Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Í skýrslu utanrrh. er vikið að þeirri nýju heimsmynd sem blasir við á nær öllum sviðum alþjóðamála. Orsakir þessarar þróunar eru margvíslegar. Þær felast ekki aðeins í hruni kommúnismans í Austur - Evrópu og þeim fjölþættu lýðræðishreyfingum sem þar hafa komið fram. Þær felast ekki aðeins í því að tilvist hernaðarbandalaganna er nú á meiri brauðfótum en verið hefur frá því að til þeirra var stofnað, heldur felst hún einnig í því að æ fleiri skynja það að sameiginlegt öryggi heimsbyggðarinnar allrar felst í nýjum vinnubrögðum og viðhorfsbreytingu og lífsháttabreytingu jarðarbúa. Afleiðing iðnþróunarinnar og efnahagsþróunarinnar á undanförnum áratugum er sú að snemma á næstu öld geta áhrif eyðingar ósonlagsins og gróðurhúsaáhrifin verið orðin slík að fjölmenn svæði jarðarinnar, sem í dag eru blómlegar byggðir, verða óbyggileg. Þessi nýja sameiginlega öryggiskrafa um að vernda heimsbyggðina alla og forða henni frá þeim skaðvænlegu umhverfiseyðingaráhrifum sem við blasa er e.t.v. þegar til lengdar lætur sterkasta orsökin að því að um veröldina alla velta menn nú fyrir sér nýjum aðferðum og nýjum leiðum til þess að treysta alþjóðlegt samstarf, alþjóðlega samvinnu og sameiginlegt öryggi jarðarbúa allra.
    Þessi þróun felur það í sér að í reynd er nauðsynlegt að endurskoða nær allar hugmyndir sem hafa verið ríkjandi í utanríkismálum á síðustu áratugum, sérstaklega í okkar heimshluta. Það er alveg ljóst að sú ógn sem var á sínum tíma orsökin að stofnun Atlantshafsbandalagsins er ekki lengur til staðar. Tök Sovétríkjanna á ríkjum Austur - Evrópu eru úr sögunni og reyndar er vafamál hvort Sovétríkin verði til í núverandi mynd sinni innan fáeinna ára. Eitt er víst að sameiginlegur herafli Austur-Evrópuríkjanna allra sem stefnt væri til innrásar í Vestur-Evrópu er ekki lengur til.
    Þróun mála í kjölfar innrásarinnar í Kúvæt sýnir líka að stórveldin telja sig hafa beina hagsmuni af mjög náinni samvinnu sín á milli til að forða því að átök í einstökum heimshlutum stofni í hættu því nýja öryggiskerfi sem nú er verið að reyna að þróa. Það er líka ljóst að tæknikunnáttan til að smíða kjarnorkuvopn er nú orðin svo útbreidd að nú þegar gætu allmörg ríki til viðbótar þeim sjö sem hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða í dag komið sér þeim vopnum upp á mjög skömmum tíma. Auk hinna fimm hefðbundnu kjarnorkuvelda er ljóst að bæði Ísrael og Suður - Afríka hafa nú þegar yfir kjarnorkuvopnum að ráða. Lönd eins og Indland, Pakistan, Argentína og Brasilía gætu komið sér upp kjarnorkuvopnum á 1 -- 2 mánuðum til 1 -- 2 ára og allmörg ríki til viðbótar gætu á fimm ára tímabili bæst í hóp kjarnorkuveldanna. Þar með er auðvitað ljóst að sú gagnkvæma tryggingarkenning sem löngum var talin réttlæting fyrir hinum mikla kjarnorkuvopnabúnaði stórveldanna og kjarnorkuveldanna fimm er ekki lengur gild.
    Það er athyglisvert að í nýútkominni ævisögu sinni rekur Ronald Reagan, fyrrv. Bandaríkjaforseti, þá hugmynd sína að í reynd hefði hann aldrei skilið grundvallarröksemdina í fælingarkenningu og kjarnorkuvígbúnaðaruppbyggingu Bandaríkjanna eða stórveldanna. Þess vegna hefði hann verið reiðubúinn á Reykjavíkurfundinum, fundi hans og Gorbatsjovs, að semja um útrýmingu allra kjarnorkuvopna í veröldinni.
    Ég nefni þetta hér í upphafi vegna þess að allir þessir þættir hljóta nú þegar og á næstu árum að hafa afgerandi áhrif á umræður um utanríkismál hér á Íslandi og um þá stefnu sem Íslendingar hljóta að móta í utanríkismálum. Það er nú þegar orðið tímabært að viðurkenna að þær meginforsendur sem voru að baki stofnunar Atlantshafsbandalagsins á sínum tíma og samningsins milli Íslands og Bandaríkjanna um herstöðvar á Íslandi eru ekki lengur gildar. Það má vel vera að menn finni sér nýjar forsendur til að réttlæta áframhaldandi tilvist Atlantshafsbandalagsins og áframhaldandi tilvist erlendra herstöðva á Íslandi, ég skal ekkert um það segja hér og nú, en ljóst er að eldri forsendurnar eru ekki lengur fyrir hendi.
    Utanríkismálin hafa, eins og allir vita hér í þessum sal, skipt íslensku þjóðinni í andstæðar fylkingar. Ekkert hefur verið jafnhatrammt deilumál í þessum sal eða með þjóðinni allri í röska fjóra áratugi eins og deilurnar um utanríkisstefnuna. Þegar meginforsendur þeirra deilna eru úr sögunni er það auðvitað skylda okkar allra sem erum í þessum sal og reyndar þjóðarinnar allrar að hefja umræðu, sem er nú þegar orðin tímabær og nauðsynleg, um nýja utanríkisstefnu Íslendinga, nýja utanríkisstefnu sem yrði hornsteinninn í íslenskum stjórnmálum inn á næstu öld. Vonandi berum við gæfu til þess að móta þessa nýju utanríkisstefnu í slíkri samvinnu að Íslendingar geti innan tíðar orðið samferða þeim þjóðum þar sem mjög breið og sterk samstaða ríkir um utanríkisstefnuna.
    Ég er þess vegna sannfærður um það að eitt af brýnustu verkefnum íslenskra stjórnmála á næstu missirum og árum er mótun þessarar nýju utanríkisstefnu, nýrrar utanríkisstefnu sem lýsir því hvernig við sem smáþjóð ætlum að skipa okkur í sveit þjóðanna þar sem hernaðarbandalögin hafa ekki lengur tilverugrundvöll og þar sem réttlæting erlendra herstöðva er úr sögunni. Slíkar spurningar um nýja utanríkisstefnu eru auðvitað erfitt viðfangsefni fyrir okkur öll vegna þess sem ég sagði áðan, að í fjörutíu ár hefur deilan um þá utanríkisstefnu sem nú heyrir fortíðinni til í reynd verið sterkasti krafturinn, sterkasta hreyfiaflið, í stjórnmálaumræðunni í landinu.
    Það er ekkert eins erfitt í stjórnmálum eins og að hugsa nýja hugsun vegna þess að það eru svo miklir hagsmunir, það er svo mikil saga, það er svo mikill vani á bak við hina gömlu hugsun að þægilegast er að halda henni áfram þótt veröldin í kringum mann hafi breyst með þeim hætti að nánast er kjánalegt að orða þá hugsun með sama hætti nú og gert var áður.
    Hrun kommúnismans í Austur - Evrópu, sú staðreynd að Varsjárbandalagið er ekki lengur til sem hernaðarbandalag, sú staðreynd að samvinna Sovétríkjanna og Bandaríkjanna er meiri en ágreiningur þeirra, sú staðreynd að í Evrópu leita menn nú að sameiginlegu

öryggiskerfi Evrópu allrar, öryggiskerfi sem hlutlausu ríkin og bandalagsríkin eldri taki þátt í í sameiningu, allt þetta hlýtur að knýja á um það að við hér á Íslandi hefjum umræður milli stjórnmálaflokka, við almenning í landinu og hér innan þingsins um þær nýju forsendur sem við viljum leggja til grundvallar í utanríkisstefnu framtíðarinnar.
    Ég er sammála því sjónarmiði sem fram kom hjá forsrh. hér áðan að Íslendingar hljóti að leita eftir viðræðum við Bandaríkin um brottför bandarísks herliðs af Íslandi. Slíkar viðræður eiga að mínum dómi hins vegar ekki aðeins að vera við Bandaríkin. Þær eiga að vera við ríkin öll í nágrenni okkar, þær eiga að fara fram innan ramma þess samstarfs sem er að þróast um öryggismál í Evrópu allri og þær eiga líka að tengjast þeirri þróun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem nú er í fyrsta sinn frá stríðslokum verið að gera virkt það öryggiskerfi sem skráð var inn í sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Innan þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr hefur verið breið samstaða um það að krafan um afvopnun á höfunum hlyti að vera forgangskrafa Íslendinga í alþjóðamálum. Ég fagna því að í samstarfi okkar síðan ríkisstjórn var mynduð hér haustið 1988 hafa ríkisstjórnarflokkarnir allir lagt áherslu á þessa nýju kröfu Íslands á alþjóðavettvangi. Utanrrh. og forsrh. hafa fylgt fram þessari stefnu innan Atlantshafsbandalagsins þar sem hún hefur því miður ekki enn hlotið nægilegan hljómgrunn. Það er í sjálfu sér athyglisvert að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur það gerst í fyrsta sinn að Íslendingar hafa með virkum hætti beitt sér innan Atlantshafsbandalagsins til að knýja á um breytingar á þeirri vígbúnaðarstefnu sem þar er ríkjandi. Við höfum að vísu fengið hljómgrunn hjá einstaka ríkjum við þessa kröfu en öflugustu ríkin innan Atlantshafsbandalagsins hafa hingað til ekki viljað samþykkja að þetta yrði sett á oddinn. Krafa Íslands um viðræður við Bandaríkin, krafa Íslands um viðræður við önnur ríki í Norður - Evrópu um þróu n öryggismála hlýtur að vera eðlilegt framhald af kröfu okkar innan Atlantshafsbandalagsins um afvopnun á höfunum. Við getum ekki unað því að á sama tíma og stórfelldasta afvopnun sögunnar á sér stað á meginlandi Evrópu haldi áfram hernaðaruppbyggingin í höfunum í kringum Ísland. Það er engin stjórnmálaleg, öryggisleg eða hernaðarleg forsenda fyrir því að sú uppbygging haldi áfram. Hún er líka hættuleg frá sjónarmiði umhverfisverndar.
    Við vitum það öll hér í þessum sal að það hafa átt sér stað slík slys og slíkar bilanir hjá kjarnorkuknúnum kafbátum, skipum með kjarnorkuvopn, í höfunum í kringum Ísland að litlu hefur munað að það ógnaði efnahagslegu öryggi okkar.
    Sú stefna Íslendinga sem utanrrh. flutti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að krefjast alþjóðasamnings um umhverfismál, sérstaklega umhverfisverndun hafanna, á líkan hátt og gert var með hafréttarsáttmálann á sínum tíma, er líka rökrétt framhald af þessari kröfu.
    Ég nefni þessi atriði hér í umræðum um skýrslu utanrrh. vegna þess að á undanförnum áratugum hefur það verið venja hér á Alþingi að þessi skýrsla kæmi á dagskrá seint á þinginu, hún væri hluti af þeim lokaverkum sem unnin væru í þingsölum, en hún væri ekki upphafið að nýjum verkum og nýrri umræðu. Ég vona að sú nýbreytni að flytja skýrsluna hér snemma á þingi verði til þess að menn noti nú þingtímann til að hefja þessa nýju umræðu sem við þurfum öll óhjákvæmilega að taka þátt í.
    Innan fáeinna ára rennur út gildistími þess samnings sem gerður var um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og um útbreiðslu kjarnorkuvopna. Samningurinn, sem á ensku ber heitið The Non-Proliferation Treaty. Það er þessi samningur sem margir hafa talið að héldi í böndum útbreiðslu kjarnorkuvopnanna. Gildistími hans rennur út eftir fimm ár. Árið 1995 verða öll aðildarríki samningsins laus skuldbindinga. Þess vegna gæti hafist kapphlaup um útbreiðslu kjarnorkuvopna sem menn hafa ekki séð eða gert sér í hugarlund að gæti átt sér stað.
    Meginforsenda þess að hægt sé að varðveita þennan samning inn á næstu öld er að samið verði um allsherjarbann við öllum tilraunum með kjarnorkuvopn og á síðustu árum hefur smátt og smátt verið að vaxa fylgi þeirri kröfu að samningnum frá 1963, sem Kennedy og Krútsjov gerðu á sínum tíma og var fyrsti samningur stórveldanna um afvopnunarmál, verði breytt á þann veg að hann banni ekki aðeins tilraunir með kjarnorkuvopn í andrúmsloftinu eða tilraunir með kjarnorkuvopn neðan sjávar, heldur banni hann einnig tilraunir með kjarnorkuvopn neðan jarðar. Það var reyndar ætlun Kennedys og Krútsjovs í aðdraganda samningsgerðarinnar að samningurinn yrði á þann veg að hann bannaði allar tilraunir með kjarnorkuvopn. Sagan sýnir hins vegar að það voru hershöfðingjarnir, bæði í Bandaríkjunum og í Sovétríkjunum, sem komu í veg fyrir það að þessi stefna Kennedys og Krútsjovs næði fram að ganga og niðurstaðan var aðeins hluti af því sem þeir ætluðu sér í upphafi. Þeir gengu þó þannig frá samningnum undir forustu Averells Harrimans, sem var samningamaður Kennedys, að gert var ráð fyrir að hægt væri að breyta samningnum síðar meir og gera hann að allsherjarsamningi sem bannaði allar tilraunir með kjarnorkuvopn.
    Nú hafa yfir 40 þjóðir lagt fram formlega breytingartillögu við þennan samning í samræmi við upphafleg ákvæði hans. Og í janúarmánuði á næsta ári fer fram í New York formleg samningaráðstefna allra aðildarríkja þessa samnings þar sem tekin verður afstaða til þess hvort þjóðir heims vilja breyta honum á þann veg að allar tilraunir með kjarnorkuvopn verði bannaðar. Ísland er aðildarríki að þessum samningi og það er mjög mikilvægt að á ráðstefnunni og samningafundunum í janúar komi það skýrt fram að það sé stefna Íslands að allar tilraunir með kjarnorkuvopn séu bannaðar.
    Það er einnig rétt að geta þess hér að þær þjóðir sem gætu eignast kjarnorkuvopn innan skamms tíma, t.d. Indland, Pakistan, Brasilía og Argentína, hafa nær

allar lýst því yfir að þær væru tilbúnar að gerast aðildarríki að samningnum sem bannar útbreiðslu kjarnorkuvopna, The Non-Proliferation Treaty, ef samningnum frá 1963 verður breytt í samning sem bannar allar tilraunir með kjarnorkuvopn. Þannig hafa menn núna formlegan möguleika á næstu missirum til þess að koma í veg fyrir að það öryggiskerfi sem bannar útbreiðslu kjarnorkuvopna leysist upp eftir fimm ár þegar samningurinn The Non-Proliferation-Treaty rennur út.
    Á síðustu mánuðum hefur það gerst, eins og ég vék að áðan, að það öryggiskerfi sem höfundar samningsins um hinar Sameinuðu þjóðir höfðu í huga hefur loksins farið að virka. Það er mjög ánægjulegt að ríkisstjórn Íslands og Alþingi hafa eindregið verið þeirrar skoðunar að Íslendingar ættu að styðja af alefli þær ályktanir sem gerðar hafa verið í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og þær aðgerðir sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur beitt sér fyrir á grundvelli samþykktar öryggisráðsins.
     Það öryggiskerfi sem sett var upp í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar gerði ráð fyrir því að sameiginlegur herafli hinna Sameinuðu þjóða yrði undir stjórn hernefndar sem fyrst og fremst bæri ábyrgð gagnvart yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðinu. Kalda stríðið kom í veg fyrir það að þetta öryggiskerfi gæti virkað. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir þessu: Eru þjóðir heims reiðubúnar að leggja fram fjármuni til að byggja þetta öryggiskerfi upp, fjármagna öryggissveitir Sameinuðu þjóðanna, fjármagna þann búnað og þá aðstöðu sem þarf til þess að slíkar öryggissveitir geti gegnt hlutverki sínu í öllum hlutum heims? Þar hljótum við Íslendingar þess vegna að standa frammi fyrir þessu: Erum við reiðubúnir að leggja fram fjármuni til að standa, þó að í litlu sé, straum af kostnaðinum við hið nýja öryggiskerfi Sameinuðu þjóðanna, friðargæslusveitirnar og öryggissveitirnar sem þar þarf að þróa og gera fjölmennari, öflugri og sterkari á næstu missirum og árum? Ég segi það hiklaust hér að ég tel bæði rétt og óhjákvæmilegt að Íslendingar sýni stuðning sinn við hið nýja öryggiskerfi Sameinuðu þjóðanna með því að vera reiðubúnir að leggja fram verulegt fé til að standa undir kostnaðinum við slíkar öryggisveitir.
    Á næstu vikum mun koma saman forustusveit leiðtoga Evrópu til að ræða hið nýja öryggiskerfi í Evrópu. Eins og hér hefur komið fram hefur Ísland tekið mjög virkan þátt í þessari þróun. Og ég vil eindregið lýsa þeirri skoðun hér að ég tel mjög mikilvægt að Ísland verði fullgildur aðili að því nýja öryggiskerfi sem þróað verður sameiginlega á grundvelli þeirra viðræðna. Á þann hátt gætum við lagt í senn grundvöll að víðtækri samstöðu hér innan lands um öryggis - og utanríkisstefnu framtíðarinnar og jafnframt tekið þátt í því að í Evrópu allri verði tímabili hernaðarbandalaganna og erlendra herstöðva lokið og í staðinn komi samstaða, skipulögð og sterk, sem fest er formlega í sessi í nýju öryggiskerfi.
    Allt það sem ég hef hér sagt felur það í sér að nú þegar er nauðsynlegt að hefja umræður um það með

hvaða hætti bandaríski herinn fer af Íslandi og ég orða það nákvæmlega á þennan hátt, ekki hvort hann fer, heldur með hvaða hætti hann fer því það liggur í hlutarins eðli, í öllu því sem hér hefur verið fagnað og lýst yfir stuðningi við í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar í dag, að tími erlendra herstöðva á Íslandi er senn liðinn.
    Ég hef lagt það til innan ríkisstjórnarinnar að skipuð yrði nefnd fulltrúa allra flokka sem hæfi umræður um það með hvaða hætti undirbúningur að brottför bandarísks hers á Íslandi væri skipulagður, hvað ætti að gera við þau mannvirki sem þar eru, í hvaða áföngum það ætti að gerast og hvernig eftirliti með vígbúnaðinum í höfunum í kringum Ísland verður háttað. ( ÞP: Hvaða afstöðu tók ríkisstjórnin?) Ríkisstjórnin hefur ekki tekið afstöðu til þessarar hugmyndar, enda hefur ekki verið knúið á um það, virðulegur 1. þm. Suðurl., vegna þess að þessi tillaga er ekki sett fram til þess að knýja á um einhverja afstöðu í einhverri skyndingu. Þetta er hugmynd sem er sett fram í því skyni að leiða öllum fyrir sjónir og fá fram víðtæka samstöðu um það sem verður að takast á við, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Ég held einmitt að sú vinna sem þarf að fara fram að mótun nýrrar utanríkisstefnu á Íslandi og ég vék að hér í upphafi megi ekki vera í þeim anda að menn knýi strax á um það að fá svör við því sem lagt er fram. Sú vinna á kannski fyrst og fremst að felast í því að spyrja spurninga og leita sameiginlega eftir svörunum eða ná samstöðu um það hvaða spurningar eru mikilvægastar. ( ÞP: En hvað sagði utanrrh.?) Eins og hv. 1. þm. Suðurl. veit er það nú ekki venja að rekja hér í þingsölum einstakar umræður á ríkisstjórnarfundum. Ég hef hins vegar átt ágæta samvinnu við hinn virðulega utanrrh. um mjög margt í þróun þeirra nýju hugmynda sem við erum báðir sammála um að þarf að bregðast við vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í heiminum.
    Hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur sagt með réttu: ,,Stjórnkerfi kommúnismans í Austur - Evrópu er hrunið.`` Hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur sagt: ,,Herinn er hér til að verja Ísland árás hinna kommúnistísku ríkja.`` En ef þau eru hrunin, hin kommúnistísku ríki, til hvers er þá herinn? Til varnar gagnvart einhverju sem er ekki lengur til? Er það þannig, hv. þm. Þorsteinn Pálsson? Eða er það þannig að sumum gengur erfiðlega að átta sig á því að hún gamla Grýla er dauð? --- Hún er bara dauð. Er það kannski þannig að sumir vilja áfram hafa sína gömlu þulu vegna þess að þeir vilji lifa áfram í sinni barnatrú? Það er auðvitað skýrast í hverri barnatrú að vita hvar hinn vondi er, en þegar mönnum er sýnt fram á að hann er ekki lengur til er tími til kominn fyrir menn að átta sig á því að barnaárin og æskan eru að baki og þeir eru orðnir fullorðnir menn. Mér finnst þessi frammíköll hv. þm. Þorsteins Pálssonar gefa það til kynna að hann sé enn þá á gelgjuskeiðinu í þessum efnum. Vonandi færist hann nú af því stigi og getur tekið þátt í umræðum með okkur hinum sem þurfa að fara fram, með hvaða hætti Íslendingar skipuleggja brottför

bandaríska hersins af Íslandi því að það er verkefni næstu ára.
    Bandaríska þingið mun ekki vilja fjármagna dýrar herstöðvar á Íslandi, dýrar framkvæmdir á Íslandi, vegna einhvers óvinar sem bandaríska þingið er sannfært um að sé ekki lengur til eða virkur. Ætlar hv. þm. Þorsteinn Pálsson að bíða eftir því að bandaríska þingið fari að hugsa fyrir hann? Auðvitað ekki. Auðvitað vill hann eins og við hin hugsa sjálfur.
    Það hefur verið hér mikill titringur af hálfu Sjálfstfl. í þingsölum í hálft annað ár út af varaflugvelli. Þeir vildu endilega fá hérna varaflugvöll, kostaðan af Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins, voru síðast að reyna að knýja á um það núna í prófkjörsslag Sjálfstfl. í Reykjavík. Eru menn búnir að gleyma því að það kom í útvarpinu kl. 8, í morgunfréttunum, fyrir nokkrum mánuðum síðan að Bandaríkjamenn væru bara hættir við þennan varaflugvöll, þeir væru bara hættir? Það hefur tekið Sjálfstfl. hálft ár að átta sig á því að Bandaríkjamenn séu bara hættir við þennan varaflugvöll. Þeir eru enn að spyrja um þetta hér á Alþingi og í blöðunum. Vilja þeir að þetta verði eins með herinn, að þeir heyri bara í morgunfréttunum einn góðan veðurdag kl. 8 að Bandaríkjamenn séu búnir að ákveða að fara bara í burtu með hann, eins og þeir hafa farið með herinn sinn burt úr mörgum löndum og hafa lýst sig reiðubúna til þess fyrir skömmu síðan að flytja allan sinn her frá Filippseyjum og hefðu það nú einhvern tíma þótt tíðindi að Bandaríkin væru reiðubúin að flytja allan sinn her í burtu frá Filippseyjum.
    Við viljum hafa hér sjálfstæða nýja íslenska utanríkisstefnu. Hún felst í því að við tökum frumkvæðið í því að hugsa nýja hugsun. Við mótum okkar eigin stefnu en bíðum ekki eftir því að einhverjir aðrir ákveði hvað eigi að gerast. Og ástæðan fyrir því að þetta er mjög brýnt er auðvitað sú að herstöðin á Suðurnesjum hefur verið veigamikill þáttur í atvinnulífinu á Suðurnesjum. Það tekur tíma að byggja upp þá þætti í atvinnulífi á Suðurnesjum sem þurfa óhjákvæmilega að taka við þeim mannafla sem á vinnumarkaðinn kemur þegar --- ég segi ekki ef, heldur þegar --- bandaríski herinn hverfur á brott frá Íslandi í sinni núverandi mynd, allur eða að mestum hluta.
    Ég ítreka þess vegna það sem ég sagði áðan, að sú hugmynd forsrh. að Íslendingar óski eftir viðræðum við Bandaríkin um framtíð herstöðvarinnar á Íslandi er mjög mikilvæg og það er nauðsynlegt að menn ræði hana í fullri alvöru og ég bæti við, eins og ég hef gert hér áður, þeirri hugmynd að fulltrúar allra flokka myndi nefnd sem hefji þegar umræður um það með hvaða hætti Íslendingar vilja taka á þeim verkefnum sem blasa við vegna samdráttarins í herafla Bandaríkjanna og hugsanlegrar brottfarar bandaríska hersins af Íslandi, og einnig hér innan þingsins og úti í þjóðfélaginu hefjist víðtæk umræða um þá nýju utanríkisstefnu sem við þurfum að móta vegna breyttra aðstæðna í heiminum og leggja til grundvallar í afstöðu Íslendinga á nýrri öld.
    Virðulegi forseti. Hér hefur nokkuð verið vikið að

þróunaraðstoð Íslendinga. Við vitum það öll að hún hefur verið feimnismál. Framlag okkar til hinna vanþróuðu ríkja hefur verið svo lítið að við höfum helst viljað forðast það að menn nefndu það á alþjóðlegum vettvangi. Sú hugmynd hefur komið fram að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu utan við almennt kjör á fulltrúum til þings þar sem þjóðin væri spurð um það hvort hún væri sammála því að hver maður legði fram tiltekna upphæð í sérstakan sjóð sem varið væri til þess að efla aðstoð Íslands við hin vanþróuðu lönd. Þessi hugmynd er góð og ég tel að áður en þinginu lýkur í vor eigi þingið að taka afstöðu til hennar. Það eigi að móta tillögu um stofnun sérstaks sjóðs sem fengi beinar tekjur frá almenningi í landinu og þeim tekjum væri síðan ráðstafað í samvinnu þróunarstofnana hér innan lands, Hjálparstofnunar kirkjunnar, Þróunarsamvinnustofnunar, Rauða krossins og annarra stofnana sem sinna þróunarmálum. Þessar tekjur kæmu ekki inn í ríkissjóð, þeim yrði haldið algjörlega utan við það fjárstreymi sem inn í ríkissjóð fer, heldur rynnu þær beint í þennan þróunarverkefnasjóð og væru aðferð Íslendinga til að geta með reisn, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem þjóðir heims koma saman, vísað til framlags okkar til hins fátæka heims.
    Ég tel líka nauðsynlegt að fram fari endurskoðun á þeim áherslum sem eru í þróunaraðstoð Íslendinga. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að margt af því sem þar hefur verið gert hefur ekki skilað nægilega góðum árangri. Það hefur ekki verið nægilega markvisst unnið að þeim verkefnum og nauðsynlegt er að endurskoða sérstaklega þær áherslur sem þar eiga að ríkja á næstu árum.
    Ég er sannfærður um það eftir viðtöl mín við fjölmarga fulltrúa ríkja þriðja heimsins að Íslendingar eiga mikla möguleika til að byggja upp þróunaraðstoð á sviði sjávarútvegs. Og það vill svo til að sú þróunaraðstoð getur líka orðið okkur sjálfum tekjuauki. Hún getur beinlínis orðið gjaldeyrisskapandi fyrir þjóðina sjálfa þegar til lengdar lætur. Fjölmargir fulltrúar ríkja í Asíu, Suður - Ameríku og Afríku hafa áhuga á að stofna með Íslendingum fyrirtæki um þróun sjávarútvegs þar sem Íslendingar láta í té eða selja tæknikunnáttu og tæki og láta jafnvel í té skip sem annast veiðar og kennslu fyrir sjómenn þessara ríkja.
    Ein af þeim hugmyndum sem ég vil varpa hér fram er að Íslendingar kanni möguleikana á því að hluti íslenska fiskiskipaflotans fari til veiða undan ströndum Asíu og Afríku. Gerðir verði samningar við lönd eins og t.d. Indland um veiðar íslenskra skipa í indverskri landhelgi vegna þess að þar eru stofnar sjávardýra, t.d. rækju sem Indverjar nýta ekki en er dýr vara á mörkuðum í Vestur - Evrópu og í Japan sem Íslendingar með sínu þróaða markaðskerfi gætu komið í verð og þannig fengið stórfelldar tekjur af slíkum viðskiptum jafnhliða því sem hluti íslenska fiskiskipaflotans og togaraflotans yrði nýttur með árangursríkum hætti. Ýmsar aðrar þjóðir í Vestur - Evrópu eru að hugsa um að fara inn á þessa braut. Ástæðan er sú að undan ströndum Asíu eru mjög stór og nánast ekki

bara vannýtt fiskimið heldur fiskimið sem ekki eru nýtt að neinu leyti. Þjóðirnar sem þar búa hafa hvorki tæki, kunnáttu né fjármagn til að nýta þau. Þannig væri ekki verið að ganga á fiskstofna sem þessar þjóðir nýta, heldur þvert á móti verið að skapa þeim sjálfum gjaldeyristekjur með því að greiða annaðhvort fyrir það að veiða þar, fast gjald sem miðað væri við afla, eða þá að í staðinn kæmu leiðbeiningar og kennsla sjómanna og þróun fiskiskipaflota og vinnslustöðva í þessum ríkjum.
    Ég teldi mjög athyglisvert ef stjórnvöld og fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi mynduðu sameiginlega nefnd sem hefði það verkefni að kanna í alvöru möguleikana á því að Íslendingar gerðu slíka fiskveiði - og þróunarsamninga við lönd í fjarlægum heimsálfum. Ástæðan fyrir því að við höfum kannski meiri möguleika til að gera slíka samninga en aðrar þjóðir er að við erum lítil þjóð og það óttast okkur enginn. Það er nefnilega mikill kostur í nútímanum að vera smáir og fáir vegna þess að slík þjóð ber ekki með sér neinn annarlegan farangur sem skapar ótta hjá þeim ríkjum sem hún á viðskipti við. Og vegna þess að við njótum virðingar sem lýðræðisríki, við höfum náð sterkri efnahagslegri stöðu og erum fremstir meðal þjóða í nútímasjávarútvegi standa okkur mjög margar dyr opnar á þessu sviði. Þess vegna eigum við að geta tvinnað saman þróunaraðstoð annars vegar og gjaldeyrissköpun og hagvöxt fyrir okkur sjálfa hins vegar.
    Virðulegi forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að víkja að ýmsum af þeim þáttum sem hér hafa verið nefndir og greina frá nokkru af því sem við teljum vera mikilvægast á sviði íslenskra utanríkismála á næstu árum.