Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu þáltill. sem vonandi flestir alþingismenn geta tekið undir, a.m.k. allir þeir sem hér hafa tekið til máls gera það. Ég er einnig í þeim hópi. Mér finnst þó að þessi till. gangi varla nógu langt, þ.e. hún fjallar aðeins um aðra hliðina, markmiðið, en ekki um hina hliðina, hvernig eigi að því að fara. Eða eins og hv. 3. þm. Vesturl. vakti athygli á er ekki fjallað um hver eigi að borga brúsann. Ég býst við að hingað til hafi þetta mál strandað á því.
    Ég hef átt þátt í því að flytja mál á síðustu þingum um þetta. Fyrst þáltill. og síðan frv. til laga í Ed. á síðasta þingi. Því frv. var vísað til ríkisstjórnarinnar með yfirlýsingu iðnrh. um að hann ætli að skipa nefnd í málið sem. Eins og hér hefur komið fram er hún nú þegar tekin til starfa og skilar vonandi af sér viðunandi niðurstöðu á næstu vikum. En í þeirri tillögu og frv. sem ég stóð að að flytja ásamt fleiri hv. þm. var reynt að taka á hinni hliðinni, þ.e. hvernig ætti að fjármagna þetta. Þar var bent á Landsvirkjun með þeim rökum að Landsvirkjun hefur fengið vatnsréttindin. Hún hefur einkaleyfi til allra stærri virkjana í þjóðfélaginu og hefur hingað til fengið vatnsréttindi á silfurfati, getum við sagt. Okkur var tjáð af fulltrúa Landsvirkjunar, sem situr þá nefndarfundi sem nú standa yfir, að á sínum tíma hefðu öll vatnsréttindi í Þjórsá verið metin á eina milljón dollara og afhent þannig eignaraðilum Landsvirkjunar sem aðeins er að hálfu í eigu ríkissjóðs. Og að meta öll vatnsréttindi í Þjórsá á 55 millj. kr. er vitanlega sama sem að gefa þau. Þegar fyrirtæki fær þannig þessi réttindi sem við landsmenn allir eigum jafnt þá er ekki nema eðlilegt að það taki þá skyldu að sér að sjá um jöfnun á orkuverðinu á móti.
    Eins og hér hefur verið rætt um er mismunur orkuverðs nú minni en oftast áður þótt okkur finnist enn þá of langt í land. Ef við aðeins tækjum þá niðurgreiðslu sem farið var að veita 1985 og hefur verið 63 aurar á kwst. til upphitunar og hún hefði haldið verðgildi sínu væri bilið ekki ýkja mikið í dag. Vandinn er ekki stærri en þetta þannig að manni sýnist að Landsvirkjun ætti ekki að vera ofvaxið að sjá um þetta mál.
    Ég hef orðað það þannig að það muni aldrei verða friður í þjóðfélaginu fyrr en þarna kemst á betri skipan. Ég held að okkur öllum sem höfum áhuga á því að þetta réttlætismál nái fram að ganga sé það auðvitað fagnaðarefni hvar sem áhugi kemur fram um að vinna að því eins og sá sem kemur fram í þessari þáltill. þó að þar sé Alþingi ekki ætlað að taka á vandanum þar sem því er bara beint til ríkisstjórnarinnar. Ég held, eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði, að Alþingi sem nú situr verði að gera það og ganga þannig lengra en þessi tillaga fjallar um.