Unnar Þór Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er mál á ferðinni sem flokkast í þrengsta skilningi undir hörðustu byggðamálin. Ég held að það væri ástæða til að tala hreinskilnislega um þessa hluti og segja beint út að einhverra hluta vegna færðust viðskipti af Vestfjörðum suður á Suðurnes. Einhverjir stýrðu því, hvort sem það var hið háa Alþingi eða menn á þess vegum, en það gerðist engu að síður.
    Það sem réttlætir öðru fremur að Vestfirðingar eigi að sitja að viðskiptum við Grænland er landfræðileg staða þeirra. Þeir eiga sameiginleg fiskimið, eru nálægt hvorir öðrum. Ef við lítum á hlutina á eðlilegan hátt er það eðlilegasta leiðin, hverju svo sem öðrum kann að þykja
ástæða til að halda fram og hvað sem svo upp á verður þegar búið er að fjalla um hlutina.
    En alveg greinilegt er að stjórnun á sér alltaf stað, stjórnun ræður því hvernig hlutirnir velta, stjórnun ræður því hvort byggð verður á Vestfjörðum eða ekki. Þar af leiðandi er það stjórnvalda að stýra málunum þannig að landshlutarnir búi við nokkuð jöfn skilyrði. Það má segja það að Vestfirðingar eigi rétt á því að sitja að þessum viðskiptum við Grænlendinga á sama hátt og þeir eiga rétt á því að fá sinn eðlilega skerf út úr þeim gjöfulu fiskimiðum sem undan Vestfjörðum eru. Með öðrum orðum, mér finnst hér vera mjög eðlileg tillaga á ferðinni og ég styð hana alls hugar.