Úrbætur á aðstæðum ungmenna
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem gáfu sér tíma og gerðu sér það ómak að taka þátt í þessari umræðu. Það er rétt sem þeir hafa sagt að málið er brýnt og svo nauðsynlegt að allir geri sér grein fyrir því að það þyrfti miklu lengri tíma til að ræða það. Vissulega verður það rætt betur í nefnd og í síðari umræðu og vonandi gefst meiri tími til þess að ræða þessi mál á þingi því það eru margar hliðar á þeim og margt sem þyrfti að taka til meðferðar hér í þessum sal.
    Það er auðvitað hárrétt hjá hv. 2. þm. Vestf. að talan 235 er misvísandi af því að nemendur fara í ýmsar áttir og skila sér sumir aftur. En mér er kunnugt um það, og þekki það mjög vel úr fullorðinsfræðslunni, að sumir koma aftur og reyna upp á nýtt og detta út aftur vegna þess að þeim var ekki gefið það tækifæri í grunnskólanum sem þeir þurftu til þess að geta komið inn. Þar á ég fyrst og fremst bara við að nemendum hafa ekki verið kennd nógu vel undirstöðuatriði eins og lestur og stærðfræði.
    Það mætti meira um þetta segja, en ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra nú en þakka kærlega fyrir góðar undirtektir.