Úrbætur á aðstæðum ungmenna
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla. Flm. auk mín eru Salome Þorkelsdóttir, Unnur Hauksdóttir, Skúli Alexandersson, Guðmundur Ágústsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Stefán Valgeirsson. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót samstarfshóp á vegum ráðuneyta þeirra sem fjalla um fræðslumál, uppeldismál, félagsmál, heilbrigðismál og lögreglumál til að gera tillögur um samræmdar aðgerðir sem miði að því að aðstoða þau ungmenni sem flosnað hafa upp úr skóla og eru nú vegalítil og sum á vergangi.
    Samstarfshópurinn fjalli einnig um sameiginlegar forvarnir gegn þessum vanda.``
    Greinargerð með tillögunni er svohljóðandi:
    ,,Kennarar, félagsráðgjafar og aðrir þeir, sem vinna að fræðslu - og æskulýðsmálum, hafa með ugg í brjósti horft upp á það á undangengnum árum að sívaxandi hópur nemenda dettur út úr skólakerfinu áður en skólaskyldu þeirra lýkur.
    Á öllum tímum hefur hluti nemenda horfið úr skóla áður en lög leyfðu. En sá hópur, sem það gerir nú, fer stækkandi og það er álit þeirra sem til þekkja að þær brautir, sem þeir lenda á, séu hálli en fyrr. Því veldur aukin vímuefnaneysla ungmenna og henni fylgir vergangur þegar verst fer.
    Þau ungmenni, sem lenda í vímuefnum og á vergangi, eru alls ekki öll úr höfuðborginni heldur munu ýmis þeirra vera af landsbyggðinni en hafa leitað að heiman eftir ,,frjálsræði`` og spennu, sbr. upplýsingar í viðtölum við starfsfólk Rauða kross hússins í dagblaðinu Tímanum 16. okt. sl.
    Samkvæmt skrám Hagstofunnar mun ekki vitað um afdrif 148 ungmenna sem hurfu úr skóla á Íslandi árið 1985 án þess að hafa lokið grunnskólanámi. Árið 1986 munu 173 nemendur hafa horfið á sama hátt úr skýrslum Hagstofunnar, 1987 var samsvarandi tala 235 og árið 1988 hurfu 172 nemendur úr skólaskýrslum án þess að vitað væri hvar þeir höfnuðu.
    Ýmis þessara ungmenna munu hafa flutt úr landi með foreldrum sínum. En á undanförnum árum hafa mjög margar fjölskyldur flutt til útlanda í atvinnuleit. En það, að 235 nemendur gufi upp úr skýrslum á einu ári í þessu fámenna landi, hlýtur að vekja spurningar um það hvort íslensk uppeldis - og skólamál séu ekki á villigötum.
    Því verður þó ekki haldið fram með réttu að ekkert hafi verið gert til að bæta úr ástandinu. Um það vitnar t.d. starfsemi Unglingaheimilis ríkisins, starfsemi neyðarathvarfs í Réttarholtsskóla þar sem 7 ungmenni áttu athvarf 1989, starfsemi Rauða kross hússins við Tjarnargötu í Reykjavík er veitir bæði húsaskjól og ráðgjöf, sem og starfsdeild í Breiðholtsskóla sem unnið hefur mikið og gott verk við að halda nemendum að skóla og frá lausagangi. Þessi síðastnefnda deild getur tekið við 10 -- 11 nemendum á ári. Loks ber að nefna það að á vegum landlæknisembættisins og fleiri aðila er verið að kanna feril þeirra ungmenna sem hverfa úr skólakerfinu.
    Á hinn bóginn er ljóst að stórátak þarf að gera til þess að veita þessum ungmennum og foreldrum þeirra aðstoð. Enn fremur þarf að byrja forvarnastarf mjög snemma á leið barnanna, áður en í óefni er komið.
    Hér þurfa allir að leggja hönd á plóg, en sérstök ábyrgð hlýtur að hvíla á þeim ráðuneytum sem nefnd eru í þátill. og nauðsyn að þau vinni saman að þessu verkefni til þess að fjármunir og kraftar nýtist sem best.``
Í þáltill. segir að ýmis ungmenni sem flosnað hafa upp úr skóla séu vegalítil og sum á vergangi. Ekki er vitað með vissu hve margir unglingar það eru sem hér um ræðir en tölurnar 30 -- 40 hafa verið nefndar. Þau munu öll vera háð vímuefnum.
    Nýlega birtu fjölmiðlar frétt um könnun sem hafði leitt það í ljós að drykkjuskapur ungmenna hefði aukist um 40% eftir að sterkur bjór var lögleiddur hér á landi. Einnig hefur komið fram að ungmenni sem ánetjast vímuefnum nú á tímum hefja neyslu 10 -- 14 ára gömul. Við eigum því von á auknum vanda nú alveg á næstunni því að eftir bjór kemur sterkara áfengi og síðan eiturlyf og einhvers staðar á þessari leið kemur brotthvarf úr skóla. Þegar lengra er komið er horfið að heiman og brautin er bein út á vergang og afbrot. Gegn þessu þarf sterkt, sameiginlegt átak. En löngu, löngu áður en út í þessi óefni er komið sjást merki þess sem dunið gæti yfir barnið. Gangi því illa í skóla, námslega eða félagslega, svo að ekki sé talað um ef hvort tveggja á sér stað, þá er hætta á að barnið verði tapari sem í öryggisleysi leitar út í ógöngurnar. Því eru forvarnir óendanlega mikilvægar fyrir æsku þessa lands.
    Ég vona að þessi þáltill. fái greiðan gang í gegnum þingið og fer þess á leit, hæstv. forseti, að henni verði að lokinni umræðu vísað til síðari umr. og hv. félmn.