Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins árétta það sem raunar kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., þ.e. skýringuna á því hvers vegna ég er ekki í hópi flm., sem eru fimm þm. Vesturl., og var þó með á þessari tillögu sem einn flm. þegar hún var flutt í fyrra. En skýringin er sú að nú starfar nefnd allra þingflokka að því verkefni að gera tillögur um jöfnun raforkukostnaðar í landinu og mér fannst einfaldlega ekki við hæfi að gerast flm. á tillögu þar sem skorað er á ríkisstjórnina að vinna markvisst að jöfnun orkukostnaðar þegar ég sjálfur starfa að þessu sama verkefni í nefnd. Má auðvitað hverjum finnast um það sem hann kýs, en ég taldi það ekki eðlilegt að skrifa samtímis upp á þessa tillögu og vera í forsæti fyrir nefnd sem er að sinna þessu verkefni. Og ég held að það sé raunar mjög eðlileg afstaða.
    Þessi nefnd sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka var skipuð 1. okt. sl. Hún hefur þegar haldið þrjá fundi og heldur væntanlega sinn fjórða fund í næstu viku. Á vegum hennar hefur verið unnin töluverð undirbúningsvinna. Það er rétt í þessu sambandi að það komi fram að þingflokkunum öllum var ritað bréf 12. júlí í sumar. Það var hins vegar ekki fyrr en undir mánaðamótin eða í byrjun október að tilnefningar höfðu borist frá öllum þingflokkum þannig að nefndin tók vonum seinna til starfa. Það hefði sannarlega verið æskilegt að hún hefði getað hafið störf á miðju sumri eða fljótlega eftir að þingflokkunum var skrifað.
    Ég ætla ekki hér, virðulegi forseti, að fara út í langar umræður um efni þessa máls. Eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl. þá er ekki ágreiningur um markmiðið að jafna orkuna. Hann vitnaði hér réttilega í yfirlýsingar stjórnmálaflokkanna. Mér þótti það raunar athyglisvert að hann vitnaði í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. frá 1953 og síðan í aðra samþykkt þeirra sjálfstæðismanna frá því í fyrra, eða 36 árum síðar. Auðvitað hefur ýmislegt gerst á þessum tíma, en það hefur samt ekki tekist að þoka þessu máli eins langt áleiðis og menn hefðu kosið. Hver er skýringin á því? Allir flokkar hafa um þetta ályktað og allir hafa lýst vilja sínum til að orkuverð í landinu verði jafnara. En hver er þá skýringin á því að þetta hefur ekki tekist?
Skýringin á því er fyrst og fremst sú að hér er alls ekki um einfalt mál að ræða. Hér kemur inn í bæði uppbygging raforkukerfisins, þau mörgu fyrirtæki sem þar koma við sögu, og alltaf endar þetta á þessari spurningu: Hver á að borga? Hvaðan á að taka það fé sem nota á til þess að jafna orkukostnaðinn? Ef þetta væri einfalt mál og ef þetta væri eins einfalt mál, virðulegur forseti, og sumir hv. þm. hafa látið í veðri vaka, þá væri auðvitað búið að þessu fyrir langa löngu. Undanfarin ár hafa allir stjórnmálaflokkar, að undanskildum Kvennalista, verið í ríkisstjórn ef við lítum dálítið langt aftur, en samt hafa menn ekki náð því markmiði sem allir segjast vilja stefna að.
    Hinu skulum við þó ekki gleyma að það hefur

miðað verulega í átt til orkuverðsjöfnunar og raunverð raforkunnar hefur farið lækkandi. Ef horft er á þessi mál í dag þá hefur munurinn, allt frá 1980, ekki verið minni en nú er. Í kringum 1981 -- 1982 var munurinn miklu, miklu meiri. Hann var svo mikill þá að ég hygg að miðað við óniðurgreidda olíu hafi hann verið allt að sexfaldur. Nú háttar þannig til varðandi heimilisrafmagn að munurinn er u.þ.b. 1,3-faldur en sé miðað við niðurgreidda raforku til húshitunar og taxta Hitaveitu Reykjavíkur þá er munurinn núna u.þ.b. 2,5-faldur. Ef miðað er við vegið meðaltal hjá hitaveitum er munurinn u.þ.b. tvöfaldur. Og ég segi aftur: þessi munur hefur ekki verið minni í annan tíma, en hann þarf að minnka enn verulega.
    Þegar ákveðin var niðurgreiðsla á raforku til húshitunar, árið 1985 að ég hygg, þá nam hún 63 aurum á kwst. Þessi upphæð hefur ekki verið verðbætt þannig að hún hefur verið óbreytt. Ef þessi niðurgreiðsluupphæð hefði tekið verðbreytingum með breyttu verðlagi í landinu og verðbólgu þá væri ástandið í þessum efnum miklu nær því að vera viðunandi en það er í dag.
    Verðmunurinn hefur sem sagt minnkað frá því sem var en betur má ef duga skal. Ef við lítum á það hvaða leiðir eru færar í þessum efnum þá eru þær kannski ekki svo margar. Það er í fyrsta lagi að auka niðurgreiðslur úr ríkissjóði og taka þetta beint af almennu skattfé. Í öðru lagi mætti auðvitað hugsa sér að Landsvirkjun tæki þátt í að jafna þennan kostnað, t.d. með því að dreifa afborgunum af sínum lánum á heldur fleiri ár.
    Nefndin hefur látið vinna margvíslega útreikninga um mögulegar leiðir í þessum efnum. Þær umræður í nefndinni eru ekki komnar á það stig að tímabært sé að greina frá þeim en það verður vonandi áður en langt um líður og kappkostað verður að þessi nefnd geti lokið störfum sem allra fyrst. En reynslan segir okkur það og sú staðreynd að þetta skuli ekki hafa tekist betur en raun ber vitni sýnir það auðvitað að hér er ekki um einfalt mál að ræða, annars hefði þetta auðvitað verið gert í tíð fyrrv. iðnrh., eins og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og hv. þm. Friðriks Sophussonar, sem báðir hafa gegnt þessum embættum og lýst vilja sínum til að gera þetta. Menn verða bara að játa að þetta er verkefni sem er flókið. Það eru tiltölulega fáir menn sem gjörþekkja orkukerfið og verðlagninguna. Því er þetta vandasamt verk og það er til margs að líta. En ég mun beita mér fyrir því og ég veit að það er vilji þeirra sem eiga sæti í þessari hv. nefnd að þetta starf nú geti skilað verulegum árangri. En það tekur nokkurn tíma vegna þess að málið er ekki einfalt eins og ég sagði áður.