Brúarframkvæmdir á Suðurlandi
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Því er ekki að leyna að prófkjörin hafa fætt af sér mörg sérstæð mál hér á hv. Alþingi á þessu hausti. Ég ætla ekki að munnhöggvast hér við ágætan vin Eggert Haukdal um þá þáltill. sem hér er lögð fram, en því er ekki að leyna að ég undrast það að jafnreyndur þingmaður skuli í fyrsta lagi ganga einn fram með slíka tillögu. Í öðru lagi að hann skuli vera með inni í tillögunni verkefni sem þegar eru ákveðin, verkefni sem fyrst og fremst er málefni þingmannanna í kjördæminu að leysa við Vegagerðina. Að vísu kann það að vera að hv. þm. hafi meiri trú á ríkisstjórninni en þingmannahópnum og skori því sérstaklega á hana að taka á þessum málum.
    Ég vek athygli á því við þessa umræðu að við þingmenn Suðurlands vorum í síðustu viku inni í Vegagerð þar sem við vorum að ræða um Markarfljótsbrú. Eins og þingmaðurinn segir er gert ráð fyrir í vegáætlun að þessi brú verði byggð á árunum 1991 -- 1992. Á þessum þingmannafundi með Vegagerðinni vorum við að ræða hugmyndir og menn skildu á þeim fundi staðráðnir í því að Markarfljótsbrúin yrði að fullu byggð á næsta sumri. En að auki var rætt um það hvort tæknilega væri hægt að ljúka öllum framkvæmdum, varnargörðum og vegi til og frá þessari brú, en menn töldu að það yrði of dýrt og tæknilega erfitt í framkvæmd. Þess vegna féllust þingmenn á álit Vegagerðarinnar um það að hægt væri, ef neyðarástand skapaðist, að taka einnig brúna í notkun næsta sumar ef eitthvað gerðist við gömlu brúna. En menn féllust á rökin að fjárhagslega og tæknilega væri rétt að þessi framkvæmd stæði yfir öllu lengur og brúin og þessi vegur yrðu að fullu tekin í notkun árið 1992. Ég álít þess vegna að inni í þessari þáltill. sé umræða um Markarfljót óþörf. Þar liggi allt fyrir og sé í höndum þingmanna kjördæmisins. Ég hygg að hæstv. samgrh. sé fylgjandi því sem rætt var í Vegagerðinni á dögunum með okkur þingmönnum, ekki síst af þeirri sök að það hefur komið í ljós að gamla Markarfljótsbrúin, sem menn höfðu hingað til talið alltrausta, er miklu lélegri, eins og hér kom fram í ræðu hv. þm., en áður var talið. Þar eru stöplar að gefa sig.
    Ég vil einnig segja það um göngubrúna á Ölfusá sem hann
hefur inni í þessari till. sinni, hv. þm., að um hana var einnig rætt á þessum fundi. Þingmennirnir í sjálfu sér bera sök á því að sú brú er ekki komin. Þeir sáu sig knúða til að taka þá peninga sem varið var til göngubrúarinnar og verja þeim í aðra brúargerð þar sem neyð skapaðist í kjördæminu. En á þessum þingmannafundi var það einnig rætt að finna leiðir til að hraða göngubrúnni og framkvæma hana á næsta sumri, ekki síst vegna þeirrar miklu slysahættu sem er á Ölfusárbrú fyrir gangandi vegfarendur og líka af hinu tilefninu að höfuðstaður Suðurlandsundirlendisins, Selfossbær, fagnar 100 ára afmæli á næsta sumri, sem tengist brúarframkvæmdunum því þarna var fyrst byggð brú 1891. Væntum við þess að þingmannahópurinn finni þarna leiðir til þess að hraða byggingu göngubrúarinnar og hún líti dagsins ljós á næsta sumri. Hvað hinar tvær brýrnar varðar, Kúðafljótsbrúna, sem er auðvitað næsta stórverkefni Sunnlendinga í brúargerð, ég held að þingmenn séu sammála um það, en það verður ekki ráðist í þá framkvæmd fyrr en Markarfljótsframkvæmdinni er lokið. Þá er það brú á Hvítá hjá Bræðratungu, sem menn auðvitað sjá einhvers staðar í framtíðinni. Hv. þm. minntist hér á brú sem nú er byggð yfir Tungufljót og verður væntanlega tekin í notkun á næstunni. Auðvitað ræðum við það, Árnesingar, að það verði mikilvægt byggðalega að tengja uppsveitirnar með brú yfir Hvítá hjá Bræðratungu. Þannig mundu Biskupstungur, stórt og mikið sveitarfélag, og Hrunamannahreppur og Flúðir tengjast og þetta yrði eitt atvinnusvæði, sterkara svæði, á eftir. Þetta er verkefni sem þingmannahópurinn er auðvitað að byrja að ræða og verður á næsta áratug til aldamótanna að veruleika. Þessi tvö mál styð ég sem framtíðarverkefni en ég hef hér reynt að vekja athygli á því að tillöguflutningurinn um hin verkefnin var óþarfur og kannski vart sæmandi við þær aðstæður sem blasa við í þeim verkefnum, eins og ég hér hef rakið.