Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu
Þriðjudaginn 13. nóvember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um hlut Íslands í stofnfé Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu. Hæstv. iðnaðar- og viðskrh. hefur lýst hér nákvæmlega og í skýru máli aðdraganda að stofnun þessa banka og þeim samningi sem fyrir liggur á milli þjóða og hvernig bankinn hyggst starfa. Reyndar kemur það mjög ítarlega fram á þskj. 151 með till. til þál. sem er 145. mál þingsins en það er till. til þál. um samning um stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu eins og hæstv. ráðherra vék að í sínu máli.
    Við 1. umr. þessa máls er ekki ástæða til þess að hafa langa umræðu um málið. Frv. fer, eins og hæstv. ráðherra gat um og gerði tillögu um, til hv. fjh. - og viðskn. Þar verður það skoðað og ég er viss um að mikil samstaða ríkir um þetta mál og það verður fljótafgreitt af hv. nefnd.
    Ég vil einungis láta það koma fram að það er full ástæða til þess að fagna því að Ísland skuli geta gerst aðili að þessu samstarfi sem er ákaflega mikilvægt og merkilegt. Það hlýtur að vera skylda okkar nú á þessum tímum að taka þátt í því ásamt öðrum þjóðum að breyta hagskipulagi þeirra þjóða sem áður voru fyrir austan svokallað járntjald sem dregið hefur verið frá á undanförnum missirum. Það hlýtur að vera skylda okkar að hjálpa þessum þjóðum og taka þátt í að breyta hagskipulaginu með því að stuðla að því að þær geti tekið upp svokallaðar ,,vestrænar leikaðferðir`` í efnahagsmálum sem stundum hefur borið á góma. Það er ekki út í bláinn að kalla þetta ,,vestrænar leikaðferðir`` í efnahagsmálum, ég geri það að yfirlögðu ráði vegna þess að þetta orðalag var notað á sínum tíma, við upphaf stjórnartímabils hæstv. ríkisstjórnar sem nú starfar, þegar hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni að slíkar leikaðferðir gætu ekki gilt hér á landi.
    Ég held að með því að taka þátt í því ásamt öðrum þjóðum að breyta hagskipulagi Austur - Evrópu- og Mið - Evrópuþjóða getum við sýnt að aðrir geta af okkur lært og að það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra þessara þjóða að stuðla að því að markaðsskipulagi verði komið á og frjálsræði aukið. Eða með öðrum orðum að vestrænum leikaðferðum verði beitt í efnahags - og atvinnumálum. Með því ætti okkur að takast að tryggja frið og frelsi og framfarir í Evrópu framtíðarinnar.
    Það er ástæðulaust að fara frekari orðum um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Auk þess gefst tækifæri síðar til þess að ræða þáltill. þegar hún kemur til umræðu. Þó hygg ég að ástæða sé til þess á þessari stundu að spyrjast fyrir um það hvernig á því standi, án þess að verið sé að gera athugasemdir við það í sjálfu sér, að Íslendingar hafi gert samkomulag við Svía um að standa að kjöri stjórnarmanns. Hvers vegna samkomulagið var þá ekki víðtækara og náði til annarra þjóða sem Íslendingar hafa mikið samstarf við? Á ég þá kannski ekki síður við Norðmenn og jafnvel aðrar þjóðir í EFTA-samstarfinu. Að öðru leyti, virðulegi forseti, fagna ég því að þetta frv. er

lagt hér fram á Alþingi og hygg að það eigi greiða leið í gegnum þingið.