Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Sitthvað athyglisvert hefur komið fram í þessari umræðu um utanríkis - og alþjóðamál. Sumt af því er af því taginu að við höfum nýlega fjallað um það mjög rækilega hér á Alþingi áður. Það á t.d. við um samningaviðræður okkar ásamt EFTA - ríkjunum við Evrópubandalagið, þannig að ég mun ekki fjalla um það frekar hér. Það á einnig við um stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart Eystrasaltsríkjunum og sjálfstæðisbaráttu þeirra sem við höfum einnig rækilega fjallað um og munum fjalla um enn betur á næstunni í utanrmn.
    Til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það fram strax í upphafi að engin tillaga hefur verið lögð fram á vettvangi ríkisstjórnar, né rædd þar þar af leiðandi, um uppsögn á varnarsamningnum við Bandaríkin. Þessi ríkisstjórn var ekki mynduð um það mál og hefði ekki verið mynduð ef þeirri kröfu hefði verið haldið til streitu. Þetta er nauðsynlegt að segja alveg skýrt vegna þess að ummæli hæstv. fjmrh. mátti misskilja á þann veg.
    Ég vil taka það fram að að frumkvæði hæstv. forsrh. var flutt tillaga um að setja saman starfshóp til þess að skoða hvaða kostir væru fyrir hendi til þess að nýta betur þá aðstöðu sem Íslendingar hafa á Keflavíkurflugvelli til þess að efla atvinnulíf þar, bæði varðandi útflutningsstarfsemi, ferðamannaþjónustu o.s.frv. Í tengslum við umræðu um þá tillögu reifaði hæstv. fjmrh. þau sjónarmið sín að æskilegt væri að setja upp hóp manna á vegum ríkisstjórnar til þess að skoða ný viðhorf að því er varðar framtíð og hlutverk varnarliðsins. En það var ekki tillaga um það mál heldur hugleiðingar af allt öðru tilefni.
    Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum sem ég skal hér leitast við að svara. Í fyrsta lagi var spurt hvað íslensk stjórnvöld hefðu gert til þess að framfylgja ályktun Alþingis frá 18. maí 1989, um deilur Ísraels og Palestínumanna. Svarið við þessu er þetta: Íslenska ríkisstjórnin hefur mótað þá afstöðu að leitað verði friðsamlegrar pólitískrar lausnar á þessum deilum, þar sem taka verði tillit til tveggja grundvallarsjónarmiða. Í fyrsta lagi þeirrar nauðsynjar að tryggja Ísraelsríki tilverurétt og öryggi innan umsaminna landamæra. Í annan stað að taka fullt tillit til eðlilegra krafna Palestínumanna um rétt þeirra til sjálfstjórnar. Við höfum haldið á þessu máli í samræmi við þessi grundvallarsjónarmið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem við höfum haft tækifæri til að tjá okkur um þau mál.
    Að sjálfsögðu er það afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar að það verði í þessu máli, eins og öðrum, að knýja stjórnvöld í Ísrael til þess að virða grundvallarmannréttindi og alþjóðasamþykktir, svo sem um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Íslenska ríkisstjórnin hefur harðlega fordæmt þau hörmulegu mannsmorð sem átt hafa sér stað á svæðinu og jafnframt fylgt því eftir með öðrum hætti. Þannig er rétt að skýra frá því að ég hef sem utanrrh. skrifað utanríkisráðherra Ísraels, David Levy, sérstaklega um þessi

mál og látið í ljós þá ósk að ríkisstjórn Ísraels tryggi vernd á lífi og limum og réttindum íbúa herteknu svæðanna, jafnframt því sem við höfum haldið fram þeim sjónarmiðum sem m.a. voru sett fram í ályktun Alþingis.
    Virðulegi forseti. Hér var einnig spurt hvernig hefði verið haldið á málum af Íslands hálfu varðandi þátttöku í og undirbúningi að hinni fyrirhuguðu ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál, sem ákveðið er að halda í Brasilíu árið 1992. Svarið við því er að af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar lýstum við ákveðinni tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Tillagan var um nýjan alþjóðasáttmála, sem byggði á reynslunni af hafréttarsáttmálanum, sem tæki til umhverfismála, skilgreindi réttindi og skyldur þjóða í alþjóðlegu samstarfi á sviði umhverfismála og þegar sá sáttmáli hefði verið gerður og undirritaður og staðfestur af nægilega mörgum ríkjum þá fengi hann lagagildi. Við höfum að sjálfsögðu fylgt þessu máli eftir og m.a. það áunnist að í ályktun um verkefni ráðstefnunnar hefur þessari hugsun verið haldið til haga. Í annan stað hafa Íslendingar fengið sinn fulltrúa í aðalundirbúningsnefnd ráðstefnunnar þar sem hann hefur vettvang til þess að fylgja þessu máli eftir.
    Sérstaklega var þeirri spurningu beint til mín að gera nánari grein fyrir stefnumótun stjórnvalda að því er varðar þá samninga sem nú standa fyrir dyrum og kenndir eru við GATT og Uruguay - lotuna.
    Það er sjálfsagt að verða við því en áður en ég geri það vil ég nefna sérstaklega, út af umræðum sem hér hafa orðið um smánarlega lítinn hlut Íslendinga að því er varðar þróunarhjálp, að sennilega er ekki hægt að stíga stærra skref til þess að rétta hlut hinna fátæku þjóða í þessum heimi en með því að opna markaði hinna ríku og þróuðu þjóða fyrir meginútflutningsvörum þessara þjóða, sem eru yfirleitt hráefni og matvæli. Það eru því bein tengsl þarna á milli. Sú stefna að greiða fyrir viðskiptum með hráefni og matvæli gæti gert meira en nokkur þróunarhjálp í formi fjárframlaga frá þróuðum ríkjum til þess að hjálpa fátæku fólki til sjálfshjálpar, til þess að ná bjargálna stigi að eigin frumkvæði. Og vildi ég mega vænta þess að þeir, t.d. talsmenn Kvennalistans hér í þessum umræðum, sem einkum beindu athygli sinni að framlögum til þróunarhjálpar reyndust nú sjálfum sér samkvæmir og fylgdu því eftir með stuðningi við það mál þegar það kemur til kasta Alþingis í formi samnings um opnun fyrir alþjóðaviðskipti með landbúnaðarafurðir. En af því að spurt var um það mál er rétt að skýra frá því í örstuttu máli um hvað það snýst.
    Fyrst er að taka það fram að þetta snýst ekki bara um landbúnaðarmál. Við erum hér að fjalla um stærsta átakið sem gert hefur verið með þátttöku meira en 100 þjóða til þess að efla fríverslun um heim allan á mjög breiðu vörusviði. Margar nefndir eru að störfum, 14 talsins reyndar, um sérstök viðfangsefni. Ein af þessum 14 fjallar um landbúnaðarmál. Ein af undirnefndum þeirrar nefndar fjallar síðan um tilraun til samræmingar á heilbrigðisreglugerðum og stöðlum

sem varða alþjóðaverslun með landbúnaðarafurðir. Það sem þarna er um að ræða er eftirfarandi: Óskað hefur verið eftir því að hver þjóð geri grein fyrir heildarstuðningi innan lands við landbúnaðinn.
Við höfum orðið við því þannig að upplýsingar hafa verið afhentar um heildarstuðning innan lands við landbúnað hér samkvæmt þeim flokkunarreglum sem GATT hefur komið sér saman um. Niðurstaðan er sú að heildarstuðningur íslenskra skattgreiðenda við landbúnaðinn er um 13 milljarðar kr. á verðlagi ársins 1990. Er þó vitanlega ekki allt talið, þ.e. ekki áhrif þeirrar innflutningsverndar sem felst í banni við innflutningi á landbúnaðarafurðum, þannig að hér er um gríðarlega háar upphæðir að ræða. Í annan stað hefur verið beðið um að þjóðir leggi fram tilboð sem flokka má í þrennt:
    Í fyrsta lagi hversu langt hver þjóð er reiðubúin að ganga í þá átt að draga úr heildarstuðningi við landbúnað.
    Í annan stað hversu langt þjóðir eru reiðubúnar að ganga til þess að draga úr því sérstaka styrkjaformi sem nefnist útflutningsbætur og er verra en önnur styrkjaform vegna þess að það hefur auðvitað mjög spillandi og truflandi samkeppnisáhrif.
    Í þriðja lagi, og það er aðalatriði málsins, er þess óskað að ríkin leggi fram tillögur þar sem þau skuldbindi sig til að falla frá viðskiptabanni hvort heldur það er lögbundið eða fólgið í kvótum eða takmörkunum á innflutningi eða hreinlega banni á viðskiptum og verslun með landbúnaðarafurðir og unnar afurðir. Í staðinn er hins vegar unnt samkvæmt samstarfsreglum í GATT að breyta banni í það sem kallað hefur verið ,,tarification`` eða tollígildi. Þetta dulmál merkir að viðkomandi landi er þá heimilt að setja á breytileg innflutningsjöfnunargjöld sem væru til þess fallin að vega upp þann mun sem er á niðurgreiddu verði vegna meiri stuðnings við landbúnað í landi A en í landi B sem flytur inn vöruna þannig að unnt er að jafna út muninn að því er varðar áhrif styrkja og niðurgreiðslna. Þar að auki er hverju landi auðvitað frjálst að setja tolla á þessar afurðir. En síðan er um það að ræða að reikna verndunaráhrifin í tollígildi. Niðurstaðan yrði sú að upp væri tekin sú meginregla að heimila verslun með landbúnaðarafurðir, unnar afurðir sérstaklega, en hvert land getur varið sig fyrir niðurgreiðslum eða ,,dumping`` ef ástæður þykja til. Þannig yrðu samkeppnisáhrifin fyrst og fremst þau að þótt innlend landbúnaðarframleiðsla nyti áfram verndar breytist hún með vissum hætti í þá átt að framleiðslufyrirtæki, einkum þau sem framleiða unnar landbúnaðarafurðir eða neysluvörur úr hráefni landbúnaðar, verða að keppa um það innbyrðis en gera það á grundvelli sanngjarnra samkeppnisreglna þannig að ekki er hægt að leita eftir slíkum viðskiptum á grundvelli niðurgreiðslna og ríkisstyrkja.
    Þetta er verkefni sem fyrir liggur að gera. Tilboð sem lögð verða fram með þessum hætti eru lögð fram án skuldbindinga og með öllum fyrirvörum. Þau eru nauðsynleg til að unnt sé að hefja samninga. Tímaáætlun er komin nokkuð úr skorðum en upphaflega

var gert ráð fyrir að þessi tilboð lægju fyrir á bilinu 1. -- 15. okt. og samningum yrði lokið fyrir lok þessa árs. Áætlað er að ráðherrafundur um þetta mál hefjist í Brussel 2. eða 3. des. Hingað til hefur málið strandað mest á Evrópubandalaginu sem fylgir mjög rótgróinni verndarstefnu að því er varðar landbúnaðarmál. Ráðherraráð Evrópubandalagsins hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná samstöðu og setið marga næturfundina án árangurs allt þar til að fyrir tveimur dögum náðist samkomulag um lágmarkstilboð af hálfu Evrópubandalagsins. Það felur í sér tilboð um að lækka heildarstuðning við landbúnaðarframleiðslu um 30% og að afnema útflutningsbætur á þessum umsamda tíma til 1996 auk þess sem þriðji þátturinn felst í því að vera reiðubúnir til breytinga til þess að hverfa frá kvótum og magntakmörkunum og breyta því í tollígildi. Staðan er þá sú að í þessum samningaviðræðum er nánast um að ræða þríhyrning. Þeir sem hafa frumkvæði að fríverslun eru fyrst og fremst bandarísk stjórnvöld sem hafa lagt fram tilboð um að minnka stuðning við landbúnaðarframleiðslu um 75%, afnema að sjálfsögðu allar útflutningsbætur og breyta banni og kvótum og magntakmörkunum yfir í tollígildi og lækka það í áföngum á næstu árum. Evrópubandalagið er íhaldssamast í þessum efnum og gengur einna skemmst og sumar EFTA - þjóðirnar eru á svipuðu róli. Sem kunnugt er hafa Norðurlandaþjóðirnar t.d. fylgt mjög afturhaldssamri verndarstefnu á þessu sviði. En nú er tákn nýrra tíma og t.d. hefur sænska ríkisstjórnin lagt fram fimm ára áætlun um að hverfa frá þessari verndarstefnu og taka stór skref í átt til opnunar.
    Að því er okkur Íslendinga varðar hefur þegar tekist samkomulag um að leggja fram tilboð um að draga úr útflutningsbótum allt að 65% á þessu árabili og að minnka heildarstuðninginn um a.m.k. fjórðung. Eftir er hins vegar að senda inn tilboð varðandi þriðja þáttinn sem fæli þá í sér með hvaða hætti við mundum haga verðjöfnunargjöldum og tollum í stað innflutningsbanns. Ef þeim hugmyndum yrði framfylgt sem eru mest í umræðu á vettvangi íslenskra stjórnvalda þá mundi það þýða milljarða sparnað fyrir skattgreiðendur strax vegna minni styrkja og niðurgreiðslna, auk þess sem þetta væri þýðingarmesta skrefið sem stigið yrði í þá átt að tryggja neytendum í landinu, í skjóli samkeppni, lægra verð á lífsnauðsynjum. En það er sem kunnugt er eitt þeirra mála sem mest hafa verið á dagskrá hvernig við getum bætt raunveruleg lífskjör, ekki síst þeirra fjölskyldna sem þyngsta hafa framfærslubyrði, með því að lækka verð á lífsnauðsynjum.
    Það er þetta sem GATT snýst um þannig að ég hef þar með svarað fyrirspurn hv. 1. þm. Suðurl. um aðalatriði þess máls.
    En að lokum vil ég árétta að þetta mál snýst ekki bara um skynsemi þess og hagkvæmni, ekki aðeins fyrir neytendur heldur fyrir framleiðendur landbúnaðarvara þegar til lengri tíma er litið, með því að opna heimsviðskipti í þessum atvinnugreinum. Það er eftirtektarvert að ef menn bera saman þá byltingarkenndu framþróun sem átt hefur sér stað, auknu framleiðni og lækkun raunverðs að því er varðar iðnaðarvöru og þjónustu og berum það saman við landbúnað þá hefur framleiðni legið þar eftir, framleiðslukostnaður verið mjög hár, einmitt vegna þessarar verndarstefnu. Við höfum því ástæðu til að ætla að ef frá henni verður horfið muni það þýða raunverulega nýtt vaxtarskeið, ef við lítum á landbúnað og matvælaframleiðslu á heimsvísu, fyrir utan að það mun tryggja betur en ella hagsmuni neytenda. En stærst í þessu máli er að sjálfsögðu að þær þjóðir sem skemmst eru á veg komnar í efnahagslegri þróun, þar sem fátækt er mest, eru fyrst og fremst framleiðendur landbúnaðarafurða, matvæla og hráefna. Þeim hefur verið haldið niðri í efnahagslegu tilliti með því að loka fyrir þeim mörkuðum hinna ríku þjóða. Það er meginskýringin á því að lífskjörum hefur þar farið hnignandi á sl. áratug á sama tíma og lífskjör hafa farið hraðbatnandi í hinum þróaða heimi. Þannig að það er ekkert eitt mál sem gæti orði þeim meir að liði en árangursríkur alþjóðasamningur um örvun heimsviðskipta að því er varðar viðskipti með hráefni og matvæli.
    Að því er varðar afvopnun á höfunum og tillögur okkar Íslendinga um traustvekjandi aðgerðir og afvopnun á höfunum vil ég aðeins segja þetta. Það er mikil andstaða við þetta mál af hálfu hinna hefðbundnu flotavelda. Það er stuðningur við það að hluta til af hálfu ýmissa minni ríkja í Evrópu og þar með innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta mál var talsvert átakamál á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í London á sl. vori af sérstökum ástæðum. Á þeim fundi var Atlantshafsbandalagið að samþykkja stefnuyfirlýsingu sem gilda átti út þennan áratug um áætlun bandalagsins um afvopnun, að því er varðar hefðbundin vopn, kjarnavopn, efnavopn o.s.frv. Fyrir fundinum lá stefnuyfirlýsing þar sem skýrt kom fram að stærsta málið í það skiptið var að ná allsherjar samkomulagi við Sovétríkin og ríki Austur - Evrópu um endursameiningu Þýskalands og um það að endursameinað Þýskaland gæti með samkomulagi haldið áfram sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu. Til þess að auðvelda það ákváðu ríki Atlantshafsbandalagsins að leggja fram tilboð að frumkvæði þýsku ríkisstjórnarinnar um verulega fækkun í herjum á þýsku landsvæði eftir sameiningu, umfram það sem áður hafði verið á borðum samningamanna í Vín. Þessi stefnuyfirlýsing byggði á því að áfram skyldi unnið á grundvelli óbreytts umboðs frá því í Madrid 1983 varðandi afvopnun. En það umboð útilokar höfin nema því aðeins að um sé að ræða sjóheri sem eru í tengslum við landheri þannig að það má heita að umboðið útiloki afvopnun á höfunum. Af sjálfu leiðir að mönnum var mjög í mun að ekki yrðu tafir á afvopnunarsamningunum, þ.e. sem kenndir eru við CFE 1 og 2, vegna þess að það hefði vafalaust tafið sameiningu Þýskalands og af ótal ástæðum öðrum. Það varð samkomulag um það að menn vildu hraða þessum afvopnunarsamningum, m.a. vegna þess að undirskrifaðir afvopnunarsamningar voru af hálfu Vesturveldanna skilyrði fyrir því ríkisleiðtogaráðstefnan yrði haldin nú í haust á vegum ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu, um að stofnanabinda þá ráðstefnu, setja upp stofnanir til þess að leysa svæðisbundin deilumál, setja upp stofnanir til þess að sinna umhverfisverndarskyldum þjóðanna, stofnanir til þess að stuðla að lýðræðislegri þróun í hinum nýfrjálsu ríkjum Austur - Evrópu.
    Í raun og veru hefði verið eðlilegt að Íslendingar flyttu tillögu um breytingu á þessu umboði, en þess var ekki að vænta að við gætum fengið stuðning við það vegna þess að mönnum lá á að ná árangri í afvopnunarsamningunum en breyting á umboðinu svo flókið mál, það tók t.d. þrjú ár að ná samkomulagi um það umboð sem nú gildir, að það hefði augljóslega tafið málið. Við áttum þess vegna ekki annarra kosta völ en fyrst og fremst að tryggja það að ekki yrði látið við það sitja að samþykkja afvopnunaráætlunina eins og hún lá fyrir að óbreyttu umboði heldur að fá samkomulag um það og yfirlýsingu um það frá Atlantshafsbandalagsríkjunum að þau muni áfram kanna möguleika á því að útvíkka þetta svið afvopnunarviðræðna þannig að það næði til annarra sviða. Þetta er að vísu pólitískt dulmál en merkir þó það að leiðin stendur opin fyrir áframhaldandi vinnu að því að fá fram samningaviðræður um afvopnun á höfunum, vegna þess að þetta er eina meiri háttar svið vígbúnaðar sem er utan við það umboð sem nú er starfað eftir.
    Þetta er sennilega í fyrsta sinn sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að leita eftir stuðningi bandalagsþjóða innan Atlantshafsbandalagsins í harðri andstöðu við forusturíki bandalagsins á sviði flotamála, Bandaríkin og Bretland, og tókst að vinna þann varnarsigur að ekki var lokað á það til frambúðar að áfram væri hægt að vinna að þessum málum.
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, flutti hér um margt athyglisverða ræðu. Hann átaldi að í skýrslu utanrrh. hefði ekki verið fjallað með viðhlítandi hætti um framtíðarhlutverk varnarstöðvar á Íslandi í ljósi þeirra gerbreyttu kringumstæðna í alþjóðamálum sem rækilega eru tíundaðar í skýrslunni og hv. þm. lýsti samþykki sínu við. Ef ég skildi hv. þm. rétt þá taldi hann að það væri tímabært að við Íslendingar endurskoðuðum hlutverk varnarstöðvarinnar, eftirlits - og gæsluhlutverk hennar, sérstaklega út frá þeirri spurningu að hve miklu leyti við Íslendingar gætum sjálfir tekist á hendur það verkefni að sinna þessu gæslu - og eftirlitshlutverki. Þetta er fullkomlega réttmæt spurning og vissulega umræðu og rannsóknar virði. Ég get hins vegar ekki fallist á það að fram hjá þessu hafi hreinlega verið gengið í skýrslu minni, vegna þess að á það er bent að þær breytingar sem nú hafa átt sér stað og munu halda áfram að eiga sér stað þær koma auðvitað til með að hafa áhrif á hlutverk þessarar eftirlitsstöðvar. Fyrst um sinn mun þó ekki reyna á þetta. En þar sem meginhlutverk hennar hefur verið að tryggja öryggi siglingaleiða og tryggja öryggi liðs- og vopnaflutninga frá

meginlandi Ameríku til Evrópu, ef og þegar til ófriðar kæmi á þeim slóðum, þá er það út af fyrir sig svo að þessu hlutverki þarf áfram að sinna. Ef niðurstaðan verður sú að eftir því sem hið nýja öryggiskerfi Evrópu þróast yrði bandarískur her fluttur frá meginlandi Evrópu er eitt sjónarmiðið það að þá væri enn þýðingarmeira en ella að tryggja öryggi þessara siglingaleiða vegna þess að þá lengist sá tími sem þarf til þess að bregðast við hættuástandi sem kynni að skapast og það reynir meira á að tryggja þessar siglinga - og flutningaleiðir. Þetta svarar þó ekki spurningunni að öllu leyti en ég minni á að það er ekki bara að við eigum að svara þeirri spurningu: Eru nú upprunnir þeir friðartímar að raunverulega sé ástæða til að spyrja: Er ástæða til þess að segja upp varnarsamningnum, endurskoða forsendur hans og hverfa aftur til fyrra horfs um aðskilnað annars vegar spurningarinnar um aðild að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar veru varnarliðs á friðartímum? Það er ein spurningin. Hin spurningin er sú hvort Íslendingar eigi sjálfir að annast þetta hlutverk og þá innan óbreytts ramma með samkomulagi innan Atlantshafsbandalagsins. Þriðja spurningin gæti verið sú hvort sú stund kunni að renna upp að samningar hefjist um afvopnun á höfunum. Gerum ráð fyrir að þeir mundu takast. Við vitum hins vegar að þeir mundu taka langan tíma.
Þá kynni að fara svo að forsendur mundu skapast fyrir því að eftirlit með framkvæmd slíkra afvopnunarsamninga, sem eru reyndar mun flóknari en afvopnunarsamningar um hefðbundin vopn á landi, mundu kalla á alþjóðlegt samkomulag um eftirlitsstöð, t.d. á Íslandi. Allt eru þetta stórar og þýðingarmiklar spurningar en það sem ég vil um það segja á þessu stigi málsins er þetta:
    Þrátt fyrir allt sem sagt er um þær byltingarkenndu breytingar sem átt hafa sér stað þá erum við raunverulega við byrjun þessa breytingaferils. Það er kunnugt af sögunni að þegar nýlenduveldi leysast upp gerist það sjaldnast með skipulegum eða friðsamlegum hætti. Og nú þegar við horfum til þess að nýlenduveldi Sovétríkjanna leysist upp og stjórnkerfi og hugmyndakerfi þess sem byggði á valdbeitingu hrynur þá er þess að gæta að þessar breytingar eru gríðarlega vandasamar. Þeim munu fylgja mjög sársaukafullar breytingar. Það er ekki ólíklegt að áður en ástandið batnar eigi það eftir að versna. Margir þykjast eygja stóra hættu á því að í þessu upplausnarástandi muni koma til harðra átaka milli þjóðríkja sem haldið hefur verið nauðugum í ríkjasambandinu mikla, eða þjóðernislegra minnihlutahópa, þannig að menn geta engan veginn slegið því föstu að þetta gerist með friðsamlegum hætti. Með þessum orðum vil ég undirstrika að fram undan er mikil óvissa. Meðan svo er þá er ekki hægt að slá því föstu að tímabært sé að leysa upp þau varnarsamtök sem skilað hafa svo frábærum árangri eins og raun ber vitni að því er varðar Atlantshafsbandalagið eða það sameiginlega öryggiskerfi lýðræðisþjóðanna sem það er samnefnari fyrir. Spurningarnar sem hv. þm. vakti eru, eins og ég segi, vissulega umræðu virði. Þær ber að kanna og

þær ber að taka alvarlega, en það er ekki tímabært að gefa sér fyrir fram niðurstöðu um það til hvers sú könnun leiðir. Það er nú fyrst og fremst það sem ég vildi segja um það mál að svo stöddu.
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. komst svo að orði í ræðu sinni hér áðan að eitt það erfiðasta sem henti manninn á lífsferlinum væri að nema nýjar hugsanir á gamalsaldri. Þetta minnir mig á spakmæli sem haft er eftir John Maynard Keynes, þekktasta hagfræðihugsuði þessarar aldar, en hann sagði að það erfiðasta sem gæti hent mannskepnuna væri að ,,aflæra`` hugmyndakerfi eða þekkingarkerfi sem menn hefðu lært á ungum aldri. Ég hygg að það sé mikill vísdómur í þeim orðum.
    Þegar við hugsum til baka um nokkra áratugi til sögu Evrópu þá höfum við upplifað það á æviskeiði tveggja kynslóða að upp hafa risið og fallið tvö alræðishugmyndakerfi og stjórnkerfi sem hafa skilið eftir sig sviðna jörð og valkesti af líkum og kostað ógurlegar blóðfórnir. Hið fyrra var nasisminn. Viðbrögð lýðræðisríkjanna við uppgangi og valdatöku nasismans voru mikil lexía. En sú staðreynd að lýðræðisríkjunum tókst ekki að koma á sameiginlegu öryggiskerfi til þess að kveða hann niður áður en honum gafst ráðrúm til þess að steypa heiminum í vítisloga seinni heimsstyrjaldarinnar mótaði raunverulega hugmyndir og reynsluheim manna eftir stríð. Nasisminn kostaði meira en 50 millj. mannslífa. Viðbrögð lýðræðisríkjanna urðu þau að láta sér þetta að kenningu verða. Og þegar Sovétríkin, mesta herveldi heims á þeim tíma, höfðu fært út landamæri sín og hneppt í fjötra hundruð milljóna manna, náð því með ofbeldi að tryggja yfirráð hamars og sigðar yfir þriðjungi heimsbyggðarinnar, þá brugðust þau við á þann veg að efla með sér sameiginlegt öryggiskerfi.
    Ef við lítum nú til baka þá þurfum við út af fyrir sig ekki að undrast að Sovét - kommúnisminn er fallinn. Það eru auðvitað heimssöguleg tíðindi að þetta hugmyndakerfi, þetta stjórnkerfi, hefur hrunið innan frá vegna þess að það var siðferðilega rotið innan frá, það var kerfi byggt á valdbeitingu. Sovéska ríkjasambandinu og sovéska nýlenduveldinu var haldið saman með ofbeldi, ofbeldi Rauða hersins, ofbeldi lögreglunnar. Það var ríkjasamband sem byggði á hugmyndum sem voru manneskjufjandsamlegar. Í krafti einhvers stórasannleiks um yfirburði þessa þjóðfélags voru öll mannréttindi afnumin. Rétturinn til að hugsa upphátt, rétturinn til að tala, réttur til samtaka, réttur til tjáningar, ferðafrelsi og öll mannréttindi. Allt átti þetta að gerast í nafni þess að þetta þjóðfélagskerfi hefði einhverja þá yfirburði að það mundi skila fólki allsnægtum undir lokin ef þessar fórnir yrðu færðar. Nú vita menn betur. Þetta kerfi skilaði engum vörum. Það var byggt á ranghugmyndum einnig að því er varðar framleiðslustörf og efnahagskerfið. Það er efnahagslega líka í rúst. Rúmum 70 árum eftir rússnesku byltinguna kom það á daginn að Sovétríkin gátu ekki brauðfætt sig.
    Þetta höfum við upplifað en það er ástæða til að staldra við það að þjóðfélag sem byggir tilveru sína á

ofbeldi er auðvitað hættulegt heimsfriðnum í sjálfu sér. Það er hættulegt fólki og það er hættulegt nágrönnum sínum. Lýðræðisríki eru í eðli sínu síður til þess líkleg að beita ofbeldi af þeirri einföldu ástæðu að lýðræðisleg vinnubrögð, lýðræðisleg gagnrýni, opin þjóðfélög setja valdhöfunum þröng takmörk.
    Annars vegar höfum við upplifað hrun þessara allsherjarkerfa stórasannleiks sem boðuð voru kappsamlega af falsspámönnum. Hins vegar hefur okkur smám saman lærst að skilja hvílíkir eru langtímayfirburðir hins opna og lýðræðislega þjóðfélags. Berum saman árangurinn annars vegar af samrunaferlinum í Evrópu, berum saman árangurinn af lífskjarabyltingunni í Evrópu, minnumst þess að í 2000 ára blóðugri sögu Evrópu hefur aldrei gerst að uppi væri samfellt 50 ára tímabil friðar, eins og tryggt var á forsendum og á grundvelli öryggiskerfis lýðræðisríkjanna, berum þetta saman við reynsluna af sovésku tilrauninni í austri. Annars vegar var hrun þess kerfis vegna þess að það var siðferðilega rotið og féll innan frá. Hins vegar var aðdráttarafl hins opna, lýðræðislega þjóðfélags Evrópu.
    Ef menn tala um það að nú sé þörf á að endurskoða hugmyndir, nú sé þörf á því að læra af reynslunni, þá hljóta menn fyrst og fremst að staldra við það að þeir þurfa fyrst og fremst að læra sem standa núna uppi á öskuhaugum sögunnar með hugmyndir sem reyndust rangar, síður hinir sem geta litið til baka og sagt með sanni: Okkar hugmyndir hafa staðist. Þær hafa skilað árangri. En á öllum tímum þurfa menn að geta litið á þróun mála með opnum huga. Það hljómar dálítið ankannalega ef þeir sem helstir hafa verið talsmenn hinna úreltu hugmynda tala mest um nauðsyn þess að hinir þurfi nú að endurmeta þær hugmyndir sem vel hafa gefist og sannað gildi sitt í reynd.
    Virðulegi forseti. Við lifum á spennandi tímum og andi þeirra tíma kemur vel fram í upphafsorðunum á sögulegri yfirlýsingu leiðtoga Atlantshafsbandalagsins frá umræddum fundi í Lundúnum 5. -- 6. júlí þar sem boðaður er vilji leiðtoga lýðræðisríkjanna til þess að rétta bróðurlega sáttahönd leiðtogum hinna nýfrjálsu ríkja í Austur - Evrópu sem nú eru að byrja að stíga fyrstu skrefin úr rústum alræðisins í átt til manneskjulegs þjóðfélags sem byggt væri á hugmyndum um lýðræði, fjölflokkakerfi, réttarríki og valddreifingu í efnahagsmálum. þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nýtt skeið er hafið í sögu Evrópu, fullt fyrirheita. Ríki Mið - og Austur - Evrópu eru að varpa af sér oki áþjánar. Sovétríkin eru að stíga fyrstu skrefin í átt til frjáls samfélags. Múrarnir, sem áður héldu fólki föngnu og hindruðu frjáls skoðanaskipti, eru að hrynja. Evrópumenn eru nú að skapa sér örlög sjálfir. Þeir hafa valið frelsið, frjálst efnahagskerfi og frið. Atlantshafsbandalagið verður að breytast og aðlagast í samræmi við þessa þróun.
    Atlantshafsbandalagið hefur verið árangursríkasta varnarbandalag sögunnar. Nú, þegar fimmti áratugurinn í starfsemi bandalagsins er að hefjast og það horfir fram á við til nýrrar aldar, verður bandalagið að

viðhalda áfram sameiginlegum vörnum. Bandalagið hefur átt mikinn þátt í því að skapa nýja Evrópu. Enginn getur með vissu spáð fyrir um þróun mála í framtíðinni. Við verðum að standa saman og framlengja hið langa friðarskeið sem við höfum notið síðustu fjóra áratugi. Þrátt fyrir það verður bandalagið að vera æ meiri hvati breytinga. Það getur hjálpað til við að reisa máttarviði samstæðari álfu og stutt öryggi og jafnvægi með öllum þeim styrk sem sameiginleg trú á lýðræði, rétt einstaklingsins og friðsamlega lausn deilumála veitir. Við ítrekum það álit okkar að öryggi og jafnvægi eru ekki eingöngu hernaðarlegs eðlis. Það er ætlun okkar að styrkja pólitískan þátt í starfsemi bandalagsins, eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. stofnsáttmála þess.``
    Nokkrum vikum áður hafði svipuð orðsending verið send frá utanríkisráðherrafundinum í Turnberry í Skotlandi og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við, utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins, erum staðráðnir í að færa okkur í nyt þau sögulegu tækifæri, sem hinar umfangsmiklu breytingar í Evrópu hafa skapað, í þeim tilgangi að stuðla að nýju og friðsamlegu framtíðarfyrirkomulagi í Evrópu, byggðu á frelsi, réttlæti og lýðræði. Í þessum anda réttum við fram hönd sátta og samstarfs til þjóða Sovétríkjanna og allra annarra Evrópuríkja.``