Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög ítarlega skýrslu um utanríkismál. Jafnframt vil ég þakka fyrir þá nýbreytni að láta leggja slíka skýrslu fram í upphafi þings en ekki í lok þingsins. Ég held að það sé mikill léttir fyrir okkur öll sem störfum hér á Alþingi að fá skýrsluna og umræðu um utanríkismál á þessum tímapunkti en ekki í lok þingsins. Jafnframt er það mikill léttir fyrir okkur sem störfum í utanrmn. að fá svo ítarlega skýrslu vegna starfa okkar í nefndinni.
    Ég ætla mér ekki þá dul að rekja öll atriði sem farið er yfir í skýrslunni en ég ætla að drepa á nokkur atriði.
    Eins og fram hefur komið hjá öllum ræðumönnum sem hér hafa talað á undan mér hafa orðið miklar breytingar í alþjóðamálum. Þýskaland hefur verið sameinað, Berlínarmúrinn hrundi, lýðræði er að komast á í flestum Austur - Evrópuríkjanna og gott samband er að nást á milli Mið - Evrópu og Austur - Evrópuríkjanna við Evrópuráðið og Evrópuþingið. Er það allt til mikilla bóta enda hefur það gersamlega breytt öllum viðhorfum á öllum sviðum, ekki síst á milli stórveldanna sem núna --- ja, maður gæti næstum haldið að væru öxl í öxl, væru vinir í samanburði við það sem var fyrir örfáum mánuðum síðan. Ef einhver okkar hér inni hefði spáð þessu fyrir kannski ári síðan eða liðlega það þá efast ég um að menn hefðu tekið okkur mjög alvarlega.
    Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu miðar vel áfram og reiknað er með því að undir samning verði ritað um miðjan þennan mánuð í París þegar leiðtogar þessara 34 ríkja hittast. Er það mikill áfangi í afvopnunarmálum og öllum þeim aðgerðum sem til friðar horfa sem við getum búist við á skömmum tíma. Ég sé fyrir mér að Varsjárbandalagið er nánast búið að vera. Það hefur aldrei verið nema ein skrifstofa í Kreml sem hefur stjórnað hernaðarmætti þessara Austur - Evrópuríkja, samanborið við Atlantshafsbandalagið, þar sem stór hluti af samstarfi þeirra ríkja hefur verið á pólitískum vettvangi.
NATO mun halda áfram að lifa um einhvern tíma þó einhverjar breytingar verði á starfsemi þess.
    Ég hef átt þess kost að taka nokkurn þátt í þingum og fundum Þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsríkjanna ásamt fleiri félögum mínum héðan úr þessu húsi. Þar höfum við reynt að koma fram sjónarmiðum Íslendinga á sem flestum sviðum. Það mál sem þar hefur einna efst verið á baugi núna upp á síðkastið hefur verið traustvekjandi aðgerðir og afvopnunarmál. Höfum við þar reynt að þrýsta á um að taka höfin, traustvekjandi aðgerðir og afvopnun á höfunum, inn í þá umræðu. Það hafa verið gefnar út nokkrar skýrslur á vegum stjórnmálanefndar þessara samtaka sem ég hef átt aðild að og ég er sannfærður um að sá þrýstingur á þessum vígstöðvum, eins og ég held að íslenskir þingmenn geri á öllum þeim fundum sem þeir sækja erlendis, muni hafa áhrif til þess að ráðherrar okkar nái fram þeim málum sem við

erum þó sammála um, en góð samstaða hefur nú verið hjá þinginu og undanförnum ríkisstjórnum um framkvæmd utanríkismála.
    Þá átti ég þess kost líka að sækja ráðstefnu sem haldin var norður á Akureyri á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands og styrkt var af utanrrn. um afvopnun í höfunum. Ég tel að þar hafi náðst verulegur árangur í því að kynna sjónarmið okkar Íslendinga og þeirra þjóða sem hafa tekið þátt í þessu samstarfi með okkur. Við höfum átt þar í harðri baráttu við --- við skulum segja fulltrúa ýmissa stórvelda, sérstaklega Bandaríkjanna og Breta, sem hafa talið að ekki mætti koma neitt nálægt höfunum. Þetta væri þjóðbraut sem þyrfti að vera opin og mætti ekki að neinu leyti takmarka umferð um hana. En eins og forsrh. lýsti yfir þegar hann átti í nokkrum orðasennum við Margréti Thatcher, forsætisráðherra Breta, á leiðtogafundinum í London í júní sl., þá erum við Íslendingar að sjálfsögðu sammála því að höfin eigi að vera þjóðbraut heimsins og eins frjáls og nokkur kostur er á, en það er samt nauðsynlegt að reglur gildi á öllum þjóðvegum, hvar sem er í heiminum.
    Ég átti þess kost fyrir stuttu að sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í tæpar tvær vikur. Það er ljóst í mínum huga að verulegar breytingar eiga sér nú stað hjá Sameinuðu þjóðunum. allsherjarþingið hefur á undanförnum árum gefið út hverja ályktunartillöguna á fætur annarri en í raun hefur ekki náðst samkomulag um að framfylgja mörgum af þessum ályktunartillögum þó að margar góðar hafi náð fram, m.a. vegna þess að í raun hefur ekkert framkvæmdarvald verið hjá Sameinuðu þjóðunum, það hefur í raun engin ríkisstjórn verið yfir Sameinuðu þjóðunum. Mér virðist að sú breyting sem hafi orðið hjá Sameinuðu þjóðunum síðan ég átti þess kost að sitja þar um stuttan tíma árið 1980 sé að öryggisráðið sé orðið miklu virkari aðili í að koma ályktunum allsherjarþingsins fram sem byggist m.a. á því að stórveldin beita nú afar sjaldan neitunarvaldi sínu til þess að hindra framgang mála. Jafnframt hafa þeir samningar sem tekist hafa milli stórveldanna og þær breytingar sem hafa orðið í Austur - Evrópu fært þessi ríki mjög saman þegar síðan hefur komið til ófriðar, eins og t.d. hefur gerst núna hjá Írak og Kúvæta. En þar hafa Sameinuðu þjóðirnar, með öryggisráðið í broddi fylkingar, stigið saman þá braut hvernig eigi að hegða sér í því erfiða máli. En það sýndi mér líka hvers Sameinuðu þjóðirnar eru megnugar og hversu þjóðir virða Sameinuðu þjóðirnar mikils að meðan ég var þarna var flutt ein ályktunartillaga af öllum Arabaríkjunum sem þau voru öll flutningsmenn að. Og það kom mér dálítið á óvart, þrátt fyrir mikla --- ja, hvernig eigum við að orða það, mikla óvináttu á milli Íraka og Kúvæta, að báðar þjóðirnar voru skráðar á þessa ályktunartillögu. Þetta kom mér dálítið á óvart en sýnir samt vissan styrkleika Sameinuðu þjóðanna að þarna er hinn frjálsi vettvangur til þess að ná fram nauðsynlegum málum. Og það merkilega var að það var fulltrúi Kúvæts --- gamla Kúvæts, sem var talsmaður Arabahópsins við að flytja þessa tillögu. Þetta

sýnir okkur að Sameinuðu þjóðirnar eru sá vettvangur sem er kannski best til þess fallinn að tryggja frið í heiminum og koma fram ályktunum sem þjóðirnar eru sammála um.
    Ég átti þess kost á þessum fundi að eiga viðræður við allmarga þingmenn, en það eru fleiri en Íslendingar sem senda þingmenn sem áheyrnarfulltrúa til þess að kynna sér starfsemi Sameinuðu þjóðanna, leggja að vísu misjafnlega mikla áherslu á fjölda og tímalengd. Norðurlandaþjóðirnar voru yfirleitt með sína fulltrúa, mikinn fjölda flestar hverjar, í upp undir mánuð. Þær voru flestar þeirra jafnframt með áheyrnarfulltrúa frá ýmsum samtökum, ungliðahreyfingum, kvennahreyfingum, verkalýðshreyfingunni og ýmsum slíkum stofnunum. Ástralir t.d. eru með nokkra þingmenn þarna sem sitja allt allsherjarþingið frá upphafi í september fram til jóla.
    Sú skoðun kom fram hjá allmörgum þingmönnum sem ég hitti þarna að það hlyti að fara að koma mjög fljótlega til athugunar hvort ekki væri rétt að breyta skipun fulltrúa á allsherjarþingið þannig að þetta yrði í raun þing hinna Sameinuðu þjóða og þingmenn yrðu beinlínis kjörnir í heimalandi sínu til setu hjá Sameinuðu þjóðunum svipað og gerist hjá Evrópuþinginu núna. Á þann hátt sé betur hægt að tryggja að menn séu raunverulega meðvitaðir og tengist betur þjóðfélaginu sjálfu um þá hluti sem eru að gerast hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég kasta þessu fram hérna vegna þess að þetta kom fram hjá allmörgum þingmönnum sem ég hitti þarna. Ég hef ekki gert upp hug minn til þessarar hugmyndar en tel að hún sé allrar athygli verð og beri að skoðast nánar.
    Ég ætla ekki að ræða hér neitt um EB - EFTA viðræðurnar, þau mál voru ítarlega rædd hér um daginn og eiga eftir að ræðast hér örugglega oftar í vetur. Sama gildir um Norðurlandasamvinnuna. Henni er ég ekki nægilega vel kunnugur til þess að taka mikinn þátt í þeirri umræðu, en ég held að Norðurlandasamvinnan sé, næst á eftir samvinnu okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, mikilvægasta alþjóðasamvinna sem við tökum þátt í.
    Þá vil ég fara nokkrum orðum um Eystrasaltsríkin, þ.e. Lettland, Litáen og Eistland, og vil minna á að Alþingi Íslendinga varð fyrst þjóðþinga í heiminum til að senda litáísku þjóðinni heillaóskaskeyti þegar hún gekk frá sjálfstæðisyfirlýsingu sinni. Síðan hefur margt gerst. Hæstv. utanrrh. hefur reynt að greiða götu Litáa að eins miklu leyti og kostur er á alþjóðavettvangi og m.a. mælt með því að þeir fengju áheyrnarfulltrúa í sem flestum alþjóðlegum stofnunum, ásamt því að Norðurlandaráð hefur tekið þeirra mál mjög upp á sína arma.
    Hv. þm. Þorsteinn Pálsson flutti hér ásamt fleiri þingmönnum sjálfstæðismanna tillögu um daginn um sjálfstæðisyfirlýsingu þessara þriggja ríkja. Ég vil segja það hér að sú tillaga verður að sjálfsögðu skoðuð gaumgæfilega í utanrmn. og munum við örugglega, svipað og við gerðum þegar við náðum samstöðu strax á fyrsta degi eftir sjálfstæðisyfirlýsingu Litáens um heillaóskaskeyti til þeirra, reyna að ná

samstöðu um afgreiðslu á því máli á einn eða annan veg og mun ég beita mér mjög fyrir því að það verði gert hið fyrsta. Ég vil jafnframt minna á að eins og þáltill. um heillaóskirnar hljóðaði, þ.e. síðasta málsgreinin í þeirri þingsályktun þar sem Alþingi fagnar endurheimtu sjálfstæði Litáens og væntir góðrar samvinnu við lýðræðiskjörna fulltrúa þess, þá vil ég beina þeim tilmælum til forseta Alþingis sem ég veit að hafa rætt þetta nokkuð að kanna möguleika til þess annars vegar að bjóða fulltrúum þessara þjóðþinga hingað til Íslands og hins vegar hugsanlega þá í framhaldi af því að senda fulltrúa frá Alþingi Íslendinga í heimsókn til þessara ríkja. Ég hef orðið var við það hjá þingmönnum sem ég hef hitt sem áður voru og eru búsettir austan járntjaldsins, eins og við kölluðum það, að þá skortir að ýmsu leyti þessa lýðræðislegu uppbyggingu sem hefur verið strikuð út í hálfa öld hjá þeirra þjóðum og skortir aðstoð og leiðbeiningar, ef ég má orða það þannig, til þess að koma þingum sínum aftur í eðlilegan farveg, eins og t.d. Alþingi Íslendinga og þing annarra vestrænna ríkja starfa.
    Í skýrslu utanrrh. er allmikill kafli um starfsemi á Keflavíkurflugvelli, m.a. hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar kemur fram að greiðsluhalli sl. þrjú ár, eða til júlíloka á þessu ári, þar með talið árin 1988 -- 1989, er rúmar 226 millj. kr. Það kemur líka fram í skýrslunni að Flugmálastjórn, sem er rekin sjálfstætt og með sjálfstætt reikningshald, er með hagnað upp á 30 millj. og Fríhöfnin er með hagnað upp á um 280 millj. Ég tel að þegar menn ræða um fjárhag Flugstöðvarinnar, þá eigi menn að ræða um rekstur ríkissjóðs og ríkisins í Flugstöðinni sem eina heild. Það er spurning hvort rekstur slíkrar stofnunar getur í raun nokkurn tíma greitt til baka að fullu stofnkostnað hússins. Ég dreg það í raun í efa nema á mjög löngum tíma. Þess vegna finnst mér há prósenta að taka 58% af tekjum af millilandaflugi beint í ríkissjóð, 12% í rekstur vallanna og einungis 30% til Flugstöðvarinnar. Ég held að það ætti að reka ríkisfyrirtækin í Flugstöðinni öll á einum reikningi eða hafa samræmda reikninga á þeim. Ef um hagnað af sjálfum rekstrinum er að ræða eigi að nýta hann til þess að auka þá þjónustu sem þarna fer fram og jafnframt því að gera það sem unnt er til þess að auka viðskipti við Flugstöðina og flugvöllinn sem slíkan. Það er alveg ljóst að Flugstöðin getur annað miklu meiri viðskiptum heldur en hún gerir í dag. Ég tala nú ekki um ef því yrði dreift að einhverju leyti meira yfir sólarhringinn, en það eru tveir toppar á öllum lendingum á Keflavíkurflugvelli, eins og hv. alþm. allir vita, snemma á morgnana og svo síðdegis. Það má benda á ýmislegt fleira sem gæti orðið meiri hagnaður af í þessum rekstri jafnvel þótt ekki yrði veruleg aukning. M.a. hefur mér dottið í hug, og reyndar verið bent á af nokkrum aðilum, að það er í raun og veru furðulegt í sambandi við millilendingarnar frá Bandaríkjunum til Íslands að raunverulega endastöðin skuli ekki vera í Keflavík og farþegar látnir stoppa þar eilítið lengur en þeir gera. Nú stoppar vélin ekki nema rétt innan við klukkutíma áður en hún heldur áfram, til Evrópu eða til Bandaríkjanna eftir atvikum. Þannig mætti ná trúlega meiri viðskiptum innan þessara stofnana sem ég minntist á áðan. Ýmislegt fleira mætti eflaust gera til þess að ná tekjum af þeim farþegum sem um völlinn fara því það er tilgangurinn með rekstri slíkrar stofnunar eins og flugstöð er á hverjum tíma.
    Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Karli Steinari hér fyrr á fundinum að auðvitað þarf að stefna að því að það verði aðstaða til þess að reka innanlandsflug líka að verulegu leyti --- e.t.v. ekki öllu leyti --- frá Keflavíkurflugvelli. Það samræmist að vísu ekki vel þessari flugstöð eins og hún er hönnuð. En ég minnist þess þó að þegar ég í eitt skiptið sat í nefnd ásamt hæstv. fjmrh. til þess að reyna að koma byggingu flugstöðvar í gang, sem þá var nokkurt pólitískt deilumál, þá kölluðum við hönnuði byggingarinnar á fund til okkar og ein spurningin sem lögð var fram á þeim fundi var sú hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að rekstur innanlandsflugsins yrði frá þessari flugstöð líka. Ég held að ég muni það rétt, hæstv. fjmrh. leiðréttir mig ef það er rangt munað hjá mér, ég held að svarið hafi verið alveg skýrt að á því væru engin vandkvæði. Vandkvæðin eru hins vegar augljós hjá öllum þeim sem þarna hafa farið um. Ég hef rætt þetta við flugvallarstjórann og starfsmenn tollsins, en það er augljóst mál að það þarf að gera verulegar breytingar á þessu húsi til þess að unnt sé að afgreiða innanlandsflug svo að vel megi fara. Það þarf því að reyna að koma þessu máli betur fyrir en gert er í dag.
    Það er annað sem skortir mjög suður frá og hefur verið vandamál lengi. Það er búið að aðskilja störf varnarliðsins og hins almenna flugs algerlega og nokkur íslensk fyrirtæki sem áður voru innan varnarsvæðisins, þ.e. varnarliðsmegin við flugvöllinn, eru nú komin á flugstöðvarsvæðið sjálft þannig að þar er lítið um árekstra. En það er tvennt sem orðið hefur út undan. Það er annars vegar að ganga frá aðstöðu fyrir einkaflugið og það litla leiguflugfélag og kennsluflugfélag sem starfar á Keflavíkurflugvelli, Suðurflug, við flugstöðina þannig að þeir sem eiga viðskipti við það flugfélag þurfi ekki að fara inn á varnarsvæðið sjálft eða inn á þann hluta flugvallarins sem varnarliðið er á. Það hefur kostað ýmiss konar erfiðleika og mikið liggur á að kippa þessum málum í lag og skapa þeim aðstöðu á flugstöðvarsvæðinu. Sama gildir líka um allt viðhald á flugvélum.
    Nú er það svo að Flugleiðir hafa leigt hluta af stóru flugskýli sem varnarliðið á. Það er alls ekki nægilegt fyrir Flugleiðir. Í öðru lagi tel ég mig hafa vissu fyrir því að varnarliðið vilji taka þetta svæði til eigin notkunar. Það þyrfti að sameina þá krafta, bæði hjá flugvirkjunum sjálfum og flugvirkjafélaginu, Flugleiðum og ríkissjóði og e.t.v. fleiri aðilum, til að reisa nauðsynlega starfsaðstöðu til viðhalds flugvéla á flugstöðvarsvæðinu sjálfu. Það hefur þegar verið gengið þar frá flugvélastæðinu sjálfu, þ.e. að malbika allt svæðið þar sem sú skemma á að vera. Þetta er mjög nálægt flugstöðinni. Ég er sannfærður um það að ef sú aðstaða væri fyrir hendi, þá væri í fyrsta lagi hægt

að vera með miklu betri þjónustu fyrir Flugleiðir á þeirra eigin flugflota, jafnframt því að hægt væri að taka að sér ýmiss konar þjónustu fyrir erlend flugfélög. En það hefur verið ýmsum vandkvæðum bundið þegar erlend flugfélög hafa lent hér og reynt að fá viðgerðarþjónustu. Þá hefur orðið að fara yfir á varnarsvæðið og fá sérstakt leyfi til þess að fara með flugvélar þar inn. Það hefur skapað tafir sem flugfélög geta oft ekki beðið eftir. Þetta eru þau tvö mál sem ég tel að þyrfti að bæta svo sem kostur er hið allra fyrsta. Og ég hef vitneskju um það að t.d. Flugvirkjafélag Íslands er reiðubúið að taka að verulegu leyti þátt í hlutafélagi sem hugsanlega yrði stofnað til þess að reisa slíka aðstöðu.
    Í því sambandi má minnast á það að íslenskum flugvirkjum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Þar að auki hefur þeim fjölgað sem, við getum sagt sem svo, eru komnir úr flugvélunum. Með nýjum flugvélum Flugleiða er hætt að vera með þriðja mann um borð í flugstjórnarklefanum. Þeir flugvirkjar koma allir aftur niður á jörðina til starfa og þá er takmörkuð aðstaða og verkefni fyrir þá. Þetta eru menn sem langsflestir hafa lært í Bandaríkjunum og það er ábyggilega vert að kanna það hvort ekki er unnt að skapa þeim vinnu hjá varnarliðinu að einhverju leyti við að gæta þeirra flugvéla. Þó svo það sé hugsanlega öryggisatriði hjá varnarliðinu að þeir komi ekki nálægt herflugvélum þeirra, þotunum, þá finnst mér ekki ólíklegt að það mætti ræða a.m.k. um þyrlurnar þeirra, björgunarþyrlurnar, að þeir taki að sér að annast viðhald á þeim að einhverju leyti. Þá gæti a.m.k. einhver hluti þeirra fengið vinnu við sitt fag. Og af því að ég minnist á þyrlurnar hjá Bandaríkjamönnum, björgunarþyrlurnar, sem hafa unnið geysilega mikið og gott verk á undanförnum árum, ekki síður fyrir okkur Íslendinga en aðrar þjóðir sem hafa lent í vandræðum hér á landi eða í kringum landið, þá liggur fyrir núna, eins og kemur fram í skýrslu ráðherrans, að það er verið að endurnýja þyrluflota þeirra hjá björgunarsveitinni. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki væri unnt að ná a.m.k. góðri samvinnu, sem ég reyndar veit að er nú á milli Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitarinnar. Þegar ég segi samvinnu á ég við hvort ekki væri unnt að samræma þessi störf betur og jafnvel að íslenskir aðilar fengjust til að starfa við þessar flugvélar, og þá á ég ekki bara við viðhaldið. Ég á líka þá við hugsanlega læknisþjónustu, jafnvel við flug og ýmislegt fleira.
    Íslendingar hafa yfirtekið mörg störf á Keflavíkurflugvelli hjá varnarliðinu. Ég get nefnt þar slökkviliðið sem er algerlega skipað Íslendingum. Radarstöðvarnar verða algerlega skipaðar Íslendingum og svona mætti telja fleira þar sem Íslendingar hafa verið að taka yfir. Mér er spurn, er ekki unnt að koma því þannig fyrir að þátttaka Íslendinga í rekstri björgunarþyrlanna yrði meiri? Það yrði okkur ómetanleg reynsla vegna hugsanlegrar aukningar á þyrlueign okkar Íslendinga sem er mjög brýn, stærri flota. Þá fengju okkar menn verulega góða reynslu og hugsanlega

mætti nýta þessi tæki sameiginlega að einhverju leyti.
    Af því að ég er að tala um störf á Keflavíkurflugvelli þá hefur verið, eins og komið hefur fram hér
í fyrri ræðum, mikil sparnaðarráðstöfun í öllu kerfi Bandaríkjamanna, í öllum varnarstöðvum þeirra víða um heiminn. Það hefur að sjálfsögðu komið niður á okkur Íslendingum líka og þar höfum við misst allmörg störf, þ.e. ekki hefur verið ráðið í störf þar sem menn hafa hætt án þess að störfum hafi fækkað. Maður verður að virða það. Eins og Alþingi sjálft er að reyna að ná fram sparnaði í rekstri ýmissa fyrirtækja hér á landi þá ætlast bandarískir þingmenn sjálfsagt til þess að sparnaður fari fram í rekstri hjá þeim. En það sem kemur mér á óvart er það að það hefur dálítið verið um það að erlendir starfsmenn hafi gengið í þessi störf sem Íslendingar hafa unnið áður. Það hefur ekki fengist leyfi til að ráða Íslendinga en erlendir starfsmenn verið ráðnir í staðinn. Það þarf náttúrlega að fylgjast mjög vel með þessu því ég veit ekki betur en að þegar varnarsamningurinn var endurskoðaður á sínum tíma hafi verið gengið út frá því að Íslendingar tækju eins mörg störf að sér og kostur væri. Og ég held að því fleiri störf sem við tökum að okkur fyrir varnarliðið í núverandi stöðu, þeim mun betur tryggi það okkur við þær breytingar, sem ekki er ólíklegt að verði á rekstri varnarstöðvarinnar vegna þeirra breytinga sem hafa orðið í veröldinni, að þetta verði kannski alþjóðleg eftirlitsstöð með þeim samningum sem gerðir eru. Ég er sannfærður um að eftirlitsstöð verður rekin frá Keflavíkurflugvelli um fyrirsjáanlega framtíð. Þá er ljóst að við getum á meiri og betri hátt tekið þátt í slíku starfi og lagt okkar af mörkum í því.
    Ég tek undir það með fyrri ræðumönnum að við þurfum að taka okkur taki í allri þróunaraðstoð. Því miður hefur á undanförnum árum allt of litlu fé verið veitt til hennar, að sjálfsögðu vegna þess að við höfum verið í vandræðum með fjármagn til ýmissa annarra góðra verka. En ég held að það ætti að fá góðan starfshóp til að kanna þær hugmyndir sem fram hafa komið, annars vegar um að stofna sérstakan sjóð, skattleggja þjóðina að einhverju leyti sérstaklega, en tryggja jafnframt að sá sjóður yrði aldrei skertur með einum eða neinum bandormi eins og við höfum orðið að gera við samþykkt fjárlaga í allmörg ár.
    Um hafsbotnsmálin aðeins örfá orð. Það er ekki langt síðan menn töluðu í hálfkæringi um kröfur okkar til aðildar að Hatton - Rockall svæðinu. Ég var einn af þeim sem fannst þetta kannski vera að teygja sig fulllangt, en því betur sem ég hef kynnst þessu máli, þeim mun sannfærðari er ég um að þær þjóðir sem kröfu hafa gert til aðildar að þessu svæði munu ná einhverju samkomulagi um samnýtingu á svæðinu, hver svo sem sú nýting kann að verða. Það má vera að okkar hlutur verði ekki stór en ég held að brýnt sé að halda þessu máli áfram. Þeir fundir sem haldnir hafa verið með breskum og dönskum embættismönnum um þetta mál benda til þess að þjóðirnar allar vilji í raun ná samkomulagi um samnýtingu. Enda má búast við því að ef ekki næst samstaða þeirra

landa, sem að Hatton - Rockall svæðinu liggja, verði á þetta litið, eins og hafréttarsáttmálinn reyndar gerir ráð fyrir, sem opið hafsvæði og allar þjóðir geti þá komið þangað inn. Það er ekki bara hugsanleg nýting á þessu svæði. Það er ekki minna atriði að tryggja það að svæðið verði ekki notað sem ruslakista og hætta á mengun sem þá mundi berast norður til okkar, að fiskisvæðunum hér norður frá.
    Í utanrmn. var gengið frá upplýsingamöppu um þetta mál fyrir nokkru síðan, þ.e. mappa sem hafði verið gerð fyrir nokkrum árum var endurprentuð og endurbætt. Hún var send til allmargra aðila, bæði innan lands og erlendis og ég vænti þess að allir þingmenn hafi fengið eintak af henni. Ég hef fengið, sem formaður utanrmn., nokkur bréf og talsvert af símtölum frá ýmsum innlendum og erlendum aðilum þar sem þeir þakka fyrir þetta framtak okkar og vilja fá að fylgjast með öllu sem fram vindur í málinu.
    Ég vil að lokum einungis þakka starfsmönnum utanríkisþjónustunnar fyrir þeirra störf oft við erfiðar aðstæður og einkum og sér í lagi þakka þeim fyrir þá aðstoð sem þeir hafa veitt mér í starfi mínu sem formanni utanrmn. og sem hefur verið ómetanleg. Að lokum þakka ég hæstv. ráðherra fyrir ítarlega skýrslu.