Brúarframkvæmdir á Suðurlandi
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. 3. þm. Suðurl. Eggerts Haukdals, þar sem hann vakti athygli á því í ræðu sinni að hann hefði beðið þingmenn Sunnlendinga að skrifa upp á þessa þáltill., þá er það rétt. En það er líka rétt að ég vakti athygli þingmannsins á því að ég treysti mér ekki til þess af þeirri sök að Markarfljótsbrú væri þegar inni á vegáætlun og starf í gangi í þingmannahópnum og Vegagerðinni að því að finna leiðir til að ljúka því máli á næsta ári. Þannig að mér þótti sá málflutningur óþarfur í þáltill. inni á Alþingi. Og vart kannski eðlilegt að slíkt væri gert. Sama var að segja um göngubrú yfir Ölfusá. Svo fullyrðir hv. þm. hér að við höfum ekki viljað ganga í að hraða þessum framkvæmdum. Ég vakti hér athygli alþingismanna á því að á síðustu vikum höfðum við lokið því í rauninni að taka ákvörðun um að Markarfljótsbrú yrði byggð á næsta sumri. Við tókum ákvörðun um það í síðustu viku. Kjarkleysi okkar og aumingjaskapur var nú ekki meiri en það. ( EH: Hann er sá að ljúka þessu ekki á einu ári.) Ljúka þessu á einu ári. Við féllumst á, hv. þm., rök Vegagerðarinnar um það að af tæknilegum ástæðum og ekki síður til að fara vel með fjármagn ríkisins væri varla gerlegt að ljúka því. Enda lögðu þeir fram aðra áætlun, sem hv. þm. Unnar Þór vakti hér athygli á, að ef til neyðarástands kæmi væri hægt að taka brúna í notkun. (Gripið fram í.) Þeir röktu það í Vegagerðinni og við féllumst á þau rök. Þess vegna hef ég hér rakið það að mér finnst tillöguflutningurinn um þetta bera vott um einhvern skjálfta þegar menn grípa þegar ákveðin verkefni og flytja hér inn aftur í deildina í þátill. Ekki dettur mér í hug að fara að flytja till. um það að byggja á ný brú yfir Óseyrarnes við Ölfusá, enda framkvæmdum lokið.
    Mér sýnist að fleiri þingmenn hafi verið á þeim buxunum, eins og ég, af þessum sökum að treysta sér ekki til að skrifa upp á þáltill. Þar hefur hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, flokksbróðir þingmannsins, verið sömu skoðunar svo og við allir aðrir þingmenn kjördæmisins, að hér væri verið að flytja inn í þingið mál sem þegar væri ákveðið og töldum það óeðlilegt.