Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur þegar fjallað um meginþætti skýrslu hæstv. utanrrh. og mun ég því einbeita mér að einum þætti þessarar skýrslu. Það er sá kafli sem fjallar um þróunarsamvinnu. Sá kafli er að sönnu afskaplega stuttaralegur og sama má segja um umfjöllun hæstv. utanrrh. um umræddan málaflokk, sér í lagi þann þátt sem heyrir undir þróunaraðstoð.
    Það má segja að þetta sé samhæfður og vel útfærður stíll og endurspeglast auðvitað í frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 sem nú liggur fyrir Alþingi. Bæði fjárveitingar og umfang umfjöllunar um þau mál sem heyra undir þróunaraðstoð eru í hróplegu ósamræmi við það ástand sem ríkir í svokölluðum þróunarlöndum, þar sem dagleg neyð er hinn hversdagslegi raunveruleiki milljóna og aftur milljóna barna, kvenna og karla. Einnig er misræmið og tvískinnungurinn hjá ráðamönnum, í orðum þeirra og athöfnum, alvarlegur, en ef til vill lýsandi dæmi um þann samhæfða og vel útfærða stíl að ekki sé samræmi milli orða og athafna. Mýmörg dæmi má taka þar um á innanlandsvettvangi stjórnmálanna, en ekki er nú ætlunin að gera það að umræðuefni hér. Þó er ekki hægt að verjast þeirri hugsun hvort sá siðferðisbrestur sem virðist sjálfsagður hjá stjórnmálamönnum hér á landi, og er jafnvel rómaður og mærður, birtist ekki einmitt hvað best í fjárframlögum til þróunaraðstoðar. Það er skortur á siðferði að rétta ekki fólki í neyð hjálparhönd þegar maður er aflögufær. Það dugir ekki að leyfa því að hirða molana sem falla af allsnægtaborðinu.
    Árið 1985 samþykkti Alþingi Íslendinga ályktun þess efnis að auka reglubundin framlög hins opinbera til þróunarsamvinnu á næstu sjö árum. Markmiðið skyldi vera að framlög yrðu 0,7% af þjóðarframleiðslu. Nú er tvö ár eftir af þessum umræddu sjö árum. Það þarf ekki að orðlengja það að við höfum ekki einu sinni nálgast þetta markmið.
    Í skýrslu hæstv. utanrrh., sem var til umræðu á síðasta þingi, var fylgiskjal sem sýndi samanburð á framlögum OECD - ríkjanna til þróunarsamvinnu árið 1988. Það er skemmst frá því að segja að í þeim samanburði opinberast ódugnaður Íslands í þeim efnum, 0,05% af þjóðarframleiðslu er framlag okkar. Eftir tölum að dæma erum við enn á líku róli. 0,20% af þjóðarframleiðslu er næstlægsta framlagið sem um er getið í þessum samanburði. 0,80% af þjóðarframleiðslu og þar yfir eru framlög þeirra ríkja sem við berum okkur helst saman við. Svo hið margyfirlýsta markmið, að við gerum okkur gildandi í samfélagi þjóðanna og getum þar borið höfuðið hátt, nær greinilega ekki til þróunarsamvinnu. Framlag okkar til þeirra mála er einn ljótasti bletturinn á okkar samfélagi. Um 1 / 3 hluti þessara peninga fer til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, eða rúmlega 78 millj. kr. Meginstarf hennar hefur verið á vettvangi sjávarútvegs, fiskirannsókna, fiskveiða og í ýmsu öðru tengdu þeirri atvinnugrein. Þar búum við að sönnu að eigin kunnáttu í þeim efnum og getum lagt af mörkum bæði dýrmæta

reynslu og tækjakost.
    Að hinu ber að gæta að ekki sé um of farið á skjön við atvinnuhætti og menningu viðkomandi þjóða sem við veitum aðstoð. Það hefur oft sætt gagnrýni, bæði í þróunaraðstoð Íslendinga og annarra, að ekki sé gætt nóg að venjum viðkomandi þjóðfélags. Brögð eru að því að þróunaraðstoð sé með þeim hætti að um of sé raskað hefðbundnum atvinnuháttum. Oft er tekið sem dæmi að Vesturlandabúar skilji ekki mikilvægi kvenna í framfærslu fjölskyldna í þriðja heiminum og leggi um of áherslu á verkaskiptingu eins og ríkjandi er í eigin löndum. Ýmsir hafa líka orðið til að gagnrýna að bæði aðferðir, áherslur og meðferð fjár sé ekki eins og best verður á kosið.
    Nú er starfandi sérstakur starfshópur á vegum utanrrn. og fjmrn. sem vinnur að athugun á málefnum er snerta þróunaraðstoð og alþjóðlegt hjálparstarf. Árangurs þeirrar vinnu er að vænta nú fljótlega. Vonandi hefur þar verið farið vel ofan í saumana á öllum þessum málum. Bæði er það nauðsynlegt að þróunaraðstoð, hvaða nafni sem hún nefnist, sé með þeim hætti að hún njóti trausts allrar þjóðarinnar en veki ekki grunsemdir um að fé sé illa og ómarkvisst varið. Hitt er ekki síður brýnt að hverri einustu krónu sé vel varið, svo dýrmætar sem þær eru því fólki sem fjárins nýtur. Flest framlög, svo smá sem þau eru, til þróunarmála og alþjóðlegs hjálparstarfs eru til stofnana og sjóða á vegum Sameinuðu þjóðanna. Allt eru það mál sem verðugt er að leggja lið. Þar er ýmist um að ræða sjóði sem bæta þegar unninn skaða, aðrir eru til þess ætlaðir að bæta ástand til frambúðar, þ.e. að leggja þjóðum lið við þróunarmál ýmiss konar.
    Það þarf ekki að orðlengja það og ætti að vera öllum ljóst að misskipting auðæfa jarðarinnar bitnar hvað harðast á börnum. Á 44. þingi Sameinuðu þjóðanna var samþykktur svokallaður alþjóðlegur samningur um réttindi barna og við Íslendingar eigum aðild að þeim samningi. Að mörgu er að hyggja í eigin búi. Börn eru svo sannarlega ekki í kastljósi stjórnmálanna hér á landi en hörmulegar aðstæður barna víðs vegar í heiminum eru þó viðfangsefni hér í þessari umræðu. Fskj. 3 með skýrslu hæstv. utanrrh. er stefnuyfirlýsing ríkisoddvitafundar Sameinuðu þjóðanna varðandi afkomu, vernd og þroska barna og áætlun um aðgerðir til að hrinda í framkvæmd stefnu varðandi afkomu, vernd og þroska barna 1990 -- 2000. Hæstv. forsrh. Íslands sat þennan fund. Það verður ekki hjá því komist að nefna þann lystauka sem fylgdi fréttinni af þessum fundi ríkisoddvitanna. Tíunduð var í fjölmiðlum dýrðleg máltíð sem þeir neyttu áður en þeir hófu að ræða hungur, sjúkdóma og dauða barna. Er skemmst frá því að segja að þessi lystauki vakti hneykslun og andúð allrar þjóðarinnar.
    Í umræddri stefnuyfirlýsingu er margt athyglisverðra staðreynda, ljótra staðreynda, sem hljóta að snerta samvisku hvers einasta hugsandi manns. Mig langar, með leyfi virðulegs forseta, að vitna stuttlega í umrædda stefnuyfirlýsingu. Fyrsta grein hennar hljóðar svo: ,,Við erum saman komin á ríkisoddvitafundi um málefni barna til að taka á okkur sameiginlegar skuldbindingar og til að skora á allan heiminn að gefa öllum börnum betri framtíð.`` Síðan er ástand þessara mála tíundað og því vel lýst hve hörmulegt ástandið er.
    Þarna er sérstakur kafli sem ber titilinn ,,Vandamálið``. Í honum segir: ,,Á hverjum degi eru ótal börn um allan heim útsett fyrir hættum sem ógna vexti þeirra og þroska. Þau þjást gífurlega vegna stríðs og ofbeldis; sem fórnarlömb kynþáttafordóma, aðskilnaðarstefnu, árásarstefnu, erlendrar hersetu og innlimunar; sem fóttamenn eða uppflosnuð, neydd til að yfirgefa heimili sín og átthaga; vegna fötlunar; eða sem fórnarlömb vanrækslu, grimmdar og misnotkunar. Á hverjum degi er milljónum barna ógnað af fátækt og efnahagskreppu, hungri og heimilisleysi, drepsóttum og ólæsi, og versnandi umhverfisskilyrða. Á þeim bitna af fullum þunga hrikaleg áhrif þjóðarskulda og skortur á hagvexti og efnahagslegum stöðugleika margra þróunarríkja, einkum þeirra sem skemmst eru á veg komin. Á hverjum degi deyja 40.000 börn vegna vannæringar og veikinda, þar á meðal eyðni, vegna skorts á hreinu vatni og ófullnægjandi hreinlætis og sem afleiðing eiturlyfjavandans.`` Það er vert að skjóta því hér inn í að sýking vegna neyslu á menguðu drykkjarvatni er algengasta dánarorsök ungbarna í þriðja heiminum.
    Nokkru seinna segir í skýrslunni: ,,Bætt heilsa og næring barna er fyrsta skylda, og lausn þess vanda er nú innan seilingar. Bjarga má á degi hverjum lífi tugþúsunda drengja og telpna, þar sem þau deyja af ástæðum sem auðvelt væri að koma í veg fyrir. Dánartíðni barna og ungbarna er of há í mörgum heimshlutum en gæti lækkað verulega með aðferðum sem þegar eru þekktar og auðtiltækar.`` Skömmu seinna segir: ,,Sterkari staða kvenna á öllum sviðum og trygging jafnréttis kynjanna mun koma börnum heims til góða. Gefa verður stúlkum sömu skilyrði og tækifæri og drengjum alveg frá byrjun.`` Enn segir: ,,Í dag eru meira en 100 milljónir barna án allrar menntunar og tveir þriðju hlutar þeirra eru stúlkur.`` Enn fremur: ,,Hálf milljón mæðra deyja á ári hverju af barnsförum og tengdum orsökum.``
    Ég vík þá aðeins að þeim kafla sem ber heitið ,,Skuldbindingin``. Þar segir: ,,Velferð barna krefst ákvarðana á æðsta stigi stjórnmála. Við erum staðráðin í að ráðast til atlögu. Við skuldbindum okkur hér með persónulega til að gefa forgang réttindum barna, afkomu þeirra, verndun og þroska. ... Við munum vinna að því að bæta skilyrði barna til vaxtar og þroska með aðferðum sem útrýma hungri, vannæringu og hungursneyð og losa þannig milljónir barna undan hörmulegum þjáningum í heimi sem hefur efni á að fæða alla sína þegna. Við munum vinna að því að styrkja stöðu og hlutverk kvenna. ... Við munum vinna að því að hlutverk fjölskyldunnar í umönnun barna verði virt ... Við munum vinna að áætlun sem minnkar ólæsi`` ... Ég get þess, virðulegur forseti, að ég stikla þarna á setningum. Ég les ekki allt orðrétt.
    Seinast er svo kafli sem nefnist ,,Næstu skref``. Þar

segir: ,,Ríkisoddvitafundur um málefni barna hefur skorað á okkur að hefjast handa. Við erum ásátt um að taka þeirri áskorun. Við viljum samvinnu við marga en leggjum þó sérstaklega áherslu á börnin sjálf.`` Skýrslan endar með þessum orðum: ,,Ekkert verkefni getur verið göfugra en það að veita öllum börnum betri framtíð.``
    Athyglisvert er hve miklu fleiri orð eru notuð til að lýsa ástandi en til að lýsa því hvernig staðið skuli að því að bæta úr. Þó að í öðru orðinu sé fullyrt að til þess séu þekktar leiðir og sums staðar þess jafnvel getið að það sé auðvelt. Því er margoft haldið fram að úrræði séu fyrir hendi, en það skortir augljóslega fé. Þ.e. féð skortir ekki, það rennur bara ekki til barnanna. Það er allra góðra gjalda vert að stofna nýjan sjóð sem eigi að notast til að hjálpa börnum og bæta úr sárustu neyð og búa þeim betri framtíð. En hvenær verður hann til og því er ekki reynt að koma til móts við þessa stefnuyfirlýsingu ríkisoddvita á fjárlögum? Því gerir hæstv. utanrrh. málefni barna og annarra, sérstaklega í þróunarlöndum, ekki að umræðuefni? Er það kannski svo skammarlegt hvernig við höfum hingað til staðið okkur í þróunaraðstoð að hann skirrist við að nefna þessi mál? Eða er bara betra að geyma börn og konur í sérstökum hólfum sem eru ekki opnuð nema á hátíðarstundum? Og til að bíta höfuðið af skömminni lækka flest framlög sem renna til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi, þ.e. þau mál sem eru undir liðnum 03 391 í fjárlagafrv. Ég tek sem dæmi að
framlag til Alþjóðabarnahjálparstofnunarinnar, UNICEF, lækkar um 200 þús. kr. Á móti vil ég geta þess að framlag til UNIFEM hækkar um 100 þús. kr. sem er helmingi lægri en lækkunin til Alþjóðabarnahjálparstofnunarinnar. Er það furða þó að efasemdir vakni um að hugur fylgi máli þegar hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. tala fagurlega um þróunaraðstoð eins og þeir hafa gert hér í umræðunni? Ég undrast satt að segja kokhreystina.
    Það verður nú æ meira áberandi að viðurkennt sé að mikilvægasta og árangursríkasta þróunaraðstoð, sem hægt sé að veita, sé aðstoð við konur. Sú aðstoð nýtist best. Að hjálpa konum er að hjálpa öllum, ekki síst börnum, því að á herðum kvenna hvílir fjölskyldan. Þetta er meira að segja viðurkennt í títtnefndri stefnuyfirlýsingu, þ.e. í lýsingunni á ástandinu en því miður ekki í áformunum.
    Um 2 / 3 hlutar allra fjölskyldna í þróunarlöndum eru á framfæri kvenna einna. Aðstæður þær sem þessar konur búa við í viðleitni sinni að sjá börnum sínum farborða og koma þeim upp eru oftar en ekki ólýsanlegar. Fátækt, atvinnuleysi og ólæsi er hlutskipti þeirra flestra. Dagurinn endist þeim vart til að sinna frumþörfum. Hjá mörgum fer obbinn af deginum í að ná í vatn. Það að þreskja og mala korn, svo að hægt sé að seðja sárasta hungrið, er margra tíma verk.
    Á vegum Sameinuðu þjóðanna er nú starfandi sérstakur sjóður, UNIFEM. Í fyrra var stofnað félag UNIFEM hér á landi. Það var gert 18. des., en þann dag voru tíu ár liðin síðan undirritaður var sáttmáli

um afnám alls misréttis gagnvart konum hjá Sameinuðu þjóðunum. Framhaldsaðalfundur UNIFEM á Íslandi var svo á degi Sameinuðu þjóðanna 24. okt. sl. Viðurkenning þessa félagsskapar birtist á fjárlögum sl. árs þegar UNIFEM fékk eina millj. kr. á fjárlögum. Það er hlutverk þessa sjóðs, sem einungis nýtur framlaga eða styrkja frá ýmsum aðildarlöndum og félagasamtökum en fær ekki fastar fjárveitingar frá Sameinuðu þjóðunum, að beina aðstoð til kvenna í ljósi þess, sem ég sagði áðan, að aðstoð til þeirra sé hvað árangursríkust. Þetta er einfaldlega líka ódýrasta lausnin því að það þarf oft svo lítið fé og litlar úrbætur til þess að stórbreyta högum þessara kvenna og þar af leiðandi barna þeirra. Bara hlutir eins og vatnsdælur eða handsnúnar myllur geta gert þeim kleift að nota einhvern hluta dagsins til menntunar eða til þess að afla einhvers konar atvinnutekna ef þær aðstæður eru fyrir hendi. Þau eru auðvitað óþrjótandi verkefnin sem þarna þarf að sinna. Það þarf að útrýma ólæsi. Það þarf að veita fræðslu um heilbrigðismál, um getnaðarvarnir og margt fleira mætti telja, en fljótvirkasta, árangursríkasta og ódýrasta leiðin til úrbóta er aðstoð við konur, því að fljótlega mundi hver einasta króna í raun skila sér til barnanna.
    Margt fleira mætti um þetta segja, um hroðalegar aðstæður barna, ekki síst stríðshrjáðra. Þar eru þau saklausir þolendur átaka þjóða og þjóðarbrota í millum en eiga þó enga sök. Enginn deilir um að það sé verðugt verkefni að snúa sér að þessu verkefni sem ríkisoddvitarnir samþykktu af alefli. En óskandi væri að maður sæi hér í verki meiri áhuga þannig að maður tryði því að eitthvað byggi að baki orðunum sem þeir sögðu. Meðan beðið er eftir ákvörðun um sérstakan sjóð til að vinna að úrbótum fyrir börn heimsins væri hægt að sýna lit, t.d. með því að auka framlög til þeirrar þróunaraðstoðar sem við þegar tökum þátt í, ekki síst til UNIFEM, minnug þess sem segir í lok stefnuyfirlýsingar ríkisoddvitanna að ekkert verkefni geti verið göfugra en það að veita öllum börnum betri framtíð.
    Virðulegi forseti. Þó orð séu til alls fyrst verða menn þó dæmdir af verkum sínum þegar öll kurl koma til grafar.