Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. skýrsluna og finnst margt athyglisvert í henni. Ég ætla bara að fjalla um tvo þætti.
    Í fyrsta lagi samskipti íslensku þjóðarinnar við vestrænar lýðræðisþjóðir. Ég tel að það hafi reynst farsælt samstarf að öllu leyti í gegnum árin. Það hefur komið í ljós að sá eini íslenski stjórnmálaflokkur, Alþb., sem hefur barist gegn vestrænni samvinnu hefur farið með rangan málstað og
haft rangt fyrir sér að öllu leyti, tel ég, í sambandi við það mál. Sovétskipulagið byrjaði fyrir hálfu öðru ári síðan að brotna innan frá og reynir nú að snúa til vestrænni stjórnarhátta. Við vonum auðvitað öll að þeim gangi vel að útrýma sósíalismanum endanlega. En við skulum minnast þess, hæstv. forseti, að breytingin á sovéska kerfinu getur tekið jafnvel áratugi og sovéski herinn er enn þá grár fyrir járnum, t.d. skulum við minnast þess að það eru 36 flugvellir á Kolaskaga einum með tilheyrandi herbúnaði.
    Sagan frá 1917, ég hef rifjað það upp hér áður í Alþingi, er allt annað en glæsileg. Það er talið að á þessu tímabili hafi sovéski herinn valdið dauða a.m.k. 50 milljóna manna í eigin samfélagi, saklausra borgara, að meðtöldum börnum, konum og gamalmennum. Og þetta eru 73 ár og því 26.600 dagar og mér sýnist það, noti maður stærðfræði við að reikna þetta út, að sovéski herinn hafi afrekað það að myrða 1870 manns að jafnaði af eigin borgurum á hverjum einasta degi síðan 1917 og tvístra fjölskyldum og heimilum með tilheyrandi þjáningum.
    Mér finnst, hæstv. forseti, þetta ekki glæsilegt en ég tel rétt að minna á þetta og draga þessar ógeðfelldu staðreyndir fram í dagsljósið því að þannig er umræðan stundum um öryggis - og varnarmál að það er rétt að minna á hver sagan er í þessum efnum. Og þangað til alvörulýðræði er orðið í Sovétríkjunum, þá höldum við okkar vakt, vestrænar þjóðir, og gerum skyldu okkar í samræmi við þá samninga sem við vestrænar þjóðir höfum komið okkur saman um. Atlantshafsbandalagið er, eins og ágætur maður, Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur orðað það, mikilvægasta bandalag mannkynssögunnar. Og ég samgleðst íslensku þjóðinni að við skulum vera aðilar að þessu mikilvæga bandalagi.
    Við vonum svo auðvitað öll að afvopnun haldi áfram og að í framtíðinni verði friðvænlegra í heiminum. En forsenda friðar og öryggis er lýðræðið eitt, eins og reynslan hefur sýnt, og ég vona að lýðræðið muni vinna á í heiminum á kostnað einræðis í framtíðinni.
    Ef ég kem hér aðeins að þeim kafla skýrslunnar sem varðar útflutning á ferskum fiski á bls. 50 -- 51, þá langar mig til þess að spyrja, hæstv. forseti: Hvernig skyldi standa á því að hægt er að borga hærra verð fyrir fisk þegar hann er kominn á Humber-svæðið en hér heima á Íslandi? Skyldi ekki vera tímabært að fara að skoða þessa hluti í alvöru? Ég tel að aðalástæðan sé sú að við eigum ekki kost á að nýta ferskflakamarkaði í Evrópu vegna 18% verndartolls Evrópubandalagsins. Við mundum nýta þessa markaði væri þessi tollur ekki fyrir hendi. Við mundum senda þessi flök í flugvélum væntanlega og við mundum stórauka virðisauka og framleiðslu íslensku þjóðarinnar með því að koma þessum tolli fyrir kattarnef. Ég vil upplýsa hér verð í síðustu viku í Bretlandi. Opinbert skráð verð á ferskum þorskflökum með roði var 421 kr. að meðaltali. Á sama tíma var verð á sambærilegum sjófrystum þorskflökum með roði, í öllum tilvikum, 320 kr. en landfrystum 270 kr. Það sjá allir að þessar tölur tala sínu máli. Fersk matvæli eru dýrari á mörkuðum en frosin. Það er framtíð okkar að nýta ferskflakamarkaði í Evrópu og ég verð að gera þær kröfur á hæstv. utanrrh. að hann láti einskis ófreistað til þess að íslensk stjórnvöld taki harðar á þessum málum en gert hefur verið og geri íslenskum fyrirtækjum kleift að nýta þessa ferskflakamarkaði í Evrópu, hvort sem er í Englandi eða annars staðar. Hvort sem þarf að tala við EFTA eða reyna að semja beint við Evrópubandalagið um þessa tolla þá skiptir það auðvitað engu máli. Það verður bara að tala við þá sem þarf að tala við til þess að koma öllum tollum fyrir kattarnef. Og ég fullyrði það hér að ekkert mál er eins mikilvægt fyrir íslensku þjóðina um þessar mundir og það að við getum fengið að nýta þessa ferskflakamarkaði í Evrópu til þess að bæta afkomu fólks og fyrirtækja. Virðisauki okkar mundi margfaldast af nýtingu íslensku fiskstofnanna. Og ég tel að stefnumörkun í þessu máli af hálfu utanrrn. og Útflutningsráðs Íslands til lengri tíma vanti alveg hér. Það vantar stefnumörkun til lengri tíma varðandi þessi tollamál.
    Mín framtíðarsýn er sú að fiskvinnslustefna íslenskra stjórnvalda verði sú að við gerum stórátak, stjórnvöld og útflytjendur sameiginlega, í að efla sölu á ferskflakamörkuðum í Evrópu, bæði í Englandi og annars staðar, og setjum nú þegar meiri kraft í það að krefjast þess að þessir tollar, svikamylla Evrópubandalagsins, verði felldir niður. Við sjáum það í bíómyndum sem maður horfir á sér til afþreyingar þegar mafían í New York er að kúga fólk til þess að borga fyrir stæðin í götunni eða eitthvað annað. En hver er munur á tollamafíu Evrópubandalagsins og mafíunni í New York í bíómyndunum? Þessi tollamafía Evrópubandalagsins stórskaðar íslensk fyrirtæki og íslenskan almenning. Ég tel að við eigum að bera höfuðið hátt og krefjast beinna viðræðna við Evrópubandalagið um þessa tolla og að þeir verði felldir niður. Við þorðum að færa landhelgina út í 200 mílur fyrir 15 árum. Við eigum líka að þora þetta og setja sama kraft í málið. Og við færðum ekki landhelgina út í 200 mílur til þess að hleypa mönnum hér inn bakdyramegin. Raunverulega hefur Evrópubandalagið nú þegar náð tökum á 100 þús. tonna kvóta hér á Íslandi. Höfum við gert okkur grein fyrir því? Við erum að flytja út vegna þess hvernig þetta er allt saman, þá kemur þrýstingur á það að flytja út fisk því að það er borgað hátt fyrir hann á Humber - svæðinu, því að þeir sem kaupa fisk þar geta nýtt þessa ferskflakamarkaði.

Þess vegna geta þeir borgað svona hátt. Raunverulega eru þeir komnir inn bakdyramegin með 100 þús. tonn. Mér finnst satt að segja allt of lítill skilningur á mikilvægi þessa máls.
    Ég ítreka það að þetta er brýnasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar. Verðmismunurinn sem ég nefndi áðan, t.d. á ferskflakamarkaði í síðustu viku og frosinni hefðbundinni framleiðslu, er sá að það er 56% hærra verð á ferskflakamörkuðum. En mismunur aftur á landfrystum og sjófrystum flökum er 18% og hefur það nú hingað til þótt gott og ástæða til þess að vinna frekar fiskinn úti á sjó þess vegna.
    En ég ítreka það að hér verður að taka fast á málunum svo íslensk fyrirtæki og almenningur þurfi ekki að búa við lakari lífskjör í framtíðinni vegna óbilgirni þessarar tollamafíu á meginlandinu.