Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu
Þriðjudaginn 13. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir stuðning við málið sem hér er flutt. Hann beindi til mín þeirri spurningu hvernig á því stæði að Íslendingar hefðu gert samkomulag við Svía
um að standa saman að kjöri stjórnarmanns í bankastjórn Evrópubankans nýja en ekki átt aðild að víðtækara samkomulagi, t.d. við Norðmenn eða aðrar Norðurlandaþjóðir eða aðrar EFTA - þjóðir. Svarið er að þegar kom að því að skipta hlutafénu og áhrifum í bankanum milli aðildarþjóðanna kom í ljós að Norðurlöndin gátu fengið tvo stjórnarmenn, þau sem standa utan Evrópubandalagsins, auk þess sem Danir eiga þarna aðild í gegnum Evrópubandalagið. Með því að skipta hópnum í tvennt: Norðmenn og Finnar saman, Íslendingar og Svíar saman, geta þau best nýtt sitt atkvæðamagn. Þetta felur líka í sér að Íslendingar munu jafnan eiga fulltrúa í framkvæmdastjórn bankans sem ég tel mikilsvert fyrir okkur, bæði vegna þess að þar með gefst okkur tækifæri til að taka þátt í starfsemi þessa banka sem í sjálfri sér er ágæt en líka þannig að við getum þarna átt farveg fyrir okkar eigin útflutningsstarfsemi, okkar eigin iðnað til beinna samstarfsverkefna við þjóðir Austur - Evrópu og þátttöku við aðra í yfirfærslu tækni, þekkingar og ráðgjafar.
    Þetta eru ástæðurnar. Þær eru ákaflega einfaldar. Þetta er einfaldlega besta hagsmunagæsla sem Ísland gat haft í frammi við þessar aðstæður. Hefðum við ekki gert þetta svona, hefðum við átt sjaldnar og rýrari aðild að stjórn bankans.