Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Já, það er merkilegt að hlusta á tvo hæstv. ráðherra tala svo út og suður eins og hv. síðasti ræðumaðumaður, 5. þm. Norðurl. e., benti á. Það er nú ekkert nýtt innan þessarar ríkisstjórnar. Hún talar yfirleitt út og suður í svo mörgum málum. En ég tók eftir því að þarna bar mjög mikið á milli og mjög einkennilegt að heyra hvernig þarna var farið með varðandi GATT - viðræðurnar. Væri fróðlegt að fá að vita hvað í raun og veru er þarna á ferðinni. Hvort á maður að taka meira mark á því sem hæstv. utanrrh. segir eða hæstv. forsrh.?
    En það vakti athygli mína að hæstv. utanrrh. taldi að það jafnaðist á við aukna þróunaraðstoð af hálfu Íslendinga að komið yrði á óheftum viðskiptum með landbúnaðarvörur. Þetta þótti mér ákaflega langsótt og átti mjög erfitt með að skilja það sem hann átti við. Nú heyrir hæstv. utanrrh. að vísu ekki mitt mál þar sem hann er ekki í salnum en e.t.v. skiptir ekki máli hvort hann er hér eða er hér ekki, þar sem hann hefur greinilega ekki fylgst neitt með því sem ég sagði fyrr í umræðunni þar sem hann hirti ekki um að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég vildi einungis vekja athygli á þessu. Ég spurði um ákveðin atriði í skýrslunni og eitt af því sem ég spurði um var hvernig öryggismál hefðu komið inn í samningana við Evrópubandalagið, þar sem fullyrt er í þessari skýrslu að í samningum við bandalagið um aðgang að mörkuðum væri tekið tillit til hlutverks Íslands í vörnum Vestur - Evrópu. Ég spurði beint að þessu en hann svaraði því engu.
    Það stendur einnig í skýrslunni orðrétt, með leyfi forseta: ,,Á hinn bóginn kynni Evrópubandalagið, sem hefði varnarmál á stefnuskrá sinni, einnig að sjá sér hag í auknum samskiptum við Ísland í ljósi hernaðarlegs mikilvægis landsins, en slíkt kynni að greiða fyrir samningum um viðskipti Íslands og Evrópubandalagsins.`` Ég spurði hæstv. utanrrh. að þessu. Hann leiddi hins vegar algerlega hjá sér að svara þessu. Þetta þótti mér mjög slæmt.
    Ég spurði einnig við hvað væri átt á bls. 12 í þessari skýrslu þar sem hann fullyrðir að við stöndum frammi fyrir afar erfiðu vali að velja okkur samstarfsaðila í öryggis - og varnarmálum og er þá að bera saman bandamenn austan og vestan hafs. Þetta hirti hann ekki um að ræða heldur.
    Mig langaði líka til að vita hvaða ríki Atlantshafsbandalagsins hefðu tekið undir kröfu Íslendinga um afvopnun á höfunum. Hann svaraði því heldur ekki. Það voru fleiri spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra en hann kaus að leiða þær hjá sér. Hann heyrði e.t.v. ekki hvað ég sagði frekar en hann heyrir núna hvað ég segi. Hann er e.t.v. ekki vanur að hlusta á það sem konur hafa að segja. Hann skilur það ekki.
    Það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á, og hefði kannski fremur átt að segja í minni fyrri ræðu en mér láðist að geta þess, er að það eru tvö hugtök sem ég á erfitt með að átta mig á sem koma fram á bls. 9 og 20 í þessari skýrslu og e.t.v. víðar,

þar sem talað er um sérstakt ,,stofnvirki til að koma í veg fyrir og leysa illdeilur``. Ég skil þetta því miður ekki. Þetta orðalag kemur fyrir á tveimur stöðum og mér er alveg hulin ráðgáta hvað þarna er átt við. Ég vil gjarnan koma í veg fyrir og leysa illdeilur, en ég skil ekki hvaða stofnvirki það er sem þarna er átt við. Einnig langar mig til að vita hvað átt sé við með hugtakinu ,,vestræn dýpt``. En hún er talin nauðsynleg til að tryggja framkvæmd áframhaldandi jafnvægis og stöðugleika á sviði varnarmála. Þetta voru þau tvö hugtök sem mig langaði til að vekja athygli á. Má ég bíða þangað til hæstv. ráðherra kemur? ( Forseti: Forseti vill nú leggja til að hv. þm. bíði með þau atriði sem hæstv. utanrrh. verður endilega að heyra. Það hefur áður verið beðið í ræðustól.) Þó að ég hefði margt fleira um þessi mál að segja, þá hafði ég ekki ætlað mér að hafa mörg orð að sinni nema eingöngu það sem varðaði spurningar beint til hæstv. utanrrh. svo að ég kýs að bíða.
    Ég var að vekja athygli hæstv. forseta á því að ég hefði ekki fengið svör við nokkrum af mínum spurningum. Ekki veit ég hvort ég á að endurtaka þær, hvort það hefur einhverja þýðingu, en það sem ég hafði ekki vakið athygli á í minni fyrri ræðu voru hugtök sem ég átti fremur erfitt með að skilja í ræðunni og reyndi ég að athuga hvort einhverjar skýringar kæmu á þeim, en það varð ekki. Annað var hugtakið ,,stofnvirki``. Það er notað í tveim stöðum í skýrslunni, alla vega á bls. 9 og bls. 12 þar sem rætt er um stofnvirki sem geti komið í veg fyrir og leyst illdeilur. Þetta var mér mjög torskilið. Þrátt fyrir að ég hafi lesið bæði það sem á undan fór og eftir mörgum sinnum skil ég ekki hvað þarna er átt við. Ég tek það fram að auðvitað vil ég koma í veg fyrir og leysa illdeilur en þetta hugtak skil ég ekki. Það var einnig annað hugtak sem ég get ekki skilið og það er ,,vestræn dýpt`` sem er svo nauðsynleg til að tryggja í framkvæmd áframhaldandi jafnvægi og stöðugleika á sviði varnarmála. Þessa vestrænu dýpt átti ég fremur erfitt með að skilja og átta mig ekki á hvað þarna væri átt við.
    Ég veitti því einnig athygli í VIII. kafla skýrslunnar, sem sérstaklega var gerður að umtalsefni hér af hv. 4. þm. Vestf., um herstöðina á Miðnesheiði að hún er kölluð varnarstöð Atlantshafsbandalagsins. Ég velti því fyrir mér síðan hvenær hún heitir þetta. Ég veit ekki betur en hér sé um að ræða bandaríska herstöð, enda er um tvíhliða samninga milli Íslands og Bandaríkjanna að ræða varðandi þessa herstöð og er margoft talað um það í þessari skýrslu. Það getur því varla verið rétt að kalla herstöðina varnarstöð Atlantshafsbandalagsins, hvorki í þessari skýrslu né heldur á vegskiltum Vegagerðarinnar sem vísa veginn til herstöðvarinnar og blasa við á leið að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um ástæðuna fyrir þessum nafnabreytingum. Það má vel vera að hún hafi verið einnig í fyrra í skýrslu ráðherrans.
    Það eru líka fleiri nafnabreytingar í skýrslunni eða ný orð notuð. Hæstv. ráðherra notaði ýmist þjóðarleiðtogar eða ríkisoddvitar og ég átta mig ekki alveg á hvort ríkisoddvitar eru þá forsætisráðherrar eða hvort utanríkisráðherrar eru einnig þar taldir með eða aðrir hæstv. ráðherrar.
    Þetta eru atriði sem ég vildi vekja athygli á, virðulegur forseti. Ég vil að lokum taka fram varðandi málefni Palestínu að ég er því algerlega ósammála hæstv. utanrrh. að þar hafi verið tekið á með eðlilegum hætti. Ég tel að allt of lítið hafi verið gert af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi málefni Palestínu.