Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef nú heyrt mál hv. 4. þm. Reykn. og satt að segja rekur mig í rogastans að heyra slíkan ágætisþingmann mæla svo sem hann hefur gert í þessu máli.
    Það er ekkert við það að athuga að einn þingmaður sé á móti ákveðnu þingmáli og á móti þessari þáltill. sem við hér ræðum. Auðvitað geta verið skiptar skoðanir í því efni. En þegar hv. þm. tekur svo mikið upp í sig og færir ekki minnstu rök fyrir fullyrðingum sínum, en allt sem hann minnist á er hreinn misskilningur og útúrsnúningur út úr því sem hér hefur verið sagt og till. þessari og tilgangi hennar, þá kastar fyrst tólfunum.
    Hv. þm. telur það einhverja goðgá að Vestfirðingar séu sérstaklega nefndir í viðskiptum við Grænland. Ég tók það skýrt fram að ástæðan fyrir því væri sú að það helgaðist af landfræðilegri legu Vestfjarða og nálægð við Grænland. Ekki getur hv. 4. þm. Reykn. neitt breytt þessari landfræðilegu afstöðu. Ég tók fram að það væri eðlilegast og hagkvæmast af þessum ástæðum að beina sem mestu af viðskiptum Íslendinga og Grænlendinga um Vestfirði, en þá væri þess að gæta að það væri átt við þau viðskipti þar sem fjarlægð milli viðskiptaaðila skipti máli.
    Hv. þm. talaði um það og hélt fram þeirri fjarstæðu að þessi till. fæli í sér einhverja tilburði til þess að þvinga Grænlendinga til ákveðinna viðskipta við Íslendinga og við ákveðna landshluta hér á landi. Hvernig dettur hv. þm. slíkt í hug, að það sé hægt að þvinga Grænlendinga til eins eða neins? Þessi till. byggir á því að það séu viðræður og samskipti milli landanna sem geta verið báðum aðilum til hagsbóta, báðum aðilum. Auðvitað getur ekki verið um neina þvingun að ræða í þessu efni, slíkt er gjörsamlega út í hött. Og yfirleitt eru allar þær mótbárur sem hv. þm. var með byggðar á misskilningi og gjörsamlega út í hött.
    Eitt var það sem hv. þm. gerði veður út af að ég sagði að það gæti verið eins gott að sækja fiskvinnslufólk frá Grænlandi til starfa á Vestfjörðum eins og frá Nýja - Sjálandi eða Ástralíu. Ég hélt að þetta væru nú eiginlega svo augljós sannindi að það þyrfti ekki að gera annað eins fjaðrafok úr þessu og hv. þm. gerir og gerir mér upp þá skoðun að ég vilji að það verði sem mest af erlendu verkafólki á Vestfjörðum. Það þarf töluvert mikið hugmyndaflug til þess að geta snúið hlutunum svona við. Auðvitað er þessu slegið fram til þess að benda á augljósar staðreyndir. Það er styttra að sækja verkafólk til Grænlands en til Ástralíu eða Nýja - Sjálands, ef þar er verkafólk fyrir hendi sem kærir sig um að vinna á Vestfjörðum. En að halda því fram að þessi till. feli í sér einhverja viljayfirlýsingu um að það eigi að vera sem mest af útlendingum við vinnu í hraðfrystihúsum eða annarri vinnu á Vestfjörðum, það er slíkur útúrsnúningur að það tekur ekki tali í raun og veru að vera að svara þessu.
    Hv. þm. var svo eitthvað að fjasa um miðstýringaráráttu í þessu sambandi. Það er erfitt að koma þeirri hugsun heim og saman við það sem við erum að ræða. Og hann var eitthvað að nefna Hafnfirðinga í sömu andránni og Vestfirðinga. Jú, ekkert hef ég á móti því en það breytir ekki því sem er meginefni þessarar þáltill. að gerðar séu ráðstafanir til að taka upp viðræður og samninga við Grænlendinga um sameiginleg mál sem mættu verða báðum aðilum til hagsbóta.
    Og svo, hv. 4. þm. Reykn. gengur náttúrlega algerlega fram hjá því að Vestfirðingar eru ekki sér þjóðflokkur. Vestfirðingar eru hluti af íslensku þjóðinni. Og ég tók það rækilega fram að það sem gæti verið til hagsbóta í viðskiptum Vestfirðinga og Grænlendinga gæti orðið til hagsbóta þjóðunum báðum í heild, bæði Íslendingum og Grænlendingum. Allt er þetta nú svo augljóst mál að ég verð eiginlega að biðja afsökunar á að tefja þingheim með svo sjálfsögðum hlut eins og ég hef þurft að drepa hér á.