Kynning á vörum frá vernduðum vinnustöðum
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Skúli Alexandersson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja svohljóðandi þáltill. á þskj. 72 ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Stefáni Guðmundssyni, Karvel Pálmasyni, Kristínu Einarsdóttur, Salome Þorkelsdóttur og Huldu Jensdóttur:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún beiti sér fyrir sérstöku átaki til vandaðrar kynningar á vörum frá vernduðum vinnustöðum. Sömuleiðis að ríkisstjórnin sjái fyrir því að ríkisstofnanir og opinber fyrirtæki beini innkaupum sínum í sem ríkustum mæli að hinum fjölbreyttu vörum sem þessir vinnustaðir framleiða og hafa á boðstólum. Þannig verði rekstrargrundvöllur verndaðra vinnustaða best styrktur, atvinna fatlaðra betur tryggð og beinna styrkveitinga ríkisvaldsins ekki þörf í eins ríkum mæli.``
    Með þessari tillögu fylgir svohljóðandi grg.:
    ,,Í skýrslu, sem unnin var á vegum félmrn. og lögð var fram í júní 1990 er sagt að hægt sé að skipta vernduðum vinnustöðum í þrjá flokka eftir markmiðum:
    1. Þjálfunar - og endurhæfingarstaðir.
    2. Langtímavinnustaðir fyrir fólk sem á í erfiðleikum með að fá vinnu á almennum markaði.
    3. Báðir fyrri þættir saman.
    Þessir vinnustaðir eru orðnir allmargir, eins og fram kemur í meðfylgjandi fskj., og verkefni þeirra og framleiðsla eru fjölbreytt.
    Margir aðilar í þjóðfélaginu hafa not fyrir þá vöru sem þessi fyrirtæki framleiða. Ganga má út frá því sem vísu að fyrirtæki jafnt sem einstaklingar mundu að öllu jöfnu velja frekar framleiðslu verndaðra vinnustaða en t.d. innflutta vöru sömu tegundar til sinna þarfa eða rekstrar.
    Mikil nauðsyn er á góðri og vandaðri kynningu sameiginlega á möguleikum þessara fyrirtækja til að uppfylla með framleiðslu sinni ýmsar þarfir opinberra aðila, einkafyrirtækja og almennings. Ekkert er eðlilegra en að slík kynning sé skipulögð og kostuð af ríkissjóði.
    Ótvíræð skylda ríkisvaldsins er sú að koma sem best til móts við verndaða vinnustaði, m.a. með innkaupum frá þeim svo sem framast má verða.
    Á ári hverju er varið talsverðum fjármunum í beina styrki til að standa undir rekstri þessara vinnustaða. Það er því beinn hagur hins opinbera að stuðla að betri rekstri fyrirtækjanna með því að vinna að aukinni sölu á framleiðsluvörum þeirra á þann hátt sem lagt er til með þessari þáltill.``
    Eins og ég nefndi áðan kom á sl. sumri út skýrsla sem unnin var af nefnd sem félmrh. fól að kanna atvinnumál fatlaðra á vernduðum vinnustöðum og á almennum vinnumarkaði. Í skýrslunni koma fram margvíslegar upplýsingar um stöðu þessara mála. Skýrslan og starf nefndarinnar er góður grunnur fyrir áframhaldandi starf að málefnum fatlaðra. Þessi þáltill. okkar um kynningu á vörum frá vernduðum vinnustöðum tengist niðurstöðum skýrslunnar en þar segir m.a.:
    ,,Nefndin leggur til að félmrn. beiti sér fyrir átaki

í upplýsingamiðlun. Fræðsla og kynning á atvinnumálum fatlaðra verði stóraukin. Leitað verði nýrra leiða við þetta kynningarstarf, t.d. með útgáfu bæklinga um möguleika fyrirtækja og einstaklinga hvað varðar styrki og aðstoð. Þá verði einnig um að ræða beinar auglýsingar í fjölmiðlum.``
    Niðurstaða nefndarinnar beinist að því að kynna þurfi almennt stöðuna í atvinnumálum fatlaðra. Sá þáttur sem tillaga okkar fjallar um er ekki beint nefndur. Það er skoðun okkar flm. að efling vernduðu vinnustaðanna sé það snar þáttur í atvinnumálum fatlaðra að leita þurfi sem flestra ráða til að gera rekstur þeirra sem bestan. Ef litið er yfir fskj. með tillögu okkar, lista yfir verndaða vinnustaði sem eru fjórtán, eru þar aðeins þrjú til fimm fyrirtæki sem almenningur þekkir vel og kannast við framleiðsluvörur þeirra. Þar eru þekktust gamalgróin fyrirtæki eins og Blindravinnustofan, Reykjalundur og Múlalundur. Á því er ekki nokkur vafi að almenningur og fyrirtæki beina viðskiptum sínum til þessara fyrirtækja vegna þess að þau eru vel þekkt sem fyrirtæki sem bæta stöðuna í atvinnumálum fatlaðra, jafnframt því sem fyrirtækin framleiða úrvalsvörur.
    Ég tel að hin fyrirtækin ellefu á fskj. bjóði öll góða vöru en þau eru flest lítið þekkt og njóta þess ekki að hafa fest sig í þjóðarvitundinni eins og þau fyrirtæki er ég nefndi. Framleiðslan er breytileg, sum framleiðslan fyrir lokaðan markað en flest eru með framleiðslu sem þarf að selja á almennum markaði.
    Á 25. þingi Sjálfsbjargar, sem haldið var á sl. sumri, var m.a. samþykkt svohljóðandi ályktun:
    ,,Sjálfsbjörg verður að neyta allra bragða til þess að koma í veg fyrir að hér á landi skapist stétt atvinnuöryrkja. Uppbygging verndaðra vinnustaða er trúlega ein farsælasta leiðin til að forða því að slíkt ástand skapist. Þessir vinnustaðir eru jafnframt því að vera langtímavinnustaðir þjálfunar - og endurhæfingarstaðir til að gera fólk fært til að taka að sér störf úti á almennum vinnumarkaði. Saga Reykjalundar sýnir það að út frá vernduðum vinnustað geta komið öflug framleiðslufyrirtæki, jafnvel með framúrstefnu á framleiðslu eins og plaströrin frá Reykjalundi voru og eru jafnvel enn.``
    Í grg. með till. koma fram í stuttu máli rök okkar flm. fyrir nauðsyn þess að kynna framleiðsluvörur og starfsemi þessara þjóðþrifafyrirtækja og skyldur ríkisvaldsins til að standa fyrir slíkri kynningu.
    Ég bið félmn., sem ég legg til að fái þessa till. til umfjöllunar, að fjalla um hana sem fyrst til að tryggja það að hún fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.