Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu
Þriðjudaginn 13. nóvember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi skýru svör við fyrirspurn minni. Þau liggja nokkuð í augum uppi þegar frá þeim er sagt hér.
    Ég minntist á það í minni ræðu, kannski meira í gamni en alvöru, að það væri full ástæða fyrir okkur til þess að taka þátt í því, í sambandi við aðrar þjóðir sem ekki hafa unnið í efnahags - og atvinnumálum á grundvelli vestrænna leikaðferða, að breyta þeirra hagskipulagi. En kannski mætti segja frá því í leiðinni að einnig væri ástæða til þess fyrir Íslendinga að kynna sér nákvæmlega hvernig þessi breyting kemur til með að eiga sér stað í Austur - og Mið - Evrópuríkjunum sem áður voru undir kommúnískri stjórn. Og nú segi ég í fullri alvöru að það gæti farið svo að Íslendingar gætu lært af því hvernig þessar þjóðir breyta sínu hagskipulagi úr því horfi sem er nú, frá miðstýringu og yfir til aukins frjálsræðis, markaðsbúskapar, aukinna samskipta og viðskipta við önnur ríki. Þetta segi ég vegna þess að það hefur örlað á því, og meira en örlað á því, það hefur beinlínis komið fram sem mjög sterkur þáttur í stefnu sumra stjórnmálaflokka hér á landi, meira að segja sumra þeirra sem hafa farið með völd í þessu landi, að vestrænar leikaðferðir, aukið frjálsræði, markaðsskipulag og markaðsbúskapur eigi ekki við hér á landi. Fyrir vikið hefur því verið haldið fram að Íslendingar séu nokkuð aftarlega á merinni þegar rætt er um þessa hluti.
    Ég veit að ég og hæstv. ráðherra erum á sama máli. Við teljum að aukið frjálsræði, minni miðstýring --- öllu heldur fráhvarf frá miðstýringunni --- meiri markaðsbúskapur, aukin viðskipti milli þjóða hljóti að leiða til bættra og betri lífskjara hér á landi eins og annars staðar því þá getum við notið sérhæfingarinnar. Og ég tel að það sé full ástæða til þess fyrir okkur, einmitt vegna þess hve sterk ítök hér á landi slíkar stefnur eiga sem hafa frekar viljað halda í okkar einangrun og miðstýringu, að skoða það hvernig svona þróun á sér stað með það fyrir augum að nýta okkur þá möguleika sem felast í auknu frjálsræði.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að varpa neinni fyrirspurn til hæstv. ráðherra um þetta efni. En komi hann hér upp og taki undir þessi sjónarmið má segja að við séum á sama báti hvað varðar þessi efni og eigum þá sameiginlegar hugsjónir hvað þetta varðar. Og ég vil bæta við að það kæmi jafnvel til greina, þetta er kannski ábending til hæstv. ráðherra sem er valdamikill maður í landinu um þessar mundir, að kanna hvort Íslendingar ættu ekki jafnvel að skoða það mjög rækilega hvernig lögum hefur verið breytt í Austur - Evrópu til þess að koma á markaðsskipulagi og meira frjálsræði í atvinnu - og efnahagslífinu með það fyrir augum að Íslendingar gætu lært af því hvernig þeir fóru að.