjarnorkuveldin hafa viljað halda fram. Allt bendir til þess að það gerist á örfáum árum miklu frekar en öldum eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka. Það er einnig vitað mál, þótt ekki sé að fullu upplýst, að kjarnorkuveldin hafa stundað það að sökkva úreltum kjarnorkukafbátum, að vísu tekið eldsneytið úr en eftir er kjarnorkumengað kælivatn og allt umhverfi kjarnakljúfans. Þetta tærist og breiðist um höfin ef ekki er stöðvað. Það er vitað mál að þegar eru orðnar verulegar áhyggjur af þessum ástæðum, m.a. í Bretlandi. Ég tel þess vegna að við eigum að auka enn, ekki aðeins innan Atlantshafsbandalagsins heldur á öllum sviðum umhverfismála, okkar áherslu á það að umferð kjarnorkuknúinna kafbáta verði stórum minni um

Norður - Atlantshafið en hún hefur verið til þessa.
    Ég kemst ekki hjá því að fara fáeinum orðum um afstöðu framsóknarmanna til Eystrasaltslandanna vegna ummæla hv. 1. þm. Suðurl. áðan. Það er mikill misskilningur að Framsfl. sé á nokkurn máta andsnúinn því að við Íslendingar beitum okkur eins og við frekast megum til þess að þessi lönd megi endurheimta sitt sjálfstæði. Ég vek athygli á því að mjög góðar og gagnlegar umræður fóru fram hér á landi nýlega þegar Landsbergis, forseti Litáens, var hér í heimsókn. Ég er sannfærður um að það er rétt, sem m.a. kom fram í þeim viðræðum, að það er mikilvægast fyrir framtíð þessara landa að ná raunhæfum samningum við risann í austri, Sovétríkin. Þetta skilja þessi lönd mætavel og þar hefjast núna það sem kalla má alvöruviðræður um næstu mánaðamót. Þær hafa dregist allt of lengi. Ég tel að eitt af því besta sem við getum gert sé að þrýsta á Sovétríkin að þau gangi af krafti til þessara viðræðna og þar verði sá árangur sem tryggi sjálfstæði þessara þjóða. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel alveg ljóst að okkar viðurkenning á sjálfstæði þeirra liggur fyrir og ég álít ekki aðalatriði hvort hún er endurtekin. Ég tel hitt miklu mikilvægara að við réttum fram hjálparhönd þar sem við getum, t.d. með samningum á viðskiptasviðinu og menningarsviðinu og með því að beita okkur á alþjóðlegum vettvangi fyrir því að á Sovétríkin verði þrýst í þessu sambandi. Ég tel t.d. eðlilegt að við beitum okkur fyrir því að þessi lönd fái a.m.k. áheyrnaraðild að öryggismálaráðstefnu Evrópu ef ekki fulla aðild, en ég hygg að það muni verða nokkrum erfiðleikum háð á þessu stigi. Ég tel einnig eðlilegt að við beitum okkur fyrir því þar að sú deild eða stofnun, sem um er rætt að setja á fót innan þessarar ráðstefnu, um meðferð á deilusvæðum, á svæðum í Evrópu þar sem deilur eru, líti einmitt á mál eins og Eystrasaltslandanna. Það er að mínu mati einkennandi svæði, einkennandi mál, fyrir þá stofnun að fást við. Svo að ég tel að við getum á ýmsan slíkan máta styrkt þessi lönd miklu betur en samþykkja á ný sjálfstæðisviðurkenningu af okkar hálfu.
    Ég nefndi ekki áðan, en það tilheyrir þó vissulega utanríkismálum á ýmsan máta, mjög vaxandi umsvif á sviði umhverfismála sem munu og fara mjög vaxandi á næstunni. Í ljós hefur komið, sem ég lagði mikla áherslu á þegar ég flutti hér frv. um stofnun umhverfisráðuneytis, að ekki síst á því sviði yrði þörf skipulegrar þátttöku okkar. Þetta hefur komið mjög greinilega fram á fundum og ráðstefnum sem við höfum sótt og hefur einmitt sýnt sig að okkur hefur tekist að fá þar nokkru framgengt, t.d. á nýlegri ráðstefnu sem haldin var hér í Reykjavík um mengun í hafinu og á ráðstefnu um mengunarmál sem haldin var í Bergen í aprílmánuði. Þar tókst okkur að fá inn breytt orðalag um bann við því að varpa
skaðlegum efnum í hafið, að vísu ekki nálægt því eins ákveðið og við hefðum viljað en þó spor í áttina. Og við höfum nú á ráðstefnu, sem umhvrh. sækir erlendis, skrifað undir samkomulag um það að útstreymi á CO 2 verði um næstu aldamót ekki meira en það er í

þessum löndum nú. Ef um þetta næst samkomulag, ef lönd eins og Bretland og Bandaríkin fallast á þessa stefnumörkun, þá er þetta gífurlega stórt skref fram á veg en þetta leggur vitanlega töluvert mikinn vanda á okkar herðar. Við þurfum þá að draga verulega úr slíkri mengun þrátt fyrir það að hún er að heildarmagni til mjög lítil hér á landi sem betur fer. Njótum við þar m.a. þess að við framleiðum ekki raforku með kolum eða olíu eins og svo víða er gert.
    Um þessi mál hefur líka verið fjallað hjá Sameinuðu þjóðunum og verður fjallað á leiðtogafundi öryggisráðstefnu Evrópu í París sem hefst 19. þ.m. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur utanrrh. gert það að tillögu okkar Íslendinga að alþjóðlegur sáttmáli um umhverfið verði gerður. Við eigum að halda því mjög til streitu og ég mun leggja áherslu á það í því sem ég segi, m.a. á fyrrnefndum fundi í París. Vitanlega má segja að að þessu er unnið með ýmsum undirbúningsráðstefnum fyrir umhverfisráðstefnu þá sem verður á vegum Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu 1992. En ekki er þó enn þá svo frá gengið að sú ráðstefna leiði til alþjóðlegs sáttmála, eða alþjóðalaga, sem bindur allar þjóðir að þessu leyti en það hlýtur að verða mikið markmið hjá okkur.
    Það er varla hægt að ræða um utanríkismál án þess að minnast á þá mjög alvarlegu stöðu sem er í Mið - Austurlöndum. Vitanlega vonum við Íslendingar, og væntanlega allur heimurinn, að það mál leysist án styrjaldar. Því miður horfir ekki allt of vel þar. Ég vil nota tækifærið og taka undir það sem kemur fram í skýrslu utanrrh. um ástandið á herteknum svæðum í Mið - Austurlöndum, þ.e. á svæðum Palestínumanna, og hlýt að fordæma það blóðbað sem þar varð nýlega. Það er algerlega óafsakanlegt. Það hlýtur að verða og vera, eins og verið hefur, viðleitni okkar Íslendinga hvar sem við komum fram að fá Ísraelsmenn til að ræða við Palestínumenn um lausn þessara mála. Við hljótum að hafa þar að markmiði sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna eins og sjálfsákvörðunarrétt baltnesku landanna og hverrar annarrar þjóðar sem um er að ræða í slíku sambandi. Það hefur verið grundvallarstefnumið okkar Íslendinga að sjálfsákvörðunarréttur þjóða eigi að fá að ráða og svo hlýtur að vera í slíkum tilfellum.
    Ég nefndi það áðan að utanríkisviðskipti hafa orðið mjög veigamikill þáttur í utanríkisþjónustunni og kemur þetta vitanlega fram á fjölmörgum sviðum. Það kemur fram í viðræðum okkar við Evrópubandalagið um myndun Evrópsks efnahagssvæðis. Ég ætla ekki að ræða það hér að neinu marki, enda var það nýlega rætt hér á hinu háa Alþingi og verður eflaust rætt oftar í vetur. Ég verð hins vegar að lýsa því að ég er ekki sammála því sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. að okkur Íslendingum hafi orðið á einhver mistök í þeirri meðferð allri. Ég er sannfærður um að við erum þar á réttri braut. Ég er sannfærður um að það var rétt og nauðsynlegt að fá EFTA - löndin til að samþykkja fríverslun með fisk, jafnvel þótt það sé rétt hjá hv. þm. að Noregur fullnægi ekki þeim kröfum sem verður að gera til fríverslunar. Það er allt annað mál

út af fyrir sig og hlýtur að koma að því fljótlega að Norðmenn verða tilneyddir að taka á þeim málum eins og vera ber. Því miður eru hins vegar fjölmargar undankomuleiðir frá því að standa að fríverslun eins og vera ber. Við vitum það að styrkir eru veittir til byggða, tekjustyrkir og fleira, sem munu vera leyfðir samkvæmt þeim reglum sem gilda um fríverslun.
    Mér sýnist algerlega óþarfi að óttast eitthvað í þessu sambandi, a.m.k. á þessu stigi mála. Hvort sem viðræðurnar við EC leiða til sameiginlegs efnahagssvæðis, þar sem okkar hagsmuna verður, er ég sannfærður um, gætt, eða til sérsamninga okkar Íslendinga ef þessar viðræður mistakast, þá erum við á réttri braut. Ég vil leggja á það mikla áherslu að ég sé enga ástæðu til þess að við hér á hinu háa Alþingi séum að deila um þessi mál á þessu stigi. Þessi mál koma hér aftur fljótlega þegar meira liggur fyrir um það hvert horfir með þessa samninga.
    Ég vil hins vegar ræða aðeins um viðskipti á ýmsum öðrum sviðum og tek í því sambandi reyndar undir það sem kom fram hjá frægum sænskum iðjuhöldi og fjármálamanni, Peter Wallenberg, sem var hér nýlega á opinberum fundi og lagði mikla áherslu á það að við Íslendingar ættum, eins og aðrar þjóðir, að fara að taka þátt í samstarfi og fjárfesta í fyrirtækjum erlendis á sviðum þar sem við höfum þekkingu. Ég held að þetta sé mjög stórt mál og þegar við opnum okkar land inn þá eigum við líka að nota okkur það að opna það út.
    Við höfum að vísu gert þetta í litlum mæli óbeint með því að veita tækniaðstoð til að þróa sjávarútveg á Grænhöfðaeyjum og erum nú með slíkt samstarf í Namibíu. Þar starfa núna, ef ég man rétt, átta íslenskir sérfræðingar. Það er athyglisvert að svo var eftir því tekið að forseti Namibíu kom sérstaklega til mín þegar ég var á fundi Sameinuðu þjóðanna nýlega og þakkaði fyrir mikilvæga aðstoð Íslendinga á þessu sviði. Það er tekið eftir slíku og við erum á réttri braut með því að beina okkar aðstoð að einhverjum ákveðnum þáttum en ekki að týnast í miklu víðtækari aðstoð. En ég ætla að koma síðar að þessari þróunaraðstoð okkar Íslendinga.
    Það hefur einnig orðið mjög vaxandi samstarf á sviði þróunar jarðvarma. M.a. var það eitt aðalatriðið sem tékknesk yfirvöld lögðu áherslu á í opinberri heimsókn minni þangað í apríl. Þar var skrifað undir viljayfirlýsingu í því sambandi. Þessu hefur verið haldið áfram og það eru komnir núna samningar á milli íslenska fyrirtækisins Virkir - Orkint og tékkneskra yfirvalda um þróun jarðvarma í Slóvakíu í mjög stórum stíl. Slíkir samningar hafa verið gerðir í Ungverjalandi og tekist hefur að útvega fjármagn til þessa verks, m.a. hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Þarna erum við að flytja út þekkingu. Á sumum þessum sviðum hefur verið ákveðið að stofna til sameiginlegra fyrirtækja í notkun jarðvarma.
    Nýlega er komin til landsins sendinefnd frá þessu fyrirtæki, sem ferðaðist um Sovétríkin, m.a. alla leið til Kamtsjatka og Kúrileyja, sem hafa verið lokuð svæði en virðast nú hafa opnast algerlega. Það er athyglisvert að þar, á þeim afskekkta stað, líta menn til Íslands númer eitt, ekki aðeins um þróun víðtæks jarðvarma sem má nota þar og spara olíu á köldum svæðum í mjög stórum stíl, heldur í samvinnu í fiskveiðum og spyrja beinlínis: Vilja Íslendingar koma og vinna með okkur að þróun slíks atvinnureksturs?
    Það er meira að segja búið að stofna félag, vináttufélag Íslands og Kamtsjatka, þó ég viti ekki til þess að nokkur Íslendingur hafi komið þangað fyrr, en það var tilbúið þegar þeir komu.
    Ég tel að við getum átt mjög stóra möguleika með slíkri þátttöku, einmitt að selja í raun og veru, eða flytja út, þá miklu þekkingu sem við Íslendingar höfum aflað okkur á þessum sviðum, mjög mikla þekkingu sem ég hygg að sé viðurkennd sem einhver sú fremsta sem til er.
    Hér var minnst á það áðan að samningar við Sovétríkin um viðskipti eru í miklum erfiðleikum vegna þeirra efnahagserfiðleika sem þar eru. Við skulum vona að úr því leysist því það er afar mikilvægt fyrir íslenska síldarframleiðendur og, eins og komið hefur fram, eru stjórnvöld að leita allra leiða til að ná þeim samningum. M.a. hef ég átt í viðræðum við sendiherrann og mun gera það sem í mínu valdi stendur til að stuðla að þessum samningum. En ég held að meiri líkur séu til þess að það megi takast ef við erum jafnframt reiðubúnir að taka þátt í ýmiss konar þróunarstarfi sem nú er mjög aðkallandi í ýmsum ríkjum Sovétríkjanna. Ég held að við eigum að tengja þetta í raun saman.
    Ég er ekki sammála því sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. að af hálfu stjórnvalda sé verið, að því er mér skilst, að neyða íslensk olíufélög til að kaupa olíu frá Sovétríkjunum. Þau hafa óskað mjög eindregið eftir því að stjórnvöld beittu sér fyrir samningum við Sovétríkin um olíukaup. Og ég vek athygli á því að 1975, hygg ég að það hafi verið, var horfið af þessari braut og leitað út fyrir Sovétríkin um ýmis kaup, sem þar voru áður, og ég hygg að allir hafi verið sammála um það þegar upp var staðið að það var verulegt fjárhagstjón fyrir okkur Íslendinga. Ástæðan fyrir því að olíufélögin leggja áherslu á þetta, ekki síst nú, er að þau telja mjög mikið öryggi í því fólgið að hafa samninga við Sovétríkin, sem alltaf hafa staðist, um afhendingu á olíu. Það er mjög mikil óvissa í þessum málum núna fram undan.
    Ég vil fullvissa hv. þm. um það að a.m.k. af minni hálfu verður enginn neyddur til þess að kaupa olíu frá Sovétríkjunum ef hann vill það ekki. Það er engin ástæða til þess, ekki nokkur. En olíufélögin hafa beinlínis óskað eftir þessum viðskiptum og telja í þeim fólgið mikið öryggi. Sovétríkin geta örugglega selt sína olíu auðveldlega ef við kaupum hana ekki. Við höfum reynt að leggja á það áherslu að þarna verði jafnvægi í viðskiptum, en því miður þá hefur ekki mikið verið á það hlustað einmitt af þeirri ástæðu að svarið sem við fáum er það að olían sé auðseljanleg hvort eð er og Sovétmenn þurfi út af fyrir sig ekki á þessari sölu til okkar að halda.
    Ég sagði áðan að ég vildi gjarnan fara nokkrum

orðum um þróunaraðstoð okkar Íslendinga sem ég tel vera okkur til skammar, ef ég má orða það svo. Við samþykktum, líklega fyrir sjö árum eða svo, að veita 0,7% okkar þjóðartekna til þróunaraðstoðar og gengum þar til móts við markmið sem við samþykktum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þegar allt er tínt saman núna þá mun aðstoðin vera eitthvað í kringum 0,07% þjóðartekna. Hér er vissulega um erfitt mál að ræða því að hér er mikil þörf fyrir fjármagn á fjölmörgum sviðum velferðar í okkar eigin landi og menn hafa ekki séð leiðir til þess að skera það niður, eða orðið sammála um það, eða hækka skatta í þessu skyni.
    Ég tók nýlega þátt í ráðstefnu um velferð barna þar sem við leggjum afar lítið af mörkum, við höfum líklega lagt fram 6 -- 8 kr. á hvern íbúa þessa lands en Norðmenn á sama tíma um 600 kr. Ég hef rætt þetta nýlega við fjvn. og ég heyri að þar er vilji til að skoða þetta betur og þykir mér það gott. En staðreyndin er engu að síður sú að í heildina þá er okkar framlag svona lítið. Ég hef varpað fram þeirri hugmynd hvort til greina komi að við greiðum vissulega af opinberu fé allt sem er samnings - og lögbundið í alþjóðlegt samstarf en að við Íslendingar leggjum hins vegar einhvern lítinn hundraðshluta af okkar tekjum í alveg sjálfstæðan og sérstakan sjóð til þess að sinna þessari þróunaraðstoð. Ég hef reifað þetta innan ríkisstjórnarinnar og hyggst leggja þar fram ákveðnar tillögur í þessu sambandi. En ég vil líka benda á það að slík þróunaraðstoð er alls ekki einstefna. Slík þróunaraðstoð, eins og ég hef reyndar lauslega nefnt, leiðir mjög oft til vaxandi viðskipta við það land sem veitir þróunaraðstoðina. Ég er ekki að mæla með því að það verði í blindni gert, en ég held, og veit reyndar, að það er mikið horft til slíkra landa um ýmiss konar samstarf sem getur verið afar mikilvægt. Þess vegna held ég að við eigum að skoða þetta mjög vandlega.
    Ég skal nú ekki lengja þetta. Þetta er að mörgu leyti ánægjuleg skýrsla vil ég leyfa mér að segja og ég vil taka það skýrt fram að ég er að sjálfsögðu, og við framsóknarmenn, henni mjög sammála. Við erum m.a. sammála því sem þarna kemur fram um breytt hlutverk Atlantshafsbandalagsins. Við teljum hins vegar mjög vel koma til greina að við Íslendingar höfum frumkvæði að því að ræða við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin um breytta stöðu, m.a. breytta stöðu okkar. Við höfum oft sagt að mikilvægi Íslands muni breytast frá því að vera varnarstöð í það að verða eftirlitsstöð með gerðum samningum. Og það er vitanlega afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að þeir samningar sem kunna að verða gerðir, t.d. um umferð kjarnorkuknúinna kafbáta um Norður - Atlantshafið, séu þá haldnir eða flug véla um íslenskt yfirráðasvæði. En ég held að það komi vel til greina að við tökum frumkvæði að því að ræða þessa breyttu stöðu og hvernig við komum inn í það mál. Ég vek athygli á því að rekstur radarstöðvanna verður í íslenskum höndum og mjög mikill fjöldi íslenskra tæknimanna vinnur við þann hugbúnað sem er ætlað að nota í

þessu sambandi. Ég held að það komi vel til greina að við skoðum þetta á breiðari grundvelli.